Jafnræði og þörf ræður úthlutun hjúkrunarrýma
Faglegt mat á svæðisbundinni þörf fyrir fjölgun hjúkrunarrýma, jafnræði og aðstæður til þess að reka slík rými ráða ákvörðunum velferðarráðuneytisins um úthlutun þeirra. Velferðarráðuneytið vekur athygli á eftirfarandi staðreyndum í kjölfar umræðu um hjúkrunarrými á Suðurlandi.
Velferðarráðuneytið ákvað fyrr á þessu ári að færa ónýttar rekstrarheimildir fjögurra hjúkrunarrýma frá Kumbaravogi til heimila þar sem fyrir væru aðstæður til að fjölga rýmum og jafnframt þörf fyrir fjölgun. Ráðuneytið hefur að undanförnu unnið að því að koma vannýttum hjúkrunarrýmum víða um land í notkun þar sem þeirra er þörf. Samhliða hefur verið unnið að því að ráðstafa um 200 milljónum króna til eflingar öldrunarþjónustu í samræmi við ákvörðun Alþingis sem fól í sér aukna fjárveitingu í þessu skyni. Meðal annars var ákveðið að fjölga dagdvalarrýmum í Ölfusi um tvö til að efla þar þjónustu við aldraða en ekkert hjúkrunarheimili er í sveitarfélaginu.
Ráðuneytið hefur lagt áherslu á að tryggja sem besta nýtingu aukafjárveitingar Alþingis og þeirra rýma sem hefur verið endurúthlutað þannig að sem mest mið sé tekið af staðbundnum þörfum. Jafnframt verður að vera fyrir hendi húsnæði sem uppfyllir kröfur til reksturs hjúkrunarrýma og geta til að veita faglega þjónustu.
Árið 2013 voru 250 hjúkrunarrými fyrir hverja 1.000 íbúa 80 ára og eldri á Suðurlandi. Á sama tíma var þetta hlutfall 197 rými á höfuðborgarsvæðinu, 195 rými á Vestfjörðum og 227 rými á Norðurlandi. Velferðarráðuneytið áætlaði árið 2013 þörf fyrir hjúkrunarrými á einstökum landsvæðum og samkvæmt því voru hjúkrunarrými á Suðurlandi 11 fleiri en nemur áætlaðri þörf. Þar sem komið hefur fram óánægja bæjaryfirvalda í Hveragerði með að rýmum hafi ekki verið fjölgað við hjúkrunarheimilið í Ási þegar rýmum frá Kumbaravogi var endurúthlutað, bendir ráðuneytið á að í febrúar var aðeins einn einstaklingur á biðlista eftir hjúkrunarrými í Ási. Þess ber líka að geta að húsnæðið sem þar er fyrir hendi hentar ekki til að taka við fleiri hjúkrunarrýmum miðað við faglegar kröfur ráðuneytisins.
Forgangsröðun með heildarhagsmuni að leiðarljósi
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segir eitt af mikilvægum verkefnum ráðuneytisins á sviði stofnanaþjónustu aldraðra að jafna aðstæður milli landshluta: „Það er verulegur munur á aðgengi aldraðra að hjúkrunar- dvalar- og dagdvalarrýmum eftir búsetu. Staðan á Suðurlandi er með því besta sem gerist. Velferðarráðuneytið er ráðuneyti allra landsmanna og þarf að forgangsraða fjármunum til öldrunarþjónustu með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi.“