Mál nr. 12/2005: Dómur frá 29. desember 2005
Ár 2005, fimmtudaginn 29. desember, var í Félagsdómi í málinu nr. 12/2005:
Skurðlæknafélag Íslands
(Ástráður Haraldsson hrl.)
gegn
íslenska ríkinu og til réttargæslu
Læknafélagi Íslands
(Skarphéðinn Þórisson hrl.)
kveðinn upp svofelldur
D Ó M U R :
Mál þetta var dómtekið að loknum munnlegum málflutningi 6. desember sl.
Málið dæma Eggert Óskarsson, Gylfi Knudsen, Kristjana Jónsdóttir, Kristján Torfason og Ásdís J. Rafnar.
Stefnandi er Skurðlæknafélag Íslands, kt. 621293-3389.
Stefndi er íslenska ríkið, kt. 550169-2829, Arnarhváli, Reykjavík, og til réttargæslu, Læknafélag Íslands kt. 450269-2639, Hlíðasmára 8, Kópavogi.
Dómkröfur stefnanda
Að viðurkennt verði að stefnandi, Skurðlæknafélag Íslands, fari með samningsumboð fyrir félagsmenn sína við gerð kjarasamninga við stefnda, íslenska ríkið, vegna starfa þeirra sem skurðlækna í starfi hjá stefnda.
Stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar að skaðlausu.
Dómkröfur stefnda
Stefndi krefst sýknu af dómkröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati réttarins.
Engar kröfur eru uppi hafðar á hendur réttargæsluaðila í máli þessu og engar kröfur eru settar fram í málinu af hálfu þess aðila.
Málsatvik
Stefnandi kveður málsatvik vera þau að Læknafélag Íslands hafi farið með kjarasamningsumboð fyrir félagsmenn stefnanda gagnvart stefnda um árabil. Stefnandi er enda eitt aðildarfélaga Læknafélags Íslands. Meðal félagsmanna stefnanda hafi lengi verið óánægja með þetta fyrirkomulag. Meðal annars hafa þeir talið sérmálefni skurðlækna ekki hljóta nægjanlega umfjöllun og úrlausn á þessum sameiginlega vettvangi. Með breytingum á lögum Læknafélags Íslands sem gerðar voru haustið 2002 var heimilað að einstök aðildarfélög gætu sjálf farið með samningsumboð fyrir sig og félagsmenn sína ef þau svo kysu.
Í kjölfar þessa var leitað eftir afstöðu félagsmanna stefnanda til þess hvort fela ætti félaginu umboð til að koma fram fyrir hönd félagsmanna sinna í samningaviðræðum við stefnda. Fór svo að yfirgnæfandi meirihluti félagsmanna rituðu hver um sig undir sérstaka yfirlýsingu, umboð, þar sem félaginu var falið þetta hlutverk.
Þannig munu 82 af þeim 88 læknum sem starfa hjá ríkinu og sem hafa leyfi til að stunda skurðlækningar samkvæmt sérgreinalista landlæknisembættisins hafa skrifað undir inntökubeiðni með umboði. Við skurðlæknasvið Landspítala starfi 62 læknar en 60 af þeim hafi undirritað slíka inntökubeiðni.
Í ljósi þessa var stefnda ritað bréf þann 21. desember 2004 þar sem ofanritað var tilkynnt og komið á framfæri ósk félagsins um gerð kjarasamnings við stefnda vegna þeirra félagsmanna sem starfa hjá stefnda og vísað til 5. og 6. gr. laga nr. 94/1986.
Stefndi svaraði erindinu þann 6. janúar 2005 og hafnaði því með vísan til ákvæða læknalaga og fyrirmæla laga nr. 94/1986, einkum 3. töluliðar 5. gr. laganna.
Með bréfi stefnanda til stefnda 28. september 2005 var því lýst yfir að stefnandi myndi fara með samningsumboð fyrir hönd félagsmanna sinna við gerð kjarasamninga eftir að núgildandi kjarasamningur rynni út um áramótin 2005/2006. Með bréfi stefnda 6. október 2005 var áréttuð fyrri afstaða fjármálaráðuneytisins og tekið fram að litið væri svo á að Læknafélag Íslands fari hér eftir sem hingað til með samningsumboð vegna umræddra lækna.
Í ljósi þessarar afstöðu hefur stefnandi talið nauðsynlegt að stefna máli þessu fyrir Félagsdóm til að fá viðurkenndan rétt sinn til að koma fram fyrir hönd félagsmanna sinna gagnvart stefnda við gerð kjarasamnings.
Málsátæður stefnanda og lagarök
Á því er byggt af hálfu stefnanda að hann falli ótvírætt að skilgreiningu 3. tölul. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna til þess að fara með samningsaðild félagsmanna sinna. Synjun stefnda á því að viðurkenna samningsaðild stefnanda brjóti að mati stefnanda gegn því lagaákvæði.
Að mati stefnanda sé ótvírætt að Skurðlæknafélagið sé stéttarfélag í skilningi laganna nr. 94/1986. Samkvæmt lögum félagsins sé tilgangur þess m.a. að gæta hagsmuna félagsmanna með því að koma fram fyrir þeirra hönd við gerð kjarasamninga við íslenska ríkið og aðra atvinnurekendur.
Í lögum félagsins sé áskilið að til að geta orðið félagsmaður verði umsækjandi að hafa hlotið sérfræðiviðurkenningu í skurðlækningum. Þá skuli í inntökubeiðni koma fram að viðkomandi félagsmaður skuldbindi sig til að hlíta lögum og samþykktum félagsins í hvívetna og að hann feli félaginu umboð til kjarasamningsgerðar fyrir sína hönd og að aðrir skuli ekki fara með slíkt umboð meðan viðkomandi á aðild að félaginu.
Þá sé ótvírætt og liggi fyrir að Læknafélag Íslands geri ekki athugasemdir við það fyrirkomulag að stefnandi fari með samningsumboð f.h. félagsmanna sinna og hafi í raun afsalað sér samningsrétti f.h. skurðlækna, sbr. bréf Læknafélagsins til stefnanda 2. maí 2005.
Félagsmenn stefnanda hafi tekið um það ákvörðun, sbr. bréf til fjármálaráðuneytis 28. september 2005, að fela félagi sínu að annast um kjarasamningagerð fyrir sig í stað Læknafélags Íslands. Til þess hafi þeir fulla heimild og þann vilja verði stefndi að virða enda öll skilyrði til að fallast á ráðagerð stefnanda í þessum efnum sem taki mið af því að semja við stefnda þegar kjarasamningur félagsmanna stefnanda séu næst lausir er sé um áramótin 2005/2006. Fullnægi stefnandi þannig skilyrði 4. mgr. 6. gr. laga nr. 94/1986 til þess að fara með samningsumboð fyrir félagsmenn sína og til þess að geta gripið til réttra og viðeigandi ráðstafana til að gæta hagsmuna þeirra, sbr. t.d. 11. gr. sömu laga.
Í 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, lög nr. 33/1944, er kveðið á um að engan megi skylda til aðildar að félagi en með afmörkuðum undanþágum þó. Aðild að félagi feli hins vegar í sér rétt til að krefjast þess að félaginu sé heimilt að gæta þeirra hagsmuna sem félagsmenn hafa sammælst um að fela því eða felst í eðli þess. Þar með talið að félagið sjái um gerð kjarasamninga einstakra félagsmanna. Um það hafi ítrekað verið dæmt, m.a. á vettvangi Félagsdóms, að þessi stjórnarskrárvörðu mannréttindi verði að hafa í huga þegar reglur laga nr. 94/1986 séu túlkaðar. Stefnda sé ekki unnt að hafna aðild skurðlæknanna að félagi sínu enda sé slíkt útilokað samkvæmt skýrum ákvæðum 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar. Eins og að framan sé rakið sé stefnandi stéttarfélag samkvæmt 2. gr. félagslaga þess og nægjanlegur fjöldi félagsmanna þess hafi samþykkt að fela félaginu gerð kjarasamnings fyrir sína hönd. Undan þeirri ráðagerð geti stefndi ekki vikist með vísan til laga 94/1986. Önnur túlkun á lögunum fæli í sér að lög nr. 94/1986 væru andstæð ákvæði 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar, um félagafrelsi, enda veiti þau tilteknum stéttarfélögum aukið vægi framar öðrum.
Stefnandi sé félag manna sem lokið hafi tiltekinni formlegri menntun. Sú staðreynd feli í sér að skurðlæknar uppfylli kröfur laga nr. 94/1986 um að tilheyra í starfsstétt með lögformleg starfsréttindi á tilteknu sérsviði sem hafi sérstöðu innan læknisfræðinnar sem skapar skurðlæknum þá stöðu að félag þeirra sé langbest til þess fallið að gæta hagsmuna félagsmanna sinna umfram almennt félag lækna.
Stefnandi telur að í 74. gr. stjórnarskrárinnar felist regla sem tryggi öllum borgurum frelsi til aðildar að félagasamtökum sem stofnuð séu í löglegum tilgangi. Það að stéttarfélög séu þar sérstaklega nefnd til sögunnar ásamt stjórnmálafélögum sýni hversu mikilvæg starfsemi stéttarfélaganna og frelsi þeirra til athafna sé í huga stjórnarskrárgjafans. Mikilvægasta hlutverk stéttarfélaganna sé það að standa að gerð kjarasamninga. Stefnandi líti svo á að ekki geti leikið vafi á því að frelsi félaganna til að standa að gerð kjarasamninga sé varið af 74. gr. stjórnarskrárinnar. Stéttarfélögum opinberra starfsmanna sé með lögum nr. 94/1986 markaður rammi um starfsemi sína. Þar sé rakið hvert sé hlutverk félaganna og settar reglur um mikilvægustu þættina í starfsemi þeirra. Lögin nr. 94/1986 séu sérlög andspænis almennu vinnulöggjöfinni. Í lögunum sé að finna tæmandi talningu þeirra skilyrða sem félögin þurfi að fullnægja til að mega starfa. Þar sé fjallað um öll skilyrði þess að félögin geti beitt heimildum sínum að lögum. Það að gildandi sé sérstök löggjöf um starfsemi stéttarfélaga, ólíkt því sem gerist um starfsemi annarra frjálsra félaga, sýni vel þjóðfélagslegt mikilvægi stéttarfélaganna. Þessi staða mála leggi stéttarfélögunum skyldur á herðar en veiti þeim einnig skjól og vernd gegn íhlutun og afskiptum stjórnvalda. Það séreðli stéttarfélaga sem birtist m.a. í þessu reglukerfi leiði til þess að stjórnvöld og löggjafinn hafi afar takmarkaðar heimildir til afskipta af starfsemi stéttarfélaga. Þá setji þessi skipan mála miklar takmarkanir við heimildum stefnda til að túlka lög þannig að þau þrengi að frelsi stéttarfélaga. Stefnandi telur að með þeirri túlkun laganna nr. 94/1986 sem stefndi leggi til grundvallar þeirri afstöðu að synja samningsaðild stefnanda fari íslenska ríkið út fyrir heimildir sínar til að takmarka frjálsa aðild að stéttarfélögum og frelsi þeirra til athafna.
Heimilar undantekningar frá félagafrelsi 74. gr. stjórnarskrár og 11. gr. MSE geti ekki átt við um skurðlækna. Til þess standi engin rök. Það að Læknafélag Íslands hafi til þessa farið með kjarasamningsumboð fyrir hönd skurðlækna feli á engan hátt í sér að stefnandi geti ekki tekið við því hlutverki þegar félagsmenn stefnanda ákveði að fela félaginu þetta hlutverk. Að fullnægðum skilgreiningum laga nr. 94/1986 um stéttarfélög og að uppfylltum skilyrðum laganna, s.s. um fjölda félagsmanna, sbr. 3. tölul. 5. gr., standi engin rök til annars en að fallast á kröfu stefnanda.
Stefnandi vísar til 1. töluliðar 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna sem heimild til að höfða mál þetta fyrir Félagsdómi.
Stefnandi byggir kröfur sínar á 74. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, auk 10. og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, 8. gr. alþjóðasamnings um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, sbr. lög nr. 10/1979 og 22. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sbr. lög nr. 10/1979. Þá er byggt á lögum nr. 94/1986 um
kjarasamninga opinberra starfsmanna og lögum nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Þá er vísað til samþykkta ILO, Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, nr. 87 og 98 og til 6. gr. félagsmálasáttmála Evrópu en íslenska ríkið hafi undirgengist skyldur samkvæmt þessum samþykktum öllum. Um málskostnað vísast til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um álag er nemi virðisaukaskatti styðst við lög nr. 50/1988. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur aðili og beri því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefndu.
Málsástæður stefnda og lagarök
Stefndi byggir á því að ekki séu skilyrði til þess að fallast á málatilbúnað stefnanda. Komi þar einkum tvennt til. Annars vegar sé ekki uppfyllt það skilyrði 3. tölul. 5. gr. laga nr. 94/1986 að um sé að ræða félag sem taki til „... starfsmanna sem eru í starfsstétt með lögformleg starfsréttindi eða uppfylla skilyrði um formlega menntun sem jafna má til slíkra starfsréttinda ...“ og hins vegar, jafnvel þótt skilyrði ákvæðisins teldust uppfyllt, þá falli þau störf sem hér um ræðir undir samningssvið Læknafélags Íslands, sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna. Af þessu leiði ennfremur að stefnda, fjármálaráðherra, verði ekki gert skylt að gera kjarasamning við stefnanda, Skurðlæknafélag Íslands, eins og hér verði nánar rakið.
Að baki löggjafar um laun og kjarasamninga opinberra starfsmanna búi ákveðin sjónarmið.
Opinberir starfsmenn, þ. á m. starfsmenn ríkisins, hafi búið við sérstakt lögbundið launa- og kjarasamningskerfi í hartnær heila öld. Fram að setningu laga nr. 55/1962, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, byggðust laun og aðrar launaákvarðanir opinberra starfsmanna á sérstökum launalögum. Löggjöf um kjarasamninga opinberra starfsmanna hafi frá upphafi geymt sérstakar reglur, svo sem um rétt til aðildar að stéttarfélagi, fyrirsvar, samningsrétt og síðar verkfallsrétt, sem sætt hafi mismiklum takmörkunum. Ein meginástæðan fyrir þessari skipan sé þörf fyrir stöðugleika og jafnræði vegna þeirra samfélagslegu verkefna sem opinberum aðilum sé gert að halda uppi lögum samkvæmt.
Við setningu fyrstu laganna um kjarasamninga opinberra starfsmanna, laga nr. 55/1962, fór BSRB með samningsaðild fyrir alla opinbera starfsmenn, þ. á m. vegna lækna, sbr. t.d. dóm Félagsdóms í V. bindi, bls. 82. Með lögum nr. 46/1973, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, hafi verið gengið út frá því að heildarsamtök starfsmanna ríkisins færu með fyrirsvar ríkisstarfsmanna við gerð aðalkjarasamninga og aðrar ákvarðanir í því sambandi, að fenginni viðurkenningu fjármálaráðherra. Í 4. mgr. 3. gr. laganna hafi verið kveðið á um sérstaka heimild fjármálaráðherra til þess „... að veita Læknafélagi Íslands, að beiðni hlutaðeigandi heildarsamtaka, rétt til að fara með kjarasamninga fyrir þá félagsmenn sína, sem ráðnir eru með skemmri uppsagnarfresti en þriggja mánaða.“ Hafi heimildin bæði tekið til aðalkjarasamninga og sérkjarasamninga. Í skýringu við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 46/1973, segi m.a. að ákvæðið sé að meginefni í samræmi við óskir BHM, „sem BSRB mun geta sætt sig við“. Tekið var fram að meginhluti lækna í opinberri þjónustu á þeim tíma hefði ekki nema tveggja mánaða uppsagnarfrest og að Læknafélag Íslands hefði samið fyrir þeirra hönd (Alþt. 1972-73, A-deild, bls. 1383). Samkvæmt þessu fól sú skipan, að heimila Læknafélagi Íslands samningsumboð vegna lækna, í sér frávik frá því að heildarsamtök opinberra starfsmanna færu með samningsumboðið. Lög nr. 46/1973 voru síðar endurútgefin sem lög nr. 62/1985.
Gildandi lög nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, byggi á því að samningsaðild stéttarfélaga sé almennt hjá einstökum stéttarfélögum, sbr. 1. mgr. 4. gr. laganna. Læknafélag Íslands hafi verið í fyrirsvari fyrir lækna og gert kjarasamninga vegna starfa þeirra hjá opinberum aðilum. Ekki sé ástæða til þess að rekja hér nánar hvernig launa- og kjaramálum lækna hafi verið háttað í gegnum tíðina. Stefndi hafi litið svo á að fram til þessa hafi Læknafélag Íslands talist sérgreinafélag þar sem þeir sem aðild eiga að félaginu verði að uppfylla skilyrði um lögformleg starfsréttindi, sbr. 3. tölul. 5. gr. laga nr. 94/1986. Þær breytingar sem gerðar hafi verið á lögum Læknafélagsins breyti þessu ekki.
Lög nr. 94/1986 geri ráð fyrir því að stéttarfélög eins og Læknafélagið, sem höfðu gert kjarasamninga við ríkið við gildistöku laganna, héldu þeim rétti og að sett yrðu tiltekin skilyrði fyrir samningsaðild nýrra stéttarfélaga, sbr. 5. gr. laganna. Til stuðnings viðurkenningarkröfu sinni vísi stefnandi til þess að það sé nýtt félag sem falli undir 3. tölul. ákvæðisins. Ákvæðið er svohljóðandi:
„Önnur stéttarfélög eða félagasamtök en um ræðir í 4. gr. öðlast rétt til að vera samningsaðili samkvæmt lögum þessum sé a.m.k. eitt eftirtalinna skilyrða uppfyllt, sbr. þó 1. mgr. 6. gr.:
...
3. Að félag taki til a.m.k. 2/3 hluta starfsmanna sem undir lögin heyra og eru í starfsstétt með lögformleg starfsréttindi eða uppfylla skilyrði um formlega menntun sem jafna má til slíkra starfsréttinda og að þeir félagsmenn séu 40 eða fleiri.“
Í skýringum við ákvæðið segir svo í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 94/1986:
„Grein þessi tekur til þeirra starfsstétta sem hafa starfsréttindi sem bundin eru í lögum eða reglugerðum svo og fagstétta sem þurfa hliðstæða sérhæfingu og sérþjálfun til þeirra starfa sem þær annast. Er hér annars vegar um að ræða starfsstéttir, svo sem kennara, hjúkrunarfræðinga, fóstrur, sjúkraliða, verkfræðinga, arkitekta, tæknifræðinga, sjúkraþjálfara o.s.frv., þar sem sérstök ákvæði í lögum eða reglugerð kveða á um starfsréttindi og rétt til notkunar á starfsheitum. Hins vegar er um að ræða fagfélög starfsmanna sem lokið hafa hliðstæðu námi og sérhæfingu og framangreindar stéttir. Er þar fyrst og fremst um að ræða háskólamenntaða starfsmenn.“
Af ákvæðinu sé nokkuð ljóst að það byggi annars vegar á því að þeir sem falla undir hlutaðeigandi starfsstétt, hafi hlotið opinbert leyfi eða viðurkenningu til þess að mega starfa á ákveðnu sviði og kalla sig því heiti sem viðurkenningin lýtur að. Dæmi um slíkt séu grunnskólakennarar og framhaldsskólakennarar og þeir sem hlotið hafi löggildingu á grundvelli laga nr. 24/1985, um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta. Hins vegar geti verið um að ræða fagstétt þar sem grundvöllur hennar sé sérstök menntun eða sérhæfing, án þess að sérstaka löggildingu eða viðurkenningu þurfi þar til. Dæmi um slíkt væru t.d. þeir sem lokið hafa námi í viðskiptafræði eða lögfræði.
Af hálfu stefnda hafi verið litið svo á að Læknafélag Íslands teljist stéttarfélag þeirra sem eru í starfsstétt með lögformleg starfsréttindi, sbr. 3. tölul. 5. gr. Af orðalagi 5. gr., 1. mgr. 6. gr. og ennfremur 7. gr. laga nr. 94/1986 leiði að jafnvel þó svo að nýtt stéttarfélag kunni að uppfylla skilyrði 3. tölul. 5. gr., geti ekki nema eitt félag öðlast rétt til samningsgerðar við sama vinnuveitanda fyrir sömu starfsstétt. Það sé skoðun stefnda að áfrýjandi uppfylli ekki skilyrði 3. tölul. 5. gr. til þess að geta talist stéttarfélag með lögformleg starfsréttindi.
I. kafli læknalaga nr. 53/1988 fjalli um lækningaleyfi og sérfræðileyfi. Af 1.-3. gr. laganna leiði að rétt til þess að geta starfað sem læknir eða til þess að kalla sig lækni hafi sá sem fengið hafi leyfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra að loknu námi frá læknadeild Háskóla Íslands eða þeir sem lokið hafi sambærilegu prófi í landi utan hins Evrópska efnahagssvæðis, eins og nánar sé lýst í 2. og 3. gr. laganna. Einnig geti sá fengið lækningaleyfi, sem fengið hafi staðfestingu heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra á lækningaleyfi í landi, sem sé aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eða stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 1. gr. laganna. Í 5. gr. læknalaga sé fjallað um skilyrði þess að læknir megi kalla sig sérfræðing og starfa sem slíkur hér á landi og í 6. gr. laganna segi ennfremur að sá einn eigi rétt á því að kalla sig lækni og stunda lækningar sem uppfylli skilyrði 1. gr. laganna.
Ljóst sé af framangreindum ákvæðum læknalaga að skilyrði þess að geta starfað sem sérfræðingur hér á landi sé að viðkomandi hafi almennt lækningaleyfi, sbr. 1. gr. laganna. Útgáfa almenns lækningaleyfis feli þannig í sér opinbert leyfi til þess að mega kalla sig lækni og starfa sem slíkur. Samkvæmt þessu sé því eðlilegt að álykta að þeir sem uppfylli það skilyrði séu í starfsstétt með lögformleg starfsréttindi, sbr. 3. tölul. 5. gr. laga nr. 94/1986. Til þess að undirstrika gildi hins almenna lækningaleyfis í þessu samhengi, þá verði það ekki gefið út til manns ef 2. mgr. 68. gr. almennra hegningarlaga á við um hagi hans eins og nánar er lýst í 4. mgr. 2. gr. laganna. Hafi maður ekki almennt lækningaleyfi af þeim ástæðum sem þar greini hafa ákvæði um útgáfu sérfræðileyfis takmarkaða þýðingu. Sérfræðileyfi skv. 5. gr. læknalaga geti því ekki staðið ein sér ef viðkomandi hafi ekki almennt lækningaleyfi, sbr. ennfremur 6. gr. laganna. Samkvæmt þessu verði og að skýra skilyrði 3. tölul. 5. gr. laga nr. 94/1986 um „lögformleg starfsréttindi“ þannig að það taki til þeirra sem hafi almennt lækningaleyfi m.a. á grundvelli prófs frá Læknadeild Háskóla Íslands, sbr. 1. mgr. 2. gr. læknalaga og þá viðbótarmenntun sem þar sé tilgreind. Af framangreindum lagaheimildum og lögskýringargögnum verði ekki ráðið að grundvöllur þess að geta talist vera í starfsstétt með lögformleg starfsréttindi geti verið sérstök viðbótarmenntun eða framhaldsnám innan tiltekins fræðasviðs. Sama gildi t.d. innan verkfræðinnar, sem greinist í mörg sérsvið.
Um útgáfu lækningaleyfa gildi ennfremur reglugerð nr. 305/1997, um veitingu lækningaleyfa og sérfræðileyfa með síðari breytingum. Samkvæmt 7. gr. reglugerðarinnar megi veita sérfræðileyfi í 26 sérgreinum, þ. á m. séu bæklunarskurðlækningar, augnlækningar, fæðinga- og kvenlækningar, háls-, nef- og eyrnalækningar, lýtalækningar, skurðlækningar, taugaskurðlækningar og þvagfæraskurðlækningar. Til þess að hljóta sérfræðileyfi í umræddum lækningum þurfi hlutaðeigandi læknir að hafa lokið námstíma á deild fyrir viðkomandi skurðlækningar allt frá hálfu ári upp í fjögur og hálft ár. Skurðlækningar samkvæmt þessu séu því háðar sérstöku sérfræðileyfi. Sé þar gert ráð fyrir því að heildarnámstíminn sé 4 ½ ár á skurðdeild og ½ ár á svæfingadeild. Tekið sé fram að veita megi „sérfræðingi í almennum skurðlækningum sérfræðileyfi í einni undirgrein þeirra svo sem barnaskurðlækningum, brjóstholsskurðlækningum, æðaskurðlækningum, lýtalækningum, þvagfæraskurðlækningum o.s.frv.“ Nái málatilbúnaður stefnanda fram að ganga, sé ljóst að samningsaðild vegna lækna og annarra starfsstétta sem búi við svipað námsfyrirkomulag, eins og t.d. sé hjá hjúkrunarfræðingum og verkfræðingum, verði skipulagslaus og ómarkviss en slíkt fyrirkomulag sé andstætt þeim stöðugleika og jafnvægi sem löggjöf um kjarasamninga opinberra starfsmanna byggi á. Mundi það æra óstöðugan ef kjarasamningar við lækna á sjúkrahúsum yrðu að greinast í 10-20 sérgreinafélög eftir sérgrein viðkomandi lækna.
Af þeim lista sem stefnandi sendi stefnda 28. september 2005, yfir þá félagsmenn sem undirritað hafa umboð til félagsins til að fara með kjarasamningsgerð fyrir sína hönd, verði ekki að fullu ráðið í hvaða sérgreinum þeir starfi. Hvort um sé að ræða sérfræðing í almennum skurðlækningum eða hvort viðkomandi hafi fengið sérfræðileyfi í einni undirgrein þeirra. Lög félags stefnanda séu heldur ekki skýr að þessu leyti þar sem skilyrði til þess að geta átt aðild að félaginu, sbr. 3. gr. laga félagsins, sé bundið við þá „sem hlotið hafa sérfræðiviðurkenningu í skurðlækningum“ án frekari tilgreiningar. Ekki verði ráðið hvaða nám þar liggur nákvæmlega til grundvallar eða hvers konar gögn þurfi að fylgja umsókn um inngöngu í félagið.
Sé listi landlæknisembættisins lagður til grundvallar varðandi þá 82 lækna sem hér um ræðir, komi í ljós að 38 hafi sérfræðiviðurkenningu í skurðlækningum, 18 í bæklunarskurðlækningum, 11 í háls-, nef- og eyrnalækningum, 3 í lýtalækningum, 5 í taugaskurðlækningum, 6 í þvagfæraskurðlækningum og 1 í barnaskurðlækningum. Af þessu sé ljóst að stefnandi byggi grundvöll sinn ekki á því að félagsmenn þess hafi tiltekna sérfræðiviðurkenningu svo sem í skurðlækningum eins og ráða megi af lögum félagsins. Þess í stað geti átt aðild að félaginu læknar með mismunandi sérfræðiviðurkenningar, þar sem lengd náms á skurðdeild geti verið frá hálfu ári, eins og sé hjá háls-, nef- og eyrnalæknum, sbr. XXII. lið 7. gr. reglugerðar nr. 305/1997, og upp í fjögur og hálft ár á skurðdeild þegar um sé að ræða skurðlækningar, sbr. XXII. lið 7. gr. reglugerðarinnar.
Að mati stefnda sýni það sem hér hafi verið rakið að á engan hátt sé hægt að fallast á að mismunandi viðbótarnám innan ólíkra sérgreina skurðlækninga geti verið grundvöllur sérstakrar samningsaðildar í merkingu 3. tölul. 5. gr. laga nr. 94/1986. Þá beri hér einnig að benda á að jafnvel þó svo að fallist yrði á að þeir sem hefðu sérfræðileyfi í skurðlækningum, skv. XXII. lið 7. gr. reglugerðar nr. 305/1997, gætu talist starfsstétt með lögformleg starfsréttindi, þá sé ekki heldur uppfyllt það skilyrði ákvæðisins að félagsmenn séu 40 eða fleiri. Stefndi hafni því þeirri málsástæðu félagsins að stefnandi teljist uppfylla skilyrði laga nr. 94/1986 til þess að geta farið með samningsaðild samkvæmt þeim lögum. Hafi þessi niðurstaða ekkert með það að gera hvort stefnandi geti yfir höfuð talist stéttarfélag í merkingu stjórnarskrárinnar, mannréttindasáttmála Evrópu eða laga 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, eins og nánar verður rakið hér á eftir.
Stefnandi byggir mál sitt einnig á því að Læknafélag Íslands hafi í raun afsalað sér samningsrétti f.h. skurðlækna. Að mati stefnda sé fullyrðing þessi beinlínis röng eins og hér verður nánar rakið.
Samkvæmt 2. tölul. 2. gr. laga Læknafélags Íslands sé tilgangur félagsins að standa vörð um sjálfstæði læknastéttarinnar og gæta hagsmuna félagsmanna. Læknafélagið hafi skilgreint sig sem heildarsamtök lækna, sbr. 3. gr. laganna. Aðild að félaginu geti átt félög lækna og einstakir læknar, eins og nánar sé rakið í ákvæðinu, þ. á m. eru sérgreinafélög lækna innanlands sem kosið hafa að fara með samningsumboð félaga sinna, sbr. 1. mgr. 17. gr. laga félagsins, og sækja um aðild að Læknafélagi Íslands. Rétt sé að taka hér upp efni 1.-3. mgr. 17. gr.:
„LÍ sér um gerð kjarasamninga lækna í samráði við aðildarfélög að LÍ, eftir því sem við á hverju sinni. Einstök aðildarfélög að LÍ geta farið með kjarasamninga félaga sinna í samræmi við lög viðkomandi félags og umboð félagsmanna í því félagi.
Aðeins eitt félag fer með umboð til samninga fyrir félagsmann í aðildarfélagi að LÍ.
LÍ fer með samningsumboð félaga með einstaklingsbundinni aðild að LÍ þegar það á við.“
Samkvæmt framansögðu sé ljóst að Læknafélag Íslands teljist enn vera stéttarfélag í skilningi laga nr. 94/1986 og hafi enn það hlutverk að gera kjarasamninga vegna einstakra aðildarfélaga eða einstaklinga á grundvelli einstaklingsaðildar þeirra. Komi þetta ennfremur fram í bréfi Læknafélags Íslands frá 2. maí 2005 til stefnanda. Í bréfinu segi m.a. að Læknafélagið geri ekki „... neinar athugasemdir þótt félagar einstakra aðildarfélaga að LÍ ákveði að færa samningsumboð sitt frá LÍ og til viðkomandi aðildarfélags ...“ Samkvæmt þessum orðum sé látið að því liggja að samningsaðild samkvæmt lögum nr. 94/1986 sé einstaklingsbundin en svo sé ekki eins og augljóslega verði ráðið af 4. gr., 1. mgr. 6. gr. og 7. gr. laganna.
Ákvörðun umræddra lækna að óska eftir því að stefnandi annist kjarasamning fyrir þeirra hönd jafngildir því að mati stefnda að annar aðili sem jafnframt sé innan vébanda Læknafélagsins skuli annast um kjarasamningsgerðina. Lög nr. 94/1986 geri ekki ráð fyrir því að samningsrétti opinberra starfsmanna sé deildarskipt með þessum hætti. Framangreind fullyrðing stefnanda fái þannig ekki staðist þegar litið sé til þess að Læknafélag Íslands muni eftir sem áður semja fyrir alla aðra lækna innan sinna vébanda sem ekki kjósa að færa samningsrétt sinn til einstakra aðildarfélaga að Læknafélaginu, eins og lýst sé í áðurnefndu bréfi félagsins. Í þessu sambandi er bent á að ekki hafi allir skurðlæknar sem stefnandi hafi tilgreint óskað eftir því að stefnandi fari með kjarasamningsgerð fyrir þeirra hönd. Verði því að gera ráð fyrir að Læknafélag Íslands fari enn með samningsaðild vegna þeirra sem ekki hafa kosið að færa sig yfir til stefnanda.
Ekki sé hægt að fallast á þann skilning stefnanda að félagið hafi öðlast samningsaðild samkvæmt lögum nr. 94/1986 með því einu að senda tilkynningu til stefnda, fjármálaráðherra, sbr. 4. mgr. 6. gr. laganna.
Til stuðnings kröfum sínum vísi stefnandi ennfremur til félagafrelsisákvæðis stjórnarskrárinnar. Tilvísun félagsins til 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar í þessu sambandi sé algerlega hafnað. Í afstöðu stefnda til málatilbúnaðar stefnanda felist á engan hátt sú skoðun að umræddum læknum sé skylt að eiga aðild að Læknafélagi Íslands. Í því sambandi sé það skoðun stefnda að í fyrsta lagi uppfylli félagið ekki skilyrði 3. tölul. 5. gr. um samningsaðild; hvort sem litið sé til fjölda eða lögformlegra starfsréttinda. Í öðru lagi sé dregið í efa að félagið geti í raun talist sjálfstætt stéttarfélag vegna tengsla sinna við Læknafélag Íslands, sem fari engu að síður áfram með samningsaðild vegna lækna sem ekki kjósi að vera í félagi stefnanda og virðist vera að öðru leyti í fyrirsvari fyrir lækna. Að mati stefnda líkist slík skipan frekar deildarskiptingu í stéttarfélagi en sjálfstæðu stéttarfélagi. Í þriðja lagi sé ljóst að jafnvel þótt litið yrði svo á að félagið uppfyllti skilyrði 3. tölul. 5. gr. laga nr. 94/1986 um samningsaðild þá geri lögin klárlega ráð fyrir því að ekki nema eitt félag í sömu starfsstétt fari með samningsaðild vegna lækna. Jafnvel þótt stefnandi yrði talið sjálfstætt félag, verði að mati stefnda ekki litið á það sem nýja starfsstétt sem skilin verði frá Læknafélagi Íslands. Ljóst sé að lög nr. 94/1986 geri ekki ráð fyrir því að tvö stéttarfélög semji fyrir sömu starfsstéttina. Að því er varðar tilvísun stefnanda til 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 74. gr. stjórnarskrárinnar sé það mat stefnda að það verði ekki leitt af þessum heimildum að nýtt stéttarfélag sem telst uppfylla skilyrði um lögformleg starfsréttindi eigi af þeim sökum rétt á að ríkið semji við það, sbr. t.d. dóm mannréttindadómstóls Evrópu í máli Wilson, National Uninon of Journalists o.fl. gegn Bretlandi, 44. mgr. og ennfremur dóm dómstólsins í máli Swedish Engine Drivers’ Union gegn Svíþjóð, 39. – 40. mgr.
Að því er varðar almennar tilvísanir stefnanda til þess að Félagsdómur hafi m.a. dæmt að í aðild að stéttarfélagi felist m.a. réttur til þess að félagið sjái um gerð kjarasamninga einstakra félagsmanna sé það mat stefnda að málavextir í þeim málum, sbr. t.d. dóm Félagsdóms í máli nr. 9/1999, séu ekki sambærilegir þeim sem hér eru til umfjöllunar. Hér verði m.a. að líta til þess að Læknafélag Íslands teljist enn vera sérgreinafélag, skv. 3. tölul. 5. gr. laga nr. 94/1986, og geri enn kjarasamninga vegna þeirra starfa sem félagsmenn í stefnanda sinna.
Samkvæmt framansögðu geti stefndi ekki fallist á þær fullyrðingar stefnanda að lög nr. 94/1986 feli í sér niðurstöðu sem sé andstæð 74. gr. stjórnarskrárinnar eða 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Verði hér ennfremur eins og áður segir að horfa til þess að opinberir starfsmenn hafi um langt skeið búið við sérstakt launa- og kjarasamningskerfi. Þeir hagsmunir sem legið hafa þar til grundvallar séu m.a. þeir að opinberir aðilar geti sem best veitt þá þjónustu sem þeim beri lögum samkvæmt. Með því að játa að viðbótarmenntun lækna á tilteknum sérfræðisviðum geti verið grundvöllur sjálfstæðs samningsréttar sé farið gegn því grundvallarskipulagi sem lög nr. 94/1986 byggi á. Verði það niðurstaða dómsins að játa stefnanda sjálfstæðum samningsrétti sé ljóst að slíkt geti ekki falið í sér skyldu fyrir stefnda til þess að gera kjarasamning við félagið. Með því sé ekki girt fyrir að félagið geti komið sjónarmiðum sínum á framfæri beint við viðsemjendur lækna eða innan Læknafélags Íslands.
Samkvæmt framansögðu er þess krafist að stefndi verði sýknaður af öllum dómkröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati réttarins.
Niðurstaða
Mál þetta á undir Félagsdóm samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna.
Í máli þessu er tekist á um samningsaðild stefnanda, Skurðlæknafélags Íslands, samkvæmt greindum lögum nr. 94/1986, sbr. I. kafla laganna og þá sérstaklega 5. gr. þeirra, sbr. skilyrði 3. tölul. þeirrar lagagreinar sem einkum reynir á í málinu.
Eins og fram er komið er stefnandi eitt aðildarfélaga Læknafélags Íslands sem sérgreinafélag lækna, sbr. 3. tölul. 2. mgr. 3. gr. félagslaga Læknafélags Íslands sem samþykkt voru á aukaaðalfundi 25. nóvember 1994, sbr. og síðari breytingar. Hefur Læknafélag Íslands fram til þessa farið með gerð kjarasamninga fyrir félagsmenn í stefnanda, sbr. 17. gr. félagslaga Læknafélags Íslands. Með breytingum á félagslögum Læknafélags Íslands haustið 2002 var gert ráð fyrir því að einstök félög lækna innan vébanda Læknafélags Íslands gætu farið með gerð kjarasamninga félagsmanna sinna í umboði þeirra. Fram er komið að núgildandi kjarasamningur rennur út um áramótin 2005/2006.
Samkvæmt félagslögum stefnanda, er samþykkt voru á aðalfundi 22. febrúar 2002, er félagssvæðið landið allt, sbr. 1. gr. Tilgangur félagsins er að gæta hagsmuna félagsmanna, meðal annars með því að koma fram fyrir þeirra hönd við gerð kjarasamninga við íslenska ríkið eða aðra atvinnurekendur, sbr. 2. gr. félagslaganna. Samkvæmt 3. gr. félagslaganna geta félagar orðið þeir sem hlotið hafa sérfræðiviðurkenningu í skurðlækningum. Í 14. gr. félagslaganna er tekið fram að samninganefnd skuli vera starfandi í félaginu og sé hlutverk hennar að annast kjarasamningsgerð fyrir hönd félagsins.
Með bréfi, dags. 21. desember 2004, var af hálfu stefnanda þess óskað við fjármálaráðherra að gerður yrði kjarasamningur vegna þeirra félagsmanna stefnanda sem störfuðu hjá ríkinu, sbr. 5. og 6. gr. laga nr. 94/1986. Fjármálaráðherra synjaði erindinu með bréfi, dags. 6. janúar 2005, og taldi að sjálfstæðum rétti til að vera samningsaðili væri ekki fyrir að fara í tilviki stefnanda, sbr. ákvæði læknalaga og fyrirmæli laga nr. 94/1986, einkum 3. tölul. 5. gr. laganna sem vísað var til. Með bréfi stefnanda, dags. 28. september 2005, var fjármálaráðherra tilkynnt um þá félagsmenn stefnanda sem stéttarfélagið hefði umboð til að fara með kjarasamningsgerð fyrir, sbr. 4. mgr. 6. gr. laga nr. 94/1986, og tekið fram að stefnandi myndi fara með samningsumboð fyrir hönd þessara félagsmanna eftir að núgildandi kjarasamningur rynni út um áramótin 2005/2006. Með svarbréfi sínu, dags. 6. október 2005, áréttaði stefndi fyrri afstöðu sína, sbr. bréf, dags. 6. janúar 2005, og kvaðst líta svo á að Læknafélag Íslands færi hér eftir sem hingað til með samningsumboð vegna greindra lækna.
Af hálfu stefnanda er í fyrsta lagi á því byggt að félagið uppfylli skilyrði 3. tölul. 5. gr. laga nr. 94/1986 til þess að fara með samningsaðild vegna félagsmanna sinna svo sem nánar er rökstutt. Verði ekki á það fallist að greint ákvæði veiti félaginu samningsaðild er í öðru lagi á því byggt að skilyrði ákvæðisins standist þá ekki ákvæði 74. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 12. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, um mannréttindasáttmála Evrópu, sem veittu sáttmála þessum ásamt áorðnum breytingum samkvæmt tilgreindum samningsviðaukum, lagagildi hér á landi. Af hálfu stefnda er því hins vegar haldið fram að stefnandi uppfylli ekki greind skilyrði 3. tölul. 5. gr. laga nr. 94/1986 og jafnvel þótt svo yrði talið þá féllu umrædd störf allt að einu undir samningssvið Læknafélags Íslands, sbr. 1. mgr. 6. gr. greindra laga. Þá dregur stefndi í efa að um sjálfstætt félag sé að tefla. Stefndi byggir meðal annars á því að við túlkun á skilyrði 3. tölul. 5. gr. laga nr. 94/1985 varðandi “lögformleg starfsréttindi” beri að miða við almenn lækningaleyfi samkvæmt læknalögum nr. 53/1988 en ekki sérfræðileyfi. Stefndi hafnar því að þessi skilningur brjóti í bága við 74. gr. stjórnarskrárinnar eða 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.
Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 94/1986 gilda lögin um alla starfsmenn sem eru félagar í stéttarfélögum sem samkvæmt 4. og 5. gr. laganna hafa rétt til að gera kjarasamninga samkvæmt þeim og eru ráðnir hjá ríkinu, ríkisstofnunum, sveitarfélögum eða stofnunum þeirra með föstum tíma-, viku- eða mánaðarlaunum, enda verði starf þeirra talið aðalstarf. Í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 94/1986 segir að stéttarfélög starfsmanna ríkis og sveitarfélaga eða samtök slíkra félaga fari með fyrirsvar félagsmanna sinna um gerð kjarasamninga samkvæmt lögunum og aðrar ákvarðanir í sambandi við þá. Samkvæmt 5. gr. laganna geta önnur stéttarfélög eða félagasamtök en um ræðir í 4. gr. öðlast rétt til að vera samningsaðili samkvæmt lögunum að uppfylltum tilgreindum skilyrðum sem talin eru upp í þremur töluliðum. Skal a.m.k. eitt skilyrðanna vera uppfyllt, sbr. þó 1. mgr. 6. gr. laganna. Í fyrsta lagi, sbr. 1. tölul. 5. gr., skal félag taka til meiri hluta opinberra starfsmanna hjá ríki eða sveitarfélagi annarra en þeirra sem eru í stéttarfélögum sem rétt eiga til samninga samkvæmt 2. og 3. tölul. 5. gr. Í öðru lagi, sbr. 2. tölul. 5. gr., skal félag taka til a.m.k. 2/3 hluta starfsmanna sem undir lögin heyra hjá tiltekinni stofnun og að þeir félagar séu hundrað eða fleiri. Í þriðja lagi, sbr. 3. tölul. 5. gr., skal félag taka til a.m.k. 2/3 hluta starfsmanna sem undir lögin heyra og eru í starfsstétt með lögformleg starfsréttindi eða uppfylla skilyrði um formlega menntun sem jafna má til slíkra starfsréttinda og að þeir félagsmenn séu 40 eða fleiri. Á síðastgreint skilyrði reynir í máli þessu, eins og fram er komið. Samkvæmt 4. mgr. 6. gr. laga nr. 94/1986 ber að tilkynna stofnun nýs félags, sem fer með samningsumboð samkvæmt 5. gr., a.m.k. þremur mánuðum fyrir lok samningstímabils þeirra kjarasamninga sem gilda fyrir félagsmenn hins nýja félags.
Í athugasemdum með 5. gr. frumvarps þess, sem varð að lögum nr. 94/1986, er tekið fram að 3. tölul. greinarinnar geri ráð fyrir samningsumboði fagfélaga. Þá segir meðal annars svo í athugasemdunum:
„Grein þessi tekur til þeirra starfsstétta sem hafa starfsréttindi sem bundin eru í lögum eða reglugerðum svo og fagstétta sem þurfa hliðstæða sérhæfingu og sérþjálfun til þeirra starfa sem þær annast. Er hér annars vegar um að ræða starfsstéttir svo sem kennara, hjúkrunarfræðinga, fóstrur, sjúkraliða, verkfræðinga, arkitekta, tæknifræðinga, sjúkraþjálfara o.s.frv. þar sem sérstök ákvæði í lögum eða reglugerð kveða á um starfsréttindi og rétt til notkunar á starfsheitum. Hins vegar er um að ræða fagfélög starfsmanna sem lokið hafa hliðstæðu námi og sérhæfingu og framangreindar stéttir. Er þar fyrst og fremst um að ræða háskólamenntaða starfsmenn.“
Eins og fram er komið er tilgangur stefnanda samkvæmt félagslögum sá að gæta hagsmuna félagsmanna sinna, meðal annars með því að koma fram fyrir þeirra hönd við gerð kjarasamninga við íslenska ríkið og aðra atvinnurekendur. Telja verður því að stefnandi sé stéttarfélag sem getur öðlast rétt til samningsaðildar samkvæmt 5. gr. laga nr. 94/1986, enda séu skilyrði þeirrar lagagreinar uppfyllt.
Fram er komið í málinu að af þeim 88 læknum, sem starfa hjá ríkinu og hafa leyfi til að stunda skurðlækningar samkvæmt fyrirliggjandi lista landlæknisembættisins, er miðast við 12. október 2005, hafi 82 skrifað undir inntökubeiðni í stefnanda ásamt umboði til félagsins til að fara með kjarasamningsgerð fyrir sína hönd. Umræddir læknar hafa sumpart sérfræðileyfi í almennum skurðlækningum og sumpart sérfræðileyfi í öðrum greinum skurðlækninga, auk þess sem sumir hafa sérfræðileyfi í tilgreindum undirgreinum skurðlækninga. Af hálfu stefnanda hefur því verið haldið fram að sérfræðisvið greindra lækna flokkist undir skurðlækningar í víðtækum skilningi svo sem nánar er rökstutt. Verður ekki séð að ágreiningur sé um þetta.
Í læknalögum nr. 53/1988 er fjallað um lækningaleyfi og sérfræðileyfi, sbr. I. kafla laganna. Í reglugerð nr. 305/1997, um veitingu lækningaleyfa og sérfræðileyfa, með síðari breytingum, er nánar kveðið á um leyfi þessi. Um sérfræðileyfi er fjallað í IV. kafla reglugerðarinnar, þar á meðal sérfræðileyfi í skurðlækningum, sbr. meðal annars XXII. lið í 7. gr. reglugerðarinnar.
Ljóst þykir að slík sérfræðileyfi til lækninga, sem að framan getur, eru fremur grundvöllur starfsréttinda og tekjuöflunar umræddra lækna, heldur en hin almennu lækningaleyfi. Stendur hvorki orðalag áskilnaðar 3. tölul. 5. gr. laga nr. 94/1986 um „lögformleg starfsréttindi“ né lögskýringargögn, sbr. framangreindar athugasemdir með frumvarpi því sem varð að greindum lögum, út af fyrir sig í vegi fyrir þeirri túlkun sem stefnandi heldur fram. Sú túlkun stefnda að áskilnaður laganna að þessu leyti miðist við almenn lækningaleyfi samkvæmt læknalögum en ekki sérfræðileyfi á sér hins vegar hvorki stoð í lögunum né lögskýringargögnum. Að svo vöxnu máli og þar sem ekki verður annað séð en skilyrði 3. tölul. 5. gr. laga nr. 94/1986 séu að öðru leyti uppfyllt eru ekki efni til annars en að taka kröfu stefnanda til greina, enda verður ekki talið að 1. mgr. 6. gr. laganna standi í vegi fyrir þessari niðurstöðu.
Samkvæmt framansögðu verður fallist á dómkröfu stefnanda eins og nánar greinir í dómsorði.
Eftir þessum úrslitum málsins þykir rétt að stefndi greiði stefnanda 250.000 krónur í málskostnað.
D Ó M S O R Ð :
Viðurkennt er að stefnandi, Skurðlæknafélag Íslands, fari með samningsumboð fyrir félagsmenn sína við gerð kjarasamninga við stefnda, íslenska ríkið, vegna starfa þeirra sem skurðlækna í starfi hjá stefnda.
Stefndi greiði stefnanda 250.000 krónur í málskostnað.
Eggert Óskarsson
Gylfi Knudsen
Kristjana Jónsdóttir
Kristján Torfason
Ásdís J. Rafnar