90 ára afmæli Slysavarnafélagsins Landsbjargar
Ráðherra þakkaði sjálfboðaliðum félagsins fyrir fórnfýsi í störfum þeirra og fyrir að vera ávallt til staðar, allan ársins hring. Þá sagði ráðherra að starf björgunarsveitanna hefði í áranna rás snert þjóðina alla og rifjaði m.a. upp björgunarafrekið er 24 skipverjum var bjargað þegar Skúli fógeti strandaði við Grindavík. Í þeim sjóskaða fórust þrettán manns, þar á meðal langafi hennar og afabróðir.
Undir merkjum Slysavarnafélagsins Landsbjargar starfa þúsundir sjálfboðaliða í 93 björgunarsveitum, 33 slysavarnadeildum og 54 unglingadeildum. Stofnun félagsins markaði upphafið að skipulegu björgunar- og slysavarnastarfi á Íslandi.
Í tilefni afmælisins komu einingar félagsins um allt land saman í gærkvöldi og skutu upp hvítum svifblysum frá öllum björgunarmiðstöðvum landsins.