Hvatt til virkrar þátttöku vísindasamfélagsins og íbúa á norðurslóðum
„Það eru miklir hagsmunir fólgnir í því fyrir Ísland og íslenska vísindamenn að taka þátt í alþjóðlegu vísindasamstarfi tengdu norðurslóðum,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra sem ávarpaði fundinn. „Íslenskir vísindamenn og stofnanir búa yfir dýrmætri reynslu og þekkingu á fjölmörgum sviðum slíkra rannsókna, má þar sem dæmi nefna rannsóknir á samfélagslegum áhrifum loftslagsbreytinga, jöklum og breytingum á vistkerfi sjávar. Mikilvægi samtals milli vísindasamfélagsins og stjórnvalda eykst stöðugt og það er brýn þörf á auknu alþjóðlegu vísindasamstarfi á norðurslóðum. Ráðherrafundirnir eru kærkominn vettvangur fyrir okkur til að miðla þekkingu, ræða aðgerðir og ekki síst forgangsraða verkefnum.“
Ráðherrafundurinn fer fram dagana 21.-22. nóvember í Tókýó. Fyrsti ráðherrafundur um vísindi norðurslóða var haldinn að frumkvæði Bandaríkjanna árið 2016 í Washington. Annar fundur fór fram í Berlín árið 2018 en hann var skipulagður í samstarfi Þýskalands, Finnlands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Fundurinn í Japan verður því þriðji fundur vísindamálaráðherranna um málefni norðurslóða, ASM3 (e. Arctic Science Ministerial 2020).
Nánar má fræðast um verkefnið á vefnum asm3.org.