Hoppa yfir valmynd
25. október 2024

Málefni flótta- og farandfólks í brennidepli

Að þessu sinni er fjallað um:

  • málefni flótta- og farandfólks
  • stöðu aðildarviðræðna við Moldóvu
  • reglugerð um varnir gegn eyðingu skóga

 

Málefni flótta- og farandfólks í brennidepli

Efnisyfirlit umfjöllunar:

  • Hægrisveifla og raunsæispólitík
  • Fundur leiðtogaráðs ESB
  • Bréf VdL til leiðtogaráðsins
  • Harðlínuhópurinn innan ráðsins
  • Ályktanir leiðtogaráðsins
  • Fundur ráðherra dóms- og innanríkismála innan Schengen-ráðsins

Hægrisveifla og raunsæispólitík

Óhætt er að segja að málefni flótta- og farandfólks hafi verið í brennidepli umræðunnar í Brussel á síðustu dögum eftir að leiðtogaráðið birti ályktanir sínar um stefnumótun í málaflokknum í síðustu viku sem almennt eru taldar fela í sér skýra viðhorfs- og stefnubreytingu frá því sem verið hefur.

Tæplega er unnt að velkjast í vafa um að uppgangur stjórnmálaflokka sem skilgreindir eru lengst til hægri á hinum pólitíska kompás eigi ríkan þátt í þeim viðhorfsbreytingum sem eru að eiga sér stað, sbr. meðal annars fylgisaukningu slíkra flokka í nýafstöðnum Evrópuþingskosningum. Í því samhengi er hins vegar athyglisvert að stefnubreytingin er alls ekki bundin við þau ríki þar sem slíkir flokkar hafa komist til beinna áhrifa eða valda heldur virðist viðhorfsbreytingin vera að eiga sér stað þvert á stjórnmálaflokka frá hægri til vinstri og staðfesta áðurnefndar ályktanir leiðtogaráðs ESB, sem samþykktar voru samhljóða af leiðtogum allra aðildarríkja ESB, það svo ekki verður um villst.

Hert stefna vinstri- og miðjuflokka og hófsamari hægriflokka í málaflokknum er þannig augljóst viðnám við þeirri miklu fylgisaukningu sem harðlínuflokkarnir lengst til hægri hafa notið á undanförnum misserum en ljóst þykir að sú fylgisaukning verður að stórum hluta rakin til harðrar stefnu þeirra í útlendingamálum. Stefnubreyting danska Jafnaðarmannaflokksins undir forystu Mette Frederiksen forsætisráðherra Danmerkur er ef til vill hvað skýrasta dæmið um framangreint en Danmörk er einmitt hluti af kjarna harðlínuhópsins innan leiðtogaráðsins sem beitir sér nú með samhentum hætti fyrir breytingum á stefnu ESB í þessum málaflokki, sbr. nánari umfjöllun hér að neðan.

Það eru þó ekki bara pólitískar hægri áherslur sem stýra þeim viðhorfsbreytingum sem eru að raungerast heldur stjórnast umræða um þessi mál ekki síður af raunsæispólitík. Kerfi margra aðildarríkja virðast einfaldlega vera komin að þolmörkum og áskoranir við inngildingu þeirra sem fá vernd í ríkjunum virðast stærri og umfangsmeiri en ríkin ráða við.

Er ljóst að málefni útlendinga og flótta- og farandfólks munu verða ofarlega á baugi á vettvangi ESB á komandi misserum.

Fundur leiðtogaráðs ESB

Eins og áður segir þá kom leiðtogaráð ESB saman til fundar í síðustu viku, þ.e.  17. október sl. Málefni Úkraínu, Moldóvu og Austurlanda nær voru meðal umræðuefna sem og samkeppnishæfni ESB. Hæst bar þó umræða um málefni flótta- og farandfólks og hafa ályktanir ráðsins í þeim efnum vakið mikla athygli eins og áður segir.

Á fundinum var kastljósið framar öðrum á forsætisráðherra Póllands, Donald Tusk, vegna nýlegra yfirlýsinga hans um að Pólland hygðist ekki veita fólki sem kæmi að landamærum þeirra að Rússlandi og Belarús rétt til að sækja um alþjóðlega vernd í ríkinu og fékk forsætisráðherrann, eins og nánar er vikið að hér að neðan, stuðning í ráðinu við þær fyrirhuguðu aðgerðir.

Bréf VdL til leiðtogaráðsins

Í aðdraganda leiðtogaráðsfundarins sendi forseti framkvæmdastjórnar ESB, Ursula von der Leyen (VdL), bréf til leiðtoga aðildarríkjanna þar sem hún fjallar um þá áfanga sem náðst hafa í málaflokkum með samþykkt hins svonefnda hælispakka ESB (e. Pact on Migration and Asylum) en fjallað var um löggjafarpakkann í Vaktinni 19. janúar sl. þegar samkomulag um efni hans lá fyrir, sbr. einnig umfjöllun í Vaktinni 28. júní sl. um sameiginlega innleiðingaráætlun á þeirri löggjöf.

Í bréfinu áréttar VdL að enda þótt samþykkt hælispakkans hafi falið í sér mikilsverða áfanga þá stæði ásetningur og umboð nýrrar tilvonandi framkvæmdastjórnar til þess að halda áfram á sömu braut, sbr. umfjöllun um stefnuáherslur VdL, stefnuáætlun leiðtogaráðsins og um niðurstöður Evrópuþingskosninganna í Vaktinni að undanförnu. Kemur fram í bréfinu að markmiðið sé að tryggja sanngjarna og staðfasta nálgun í útlendingamálum með sameiginlegar lausnir fyrir aðildaríkin að leiðarljósi. Kemur jafnframt fram í bréfinu að málefni flótta- og farandfólks verði á meðal helstu áherslumála af hálfu framkvæmdastjórnarinnar á komandi árum og er sérstaklega áréttað að málaflokkurinn sé þess eðlis að hann krefðist þess að ráðstafanir og regluverk séu í stöðugri endurskoðun. Eru í bréfinu lagðar til tíu aðgerðir í því sambandi.

Meðal annars er lagt til að innleiðingu á hælispakkanum, sem á að hrinda í framkvæmd á tveimur árum og vera lokið í júní 2026, verði flýtt eins og kostur er og jafnframt að ráðist verði að rót vandans með því að styrkja tengsl og samstarf við helstu upprunaríki og ríki sem flótta- og farandfólks ferðast um á leið sinni til aðildarríkja ESB. Þá er lögð til sameiginleg nálgun við framkvæmd brottvísunarákvarðana en samkvæmt fyrirliggjandi gögnum leiða einungis um 20% slíkra ákvarðana í ESB í reynd til endursendingar eins og staðan er nú. Í því samhengi er boðað í bréfinu að gildandi regluverk á þessu sviði, þ.e. brottvísunartilskipunin frá árinu 2008 (e. Return Directive) verði endurskoðuð m.a. til að skerpa á ákvæðum um samstarfsskyldur þeirra sem brottvísað er og hvernig bæta megi endursendingarferlið. Þá er sérstaklega nefnt að skerpa þurfi á heimildum til að brottvísa einstaklingum sem eru taldir ógn við allsherjarreglu og innra öryggi óháð því hvaðan þeir koma. Tilgreint er að huga þurfi að nýstárlegum lausnum til að koma í veg fyrir komu fólks í óreglulegri för til Evrópu, svo sem með því að endurskoða skilgreiningar á því hvað teljast örugg þriðju ríki og halda áfram könnun á möguleikum á því að koma upp endursendingarmiðstöðvum (e. return hubs) utan ESB. Aðrar aðgerðir snúa að því að nýta betur stefnu sambandsins um áritunarfrelsi og önnur skyld málefnasvið til þess að efla samstarf og auka samstarfsvilja þriðju ríkja við endurviðtöku á eigin ríkisborgurum og til að takast á við mansal og smygl á fólki. Þá eru lagðar til aðgerðir til að bregðast við fjölþáttahernaði (e. hybrid warfare) og til að takast á við þær áskoranir sem átökin í Austurlöndum nær hafa í för með sér. Loks er tiltekið að tryggja þurfi stöðu Úkraínumanna sem nú eru búsettir innan ESB á grundvelli sérreglna um tímabundna vernd vegna árásarstríðs Rússlands gagnvart Úkraínu.

Harðlínuhópurinn innan leiðtogaráðsins

Fyrir fund leiðtogaráðs ESB var efnt til sérstaks óformlegs fundar leiðtoga ESB-ríkja sem tilheyra svonefndum harðlínuríkjahópi innan leiðtogaráðsins í málefnum flótta- og farandfólks. Forsprakkar fundarins voru forsætisráðherra Ítalíu, Giorgia Meloni, forsætisráðherra Hollands, Dick Schoof, og forsætisráðherra Danmerkur, Mette Frederiksen, en auk þeirra sátu fundinn leiðtogar Austurríkis, Kýpur, Tékklands, Grikklands, Ungverjalands, Möltu, Póllands og Slóvakíu auk fulltrúa framkvæmdastjórnar ESB, þ. á m. Von der Leyen sjálf sem kynnti efnisatriði og tillögur sem settar eru fram í framangreindu bréfi sínu til leiðtogaráðsins. Á fundinum kynnti Meloni einnig samkomulag sem Ítalía hefur gert við Albaníu um móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd frá ríkjum sem Ítalía telur örugg auk þess sem leiðtogarnir ræddu inntak skilgreininga á því hvað gætu talist örugg þriðju ríki og um möguleika á uppsetningu endursendingarmiðstöðva. Var það niðurstaða fundarins að ríkin myndu halda áfram að starfa náið saman og samræma afstöðu sína í málaflokknum. Sjá einnig hér til hliðsjónar sameiginlegt bréf þessara ríkja til framkvæmdastjórnar ESB frá því í maí sl.

Ályktanir leiðtogaráðsins

Í umræddum ályktunum leiðtogaráðsins kemur fram að innan ráðsins hafi farið fram ítarleg umræða um hvert stefna skuli í málefnum flótta- og farandfólks. Áréttað er að koma fólks til aðildarríkja ESB í óreglulegri för sé sameiginleg áskorun ríkjanna sem þarfnist sameiginlegra viðbragða. Leiðtogaráðið vísar til fyrrgreinds bréfs VdL og áréttar mikilvægi þess að hraða og tryggja innleiðingu nýrrar löggjafar ESB á þessu sviði, sbr. tilvísun til umfjöllunar í Vaktinni um þá löggjöf hér að framan, og jafnframt að gildandi regluverki verði beitt með virkum hætti til að bregðast við áskorunum sem uppi eru. Þá sé brýnt að auka samstarf við uppruna- og gegnumferðarríki til að sporna gegn smygli á fólki og huga að öruggum og löglegum leiðum til að tryggja reglulega og skipulega fólksflutninga í samræmi við valdheimildir aðildarríkjanna. Auka þurfi skilvirkni endursendinga með þverfaglegri nálgun á öllum viðeigandi málefnasviðum. Leiðtogaráðið hvetur framkvæmdastjórnina til að leggja fram sem allra fyrst tillögur að endurskoðun brottvísunartilskipunarinnar. Lýst er samstöðu með Póllandi og öðrum aðildarríkjum sem hafa þurft að takast á við fjölþátta árásir af hálfu Rússlands og Hvíta-Rússlands sem ógni gildum ESB og grafi undan lýðræði innan aðildarríkja þess. Áréttað er að sérstakar aðstæður krefjist sérstakra ráðstafana. Tryggja þurfi ytri landamæri sambandsins með öllum ráðum í samræmi við reglur ESB og alþjóðalög og að sífellt þurfi að leita nýrra leiða til að lágmarka komu fólks til ESB í óreglulegri för. Þá ítrekar leiðtogaráðið skuldbindingu sína um að vinna gegn misnotkun á farandfólki í pólitískum tilgangi (e. instrumentalisation).

Fundur ráðherra dóms- og innanríkismála innan Schengen-ráðsins

Segja má að tónninn að hörðum ályktunum leiðtogaráðsins hafi verið sleginn á fundi ráðherra dóms- og innanríkismála innan Schengen-ráðsins sem fram fór í Lúxemborg 10. október sl., eða viku fyrir fund leiðtogaráðsins en Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra sótti fundinn fyrir Íslands hönd.

Formleg dagskrá ráðherrafundarins hófst með kynningu Ylvu Johansson núverandi framkvæmdastjóra málaflokksins í framkvæmdastjórn ESB á Schengen Barometer+, sem felur m.a. í sér tölfræðilegt yfirlit um stöðuna í málaflokknum innan Schengen-svæðisins. Yfirlitið er uppfært tvisvar á ári og er ætlað að varpa ljósi á atriði sem geta haft áhrif á svæðið í heild sinni og auka þannig möguleika framkvæmdastjórnarinnar og aðildaríkjanna til að bregðast við í tæka tíð og til að efla samráð og greina veikleika í kerfinu. Samhliða því voru tekin til umræðu helstu forgangsmál Schengen-ráðsins fyrir næsta ár (e. Schengen Council cycle 2024-2025). Rauði þráðurinn þar er að auka viðnámsþol ytri landamæra ESB (e. resilience of external borders) sem er talið grundvallaratriði til að viðhalda og tryggja frjálsa för innan svæðisins, þ.e. án eftirlits á innri landamærum aðildarríkjanna sem hefur mjög færst í vöxt en í dag eru átta ríki með slíkt tímabundið eftirlit.

Á fundinum kynnti innanríkisráðherra Þýskalands ástæður að baki því að Þýskaland tilkynnti nýlega um upptöku tímabundins eftirlits á innri landamærum sínum og er meginástæðan sem tilgreind er sú að þýsk stjórnvöld telja að ytri landamæri Schengen-svæðisins séu ekki nægilega sterk og að Þjóðverjar hefðu orðið fyrir verulegum áhrifum af komu fólks í óreglulegri för, þ. á m. í áframhaldandi för innan svæðisins (e. secondary movement) með þeim hætti að komið væri að þolmörkum, bæði við móttöku nýrra umsækjenda um alþjóðlega vernd og við inngildingu þeirra sem hlotið hafa vernd í Þýskalandi. Lykilatriði væri að ríkið hefði getu til að reka gott verndarkerfi fyrir fólk í raunverulegri neyð og var í því sambandi ítrekað mikilvægi þess að þeir sem ekki fá vernd sé gert að yfirgefa Schengen-svæðið sjálfviljugt en ella í fylgd lögreglu.

Framangreint innlegg Þýskalands setti tóninn fyrir það sem á eftir kom. Flest ríki ítrekuðu mikilvægi þess að betri stjórn yrði náð á ytri landamærum Schengen-svæðisins. Auka þyrfti samstarf við þriðju ríki, bæði uppruna- og gegnumferðarríki, bæta þyrfti innleiðingu mikilvægra upplýsingatæknikerfa, svo sem komu- og brottfararkerfið (e. Entry/Exit System) og auka skilvirkni endursendinga, þ. á m. að endurskoða brottvísunartilskipunina og huga að nýstárlegum lausnum við endursendingar. Í þessu skyni þyrfti m.a. að útvíkka valdsvið Landamæra- og strandgæslustofnunar Evrópu (e. Frontex) og efla Löggæslusamvinnustofnun ESB (e. Europol). Þá þyrfti að innleiða hælispakka ESB hratt og vel, einkum reglugerðina um forskoðun umsókna um alþjóðlega vernd á ytri landamærum Schengen-svæðisins (e. Screening Regulation), auka eftirlit með framkvæmd stefnu um áritunarfrelsi og bæta notkun aðildarríkjanna á Schengen-upplýsingakerfinu (e. Schengen Information System) og vegabréfsáritunarupplýsingakerfinu (e. Visa Information System) sem og að efla varnir gegn fjölþátta ógnum (e. hybrid threats) svo sem misnotkun á farandfólki í pólitískum tilgangi.

Eitt af aðalumræðuefnum ráðherrafundarins var hvernig finna mætti leiðir til að auka skilvirkni endursendinga en það er jafnframt eitt af lykilforgangsmálum ungversku formennskunnar, sbr. umfjöllun um formennskuáætlun þeirra í Vaktinni 28. júní sl., auk þess sem það er hluti af stefnuáherslum VdL fyrir nýja framkvæmdastjórn, sbr. umfjöllun um stefnuáherslur VdL í Vaktinni 26. júlí sl. Skilvirkt endursendingarkerfi hefur almennt verið talið lykilforsenda þess að unnt sé að reka trúverðuga fólksflutningastefnu í ESB og er endursendingarkerfið lykilþáttur í landamærastefnu sambandsins. Talið er að veruleg tækifæri séu til umbóta á því kerfi.

Almennt voru öll ríkin sammála um að það væri mikið forgangsmál að auka skilvirkni endursendinga. Ýmsar hindranir væru til staðar í gildandi kerfi og regluverki sem hefði áhrif á framkvæmd og skilvirkni. Ráðast þyrfti í endurskoðun brottvísunartilskipunarinnar en tillaga að endurskoðun þeirrar tilskipunar (e. Recast Return Directive), kom fram árið 2018 en hefur ekki náð fram að ganga. Mikilvægt væri að regluverkið endurspegli raunverulega stöðu í málaflokknum eins og hún er í dag en í því sambandi var m.a. vísað til þess að endurskoða þyrfti skilgreiningar á því hvað teldust örugg upprunaríki, og kveða skýrar á um samstarfsskyldur einstaklinga við brottvísun og hvaða afleiðingar það hafi ef viðkomandi sýnir ekki samstarfsvilja, hvenær vista megi einstaklinga í brottfararúrræði (e. detention center) og almennt að tryggja að ekki verði unnt að misnota verndarkerfið til að stöðva framkvæmd brottvísunarákvarðana. Þá var kallað eftir því að hugað yrði að nýstárlegum leiðum í þessum efnum, t.d. með fyrrgreindum endursendingarmiðstöðvum (e. return hubs) í öruggum þriðju ríkjum. Þá þyrfti að tryggja innleiðingu á reglugerð ESB um brottvísunarferli á ytri landamærum (e. Return Border Procedure Regulation), sem er hluti af hælispakkanum, sem talið er að muni hafa jákvæð áhrif og létta á þrýstingi á ytri landamærum svæðisins.

Ráðherrarnir áréttuðu jafnframt mikilvægi þess að bæta og nýta betur þau úrræði sem væru til staðar í gildandi regluverki. Þeir nefndu m.a. nauðsyn þess að beita þriðju ríki þrýstingi til að knýja á um betra samstarf við endurviðtöku á eigin ríkisborgurum m.a. með því að beita vegabréfsáritunarstefnu ESB og tengja saman stefnu í málefnum útlendinga við fleiri málefnasvið svo sem við viðskiptastefnu og þróunarsamvinnu. Þá fór fram umræða um öryggisógnir og endursendingar hættulegra einstaklinga.

Viðræður um aðild Moldóvu að ESB halda áfram eftir nauman sigur í þjóðaratkvæðagreiðslu

Í þjóðaratkvæðagreiðslu sem fram fór í Moldóvu síðastliðinn sunnudag var samþykkt að binda markmið um aðild að ESB í stjórnarskrá landsins með naumum meirihluta eða 50,4% atkvæða. Hart var tekist á í kosningabaráttunni en talið er að rússnesk stjórnvöld hafi reynt að hafa áhrif á niðurstöður hennar og hafa þau m.a. verið sökuð um að hafa borið fé á kjósendur gegn loforði um að þeir greiddu atkvæði gegn stjórnarskrárbreytinunni.

Viðræður Moldóvu um aðild að ESB munu því halda áfram í samræmi við framangreinda niðurstöðu. Viðræðurnar hófust formlega hinn 25. júní sl. og er stefnt að því að opna samningskafla sem varða réttarríkið, vernd mannréttinda og lýðræðislegt stjórnarfar á fyrri hluta næsta árs, þegar Pólland fer með formennsku í ráðherrarráði ESB. Núverandi ríkisstjórn Moldóvu hefur mjög metnaðarfull áform um framhald aðildarviðræðnanna og stefna þau að því að viðræður um þá kafla sem varða innri markaðinn og utanríkismál geti einnig hafist á næsta ári. Stefna stjórnvöld í Moldóvu að því að aðildarviðræðum geti verið lokið árið 2027.

Þjóðaratkvæðagreiðslan fór fram samhliða forsetakjöri í Moldóvu þar sem sitjandi forseti, sem jafnframt er eindregin stuðningsmaður ESB-aðildar, Maia Sandu, var í framboði og fékk hún um 42% atkvæða. Alexandr Stoianoglo, sem var andvígur tillögunni sem lögð var fyrir þjóðaratkvæði sl. sunnudag og er studdur af stjórnmálaflokki sem talinn er hallur undir stjórnvöld í Moskvu,, fékk næst flest atkvæði eða 26,1% og verður því kosið um þau tvö í seinni umferð forsetakjörsins sem fram fer sunnudaginn 3. nóvember nk.

Enda þótt núverandi forseti, Maia Sandu, hafi fengið afgerandi flest atkvæði í fyrri umferð, er hún þó ekki talin fyllilega örugg með sigur í seinni umferð. Tapi hún kosningunum er verulega óvíst um framgang aðildarumsóknar Moldóvu að ESB enda þótt framangreint markmið hafi verið fest í stjórnarskrá landsins. Flokkur Maiu Sandu, er nú með hreinan meirihluta á Moldóvska þinginu eða 62 þingmenn af 101 en þingkosningar fara fram í Moldóvu á næsta ári og mun það væntanlega ekki skýrast endanlega fyrr en þá hvort ríkið fetar brautina áfram í átt til aðildar að ESB eða ekki. Er óttast að rússnesk stjórnvöld muni, líkt og í nýafstaðinni þjóðaratkvæðagreiðslu, reyna að hafa áhrif niðurstöður seinni umferðar forsetakjörsins sem og á niðurstöður komandi þingkosninga á næsta ári.

Moldóva hefur fylgt Úkraínu í umsóknarferli sínu að ESB og eru taldar líkur á því að þessi lönd gangi í takt allt umsóknarferlið, þ.e. ef pólitísk öfl sem eru hlynnt aðild halda velli. Sjá nánar um stuðning ESB við Moldóvu og Úkraínu og framgang aðildarviðræðna við ríkin í Vaktinni 11. október sl.

Leiðarstef ESB gagnvart framtíðarstækkun sambandsins er hins vegar stækkun á grundvelli verðleika (e. „merit-based enlargement“). Í þessu felst að framvinda aðildarviðræðna við einstök umsóknarríki er háð því hversu vel þau eru í stakk búin til þess að uppfylla þær kröfur sem ESB gerir til aðildarríkja sinna. 

ESB hefur þannig tekið upp nýja nálgun í aðildarviðræðum þar sem vernd réttarríkisins, mannréttinda og lýðræðislegs stjórnarfars eru sett í öndvegi. Í þessari nálgun felst að samningsköflunum í viðræðunum er nú skipt í nokkra klasa og heyra samningskaflar sem varðar réttarríkið, sjálfstæði dómstóla, vernd mannréttinda og lýðræðislegt stjórnarfar undir einn klasa sem nefndur er grundvallarklasi. Samningskaflarnir sem falla undir þennan klasa eru þeir fyrstu sem opnaðir verða í viðræðunum en þeim verður líka lokað síðast.

Núverandi ríkisstjórn Moldóvu hefur þegar ráðist í umtalsverðar umbætur á stjórnkerfi og efnahagslífi landsins. Eigi að síður er það mat framkvæmdastjórnar ESB að enn sé mikið verk óunnið til að unnt sé að segja að ríkið sé í stakk búið til þess að takast á hendur fulla aðild að ESB og raunar er talið að lyfta þurfi Grettistaki í þeim efnum.

Framvinda aðildarviðræðnanna er því háð því að ríkisstjórn landsins haldi áfram umbótum á stjórnkerfi ríkisins og í efnahagsmálum. Ljóst er að til þess mun þurfa sterkan pólitískan stuðning og því mun önnur umferð forsetakosninganna hafa mikið um framhaldið að segja.

ESB hefur veitt Moldóvu talsverðan stuðning, þ.m.t. fjárhagsstuðning, til að koma þessum umbótum til framkvæmda. Nýjasti þátturinn í þeim stuðningi er svonefnd „hagvaxtaráætlun“ fyrir Moldóvu (e. Growth Plan) sem Ursula von der Leyen, kynnti hinn 10. október sl. í Chișinău, höfuðborg Moldóvu, á sameiginlegum blaðamannafundi hennar og Maiu Sandu, forseta Moldóvu. Í áætluninni felst m.a. að ESB mun veita 1,8 milljörðum evra á næstu þremur árum til að styrkja efnahag landsins, m.a. til að standa undir uppbyggingu samgöngumannvirkja, efla orkuöryggi með því að styrkja uppbyggingu raforkunetsins, uppbyggingu tveggja nýrra sjúkrahúsa, fjármögnun á uppbyggingu á ljósleiðarkerfi og framlög til að auðvelda fyrirtækjum í landinu að nálgast lánsfjármagn og fjárhagsstuðning. Fjárhagsstuðningur ESB til Moldóvu er hins vegar háður því skilyrði að stjórnvöld þar í landi haldi áfram að hrinda nauðsynlegum efnahags- og stjórnarfarsumbótum í framkvæmd. 

Þau lönd sem álitið er að komin séu lengst í aðildarviðræðunum við ESB um þessar mundir eru Svartfjallaland og Albanía. Moldóva og Úkraína koma þar á eftir, auk Norður-Makedóníu.

Almennt er á hinn bóginn litið svo á að framgangur aðildarumsóknar Georgíu hafi stöðvast fyrr á árinu þegar þing landsins samþykkti umdeild lög sem þykja sniðin af sambærilegum lögum í Rússlandi sem talin eru takmarka verulega starfsemi frjálsra félagasamtaka í landinu og frelsi fjölmiðla, sbr. einnig nýlega löggjöf sem talin er beinast gegn hinsegin fólki. Þingkosningar verða í Georgíu á morgun, laugardag, og verður áhugavert að sjá niðurstöður þeirra kosninga. Stærsti flokkur landsins, Georgíski draumurinn, sem er nú með 74 þingmenn af 150 eða rétt tæpan helming þingmanna, myndar meirihluta á georgíska þinginu með stuðningi tveggja annarra flokka, People‘s Power sem eru með 9 þingmenn og European Socialists sem eru með 4 þingmenn. Georgía sótti um aðild að ESB árið 2022 undir forystu núverandi stjórnvalda en stjórnarandstaðan í landinu er þó í reynd talin mun meira fylgjandi ESB aðild landsins en stjórnarflokkarnir.

Reglugerð um varnir gegn eyðingu skóga

Í maí í fyrra samþykkti ESB reglugerð um varnir gegn eyðingu skóga (e. deforestation regulation). Með reglugerðinni eru settar hömlur á markaðsetningu vara á innri markaðnum ef álitið er að hráefnið í vörurnar komi frá ræktunarlandi sem áður var skógi vaxið en hefur verið rutt. Kemur reglugerðin í staðinn fyrir eldri gerð sama eðlis sem þó náði aðeins til viðskipta með timbur.

Skógar þekja nú um 30% alls landsvæðis á jörðinni en sú hlutfallstala fer sífellt minnkandi sem er sérstakt áhyggjuefni enda er mikilvægi skóga í vistkerfi jarðarinnar og í loftlagsmálum almennt talið gríðarlega mikilvægt. Þannig er talið að skógar hýsi um 80% af líffræðilegum fjölbreytileika sem finnst á landi. Í mörgum löndum hafa skógar verið ruddir til að búa til ræktunarland án þess að hugað hafi verið að mikilvægi þeirra fyrir loftslagið og líffræðilegan fjölbreytileika. Markmið ESB er að sporna við þessari þróun með vogarafli markaðarins.

Eins og áður segir náði eldri reglugerð sambandsins einungis til viðskipta með timbur en með nýrri reglugerð er öðrum ræktuðum landbúnaðarvörum s.s. nautakjöti, kakói, kaffi, pálmaolíu, gúmmíi, sojabaunum og afleiddum vörum bætt við.

Þessi gerð kallar á viðbrögð aðila sem markaðssetja ofangreindar vörur á innri markaðinum, og er m.a. gerð krafa um áreiðanleikakönnun fyrir hverja vöru í ofangreindum vöruflokkum sem sannar að hún sé ekki ræktuð á landi þar sem skógur hefur verið ruddur samkvæmt nánari skilgreiningum.

Gerðin er að meginstefnu til talin falla undir EES-samninginn og er hún nú í upptökuferli. Vegna umfangs gerðarinnar og nauðsynlegs undirbúnings allra aðila sem málið varðar hefur nú verið á ákveðið að fresta gildistöku gerðarinnar innan ESB um eitt ár frá því sem upphaflega var áætlað, en gerðin átti að taka gildi nú í árslok fyrir stærri fyrirtæki og 30. júní 2025 fyrir minni fyrirtæki, en nú er áætlað að gerðin taki gildi í árslok 2025 fyrir stærri fyrirtæki og 30. júní 2026 fyrir minni fyrirtæki. Þá hefur ESB birt sérstakar leiðbeiningar fyrir aðildarríkin og þriðju ríki og aðra hlutaðeigandi aðila um væntanlega framkvæmd löggjafarinnar.

***

Brussel-vaktin, fréttabréf sendinefndar Íslands gagnvart Evrópusambandinu, er gefið út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins, í samræmi við samþykkta ritstjórnarstefnu.

Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra. Leiðréttingar, ábendingar og athugasemdir sendist til ritstjóra Vaktarinnar, Ágústs Geirs Ágústssonar, á netfangið [email protected].

Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta