Hoppa yfir valmynd
20. september 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 281/2023-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 281/2023

Miðvikudaginn 20. september 2023

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 24. maí 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 25. apríl 2023 um að synja umsókn kæranda um uppbót vegna reksturs bifreiðar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um uppbót vegna reksturs bifreiðar frá 1. maí 2021 með umsókn 3. apríl 2023. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 25. apríl 2023, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að ökumenn bifreiðarinnar væru vinir og ættingjar sem séu ekki heimilismenn kæranda.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 6. júní 2023. Með bréfi, dags. 7. júní 2023, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 29. júní 2023, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. júlí 2023. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi fallist ekki á að réttur hennar til þess að fá bensínstyrk sé minni en þess sem geti ekið bifreið.

Kærandi standi undir rekstri hentugrar bifreiðar hver svo sem aki bifreiðinni.

Þegar kærandi hafi þurft að hætt að aka, meðal annars vegna sjónskerðingar, hafi hún átt góða eldri bifreið sem hún ákveðið að selja ekki. Auk sjónskerðingar sé kærandi veik í baki (liðskrið) og þurfi því að sitja hátt og það geti hún í nefndri bifreið. Það sé bráðnauðsynlegt að kærandi hafi alltaf einhvern með sér þegar hún þurfi að erindast, hvort sem hún fari til læknis, í verslun eða eitthvað annað.

Kærandi eigi rétt á leigubílaþjónustu sem hún nýti sér sjaldan vegna þess að í flestum leigubifreiðum þurfi hún að setjast lágt og eigi í því verulegum erfiðleikum með að standa aftur upp úr þeim. Auk þess bjóði leigubílar ekki upp á neina aðstoð við verslun eða annan stuðning á ákvörðunarstað.

Kærandi geti ekki beðið neitt af hennar góða fólki að flytja lögheimili sitt til hennar vegna skilyrðis Tryggingastofnunar því þá yrði þröngt á þingi á heimili hennar, enda hópur aðstoðarfólksins nokkuð fjölmennur og þá fyki heimilisuppbótin út í veður og vind.

Kærandi sé ekki að sækja um styrk til kaupa aðra bifreið því sú sem hún eigi dugi henni í einhvern tíma.

Kærandi sé að sækja um bensínstyrk sem hún telji sig eiga fullan rétt á.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kæran varði umsókn um styrk til reksturs bifreiðar frá 3. apríl 2023 sem stofnunin hafi synjað þann 25. apríl 2023.

Í 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sé kveðið á um heimild til að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrksþega og umönnunargreiðsluþega uppbót eða styrk vegna kaupa á bifreið sem bótaþega sé nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt sé að bótaþegi geti ekki komist af án hennar. Í 2. mgr. sömu greinar sé kveðið á um sömu heimild ef um rekstur bifreiðar sé að ræða, sem áður hafi verið talað um sem bensínstyrk.

Reglugerð nr. 905/2021 um uppbætur og styrki til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða eigi við í málinu einkum og sér í lagi reyni á túlkun á 9. og 11. gr. reglugerðarinnar.

Samkvæmt 5. gr. reglugerðarinnar sé heimilt að greiða hreyfihömluðum elli- eða örorkulífeyrisþega og örorkustyrkþega uppbót til að mæta kostnaði vegna reksturs bifreiðar. Hið sama gildi um endurhæfingarlífeyrisþega samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Skilyrði sé að greiðsluþega sé nauðsyn að hafa bifreið vegna hreyfihömlunar og skuli sýnt fram á að hann geti ekki komist af án uppbótarinnar. Einnig komi fram það skilyrði að hinn hreyfihamlaði eða maki hans sé skráður eigandi bifreiðarinnar en þó sé heimilt að greiða uppbót ef greiðsluþegi hafi bifreiðina á rekstrarleigu hjá viðurkenndum aðila. Heimilt sé að greiða blindum uppbót samkvæmt því ákvæði.

Heimilt sé að veita uppbót á fimm ára fresti vegna sama einstaklings eins og komi fram í niðurlagi 1. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð. Í 3. mgr. sé kveðið á um að heimilt sé að greiða styrk til þess að afla bifreiðar sem nauðsynleg sé vegna þess að líkamsstarfsemi sé hömluð eða að það vanti líkamshluta. Heimilt sé að veita uppbót á fimm ára fresti vegna sama einstaklings.

Ráðherra setji reglugerð um greiðslur samkvæmt ákvæði þessu, meðal annars um sex mánaða búsetuskilyrði.

Í 2. gr. reglugerðarinnar komi fram nánari skýringar á ýmsu varðandi orðskýringar í reglugerðinni. Þar megi nefna mikilvægt atriði er eigi við í málinu. Þar segi að einstaklingur og heimilismaður sé það sama og þýði að sá einstaklingur þurfi að búa á sama heimili og hinn hreyfihamlaði. Einnig að umsækjandi eða annar heimilismaður þurfi að vera ökumaður með sama lögheimili ef umsækjandi aki ekki sjálfur.

Málavextir séu þeir að Tryggingastofnun hafi synjað umsókn kæranda, dags. 3. apríl 2023, um uppbót vegna reksturs bifreiðar þann 25. apríl 2023 þar sem að lagaskilyrði hafi ekki verið uppfyllt. Kærandi hafi sótt um afturvirkt. Sérfræðingar hafi farið yfir öll gögn málsins og hafi niðurstaðan verið sú að hvorki hafi verið uppfyllt það skilyrði 2. gr. reglugerðar um uppbætur og styrki til hreyfihamlaðra einstaklinga, sem kveði á um það skilyrði fyrir veitingu styrks til reksturs bifreiðar að umsækjandi sé sá sem keyri bifreiðina sjálfur, né að sá einstaklingur sem keyri bifreiðina væri heimilismaður. Samkvæmt umsóknum, sem séu tvær, hafi kærandi sótt um afturvirkt annars vegar frá 1. apríl og hins vegar frá 1. maí 2021. Stofnunin hafi synjað umsókninni á þeim forsendum að ekki hafi verið uppfyllt skilyrði um að ökumaður sé heimilismaður eða umsækjandi sjálfur. Sú ákvörðun hafi verið kærð.

Það sem liggi fyrir í málinu sé að þeir eða sá sem muni aka bifreið kæranda séu ekki heimilismenn kæranda og þar með liggi ekki fyrir þær lögfræðilegu röksemdir sem þurfi að vera til staðar svo að skilyrði séu uppfyllt.

Álitaefnið sé hvort umsækjandi aki bifreiðinni sjálf eða þá hvort sá aðili sem aki sé heimilismaður hennar, sbr. 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 905/2021. Hvoru tveggja sé svarað neitandi, enda sé það svo að sá eða þeir sem hjálpi kæranda að aka séu ekki búsettir á heimili hennar en séu fjölskylduvinir eða aðstandendur sem eigi sitt eigið heimili.

Tryggingastofnun fari fram á staðfestingu á ákvörðun frá 25. apríl 2023 um að synja kæranda um bensínstyrk sbr. 5. gr. reglugerðar nr. 905/2021, með vísun í 2. gr. sömu reglugerðar sem og 2. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð.

Tryggingastofnun hafi farið ítarlega yfir mál kæranda. Stofnunin telji að miðað við fyrirliggjandi gögn sé ljóst að afgreiðsla málsins hafi að fullu og öllu verið í samræmi við lög um almannatryggingar, reglugerð um uppbætur og styrki til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða og í samræmi við fyrri úrskurði úrskurðarnefndarinnar og sé einnig samkvæmt lagaákvæðum fyrri reglugerða.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um uppbót vegna reksturs bifreiðar.

Lagaheimild fyrir veitingu uppbótar vegna reksturs bifreiða er að finna í 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð með síðar breytingum. Í 1. og 2. mgr. segir:

„Heimilt er að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt er að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Heimilt er að veita uppbót á fimm ára fresti vegna sama einstaklings.

Sama gildir um rekstur bifreiðar eigi í hlut elli- eða örorkulífeyrisþegi og örorkustyrkþegar.“

Með stoð í 3. málsl. 3. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð hefur ráðherra sett reglugerð nr. 905/2021 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða, með síðari breytingum.

Í 5. gr. reglugerðarinnar er fjallað um uppbót vegna reksturs bifreiðar og hljóðar 1. mgr. ákvæðisins svo:

„Heimilt er að greiða hreyfihömluðum elli- eða örorkulífeyrisþega og örorkustyrkþega uppbót til að mæta kostnaði við rekstur bifreiðar. Sama gildir um endurhæfingarlífeyrisþega samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Skilyrði er að greiðsluþega sé nauðsyn að hafa bifreið vegna hreyfihömlunar og skal sýnt fram á að hann geti ekki komist af án uppbótarinnar.“

Í 3. tölul. 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar segir varðandi mat á þörf fyrir uppbætur og styrki að líta skuli til þess hvort hinn hreyfihamlaði hafi sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður. Orðið heimilismaður er skilgreint í 3. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar þannig að um sé að ræða einstakling sem búi á sama heimili og hinn hreyfihamlaði.

Óumdeilt er í máli þessu að kærandi er hreyfihömluð og að hún keyrir ekki sjálf. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort kærandi hafi uppfyllt skilyrði 3. tölul. 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar og 3. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar þess efnis að ökumaður bifreiðarinnar sé heimilismaður sem búi á sama heimili og kærandi. Í umsókn kæranda um uppbót til reksturs bifreiðar og einnig í kæru er greint frá því að kæranda aki ekki sjálf og ráða má af gögnum málsins að ökumenn bifreiðar hennar séu ekki búsettir á heimili hennar. Ljóst er að kærandi uppfyllir þar af leiðandi ekki skilyrði 3. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar þess efnis að ökumaður hennar sé heimilismaður hennar. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um uppbót vegna reksturs til bifreiðakaupa er því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um uppbót vegna reksturs bifreiða, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta