Jarðhitasamstarf með Alþjóðabankanum
Utanríkisráðuneytið hefur gert samkomulag við Alþjóðabankann um samstarf um að hraða jarðhitavæðingu í Austur-Afríku sigdalnum en þar liggja ríkin Djíbútí, Eþíópía, Úganda, Erítrea, Kenýa, Suður Súdan, Tansanía, Malaví, Mósambik, Búrúndí, Rúanda, Sambía og Sómalía. Mikil orkufátækt er í þessum ríkjum en sérfræðingar telja að í sigdalnum, sem er 6000 km. langur, sé mögulegt að virkja allt að 14.000 MW úr jarðhita og veita þannig yfir 150 milljónum manna aðgang að hreinni orku.
Samstarfið gerir ráð fyrir að Íslendingar aðstoði ríkin á svæðinu við að meta bestu jarðhitasvæðin, gera nauðsynlegar grunnrannsóknir og veita liðsinni við gerð áætlana um jarðboranir til þess að meta stærð auðlindanna. Alþjóðabankinn mun hins vegar nýta eigin fjármögnunarleiðir til að gera ríkjunum kleift að gera nauðsynlegar hagkvæmniathuganir og hefja slíkar boranir. Í framhaldinu verði unnt að ráðast í skipulagðar virkjanaframkvæmdir til raforkuframleiðslu og fjölnýtingar jarðhitans í atvinnuskyni.
Ríkin þrettán í Austur-Afríku sigdalnum eru mislangt á veg komin í nýtingu jarðhita til orkuframleiðslu. Þannig hefur Kenía til dæmis þegar virkjað umtalsverðan jarðhita og hefur stórhuga áætlanir um frekari virkjanir á meðan önnur ríki eins og Búrúndi er á byrjunarreit. Samstarfið við Alþjóðabankann gerir ráð fyrir mismikilli aðstoð við einstök ríki, þótt það nái til þeirra allra. Samstarf Íslands og Alþjóðabankans er opið fyrir þátttöku annarra og munu báðir aðilar vinna að því að afla fjárhagsstuðnings frá margvíslegum aðilum, svo sem alþjóðlegum fjármálstofnunum og öðrum sem sérhæfa sig í þróunaraðstoð.inmál