Hoppa yfir valmynd
22. febrúar 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Skipun stýrihóps um heildstæðar úrbætur að því er varðar kynferðislegt ofbeldi

Stattu með þér - mynd
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, hefur skipað stýrihóp um heildstæðar úrbætur að því er varðar kynferðislegt ofbeldi. Meginhlutverk hópsins er að beita sér fyrir framsæknum og samhæfðum aðgerðum stjórnvalda gegn kynferðislegu ofbeldi og kynferðislegri og kynbundinni áreitni og að Ísland sé í fremstu röð í baráttunni gegn hvers kyns kynbundnu ofbeldi.

Viðfangsefni stýrihópsins verður meðal annars að gera tillögur um útfærslu á aðgerðum sem kveðið er á um í nýrri aðgerðaáætlun um úrbætur í meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins og taka afstöðu til frekari úrbóta. Einnig skal stýrihópurinn fylgjast með framkvæmd áætlunarinnar og beita sér fyrir fullnægjandi fjármögnun hennar. Þá mun stýrihópurinn beita sér fyrir fullgildingu samnings Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi (Istanbúl-samningsins) og gera tillögu um samræmd viðbrögð stjórnvalda við #metoo-byltingunni, bæði er lýtur að samfélaginu í heild og að Stjórnarráðinu og stofnunum þess sem vinnuveitanda. Loks er hópnum falið að móta stefnu um aðgerðir gegn stafrænu kynferðisofbeldi.

Stýrihópurinn mun vera forsætisráðherra og ráðherranefnd um jafnréttismál til ráðgjafar í stefnumótun er lýtur að kynferðislegu ofbeldi, kynbundnu ofbeldi og kynferðislegri áreitni í íslensku samfélagi og jafnframt er gert ráð fyrir að allt að 5 milljónum kr. verði varið í sérstök forgangsverkefni sem stýrihópurinn mun vinna að á þessu ári.

Formaður hópsins er Halla Gunnarsdóttir, fulltrúi forsætisráðuneytis, en auk hennar eiga sæti í stýrihópnum fulltrúar dómsmálaráðuneytis, velferðarráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis og utanríkisráðuneytis.

Gert er ráð fyrir að hópurinn skili verkáætlun til þriggja ára, ásamt yfirliti yfir stöðu verkefnanna og eftir atvikum tillögum um úrbætur og verkefni, til ráðherranefndar um jafnréttismál, eigi síðar en 1. september nk.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta