Nr. 367/2019 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 25. júlí 2019 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 367/2019
í stjórnsýslumáli nr. KNU19050057
Kæra […]
og barna hennar
á ákvörðunum
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 28. maí 2019 kærði […], fd. […], ríkisborgari Ghana (hér eftir nefnd kærandi), ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 8. maí 2019 um að synja kæranda og börnum hennar, […], fd. […], ríkisborgara Ghana (hér eftir A) og […], fd. […], ríkisborgara Ghana (hér eftir B), um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.
Kærandi og börn hennar krefjast þess aðallega að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og að þeim verði veitt alþjóðleg vernd hér á landi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að kæranda og börnum hennar verði veitt viðbótarvernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að þeim verði veitt dvalarleyfi grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Vísað er til 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga þar sem kemur fram að maki útlendings sem nýtur alþjóðlegrar verndar og börn hans yngri en 18 ára eiga einnig rétt á alþjóðlegri vernd nema sérstakar ástæður mæla því í mót.
Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 15. júní 2018. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 28. mars 2019 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðunum, dags. 8. maí 2019, synjaði Útlendingastofnun kæranda og börnum hennar um alþjóðlega vernd ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Voru ofangreindar ákvarðanir kærðar til kærunefndar útlendingamála þann 28. maí 2019. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 11. júní 2018. Þann 14. og 19. júní barst kærunefnd viðbótargögn varðandi heilsufar kæranda.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að kærandi sé í hættu í heimaríki vegna aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi.
Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og henni skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.
Í ákvörðun Útlendingastofnunar í málum barna kæranda, kom fram að þau væru svo ung að árum að ekki yrði talið tilefni til að taka viðtal við þau. Fram kom að umsóknir barna kæranda væru grundvallaðar á framburði móður þeirra og þeim hefði verið synjað um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga. Í ákvörðun móður hefði jafnframt verið tekin afstaða til aðstæðna barnanna og hvernig þær aðstæður horfi við einstökum þáttum ákvörðunarinnar. Var það niðurstaða Útlendingastofnunar með vísan til niðurstöðu í máli móður þeirra, að gættum ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, útlendingalaga og barnaverndarlaga, að börnum kæranda væri ekki stefnt í hættu með því að fylgja móður sinni til heimaríkis. Börnum kæranda var vísað frá landinu.
Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði ekki réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 2. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð kæranda kemur fram að hún sé fædd og uppalin í þorpi er nefnist […] sem sé rétt fyrir utan borgina […] í Ghana. Þar hafi hún dvalið þar til hún hafi flúið heimaríki sitt 16 ára að aldri. Kærandi hafi farið til Ítalíu ásamt föður sínum, stjúpmóður og dóttur stjúpmóðurinnar en faðir hennar hafi verið búsettur á Ítalíu á þessum tíma. Kærandi tilheyri Ashanti ættbálkinum í Ghana og sé hún kristinnar trúar, en flótta hennar megi rekja til ættbálkahefða. Kærandi hafi neyðst til að flýja heimaríki sitt þar sem til hafi staðið að fórna henni. Í ættbálki kæranda ríki skipulag í formi píramída þar sem karl- og kvenöldungur séu efst á píramídanum en þau séu ekki hjón. Elsta dóttir kvenöldungsins beri þá skyldu að vera næst móður sinni og sé alin upp með það að markmiði að taka við stöðu móður sinnar sem kvenöldungur. Hefðin sé sú að elsta dóttir tilvonandi kvenöldungs beri að fórna og því hafi átt að fórna kæranda. Amma kæranda hafi verið kvenöldungur og hafi móðir kæranda ekki viljað sinna þessu hlutverki og hafi hún því flúið heimabæ kæranda þegar kærandi hafi verið um sex ára gömul. Kærandi lýsir fórninni með þeim hætti að viðkomandi stúlkubarn, sem eigi að fórna, sé sett í hásæti og æðar hennar skornar svo henni blæði út. Þegar stúlkubarnið sé látið þá sé líkami hennar notaður í fórnarathöfn sem sé liður í hefð Ashanti ættbálksins. Amma kæranda hafi aðstoðað hana við að flýja Ghana til að forða kæranda frá þessum örlögum. Kærandi hafi flúið til Ítalíu þar sem faðir hennar hafi dvalið á þessum tíma og þar hafi kærandi búið við mikið ofbeldi, fyrst af hálfu stjúpmóður sinnar og síðar af hálfu eiginmanns. Kærandi kveður yfirvöld í Ghana ekki geta veitt sér vernd þar sem lögreglan skipti sér ekki af hefðum ættbálka heldur einbeiti sér eingöngu að brotamálum. Kærandi telji ómögulegt fyrir sig og börn sín að flytja innanlands í Ghana, en landið sé hættulegur staður. Spilling sé mikil og ekki sé hægt að treysta lögreglu.
Kærandi heldur því fram í greinargerð að hún og börn hennar teljist til einstaklinga í sérstaklega viðkvæmri stöðu skv. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Kærandi hafi þurft að þola andlegt og líkamlegt ofbeldi á Ítalíu jafnframt sem hún sé þolandi kynferðislegs ofbeldis af hálfu eiginmanns hennar. Þá sé kærandi einstætt foreldri með tvö börn, en börn hennar hafi þurft að horfa upp á föður þeirra beita móður þeirra ofbeldi jafnframt sem A hafi mátt þola líkamlegt ofbeldi af hálfu föður síns á Ítalíu. Í greinargerð kæranda kemur fram að börn teljist til sérstaklega viðkvæms hóps hælisleitenda. Sé þess óskað að tekið verði tillit til þeirrar verndar sem þau eigi rétt á samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, íslenskum lögum og öðrum þjóðréttarlegum skuldbindingum íslenskra stjórnvalda. Kærandi heldur því fram að ekki sé hægt að sjá af ákvörðunum Útlendingastofnunar í málum barna hennar að tekið hafi verið mið af því sem þeim er fyrir bestu við úrlausn málsins eða sjá hvernig það hafi verið metið. Að mati kæranda sé það ekki börnunum fyrir bestu að fara til Ghana.
Í greinargerð kæranda er fjallað almennt um stöðu mannréttindamála í Ghana. Þá er sérstaklega fjallað um stöðu kvenna þar í landi, þar kemur m.a. fram að Ghana sé karllægt samfélag og að það halli á konur á öllum sviðum samfélagsins. Tekið er fram að Ghana sé ættbálkasamfélag og hafi Ashanti ættbálkurinn verið stofnaður í kringum hinn svokallaða „gullna stól“ sem hafi mikla merkingu hjá Ashanti fólki og sé notaður við trúarlegar athafnir. Þá sé valdaskipan Ashanti ættbálksins sérstök að því leyti að kvenöldungar fari með vald sem erfist í kvenlegg.
Kærandi krefst þess aðallega að henni og börnum hennar verði veitt alþjóðleg vernd skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem hún eigi á hættu að sæta ofsóknum í heimaríki og grundvallarmannréttindi hennar séu ekki tryggð af hálfu stjórnvalda. Kærandi heldur því fram að hún uppfylli skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem ofsóknir í hennar garð megi rekja til trúarbragða kæranda sem og aðildar hennar að tilteknum þjóðfélagshópi, skv. b- og d-lið 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Á grundvelli kyns síns eigi kærandi á hættu að verða fórnað í athöfn ættbálks hennar. Þá heldur kærandi því einnig fram að hún tilheyri tilteknum þjóðfélagshópi á grundvelli kynbundinna ofsókna. Í skýrslu Evrópuráðsins um kynbundnar umsóknir um alþjóðlega vernd segir að konur geti m.a. orðið fyrir ofsóknum ef þær fylgja ekki þeirri félagslegu-, trúar- eða menningarlegu hegðun sem ætlast er til af þeim í samfélaginu. Ástæða flótta kæranda frá heimaríki sé vegna stöðu hennar í Ashanti ættbálkinum í Ghana. Kærandi hafi flúið heimaríki til þess að losna undan hefðum ættbálksins þar sem hún eigi á hættu á að verða fórnað vegna kyns hennar. Sú fórnarathöfn sem kærandi óttist sé ekki af trúarlegu meiði heldur sé um að ræða hefð innan Ashanti ættbálksins. Sá einstaklingur sem stjórni fórnarathöfninni sé eins konar æðsti prestur sem sjái anda liðinna. Eftir athöfnina og eftir að viðkomandi kona hafi tekið sæti sem öldungur þá geti hún aldrei snúið aftur til kristinnar trúar. Verði kæranda gert að snúa aftur til heimaríkis þá muni ættbálkur hennar þvinga hana til þess að taka við kvenöldungssætinu og banna henni að iðka kristna trú. Af þeim sökum byggir kærandi einnig á að hún eigi ástæðuríkan ótta við ofsóknir af trúarlegum ástæðum. Kærandi óttist öldungana í ættbálkinum sínum sem muni þvinga hana til að verða öldungur sjálf og muni kæranda vera fórnað ef hún snúi aftur þangað. Kærandi geti ekki stólað á vernd yfirvalda eða lögreglu þar sem þau skipta sér ekki af ættbálkamálum þar sem það séu einkamál fjölskyldunnar eða hvers ættbálks fyrir sig. Þá vísar kærandi einnig til þess að samkvæmt 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga eigi maki útlendings sem nýtur alþjóðlegrar verndar og börn hans yngri en 18 ára einnig rétt á alþjóðlegri vernd nema sérstakar ástæður mæli því í mót. Í greinargerð kæranda kemur fram að þrátt fyrir að kærandi hafi ekki lagt fram gögn frásögn sinni til stuðnings þá bendir hún á að samkvæmt handbók um réttarstöðu flóttamanna beri, í ljósi þeirra sérstöku aðstæðna sem umsækjendur um alþjóðlega vernd séu í, og hversu erfitt geti reynst að leggja fram sannanir, að gera minni kröfur til sönnunarfærslu en ella. Þá kemur einnig fram að illmögulegt sé fyrir flóttamenn að sanna öll atriði máls síns, og því þurfi oft að láta umsækjandann njóta vafans.
Til vara heldur kærandi því fram í greinargerð að með tilliti af því sem þegar hefur verið rakið í tengslum við aðalkröfu kæranda þá sé ljóst að hún og börn hennar uppfylli skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þá sé raunhæf ástæða sé til að ætla að þau eigi á hættu pyndingar eða ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði þeim gert að snúa aftur til heimaríkis. Verði kæranda og börnum hennar gert að snúa aftur til heimaríkis telji þau að það brjóti gegn grundvallarreglu þjóðaréttar um non-refoulement, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, auk þess sem slík ákvörðun brjóti í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár Íslands, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna.
Til þrautavara gerir kærandi kröfu um að henni og börnum hennar verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að lögum um útlendinga komi fram að með erfiðum félagslegum aðstæðum sé m.a. vísað til þess að einstaklingur hafi þörf á vernd vegna erfiðra félagslegra aðstæðna í heimaríki. Með erfiðum félagslegum aðstæðum sé m.a. átt við aðstæður kvenna sem ekki fella sig við kynhlutverk sem sé hefðbundið í heimaríki þeirra og eigi á hættu útskúfun eða ofbeldi við endurkomu. Með almennum aðstæðum sé m.a. vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og sé þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti þegnum sínum ekki vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Kærandi sé einstæð móðir og því séu félagslegar aðstæður hennar mjög erfiðar í Ghana þar sem hún fái hvorki aðstoð né stuðning frá yfirvöldum jafnframt sem framfærsla barna hennar verði ekki tryggð þar í landi. Þá hafi kærandi verið ung að aldri þegar hún hafi flúið Ghana og börn hennar hafi aldrei komið til Ghana en samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum og ákvæðum almennra laga eigi að taka sérstakt tillit til barna, hvort sem um sé að ræða fylgdarlaus börn eða önnur börn. Þannig komi til greina að minni kröfur yrðu gerðar til að börn nytu verndar og fengju dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga. Kærandi hafi orðið fyrir miklu ofbeldi á Ítalíu sem hafi haft neikvæð áhrif á andlega heilsu kæranda og glími hún við afleiðingar þess. Kærandi sé í sálfræðimeðferð og hefur hún skilað inn vottorð sálfræðings um andlega líðan kæranda, dags. 18. júní 2019, því til stuðnings. Í vottorðinu kemur m.a. fram að kærandi sé kvíðin og döpur jafnframt sem hún sé með einkenni áfallastreituröskunar. Þá hellist stundum yfir kæranda hugsanir og minningar úr fortíðinni og þá fylgir oft og tíðum miklar áhyggjur af framtíð barna hennar. Líðan kæranda hefur batnað umtalsvert eftir að hafa fengið viðeigandi stuðning frá félagsráðgjafa og sálfræðingi, en kærandi hafi mætt í fimm sálfræðiviðtöl. Þá sé kærandi þrautseig og tilbúin að þiggja þá aðstoð sem standi henni til boða. Í vottorðinu kemur einnig fram að kærandi bindur miklar vonir við að fá alþjóðlega vernd á Íslandi enda telji hún hvorki sig né börnin örugg á Ítalíu eða í Ghana. Með hliðsjón af öllu því sem þegar hafi verið rakið telji kærandi ljóst að hún og börn hennar uppfylli skilyrði 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga og því beri að veita þeim dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.
Í greinargerð sinni gerir kærandi athugasemd við rannsókn og trúverðugleikamat Útlendingastofnunar. Stofnunin geri lítið úr þeirri fórnarathöfn sem kærandi hafi lýst jafnframt sem Útlendingastofnun vísi til gamalla heimilda máli sínu til stuðnings. Kærandi telji ekki hægt að fullyrða að ástandið í Ghana sé með sama móti nú og fyrir um [...] árum síðan. Þá hafi kærandi verið skýr og trúverðug að öllu leyti.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Lagagrundvöllur
Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.
Auðkenni
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað hæliskortum fyrir sig og börn sín útgefnum af ítölskum stjórnvöldum þar sem gengið hafi verið út frá því að kærandi og börn hennar séu frá Ghana. Var það mat Útlendingastofnunar að kærandi hefði ekki lagt fram neitt sem til þess væri fallið að sanna á henni deili yrði af þeim sökum leyst úr auðkenni hennar og barna hennar á grundvelli trúverðugleikamats. Verður ekki annað séð af ákvörðun Útlendingastofnunar en að stofnunin hafi lagt til grundvallar að kærandi sé ríkisborgari Ghana. Eftir skoðun gagna málsins og með tilliti til mats á trúverðugleika kæranda telur kærunefnd ekkert hafa komið fram í málinu sem gefur tilefni til að draga í efa mat Útlendingastofnunar á þjóðerni kæranda og barna hennar og verður því lagt til grundvallar að þau séu ganverskir ríkisborgarar. Að öðru leyti er auðkenni kæranda og barna hennar óljóst.
Réttarstaða barna kæranda
Staða barna á flótta ræðst af viðeigandi reglum í þjóðarétti og landsrétti. Í 22. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, segir í fyrsta lagi að aðildarríki skuli gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að barn sem leiti eftir réttarstöðu sem flóttamaður, eða sem talið sé flóttamaður samkvæmt viðeigandi reglum eða starfsháttum þjóðaréttar eða landslaga, fái, hvort sem það sé í fylgd foreldra eða annarra eða ekki, viðeigandi vernd og mannúðlega aðstoð við að nýta sér þau réttindi sem við eigi og kveðið sé á um í samningnum.
Í 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 segir að ákvarðanir sem varði barn skuli teknar með það sem því sé fyrir bestu að leiðarljósi, því tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í málum sem það varði og tekið tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Í 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga kemur fram að við ákvörðun sem sé háð mati stjórnvalds skuli huga að öryggi barns, velferð þess og félagslegum þroska og möguleika þess til að sameinast fjölskyldu sinni.
Sérstaklega er fjallað um mat stjórnvalda á umsóknum barna um alþjóðlega vernd í 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þar segir að við mat á því hvort barn teljist flóttamaður samkvæmt lögunum skuli það sem barninu sé fyrir bestu haft að leiðarljósi. Við mat á því hvað barni sé fyrir bestu skuli stjórnvöld líta til möguleika barns á fjölskyldusameiningu, öryggis þess, velferðar og félagslegs þroska auk þess sem taka skuli tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Við ákvörðun í máli er varðar hagsmuni barns skuli stjórnvöld taka skriflega afstöðu til þessara atriða.
Almennt er viðurkennt að eðlilegur þroski barns sé best tryggður með því að vernda fjölskylduna. Sé ólögráða barn í fylgd annars eða beggja foreldra sinna eða annars úr fjölskyldunni sem hefur það á framfæri sínu og sá fer fram á réttarstöðu flóttamanns, ber að fara með málin í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar. Ljóst er að börn þau sem hér um ræðir eru í fylgd móður sinnar og haldast úrskurðir fjölskyldunnar því í hendur.
Landaupplýsingar
Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Ghana m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:
- 2018 Report on International Religious Freedom: Ghana (US Department of State, 21. júní 2019);
- 2019 Global Report on Internal Displacement (Internal Displacement Monitoring Centre, 10. maí 2019);
- Country Report on Human Rights Practices 2018 – Ghana (US Department of State, 13. mars 2019);• 2017 Findings on the Worst Forms of Child Labor – Ghana (US Department of State, 20. september 2018);
- Ghana 2017/2018 (Amnesty International, 3. september 2018);
- The World Factbook – Ghana (CIA, 18. október 2018);
- Freedom in the World 2018 – Ghana (Freedom House, 15. mars 2018);
- Canada: Immigration and Refugee Board of Canada, Ghana: State involvement in chieftaincy matters, such as blood rituals for deceased chiefs and their successors, including legislation; consequences of divulging a secret ritual to another member of the same ethnic group, including the Kotokoli in the Volta region; state protection available to individuals that do not comply with chieftaincy rules and traditions (2014-April 2017) (Canada: Immigration and Refugee Board of Canada, 2. maí 2017);
- Precious Metal, Cheap Labor (Humans Rights Watch, 1. júní 2015);
- Vefsíða African Crafts Market (https://www.africancraftsmarket.com/african-tribes/ashanti-people.html, skoðað 19. júlí 2019);
- Vefsíða GhanaWeb frá 11. janúar 2017 (https://www.ghanaweb.com/GhanaHomePage/NewsArchive/No-human-sacrifices-for-Asantehemaa-burial-C-ttee-500238, skoðað 19. júlí 2019);
- Mental Health Atlas 2017. Ghana/WHO 2018 (WHO, 6. júní 2018)
- Social Security Programs Throughout the World: Africa, 2015, Ghana (US Social Security Administration, 1. september 2015);
- Ghana - Country Fact Sheet 2013 (IOM, 31. október 2013) og
- Constitution of the Republic of Ghana (https://www.refworld.org/docid/3ae6b5850.html, skoðað 23. júlí 2019).
Samkvæmt ofangreindum gögnum er Ghana lýðræðisríki með rúmlega 30 milljónir íbúa. Ghana var fyrsta nýlendan í Vestur-Afríku sem lýsti yfir sjálfstæði árið 1957 og sama ár gerðist Ghana aðili að Sameinuðu þjóðunum. Ríkið fullgilti mannréttindasáttmála Afríku árið 1989 og samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins árið 1990 og valfrjálsa viðbótarbókun um þátttöku barna í vopnuðum átökum við þann samning árið 2014. Ríkið fullgilti bæði alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi ásamt alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 2000. Ghana fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 2000 og valfrjálsa viðbótarbókun við þann samning árið 2016. Þá fullgilti ríkið sáttmála Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu árið 2007.
Af gögnum má ráða að nokkuð skorti á réttindavernd kvenna, barna og frelsissviptra, svo og réttindi tiltekinna minnihlutahópa, þ.á m. fatlaðs fólks, hinsegin fólks og alnæmissjúklinga. Samkvæmt skýrslu utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna fyrir árið 2018 snúi alvarlegustu mannréttindabrotin í landinu að mansali, óviðunandi fangelsisaðstæðum og misnotkun barna í hagnaðarskyni, þ.á m. barnaþrælkun. Ghana sé upprunaland, viðkomustaður og áfangastaður mansals og nauðungarvinnu. Meirihluti fórnarlamba mansals í Ghana séu Ganverjar, einkum börn. Einnig sé algengt að ganversk börn vinni nauðungarvinnu við t.d. heimilisstörf, betl, landbúnað, námuvinnslu og fiskvinnslu.
Samkvæmt skýrslu bandarísku leyniþjónustunnar aðhyllast 71,2% íbúa landsins kristna trú, 17,6% íslam, 6% önnur trúarbrögð og 5,2% trúleysi. Stjórnarskrá ríkisins banni mismunun á grundvelli trúar og kveður á um rétt til trúfrelsis. Í stjórnarskránni sé kveðið á um að takmarka megi þessi réttindi af tilgreindum ástæðum, m.a. í þágu varnarmála og almannaöryggis. Í skýrslu Freedom House fyrir árið 2018 kemur fram að stjórnvöld tryggi að meginstefnu til trúfrelsi en múslimskar fjölskyldur hafi þó kvartað vegna skyldubundinna kristinna bæna og messusókna í almenningsskólum sem þau telji takmarka trúfrelsi barna sinna. Þá sé tjáningarfrelsi tryggt í stjórnarskrá landsins og almennt virt.
Í skýrslu kanadísku flóttamannastofnunar kemur fram að prófessor í Ghana hafi greint frá því að engar sannanir séu fyrir sögusögnum um að blóðfórnir eigi sér enn þá stað í ættbálkasamfélagi Ghana. Þrátt fyrir það sé sennilegt að til séu ættbálkar á dreifbýlissvæðum í landinu sem framkvæmi blóðfórnir í leyni, en blóðfórnir séu bannaðar samkvæmt ganverskum hegningarlögum. Þá komi fram í stjórnarskrá landsins að fórnir sem grafi undan grundvallarmannréttindum séu ólöglegar jafnframt sem blóðfórnir séu alfarið bannaðar. Í skýrslunni kemur þó einnig fram að lögreglan eigi það til skipta sér ekki af ættbálkamálum þar sem hún forðist að blanda sér í ættbálkahefðir. Hvort lögreglan skipti sér af hefðunum fari eftir alvarleika brotsins. Ganverska stjórnarskráin banni stjórnvöldum að standa í vegi fyrir framkvæmd hefða í landinu, en hún skyldar jafnframt stjórnvöld til að standa vörð um mannréttindi. Þá kemur fram í skýrslunni að öllum sé heimilt að neita foringjastöðu í ættbálki sínum í Ghana og að það sé engin líkamleg refsing fyrir að taka ekki við slíkri stöðu. Þó geti slík höfnun orðið til þess að viðkomandi sé útskúfaður úr ættbálki sínum. Í umfjöllun um Ashanti ættbálkinn sem finna má víða, m.a. á heimasíðu African Crafstmarket kemur fram að ættbálkurinn sé einn af stærstu þjóðernishópum sem heyri undir Akan. Ættbálkurinn hafi verið einn sá ríkasti og valdamesti hér á árum áður þar sem þeir hafi átt mikið gull. Ashanti haldi í hefðir sínar og venjur og ein af þeim sé að fjölskyldan og ættbálkur móður séu mikilvægust. Stórfjölskyldan búi saman innan ákveðins svæðis (e. courtyard) og elsti bróðirinn sé höfuð fjölskyldunnar. Þá sé „gullni stóllinn“ mjög mikilvægur í menningu ættbálksins og sé hann aðeins notaður við stærri hátíðarhöld og hafi enginn setið á honum né megi hann snerta jörðina.
Í skýrslu bandarísku utanríkisþjónustunnar kemur fram að stjórnvöld hafi tekið skref í áttina að því að refsa embættismönnum sem gerist sekir um misbeitingu valds, bæði í öryggissveitum eða öðrum störfum fyrir ríkið. Þrátt fyrir það sé refsileysi embættismanna enn vandamál. Lögreglueftirlitið, sjálfstæð mannréttindanefnd auk deildar leyniþjónustunnar og faglegra staðla (e. Police Intelligence and Professional Standards Unit (PIPS)) rannsaki tilkynningar um misbeitingu valds af hálfu öryggissveita. PIPS rannsaki einnig mannréttindabrot og misbeitingu lögregluvalds. Þá kemur fram í skýrslu Freedom House að sjálfstæði dómstóla sé tryggt í stjórnarskrá og löggjöf ríkisins og hlutleysi dómstóla hafi aukist á undanförnum árum. Þó standi dómskerfið enn frammi fyrir áskorunum vegna spillingar og múturþægni. Þá séu stjórnarskrárvarin réttindi sakborninga að mestu leyti tryggð en vitað sé til þess að lögreglan hafi tekið við mútum, handtekið einstaklinga handahófskennt og haldið fólki lengur í varðhaldi en löglegt sé. Þá beri stjórnvöldum ekki skylda til að útvega sakborningum lögfræðing og því þurfi margir sem hafi ekki efni á lögfræðiaðstoð að verja sig sjálfir. Í skýrslu frjálsu félagasamtakanna Amnesty International frá 2018 kemur fram að ríkið haldi úti endurgjaldslausri lögfræðiþjónustu fyrir efnalítið fólk en sökum skorts á fjármagni séu aðeins 23 lögfræðingar sem bjóði lögfræðiaðstoð á vegum verkefnisins í öllu ríkinu. Aðgengi að dómstólum sé þannig takmarkað, sérstaklega fyrir efnalítið fólk og minnihlutahópa. Þá kemur jafnframt fram í skýrslunni að kynferðis- og ástarsambönd karlmanna séu refsiverð í ríkinu og hinsegin einstaklingar eigi undir högg að sækja.
Yfir síðustu áratugi hafi náðst nokkur árangur í að bæta gæði og aðgengi að heilbrigðisþjónustu í landinu. Læknum og hjúkrunarfræðingum á hvern íbúa hafi fjölgað, stefnur og aðgerðaráætlanir hafi verið gerðar og kynntar og grunnheilbrigðisþjónusta hafi verið efld. Á grundvelli sjúkratryggingakerfis hafi grunnþjónusta, mæðravernd og geðheilbrigðisþjónusta verið gerð gjaldfrjáls. Gangrýnt hafi þó verið að aðgengi og þjónusta sé misgóð eftir landsvæðum og íbúar á þéttbýlli svæðum og efnameiri fjölskyldur hafi verið í betri stöðu en aðrir íbúar landsins. Í skýrslu alþjóðlegu stofnunarinnar um fólksflutninga kemur fram að allir Ganverjar eigi rétt á heilbrigðisþjónustu án endurgjalds á opinberum sjúkrahúsum. Þá sé algengt að þeir sem eigi fjármagn greiði fyrir heilbrigðisþjónustu hjá einkareknum sjúkrahúsum þar sem gæði þjónustunnar séu talin betri þar.
Lög kveði á um skyldubundna aðild almennings að almannatrygginga- og lífeyriskerfinu í Ghana (e. Social Security and National Insurance Trust Pension Scheme) sem og sjúkratryggingakerfinu (e. National Health Insurance Scheme). Sú aðild sé þó ekki alltaf tryggð á hinum óformlega vinnumarkaði. Öll börn með ganverskan ríkisborgararétt eigi rétt á að njóta menntunar og sé skólaskylda fyrir börn á aldrinum 4-15 ára. Skólagangan sjálf sé endurgjaldslaus en fjölskyldur barnanna þurfi að greiða fyrir ýmsan efniskostnað svo sem skólabúning, bækur og samgöngur. Hafi sá kostnaður reynst fjölskyldum í efnahagsvanda erfiður. Lengi vel hafi ekki verið félagslegt kerfi á vegum ríkisins í Ghana. Þá hafi einstaklingar í erfiðri félagslegri stöðu, t.d. atvinnulausir, þurft að reiða sig á fjölskyldumeðlimi. Aðgangur að félagslegri aðstoð hjá ganverskum yfirvöldum sé því tiltölulega nýtilkominn. Árið 2007 hafi ganversk yfirvöld samþykkt framkvæmdaáætlun, The Ghana National Social Protection Strategy (GNSPS). Tilgangur hennar er að draga úr fátækt, minnka ójöfnuð og auka lífsgæði Ganverja. Þessum markmiðum skuli m.a. náð með því að koma á fót félagslegu kerfi þar sem hægt sé að sækja um fjárhagsaðstoð. Sem dæmi hafi ganversk stjórnvöld sett á stofn styrktarsjóðinn LEAP (e. the Livelihood Empowerment Against Poverty Programme). Tilgangur sjóðsins sé að veita þeim allra fátækustu í samfélaginu aðstoð í formi reiðufjár og sjúkratryggingar. Styrkurinn veiti börnum þessara fjölskyldna möguleika á menntun og fjölskyldunum tækifæri á að standa skil á skuldum sínum. Aðgengi að LEAP-verkefninu sé þó bundið við sárafátækar fjölskyldur með gamalmenni, fatlað fólk, munaðarlaus eða viðkvæm börn eða ungabörn undir tveggja ára aldri á sínu framfæri. Styrktarsjóður LEAP sé fjármagnaður af ganverskum yfirvöldum, Alþjóðabankanum og bresku þróunarsamvinnustofnuninni (e. Department for International Development). Einnig séu til staðar aðrar áætlanir á vegum stjórnvalda sem aðstoði fjölskyldur í efnahagslegum vanda við að borga skólamáltíðir og skólagjöld barnanna.
Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga
Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:
Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.
Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:
Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.
Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna. Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:
a. ríkið,
b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,
c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.
Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.
Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).
Af greinargerð kæranda má ráða að ástæða flótta hennar megi rekja til ótta við öldungana í ættbálkinum sínum í heimaríki. Kærandi óttist að öldungarnir muni þvinga hana til að verða öldungur sjálf ella muni kæranda vera fórnað ef hún snúi aftur þangað. Þá treystir kærandi ekki yfirvöldum í Ghana þar sem þau skipti sér ekki af ættbálkamálum.
Kærandi hefur ekki borið fyrir sig að hafa orðið fyrir ofsóknum af hálfu öldungana en kveðst óttast að verða fyrir ofsóknum af þeirra hálfu vegna þjóðfélagshóps síns sem og vegna trúarbragða. Kærandi kveðst vera frá […], sem er þorp rétt fyrir utan stórborgina […], og heldur hún því fram að móðir hennar hafi flúið ættbálkinn þegar kærandi hafi verið um sex ára gömul því hún hafi ekki viljað gerast öldungur. Í kjölfarið hafi kærandi búið hjá ömmu sinni þar til hún hafi verið um 16 ára gömul en þá hafi hún farið með föður sínum til Ítalíu. Kærandi hefur ekki lýst atburðum sem hún hafi orðið fyrir þegar hún dvaldi í heimaríki sínu sem teljast til ofsókna í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna. Líkt og áður hefur komið fram kemur fram í þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér að blóðfórnir séu bannaðar samkvæmt ganverskum lögum. Þrátt fyrir það geti blóðfórnir átt sér stað í leyni í samfélögum á dreifbýlum svæðum landsins. Þá benda gögn til þess að öllum sé heimilt að neita foringjastöðu í ættbálkinum sínum. Við leit kærunefndar að upplýsingum um hefðir innan Ashanti ættbálksins á veraldarvefnum og þá einkum þar sem mannfórnir eigi að eiga sér stað var einungis að finna upplýsingar, s.s. í fréttum, blaðagreinum og fræðiritum, sem benda til þess að blóðfórnir hafi verið löngu afnumdar í ganversku samfélagi og að kærandi eigi ekki á hættu að verða fórnarlamb slíks á heimasvæði sínu jafnframt sem kærandi geti neitað því að verða öldungur. Kærandi hefur ekki lagt fram eða vísað til gagna sem styðja við frásögn hennar af ofangreindu eða sem sýna fram á að staða hennar og barna hennar sé önnur og verri en ofangreindar skýrslur benda til. Þá hefur ekki verið sýnt fram á að stjórnvöld í Ghana geti ekki eða vilji ekki veita kæranda og börnum hennar vernd, m.a. með því að ákæra eða refsa fyrir þær athafnir sem feli í sér ofsóknir. Kærandi hefur því raunhæfan möguleika á því að leita sér ásjár stjórnvalda þar í landi, ef hún telur sig þurfa á aðstoð þeirra að halda.
Í greinargerð kærenda er lögð áhersla að sérstakt tillit skuli vera tekið til A og B og vísar kærandi til ýmissa lagaákvæði máli sínu til stuðnings. Í stjórnarskrá Ghana sem og í ganverskum lögum um ríkisfang kemur fram að barn sem fæðist erlendis er sjálfkrafa ganverskur ríkisborgari ef annað hvort foreldri þess er Ganverji. Af þessu má ráða að A og B séu með ganverskan ríkisborgararétt þar sem móðir þeirra sé með ganverskt ríkisfang. Líkt og komið hefur fram eiga öll börn með ganverskan ríkisborgararétt rétt á menntun og sé í gildi skólaskylda barna á aldrinum 4-15 ára. Í skýrslu alþjóðlegu stofnunarinnar um fólksflutninga kemur fram að allir Ganverjar eigi rétt á heilbrigðisþjónustu án endurgjalds á opinberum sjúkrahúsum. Þá sé algengt að þeir sem eigi fjármagn greiði fyrir heilbrigðisþjónustu hjá einkareknum sjúkrahúsum þar sem gæði þjónustunnar séu talin betri þar. Kærandi hefur greint frá því að hún eigi fjölskyldu í Ghana sem hún hafi dvalið hjá fram að 16 ára aldri. Með tilliti til gagna málsins er það mat kærunefndar að A og B hafi aðgang að menntun og heilbrigðisþjónustu við endursendingu til Ghana. Þá eiga börn kæranda fjölskyldu í Ghana sem hún hafi verið í sambandi við á meðan hún dvaldi á Ítalíu og verði því gengið út frá að A og B geti treyst á félagslegan stuðning skyldmenna sinna í Ghana.
Því er það niðurstaða kærunefndar að kærendur hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að þau hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.
Við þetta mat hefur kærunefnd, í samræmi við 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, litið sérstaklega til hagsmuna barna kæranda, öryggis þess, velferðar og félagslegs þroska.
Telur kærunefndin því ljóst að kærandi og börn hennar uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamenn hér á landi.
Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.
Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður kæranda og barna hennar þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi og börn hennar uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamenn hér á landi.
Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga
Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi og börn hennar uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga eiga þau ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.
Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.
Í athugasemdum við 74. gr. frumvarps til laga um útlendinga kemur fram að í samræmi við ákvæði alþjóðlegra skuldbindinga og almennra laga sé lagt til að tekið sé sérstakt tillit til barna, hvort sem um er að ræða fylgdarlaus börn eða önnur börn. Í því ljósi og með hliðsjón af meginreglunni um að það sem barni er fyrir bestu skuli hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess, sbr. jafnframt 2. mgr. 10. gr. og 3. mgr. 25. gr. laga nr. 80/2016, telur kærunefnd að við mat á því hvort skilyrði 1. mgr. 74. gr. laganna séu fyrir hendi skuli taka sérstakt tillit til þess ef um barn er að ræða og skuli það sem er barni fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun.
Í athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga er fjallað um erfiðar félagslegar aðstæður. Þar kemur fram að átt sé við að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki og eru þar nefnd sem dæmi aðstæður kvenna sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi, sem leitt getur til erfiðrar stöðu þeirra í heimaríki, eða aðstæður kvenna sem ekki fella sig við kynhlutverk sem er hefðbundið í heimaríki þeirra og eiga á hættu útskúfun eða ofbeldi við endurkomu. Verndarþörf þjóðfélagshópa að öðru leyti myndi fara eftir aðstæðum í hverju máli.
Kærandi byggir á því að hennar og börnum hennar bíði erfiðar félagslegar aðstæður í heimaríki vegna þess að kærandi sé einstæð móðir og fái hvorki aðstoð né stuðning frá yfirvöldum. Þá sé framfærsla barna hennar ekki tryggð þar í landi. Í gögnum málsins kemur fram að kærandi eigi m.a. ömmu og afa í heimaríki og að faðir hennar búi á Ítalíu. Kærandi hafi dvalið hjá ömmu sinni og afa frá sex ára aldri, frá því að móðir hennar hafi yfirgefið hana, fram að 16 ára aldri þegar kærandi hafi farið með föður sínum til Ítalíu. Líkt og komið hefur fram hafa ýmsar umbætur orðið á félagslega kerfinu í Ghana og standi kæranda til boða að sækja um félagslega aðstoð þar í landi. Þá hefur kærandi ekki leitt að því líkur að hún og börn hennar muni ekki njóta stuðnings fjölskyldu sinnar eða stjórnvalda í Ghana þurfi hún á aðstoð að halda. Þá verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að kærandi og börn hennar muni hafa aðgang að heilbrigðisþjónustu í heimaríki og að börn kæranda muni hafa aðgang að menntun, þegar þau hafa aldur til. Kærunefnd telur því að félagslegar aðstæður kæranda og barna hennar við endurkomu til heimaríkis séu ekki slíkar að þær geti talist erfiðar í skilningi 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé m.a. miðað við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í heimaríki viðkomandi. Í þessu sambandi kemur jafnframt fram að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimaríkinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni. Þá kunna að falla undir 1. mgr. 74. gr. mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni eða óbærilegum þjáningum. Ef um langvarandi sjúkdóm sé að ræða væru ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi ef sjúkdómur væri á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki væri læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans.
Kærandi kom hingað til lands 15. júní 2018. Í viðtölum við kæranda hefur ekki annað komið fram en að hún og börn hennar séu við góða líkamlega heilsu. Kærandi hefur glímt við andlega vanlíðan og höfuðverki og hefur hitt sálfræðing hér á landi og fengið aðstoð í Bjarkarhlíð miðstöð fyrir þolendur ofbeldis. Í vottorði sálfræðings í teymi fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd hjá Reykjavík kemur fram að kærandi hafi verið kvíðin og döpur og sé með einkenni áfallastreituröskunar. Líðan hennar hafi þó batnað umtalsvert eftir að hafa fengið viðeigandi stuðning frá félagsráðgjafa og sálfræðingi. Af gögnum um heimaríki kæranda verður ráðið að kærandi hafi aðgang að heilbrigðisþjónustu.
Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild, með hliðsjón af aðstæðum kæranda og barna hennar í heimaríki, er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hún og börn hennar hafi ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Við þetta mat hefur kærunefnd litið til hagsmuna barna kæranda í samræmi við 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda og barna hennar í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda og börnum hennar dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.
Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til eigi ekki við í máli kæranda og barna hennar. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda og barna hennar þangað.
Frávísun og frestur til að yfirgefa landið
Kærandi kom hingað til lands 15. júní 2018 og sótti um alþjóðlega vernd sama dag ásamt börnum sínum. Eins og að framan greinir hefur umsókn hennar og barna hennarum vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hafa þau því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn þeirra um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda og börnum hennar því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda höfðu þau verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsókna þeirra hófst hjá Útlendingastofnun. Kærandi og börn hennar eru við ágæta heilsu. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 30 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið. Athygli kæranda er vakin á því að ef hún yfirgefur ekki landið innan frests er heimilt að brottvísa henni. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.
Samantekt
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinna kærðu ákvarðana þykir rétt að staðfesta ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kæranda og barna hennar.
Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.
Úrskurðarorð
Ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kæranda og barna hennar eru staðfestar. Lagt er fyrir kæranda og börn hennar að hverfa af landi brott. Kæranda og börnum hennar er veittur 30 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.
The decisions of the Directorate of Immigration in the cases of the appellant and her children are affirmed. The appellant and her children are requested to leave the country. The appellant and her children have 30 days to leave the country voluntarily.
Hjörtur Bragi Sverrisson
Ívar Örn Ívarsson Þorbjörg Inga Jónsdóttir