Yfir 16 þúsund brot skráð með stafrænum myndavélum
Komin er út skýrsla um framkvæmd umferðaöryggisáætlunar 2008 þar sem fram kemur meðal annars að varið var 427 milljónum króna til ýmissa verkefna á því sviði. Yfir helmingur fjárins fer í eftirlit með hraðakstri og eyðingu svartbletta í vegakerfinu.
Aðgerðir umferðaröryggisáætlunar miða að því að fækka slysum og lækka kostnað samfélagsins vegna umferðarslysa. Þær skiptast í fjóra flokka: Ökumaður og farartæki; fræðsla og áróður; öruggari vegir og umhverfi þeirra; samstarf og þróun.
Rúmlega 75 milljónum króna var á síðasta ári varið til eftirlits með hraðakstri og bílbeltanotkun en sérstakt hraðaeftirlit fór fram á tímabilinu 15. maí til 30. september. Var lögð megin áhersla á sýnilegt eftirlit á þjóðvegum en settar voru einnig upp á síðasta ári 7 stafrænar hraðamyndavélar. Alls voru 16.125 brot skráð með stafrænu myndavélunum, langflest í júní, júlí og ágúst eða ríflega tvö þúsund hvern mánuð.
Meðal annarra aðgerða umferðaröryggisáætlunar er gerð áningarstaða við þjóðvegi, fræðslu- og áróðursverkefni, takmörkun á lausagöngu búfjár og umferðaröryggi í námskrá grunnskóla og leikskóla.
Á þessu ári er ráðgert að verja 367 milljónum króna í verkefni á sviði umferðaröryggis en vegna óvissu um framlög til umferðarmála er ráðgert að endurskoða í haust umferðaröryggisáætlun áranna 2009 til 2012. Umfangsmestu verkefnin verða áfram sérstakt hraðaeftirlit lögreglu, eyðing svartbletta og lagfæring á umhverfi vega.
- Framkvæmd umferðaröryggisáætlunar - ársskýrsla 2008 (Word)
- Framkvæmd umferðaröryggisáætlunar - ársskýrsla 2008 (PDF)