Hoppa yfir valmynd
16. ágúst 2024 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Matsferill – safn matstækja til að meta námsárangur grunnskólabarna – frumvarp til umsagnar

Matsferill er safn matstækja til að meta námsárangur grunnskólabarna sem koma mun í stað samræmdra prófa. Frumvarp um breytingu á lögum um grunnskóla um þróun og innleiðingu á Matsferli hefur verið lagt til umsagnar í Samráðsgátt stjórnvalda. Skyldubundið samræmt námsmat í íslensku og stærðfræði kemur til innleiðingar og framkvæmda í öllum grunnskólum skólaárið 2025–2026.

Matsferill er safn matstækja, sem að hluta eru valkvæð og öðrum hluta skylda, og er ætlað að gefa heildstæða mynd af stöðu og framvindu hvers barns í námi, jafnt og þétt yfir skólagönguna.

Mennta- og barnamálaráðuneytið og Miðstöð menntunar og skólaþjónustu hafa unnið saman að nýju verklagi við námsmat í grunnskólum á grundvelli menntastefnu 2030 og víðtæks samráðs. Leitað var eftir sjónarmiðum nemenda, foreldra, kennara, skólastjórnenda og annarra hagsmunaaðila, innan skólakerfisins sem og utan.

Hlutverk Matsferils er tvíþætt:

  • tryggja heildstæða og skýra mynd af stöðu hvers barns í námi og framförum þess jafnt og þétt yfir skólagönguna, m.a. með að markmiði að það fái viðeigandi kennslu og stuðning þegar þörf er á. Til þess fá skólar aðgang að fjölbreyttum matstækjum og verkfærum. Upplýsingarnar sem við það skapast eiga jafnframt að nýtast nemendum og forráðamönnum þeirra og stuðla að samtali og trausti í samstarfi heimila og skóla um nám við hæfi hvers og eins barns.
  • afla upplýsinga um stöðu skólakerfisins í heild, með skyldubundnu samræmdu námsmati, þannig að stefnumótandi aðilar, sem og aðrir, geti fylgst með þróun námsárangurs yfir tíma og greint styrkleika og mögulegar áskoranir, bæði í einstökum sveitarfélögum og á landsvísu.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á skyldubundnu samræmdu námsmati. Í stað þess að leggja samræmd könnunarpróf fyrir 4. og 7. bekk og svo einu sinni á unglingastigi í íslensku, stærðfræði og ensku, verði skilgreint skyldubundið samræmt námsmat í 4., 6. og 9. bekk í íslensku og stærðfræði. Gert er ráð fyrir því að innan þessara námsgreina rúmist undirgreinar, t.d. að innan íslensku rúmist lesskilningur og íslenska sem annað mál. Ráðherra hafi heimild til að leggja fyrir próf í öðrum greinum en íslensku og stærðfræði eins og ensku og náttúrufræði.

Niðurstöður úr hinu nýja samræmda námsmati verða aðgengilegar í Frigg, nýjum miðlægum gagnagrunni utan um skráningu upplýsinga um íslenska nemendur í leik-, grunn- og framhaldsskóla sem nú er í smíðum. Í fyrsta skipti verður hægt að tengja niðurstöður námsmats í íslenskum grunnskólum við fjölbreytta tölfræði um farsælda barna. Samspil Matsferils og hins nýja gagnagrunns hefur jafnframt í för með sér bætt aðgengi foreldra, barna, skóla og menntayfirvalda að upplýsingum um stöðu og framvindu barnsins í gegnum skólakerfið sem og stöðu menntakerfisins í heild sinni, allt frá leikskóla til framhaldsskóla. Þannig er betur hægt að stuðla að árangursríkum snemmtækum stuðningi og tryggja að börn fái aðstoð um leið og þörf vaknar, sem er lykilþáttur í því að draga úr eða koma í veg fyrir frekari námsvanda á síðari stigum.

Skyldubundið samræmt námsmat í íslensku og stærðfræði skal koma til innleiðingar og framkvæmda í öllum grunnskólum skólaárið 2025–2026 samkvæmt frumvarpinu. Mikilvægt er að tryggja skólasamfélaginu markvissan stuðning og svigrúm við innleiðinguna.

Umsagnarfrestur er til 2. september. Mennta- og barnamálaráðuneytið hvetur alla sem láta skólamál sig varða að kynna sér málið og veita endurgjöf í samráðsgáttinni.

Að loknu samráðsferli verður unnið úr athugasemdum og frumvarp lagt fyrir Alþingi á haustþingi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta