Hoppa yfir valmynd
9. mars 2010 Innviðaráðuneytið

Tveir vegarkaflar boðnir út

Tvö stór verkefni í vegagerð á suðvesturhorni landsins verða boðin út í þessum mánuði. Annars vegar er það tvöföldun á 6,5 km kafla á Suðurlandsvegi og hins vegar breikkun Vesturlandsvegar á kafla í  Mosfellsbæ.

Samgönguáætlun hefur verið lögð fram á Alþingi.
Samgönguáætlun hefur verið lögð fram á Alþingi.

Í nýjum Framkvæmdafréttum Vegagerðarinnar kemur fram um verkin að breikkun Suðurlandsvegar er á kafla milli Lögbergsbrekku og Litlu kaffistofunnar. Verkið er boðið út á Evrópska efnahagssvæðinu og er stefnt að því að unnt verði að semja við verktaka í maí. Verklok eiga að vera 1. október á næsta ári.

Á Vesturlandsvegi á að tvöfalda kaflann milli Hafravatnsvegar og Þingvallavegamóta, sem er alls 1,5 km kafli, og stækka hringtorgið við Álafossveg auk ýmissa annarra verkþátta. Útboðið verður auglýst á næstunni í samvinnu við Mosfellsbæ. Miðað er við að semja við verktaka í maí og að verklok verði haustið 2011.

Þá ráðgerir Vegagerðin að bjóða út nokkur viðhaldsverkefni svo sem styrkingar á burðarþoli vega og yfirlagnir bundinna slitlaga. Þegar lengra líður á árið skýrist hversu miklar fjárveitingar verða til nýframkvæmda árið 2011 og segir í Framkvæmdafréttum að þar eð mörgum verkum ljúki á þessu ári sé vonast til að rými skapist fyrir viðbótarframkvæmdir á næsta ári.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta