Blóðbankinn 60 ára
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra flutti ávarp í afmælishófi sem efnt var til í dag í tilefni sextíu ára starfsafmælis Blóðbankans. Forsvarsmenn Blóðbankans segja brýnt að fá fleiri til þess að gefa blóð reglulega.
Blóðbankinn var stofnaður árið 1953 og hóf starfsemi sína við blóðsöfnun, geymslu og afgreiðslu blóðs þann 14. nóvember 1953 í sérhönnuðu húsnæði við Barónstíg í Reykjavík. Í maí árið 2007 flutti Blóðbankinn starfsemi sína að Snorrabraut 60, en hafði þá um 20 ára skeið búið við mikil þrengsli og óhagræði í húsnæðismálum.
„Það má örugglega segja að Blóðbankinn sé sá banki hér á landi sem tvímælalaust nýtur trausts og velvildar landsmanna. Blóðbankinn gegnir enda mikilvægu samfélagslegu hlutverki sem er óumdeilt. Þeir sem leggja inn gera það ekki sín vegna heldur í trausti þess að þeir geti með því hjálpað öðrum sem á þurfa að halda. Allir vona að þeir þurfi sjálfir aldrei á úttekt að halda og því má í þessu samhengi segja að sælla er að gefa en þiggja“ sagði Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra meðal annars í ávarpi sem hann flutti við þetta tækifæri.