Hoppa yfir valmynd
13. október 2022 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Öryggi barna á leiksvæðum aukið með nýrri reglugerð

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið kynnir nýja  reglugerð um öryggi leikvallatækja og leiksvæða og eftirlit með þeim (nr. 1025/2022) sem hefur nú tekið gildi. Reglugerðinni er ætlað að tryggja að hönnun, framleiðsla, frágangur og viðhald leikvallatækja dragi úr hættu á að börn verði fyrir slysi við leik í tækjunum.

Nýja reglugerðin kemur í stað reglugerðar um sama efni frá árinu 2002. Var hún unnin í samráði við hlutaðeigandi stofnanir, haghafa og stjórnvöld og í samvinnu við sérfræðing á sviði öryggis barna og öryggi leikvallatækja og leiksvæða.

Reglugerðin nú nær einnig yfir vatnsleiktæki, ærslabelgi og klifurveggi og tekur til fleiri staðla en áður, m.a. staðla sem taka til heildarhönnunar og þar með mismunandi aldurshópa barna sem kunna að vera á sama leiksvæði. Samkvæmt reglugerðinni teljast leiktæki vera þau tæki eða mannvirki sem börn leika sér í eða á utanhúss og innanhúss og sem almenningur hefur aðgang að.

„Með reglugerð þessari ætlum við að stuðla enn frekar að öryggi barna og annarra á leiksvæðum og reyna að tryggja að minnsta mögulega hætta sé á að börn verði fyrir slysi af leik í tækjunum þegar þau eru notuð eins og ætlast er til,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Þó nokkrar viðamiklar breytingar eru gerðar frá fyrri reglugerð. Kveðið er á um að hönnun, framleiðsla, frágangur og viðhald leikvallatækis og öryggisundirlags þess skuli vera þannig að minnsta mögulega hætta sé á að slys verði við leik í tækinu þegar það er notað eins og til er ætlast, eða eins og búast má við af það sé notað. Sett eru inn ákvæði sem eiga að tryggja að eftirliti sé sinnt og úrbótum framfylgt. Er nú skýrt kveðið á um ábyrgð rekstraraðila leiksvæða og leikvallatækja. Má þar nefna að aðalskoðun skal ætíð fara fram áður en ný leiksvæði og leikvallatæki eru tekin í notkun og eftir það a.m.k. á þriggja ára fresti og oftar komi fram frávik með talsverðri eða hámarks áhættu eða ef rekstrarskoðun er ekki sinnt. Þá ber rekstraraðilum að tryggja nauðsynlegt samstarf á hönnunarstigi og að fá til verksins hæfan verktaka og/eða framkvæmdaaðila.

Einnig eru gerðar kröfur um að rekstraraðilar haldi rekstrarhandbók sem heilbrigðisnefnd hefur aðgang að, en heilbrigðisnefnd metur alvarleika frávika og hvort það þurfi að fylgja þeim eftir. Í kjölfar setningu reglugerðarinnar hefst vinna við útgáfu rekstrarhandbókar og leiðbeininga fyrir innra eftirlit.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta