Hoppa yfir valmynd
9. júní 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Stuðningur við einkarekna fjölmiðla framlengdur og aukinn stuðningur við staðbundna miðla

Frumvarp menningar- og viðskiptaráðherra, sem tryggir áframhaldandi stuðning stjórnvalda við einkarekna fjölmiðla, hefur verið samþykkt á Alþingi. Um er að ræða frumvarp um breytingu á lögum um fjölmiðla, en ákvæði laganna um stuðninginn féll úr gildi um síðustu áramót og hefur nú verið framlengt til ársloka 2024.

Þannig verður áfram stutt við einkarekna frétta- og dagskrármiðla vegna kostnaðar sem fellur til við miðlun frétta og fréttatengds efnis og umfjöllunar um samfélagsleg málefni.

„Fjölmiðlar eru hornsteinn lýðræðis og með stuðningnum er þeim gert betur kleift að sinna þessu gríðarlega mikilvæga hlutverki sínu,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra. „Fjölmiðlar eru forsenda opinnar lýðræðislegrar umræðu og þeim hreinlega ber að veita stjórnvöldum, atvinnulífinu og helstu stofnunum nauðsynlegt aðhald. Ekkert lýðræðislegt samfélag þrífst án öflugra fjölmiðla.“

Á undanförnum árum hafa átt sér stað örar breytingar á fjölmiðlamarkaði, einkum vegna tilkomu samfélagsmiðla og hinna svokölluðu tæknirisa á borð við Google og Meta. Fjölmiðlar á Íslandi, sem og annars staðar í heiminum, hafa átt undir högg að sækja þar sem auglýsingafé rennur í auknum mæli til erlendra aðila. Einkareknir fjölmiðlar hafa fundið fyrir þessum hröðu breytingum með þeim hætti að rekstrargrundvöllur margra þeirra hefur brostið og þeir hætt starfsemi.

Viðbótarfjármagn til fjölmiðla á landsbyggðinni

Frumvarp menningar- og viðskiptaráðherra hefur sömuleiðis í för með sér að nú hljóta staðbundnir fjölmiðlar utan höfuðborgarsvæðisins sérstakt 20% landsbyggðarálag ofan á þann styrk sem þeir annars fengju úthlutað.

Breytinguna má rekja til álits meiri hluta fjárlaganefndar við fjárlagafrumvarpið frá því í desember, þar sem lagt var til að veita tímabundið 100 milljóna króna framlag til reksturs fjölmiðla á landsbyggðinni sem framleiða eigið efni fyrir sjónvarpsstöð. Sökum forsendubrests var ekki unnt að framfylgja þeim tilmælum, en að höfðu samráði við menningar- og viðskiptaráðherra lagði meirihluti allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis til breytingartillögu sem féll vel að því markmiði að styrkja frekar staðbundna fjölmiðla og lýðræðislega umræðu á landsbyggðinni.

Aðrar breytingar sem frumvarp menningar- og viðskiptaráðherra hefur í för með sér felast í breyttri skipan úthlutunarnefndar og heimild til að afla álits sérfróðra aðila. Þá er í frumvarpinu lagt til nýtt ákvæði sem mælir fyrir um að aðrir opinberir styrkir sem umsækjandi hafi hlotið verði dregnir frá þeirri fjárhæð sem telst stuðningshæfur kostnaður. Undantekning er gerð í tilfelli styrkja úr byggðaáætlun.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta