Listir og skapandi greinar ræddar í London
„Það er virkilega áhugavert að kynna sér það fyrirkomulag sem bresk stjórnvöld hafa komið á til að efla listir og skapandi greinar, til dæmis þegar kemur að skattalegu umhverfi og stefnumótun til framtíðar. Skapandi greinar hafa, líkt og á Íslandi, verið í mikilli sókn í Bretlandi undanfarinn áratug. Bresk stjórnvöld eru mjög meðvituð um mikilvægi skapandi greina, og hugvits- og tæknigreina, fyrir hagkerfi framtíðarinnar og eru áhugasöm um aukið samstarf við okkur á því sviði,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á að efla listir og skapandi greinar sem vaxandi atvinnuveg hér á landi. Málefni þeirra snerta með beinum hætti sex ráðuneyti en mennta- og menningarmálaráðherra leiðir þau innan ríkisstjórnarinnar.