Mál nr. 7/2011
Úrskurður kærunefndar jafnréttismála
A
gegn
Akureyrarbæ
Ráðning í starf. Hæfnismat.
Akureyrarbær auglýsti í júní 2011 laust til umsóknar starf ráðgjafa hjá búsetudeild bæjarins. Kærandi, sem er karl, taldi að brotið hefði verið gegn jafnréttislögum með því að ráða konu í starfið en hann taldi sig vera hæfari eða að minnsta kosti jafn hæfan og kona sem ráðin var. Akureyrarbær taldi hins vegar að konan hefði verið hæfasti umsækjandinn á grundvelli reynslu og persónulegra eiginleika. Kærunefnd jafnréttismála komst að þeirri niðurstöðu að kærandi hefði bæði meiri menntun og starfsreynslu en sú sem ráðin var. Í ljósi þeirrar niðurstöðu hvíldi það á kærða að leiða líkur að því að kæranda hafi ekki verið mismunað á grundvelli kynferðis. Taldi nefndin ekki nægilega fram komið að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun um ráðningu í starfið. Akureyrarbær taldist því hafa brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, við ráðningu í starf ráðgjafa búsetudeildar Akureyrarbæjar.
- Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 22. desember 2011 er tekið fyrir mál nr. 7/2011 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
- Með kæru, dagsettri 10. ágúst 2011, kærði kærandi, A, ákvörðun Akureyrarbæjar um að ráða konu í 80% starf ráðgjafa við Ráðgjöfina heim hjá búsetudeild bæjarins. Kærandi telur að með ráðningunni hafi kærði brotið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008.
- Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi dagsettu 15. ágúst 2011. Kærði óskaði eftir fresti til að skila greinargerð og var frestur veittur til 7. september 2011, þann dag barst greinargerð ásamt gögnum sem kynnt voru kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 8. september 2011.
- Kærandi kom frekari athugasemdum á framfæri með bréfi, dagsettu 20. september 2011. Kærða var með bréfi kærunefndar, dagsettu 26. september 2011, gefinn kostur á að gera athugasemdir við bréf kæranda. Kærði skilaði inn athugasemdum 10. október 2011.
- Þann 10. nóvember 2011 var haldinn fjarfundur með fulltrúum kærða auk þess sem lögmaður kærða afhenti frekari gögn. Kæranda var í kjölfarið gefinn kostur á að gera athugasemdir við fundargerð fundarins og framkomin gögn og bárust athugasemdir hans þann 8. desember 2011.
- Fjarfundur var einnig haldinn með kæranda, þann 18. nóvember 2011. Fundargerð fundarins var send kærða og bárust athugasemdir kærða vegna hennar þann 8. desember 2011.
- Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram á nefndum fundum með málsaðilum, í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála.
MÁLAVEXTIR - Kærði í máli þessu, Akureyrarbær, auglýsti 80% starf ráðgjafa við Ráðgjöfina heim hjá búsetudeild bæjarins laust til umsóknar í júní 2011. Kærandi var einn af 32 einstaklingum sem sóttu um starfið. Að lokinni yfirferð umsókna og ferilskráa voru þrír umsækjendur sem best þóttu uppfylla hæfniskröfurnar boðaðir í viðtöl og var kærandi á meðal þeirra. Að loknum viðtölum og yfirferð allra gagna var niðurstaðan sú að bjóða konu starfið sem hún þáði.
- Kærandi óskaði eftir rökstuðningi vegna ráðningarinnar með tölvupósti 6. júlí 2011. Kærði sendi kæranda rökstuðninginn í bréfi dagsettu 19. júlí 2011.
SJÓNARMIÐ KÆRANDA - Kærandi bendir á að í rökstuðningi kærða komi fram meðal annars að sú sem ráðin var uppfylli þær kröfur sem fram komu í auglýsingu um starfið. Þegar menntun og reynsla hennar hafi verið virt, hafi það verið mat forstöðumanns búsetudeildar að sú reynsla sem hún hafi aflað sér með afleysingastarfi við Ráðgjöfina heim í rúmt ár í 80% starfi hafi gert hana að hæfasta umsækjandanum.
- Kærandi bendir á að hvergi sé gerð fullnægjandi grein fyrir því að sú sem ráðin var sé hæfari en hann. Kærandi nefnir að hann hafi meiri menntun en sú sem ráðin var. Hann sé með próf í félagsráðgjöf frá Sosialhøgskolen í Stavanger, Noregi, og starfsleyfi sem félagsráðgjafi á Íslandi ásamt meistaragráðu í endurhæfingarráðgjöf. Einnig hafi kærandi mun lengri og víðtækari starfsreynslu, meðal annars við ráðgjöf.
- Að mati kæranda hefur ekki verið sýnt fram á að sú sem ráðin var sé hæfari en hann og hann líti þannig á að þegar þeir þættir, sem tilgreindir hafi verið í auglýsingu fyrir starfið, séu metnir sé kærandi a.m.k. jafn hæfur þeirri sem ráðin var.
- Kærandi telur að jafnréttisstefna kærða hafi verið sniðgengin og lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, hafi verið brotin því talsverður kynjahalli sé hjá kærða og halli þar á karla.
SJÓNARMIÐ AKUREYRARBÆJAR - Kærði rekur að í auglýsingu fyrir umrætt starf hafi komið fram að óskað væri eftir starfsmanni með háskólamenntun í iðjuþjálfunarfræði, félagsráðgjöf eða sálfræði. Einnig hafi komið fram að reynsla af starfi með fötluðum væri kostur en ekki skilyrði. Varðandi persónuhæfni hafi verið tekið fram að viðkomandi starfsmaður þyrfti að vera lipur og jákvæður í mannlegum samskiptum, vandvirkur, samviskusamur og þagmælskur, vera sveigjanlegur vegna mismunandi þarfa þeirra einstaklinga sem verið er að þjónusta og sýna frumkvæði, samvinnuhæfni og sjálfstæði í starfi.
- Þá hafi komið fram í auglýsingunni að starfsmaður þurfi að hafa jákvætt viðhorf til fólks með fötlun og réttinda þess, bera virðingu fyrir þeim einstaklingi sem hann sé að þjónusta, sérkennum hans, réttindum og skoðunum. Einnig að bera virðingu fyrir heimili og fjölskylduaðstæðum notenda og hafa áhuga á að leggja sitt af mörkum til að bæta þjónustuna og auka lífsgæði hlutaðeigandi einstaklinga. Helstu verkefni væru margvísleg ráðgjöf eða aðstoð við notendur sem lúti að þeirra daglega lífi, félagslegur stuðningur og samstarf við aðra þjónustuaðila. Einnig hafi verið tiltekið í auglýsingunni að tekið yrði tillit til samþykktar bæjarstjórnar um jafnréttismál við ráðningu í starfið.
- Kærði bendir á að þegar yfirferð umsókna og ferilskráa hafi verið lokið hafi þrír umsækjendur sem best hafi þótt uppfylla hæfniskröfurnar verið boðaðir í viðtöl og hafi kærandi verið á meðal þeirra. Að loknum viðtölum og vandlegri yfirferð allra gagna hafi niðurstaðan verið sú að bjóða konu starfið sem hún þáði.
- Sú sem ráðin var sé menntaður iðjuþjálfi frá Háskólanum á Akureyri. Ráðning hennar hafi byggst meðal annars á því að hún uppfyllti allar hæfniskröfur sem settar hafi verið fram í auglýsingunni um starfið. Þegar menntun og reynsla hennar hafi verið virt hafi það verið mat kærða að sú reynsla sem hún hefði aflað sér með afleysingastarfi í Ráðgjöfinni heim í rúmt ár, frá mars 2009 til apríl 2010 í 80% starfi, gerði hana að hæfasta umsækjandanum. Á þeim tíma hafi hún sýnt lipurð og jákvæðni í mannlegum samskiptum, verið vandvirk, vinnusöm, sveigjanleg og sýnt mikla samvinnuhæfni.
- Kærði bendir á að sú sem ráðin var hafi virkað mjög örugg í starfsviðtalinu og verið mjög glaðleg. Hún hafi svarað öllum spurningum af yfirvegun. Hún hafi getað nefnt styrkleika, veikleika og sína kosti sem starfsmaður. Hún hafi nefnt hugmyndir um þróun starfsins og framtíðarsýn. Aftur á móti hafi kærandi ekki getað nefnt ókosti sína sem starfsmaður, hafi sagt að það væri annarra að meta. Hann hafi talað mikið um menntun sína og reynslu og lítið sagt frá persónulegum eiginleikum. Hann hafi átt erfitt með að koma fram með nýjar hugmyndir um starfið og hafi greinilega fundist sumar spurningar vera óþarfar. Hann hafi áður unnið við starfið og þekkt það.
- Kærði bendir á að meginreglan sé sú að við ráðningar skuli ráða hæfasta einstaklinginn en komi upp sú staða að velja þurfi á milli jafn hæfra umsækjenda af gagnstæðu kyni þá skuli sá ráðinn sem sé af því kyni sem sé í minnihluta í viðkomandi starfsgrein. Jafnréttisstefnu kærða sé ætlað að vera stuðningur og aðhald fyrir þá sem sjái um ráðningar bæjarins svo ávallt sé ljóst hvaða störf skuli höfð til hliðsjónar við mat á kynjahlutfalli.
- Að mæti kærða hafi verið upplýst og lögð fram gögn um umsóknarferlið, umsækjendur og upplýsingar um hvernig samanburði á umsækjendum hafi verið háttað. Að mati bæjarins sé ljóst að úrvinnsla umsókna með tilliti til hæfileika hvers umsækjanda hafi farið fram með faglegum hætti. Hæfustu umsækjendurnir hafi verið kallaðir í viðtal og bærinn sett niður fyrir sér hvaða eiginleika sá sem ráðinn var hefði umfram aðra umsækjendur. Allt séu þetta atriði sem verði að gera kröfu til atvinnurekanda um að geta rökstutt sé eftir því leitað. Það telji kærði sig hafa gert með fullnægjandi hætti í máli þessu.
- Kærði telur að kærandi hafi ekki verið jafn hæfur þeirri sem ráðin var miðað við þau sjónarmið sem leggja á til grundvallar, sbr. 4. mgr. 26. gr. jafnréttislaga. Kærði bendir á að hún og kærandi hafi bæði gegnt auglýstu starfi í afleysingum. Sú sem ráðin var hafi gegnt 80% starfi í 13 mánuði en kærandi í 60% starfi í níu mánuði. Því hafi verið fyrir hendi töluverð reynsla af störfum þeirra beggja sem hafi vegið þungt í mati á hæfni þeirra til að takast á við starfið. Hafi það verið mat yfirmanna búsetudeildar að sú sem ráðin var hefði ræktað starf sitt betur en kærandi og lagt sig meira fram í vinnu auk þess sem hún hafi átt góð samskipti við helstu samstarfsaðila og þjónustuþega.
- Hvað varðar kæranda hafi hann verið ráðinn í afleysingar hjá búsetudeildinni í ágúst 2010 en þá hafi komið fram hjá umsagnaraðilum að hann ætti sögu um samskiptavanda á vinnustöðum. Þrátt fyrir þetta hafi verið ákveðið að ráða hann í afleysingastarfið. Við starfslok kæranda í maí 2011 hafi ýmislegt komið í ljós sem betur hefði mátt fara í störfum hans. Í fyrsta lagi hafi hann ekki sinnt dagálaskrifum og skráningu gagna með fullnægjandi hætti en slík skráning sé nauðsynlegur þáttur í starfinu. Í öðru lagi hafi nokkrir þjónustuþegar látið vita af því eftir að kærandi hætti störfum að hann hefði ekki sinnt ýmsum hagnýtum verkum sem þeir hafi þurft aðstoð við og sé mikilvægur hluti af starfinu. Í þriðja lagi hafi verið um samskiptavanda að ræða og hafi nokkrir starfsmenn búsetudeildar lýst því yfir að þeir treysti sér ekki til að vinna til framtíðar með kæranda.
- Kærði byggir á því að kynferði kæranda hafi ekki haft þýðingu við ákvörðun um ráðningu í starfið og hafi því ekki verið um brot á jafnréttislögum að ræða. Í ljósi heildstæðs mat á öllum umsækjendum hafi kærði talið þá sem starfið hlaut hæfasta umsækjandann og því hafi hún verið ráðin.
- Kærði mótmælir því að kæranda hafi ekki verið gerð fullnægjandi grein fyrir ráðningunni og á hverju hún byggði og því hvernig sú sem ráðin var teldist hæfari en hann, og vísar til rökstuðnings bæjarins fyrir ráðningunni í þessu sambandi.
- Kærði fjallaði um röksemdir kæranda um að jafnréttisstefna kærða hafi verið sniðgengin og jafnréttislög brotin og um ummæli hans um kynjahalla. Kærði bendir á að þrátt fyrir mikinn vilja innan búsetudeildarinnar til að ráða karlmann í starfið hafi verið talið best að ráða hæfasta umsækjandann, enda sé það fyrst ef tveir jafn hæfir einstaklingar af hvoru kyni sæki um sem kynjasjónarmiðin komi til skoðunar.
- Þá bendir kærði á að því hafi aldrei verið haldið fram að sú sem ráðin var hefði meiri menntun eða reynslu en kærandi. Aðalatriðið sé að hún hafi bæði haft þá menntun sem óskað var eftir í auglýsingu um starfið og reynslu. Því til viðbótar hafi hún haft mjög góða persónuhæfni. Samanlagt hafi þetta gert það að verkum að sú sem ráðin var hafi verið metin hæfasti umsækjandinn um starfið.
- Með vísan til framangreinds telur kærði að ákvörðun um ráðninguna hafi byggst á hlutlægum og málefnalegum sjónarmiðum þar sem eiginleikar og hæfileikar þess umsækjanda sem ráðin var, umfram aðra umsækjendur, hafi legið til grundvallar. Ráðningin hafi því hvorki brotið gegn jafnréttislögum né öðrum lögum með nokkrum hætti.
ATHUGASEMDIR KÆRANDA - Kærandi vísar til minnispunkta frá ráðningarviðtölum og telur þar koma fram huglægar athugasemdir sem byggist fremur á hugmyndum vinkvenna hver um aðra en á faglegri hlutlægni. Nefnir kærandi meðal annars að hann hafi verið sagður ekki geta nefnt ókosti sína sem starfsmanns, ekki hafa deilt með viðmælendum persónulegum eiginleikum og hafa átt erfitt með að koma með hugmyndir að nýjungum varðandi starfið. Í því samhengi bendir kærandi á að hann hafi um það bil níu mánuðum áður rætt við forstöðumann heimaþjónustu kærða og félagsráðgjafa hjá búsetudeild, áður en hann byrjaði í umræddu afleysingastarfi, og farið gegnum sömu þætti og voru aftur bornir upp nú. Í starfsviðtalinu hafi kærandi talið að ókostir væru ekki margir, einfaldlega vegna þess að hann taldi sig hafa starfið ágætlega á valdi sínu auk þess að hafa endurtekið fengið endurgjöf þess efnis frá samstarfsfólki og samstarfsstofnunum meðan hann sinnti starfinu. Þá gerir kærandi frekari athugasemdir við það sem fram kemur í minnispunktum en þar sé að ýmsu leyti óljóst við hvað sé átt.
- Einnig gerir kærandi athugasemd við það að fullyrt hafi verið að hann hafi ekki sinnt starfinu með fullnægjandi hætti og mótmælir því sem röngu, auk þess hafi verið bætt úr aðfinnslum forstöðumanns heimaþjónustunnar. Þá lýsir kærandi því hvernig starfið hafi farið fram og við hvaða aðferðir hann hafi notast.
- Varðandi athugasemd kærða þess efnis að nokkrir starfsmenn fjölskyldudeildar hafi lýst því yfir að þeir treysti sér illa til frekari samvinnu við kæranda telur hann að sú fullyrðing sé órökstudd.
- Þá hafi engar af þeim ávirðingum sem bornar séu á kæranda í greinargerð kærða komið fram á afleysingatíma hans við Ráðgjöfina heim. Hefði hann vitað af þessu hefði hann reynt að kanna hverju sætti, bera hönd fyrir höfuð sér eða einfaldlega aldrei sótt um umrætt starf.
- Að lokum getur kærandi þess að félagsráðgjafi búsetudeildar hafi hvatt hann til að sækja um starfið. Einnig bendir kærandi á að hvergi hafi verið sýnt fram á af hálfu kærða að sú sem ráðin var hafi verið hæfari en kærandi.
ATHUGASEMDIR AKUREYRARBÆJAR - Kærði bendir á að í ráðningarviðtölum hafi verið lagðar sömu spurningar fyrir þá þrjá umsækjendur sem helst komu til greina í starfið og þeir starfsmenn kærða sem tóku viðtalið hafi gætt fyllsta hlutleysis við framkvæmd þess. Ekki hafi verið spurt út í menntun og reynslu enda hafi það legið fyrir í umsóknargögnum. Því sé með öllu vísað á bug að ekki hafi verið faglega staðið að viðtölunum og að um hugmyndir vinkvenna hver um aðra hafi verið að ræða. Að mati kærða séu athugasemdir kæranda með öllu tilhæfulausar og segi í raun töluvert um kæranda og afstöðu hans til þeirra starfsmanna sem tóku umrætt ráðningarviðtal.
- Kærði bendir á að dagálaskrif séu og hafi alltaf verið til staðar í starfi Ráðgjafarinnar heim. Af hálfu yfirmanna hafi verið lögð áhersla á að þessu sé fylgt eftir. Kæranda hafi verið fullkunnugt um þessa áherslu enda hafi hann notað fyrstu dagana í starfi til að kynna sér fyrirliggjandi gögn. Ekki sé gerð krafa til starfsmanna að skrá eftir hverja heimsókn eða á hverjum degi heldur séu þessi skrif notuð til að skilgreina helstu þjónustuþætti, tíðni þjónustu og hvenær hún hefst, framgang þjónustunnar og hvenær og hvernig henni lýkur. Þegar sá starfsmaður sem kærandi leysti af hafi komið aftur til starfa hafi komið í ljós að þessum skrifum hafi verið ábótavant.
- Vegna athugasemda kæranda um það að hann hafi ekki sinnt ýmsum hagnýtum verkefnum fyrir þjónustuþega tekur kærði fram að starfið byggist á þeirri sýn að þjónustuþeginn sé sá sem segir til um eðli og magn þjónustunnar. Þessu eigi að taka mark á. Kærði telur athugasemdir kæranda í þessu sambandi benda til þess að hann hafi annaðhvort ekki gert sér grein fyrir eðli starfsins eða að hann hafi verið ósáttur við þá aðferðafræði sem stuðst sé við. Athugasemdir þjónustuþeganna hafi snúið að því að þeir hafi orðið fyrir vonbrigðum þar sem starfsmaðurinn hafi ekki aðstoðað þá nægjanlega í daglegum verkefnum, svo sem almennu heimilishaldi, frágangi, skipulagi á heimili og að sinna erindum utan heimilis.
- Kærði telur að athugasemdir um samskiptavanda liggi fyrir af hálfu starfsmanna kærða og samstarfsstofnana, eftir að kærandi hafi látið af tímabundnu starfi sínu hjá Ráðgjöfinni heim. Kærði hafnar því með öllu að með því að láta þessar upplýsingar í té við kærunefndina sé um rógburð eða árás á persónu og starfsheiður kæranda að ræða. Kærði minnir á að eitt af hæfisskilyrðunum sem sett voru fram í auglýsingu um starfið hafi verið lipurð og jákvæðni í mannlegum samskiptum. Mikilvægi þessa sé augljóst þegar litið sé til eðlis og inntaks starfsins sem felst í stöðugum samskiptum við þjónustuþega og ýmsar stofnanir á vegum bæjarins.
NIÐURSTAÐA - Í 1. mgr. 1. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 4. mgr. 26. gr. sömu laga. Við mat á því hvort ákvæði 4. mgr. 26. gr. laganna hafi verið brotið skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga þessara hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna. Samkvæmt 18. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla skulu atvinnurekendur og stéttarfélög vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði.
- Í auglýsingu um 80% starf við svonefnda Ráðgjöfina heim við búsetudeild kærða komu fram menntunar- og hæfniskröfur vegna starfsins. Voru gerðar kröfur um háskólamenntun í iðjuþjálfunarfræði, félagsráðgjöf eða sálfræði. Þá var reynsla af starfi með fötluðum talinn kostur en ekki skilyrði. Einnig var þess getið að starfsmaður þyrfti að búa yfir lipurð og jákvæðni í mannlegum samskiptum, vandvirkni, samviskusemi og þagmælsku. Jafnframt var áskilið að starfsmaður væri sveigjanlegur vegna mismunandi þarfa þiggjenda þjónustunnar auk þess sem starfmaður þyrfti að sýna frumkvæði, samvinnuhæfni og sjálfstæði í starfi. Loks var áskilið að starfsmaður þyrfti að búa yfir jákvæðu viðhorfi til fatlaðs fólks og réttinda þeirra og bera virðingu fyrir einstaklingunum og heimili þeirra sem nytu þjónustunnar jafnframt því að vera áhugasamur um að leggja sitt af mörkum við að bæta þjónustuna og auka lífsgæði þeirra sem nýttu hana. Helstu verkefni voru skilgreind sem margvísleg ráðgjöf og aðstoð í daglegu lífi við þá sem nytu þjónustunnar, félagslegur stuðningur og samstarf við aðra þjónustuaðila.
- Kærandi lauk prófi í félagsráðgjöf til starfsréttinda frá Noregi árið 1984 og öðlaðist starfsleyfi sem félagsráðgjafi hér á landi 1987. Þá öðlaðist hann meistaragráðu í endurhæfingaráðgjöf frá Bandaríkjunum árið 1995. Hann hefur ríflega 30 ára margþætta starfsreynslu sem félagsráðgjafi og af ýmsum störfum í félags- og heilbrigðisþjónustu, meðal annars um níu mánaða skeið frá ágúst 2010 til maí 2011 við Ráðgjöfina heim í afleysingum. Að auki hefur hann sinnt ýmsum félagsstörfum, meðal annars tengt þessum störfum hans. Sú sem ráðin var í starfið hefur háskólagráðu í iðjuþjálfun frá Háskólanum á Akureyri frá 2008. Starfsreynsla hennar á því sviði felst í afleysingastörfum á Sjúkrahúsinu á Akureyri um eins árs skeið, 2008 til 2009, afleysingastarfi við Ráðgjöfina heim hjá kærða 2009 til 2010 og starfi sem deildarstjóri á sambýli hjá kærða frá maí 2010 þar til hún var ráðin í hið auglýsta starf í júlí 2011.
- Í rökstuðningi fyrir ráðningu þeirrar sem starfið hlaut er þess getið að þegar virt væri menntun og reynsla hennar þá hefði það verið mat forstöðumanns heimaþjónustu sveitarfélagsins að starfsreynsla í afleysingastarfi í rúmt ár við Ráðgjöfina heim hafi gert hana hæfasta umsækjandann. Að auki hafi hún á þeim tíma sýnt lipurð og jákvæðni í mannlegum samskiptum, vandvirkni, vinnusemi, sveigjanleika og mikla samvinnuhæfni. Þá hafi hún staðið sig vel í viðtali. Á því er byggt af hálfu kærða að reynsla af störfum þeirra beggja, kæranda og þeirrar sem starfið hlaut, hafi vegið þungt og því mati haldið á lofti að hún hafi ræktað starf sitt betur og átt góð samskipti við helstu samstarfsaðila og þjónustuþega. Jafnframt var þess getið að upp hefðu komið samskiptavandamál við kæranda og að hann hefði átt sér slíka sögu á fyrri vinnustöðum. Þá hafi hann ekki sinnt dagálaskrifum og skráningu gagna sem skyldi og kvartað hefði verið yfir því af hálfu þjónustuþega að hann hefði ekki sinnt ýmsum hagnýtum verkum sem þeir hefðu þurft aðstoð við.
- Fyrir liggur að bæði kærandi og sú sem starfið hlaut búa að áskilinni menntun. Hún háskólanámi í iðjuþjálfun en hann meistaragráðu í endurhæfingaráðgjöf með endurhæfingu geðsjúkra sem sérsvið og háskólapróf í félagsráðgjöf til starfsréttinda sem hann svo nýtur. Þó bæði fullnægi áskilinni lágmarksmenntunarkröfu er ekki blöðum um að fletta að kærandi býr að yfirgripsmeiri menntun en sú sem starfið hlaut. Þá liggur einnig fyrir að kærandi hefur lengri og yfirgripsmeiri starfsreynslu en sú sem ráðin var. Hún bjó að þriggja ára afleysingastörfum að háskólanámi loknu en kærandi hefur mjög víðtæka reynslu sem einkum lýtur að störfum í þágu fatlaðra, sér í lagi geðfatlaðra, um þrjátíu ára skeið.
- Kærði hefur í raun borið helst fyrir sig mun á persónulegum eiginleikum kæranda og þeirrar sem starfið hlaut en ráða má af framsetningu kærða að þeim sem viðtal tóku og þá sérstaklega yfirmanni búsetudeildar, sem verkþátturinn Ráðgjöfin heim heyrir undir, hafi hugnast viðkynning af þeirri sem starfið hlaut betur en kæranda. Mat þetta sýnist vera næsta huglægt án þess að fyrir liggi á hvern hátt í raun persónulegir eiginleikar hvors umsækjanda fyrir sig voru leiddir fram og vegnir í viðtölum. Þær athugasemdir sem gerðar hafa verið við framgöngu kæranda í samskiptum við aðra eru næsta óljósar og settar fram með þeim hætti að kæranda reynist erfitt að verjast. Sem dæmi liggur ekki fyrir til hvaða tilvika umsagnaraðilar hafi vísað í samskiptum við kæranda né heldur er þess getið hverjir meðal umsagnaraðila hafi lagt framgöngu hans til lasts. Þá er einnig ágreiningur milli málsaðila um eðli og inntak þeirra ávirðinga sem bornar hafa verið á kæranda í framgöngu hans í afleysingastarfi því sem hann sinnti fyrr í Ráðgjöfinni heim. Ber þar að sama brunni hvort sem varðar athugasemdir við þá þjónustu sem kærandi veitti einstaklingum, en kærandi kannast ekki við að út af hafi brugðið, en einnig hvað varðar utanumhald starfsins, svo sem skráningu um málefni þjónustuþega. Staðfest er af hálfu kærða að ekki voru í gildi skriflegar vinnureglur um skráningar þessar og þykir óljóst hvaða reglur giltu.
- Á kærða hvílir byrði þess að sanna að kærandi hafi ekki staðið sig í starfi og ekki sinnt hlutverki sínu. Slíkum staðfestingum er ekki til að dreifa í máli þessu. Gögn um þetta eru óljós og þrátt fyrir fyrirspurnir á fundi kærunefndar með forsvarsmönnum kærða komu ekki fram fullnægjandi skýringar. Staðfest var þó af forsvarsmönnunum að, eftir að athugasemdir hafi verið gerðar við skráningu kæranda, hafi hann bætt úr þessu atriði. Óstaðfestar frásagnir um annmarka á veitingu þjónustu af hálfu kæranda og skort á samskiptahæfileikum hans renna ekki stoðum undir málatilbúnað kærða í þessum efnum. Kærandi hefur andmælt þessum sjónarmiðum en það getur ekki verið hlutverk hans að bera af sér sakir sem bornar eru fram með þessum hætti. Mat forsvarsmanna kærða að betur gangi að vinna með þeirri sem ráðin var en kæranda getur ekki heldur ráðið úrslitum enda stappar slíkt viðhorf nærri því að fara gegn 1. mgr. 18. gr. laga nr. 10/2008 um að kappkosta beri að koma í veg fyrir að störf flokkist í sérstök kvenna- eða karlastörf. Fyrir liggur að mikill meirihluti starfsmanna búsetudeildar er konur, 38 talsins en karlarnir tveir eftir því sem kærði hefur gert grein fyrir.
- Þegar meiri menntun og starfsreynsla kæranda, sem nýtist í starfi, er borin saman við menntun og reynslu þeirrar sem starfið hlaut hvílir það á kærða að leiða líkur að því að kæranda hafi ekki verið mismunað á grundvelli kynferðis, sbr. 4. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008. Þegar sá huglægi mælikvarði er gaumgæfður, sem kærði ber við að hafa hagnýtt, verður ekki talið að kærða hafi lánast að leiða fram nein haldgóð rök, studd gögnum, um að kæranda hafi ekki verið mismunað á grundvelli kynferðis.
- Með vísan til framangreinds hefur kærði brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, við ráðningu í starf við Ráðgjöfina heim í júlí 2011.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Akureyrarbær braut gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, við ráðningu í starf við Ráðgjöfina heim í júlí 2011.
Erla S. Árnadóttir
Björn L. Bergsson
Þórey S. Þórðardóttir