Drög að reglugerð um lofthæfi- og umhverfisvottun loftfara og framleiðslufyrirtækja til umsagnar
Til umsagnar eru drög að reglugerð um lofthæfi- og umhverfisvottun loftfara og tilheyrandi framleiðsluvara, hluta og búnaðar og vottun hönnunar- og framleiðslufyrirtækja. Umsagnarfrestur er til 10. apríl næstkomandi og skulu umsagnir sendar á netfangið [email protected].
Reglugerðardrögin eru um lofthæfi- og umhverfisvottun loftfara og tilheyrandi framleiðsluvara, hluta og búnaðar og vottun hönnunar- og framleiðslufyrirtækja en reglugerðin mun koma í stað reglugerðar nr. 205/2007 sama heitis.
Reglugerðin innleiðir reglugerð framkvæmdastjórnarinnar nr. 748/2012 frá 3. ágúst 2012 um framkvæmdareglur varðandi lofthæfi- og umhverfisvottun loftfara og tilheyrandi framleiðsluvara, hluta og búnaðar og varðandi vottun hönnunar- og framleiðslufyrirtækja en hún afnemur Evrópureglugerð nr. 1702/2003 sama heitis sem innleidd var í íslenskan rétt með reglugerð nr. 205/2007. Reglugerð EB nr. 1702/2003 hefur verið breytt verulega nokkrum sinnum og þar sem fyrirhugaðar eru enn frekari breytingar var ákveðið að afnema hana og gefa út í heild að nýju.
Efnislegar breytingar sem reglugerðin felur í sér eru m.a. gerðar á 21. hluta í viðauka við reglugerðina og hefur fyrst og fremst áhrif á eigendur/umráðendur í almannaflugi. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 2042/2003 hefur nú þegar verið breytt með reglugerð ESB nr. 593/2012 til að viðhalda samræmi. Breytingin tekur m.a. til eftirtalinna atriða:
- Einfaldað og samræmdara vottunarferli fyrir evrópsk létt loftför (ELA) er innleitt. Umsækjandi um tegundarvottun fyrir ELA1 loftfar (t.d. flugvélar undir 1.200 kg) getur notast við vottunaráætlun til að sýna fram á hönnunarhæfni. Þetta leysir smærri fyrirtæki undan því að þurfa að ganga í gegnum erfitt og tímafrekt stjórnsýsluferli sem fylgir því að fá samþykki hönnunarfyrirtækis (e. Design Organisation Approval, DOA), og þurfa á sama tíma að ganga í gegnum vottunarferlið. Þessi breyting verður til hagsbóta fyrir nýja umsækjendur um tegundarvottorð ELA1 loftfars.
- Hugtakið ,,Staðlaðar breytingar og staðlaðar viðgerðir” er innleitt. Hið nýja hugtak leysir málsaðila undan því að þurfa að ganga í gegnum ferli hönnunarsamþykkis fyrir breytingar og viðgerðir sem teljast í raun staðlaðar. Þess vegna verður listi yfir staðlaðar breytingar og viðgerðir í nýrri vottunarforskrift (e. Certification Specification, CS). Hið nýja hugtak léttir stjórnsýslulegar byrðar en mun á sama tíma viðhalda háu öryggisstigi. Þessi regla gæti verið til hagsbóta fyrir alla eigendur/rekstraraðila smærri loftfara og mun því hafa veruleg áhrif hér á landi til hins betra fyrir eigendur/umráðendur ELA loftfara.
Samkvæmt gildandi reglum er EASA Eyðublað 1 forsenda uppsetningar allra nýrra íhluta á loftfari. Hins vegar eru sumir íhlutir og búnaður á ELA loftfari framleiddir innan greina sem heyra ekki undir eftirlit flugmálayfirvalda. Þessir framleiðendur, sem heyra ekki undir eftirlit flugmálayfirvalda, geta ekki afhent þessa íhluti með EASA Eyðublaði 1. Þetta er ekki tiltökumál þegar um er að ræða ný loftför, því þá heyrir samþykki á þessum íhlutum undir samþykkta framleiðslustofnun framleiðanda loftfarsins. Hins vegar eru nýir íhlutir vanalega fengnir beint frá viðkomandi veitu. Til að uppfylla skyldur EASA Eyðublaðs 1 mun engu að síður þurfa að afhenda þessa íhluti í gegnum samþykkt framleiðslufyrirtæki þar sem aukið vægi þeirra er ekki alltaf fyrirsjáanlegt. Breytingin innleiðir þann möguleika fyrir eigendur ELA loftfars að samþykkja ákveðna íhluti sem eru ekki krítískir út frá öryggissjónarmiði til uppsetningar án EASA Eyðublaðs 1. Þessari breytingu er ætlað að létta stjórnsýslulegar byrðar svo þær séu í samræmi við öryggisáhættu og mun því hafa veruleg áhrif hér á landi til hins betra fyrir eigendur/umráðendur ELA loftfara.