Hoppa yfir valmynd
1. mars 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Breytt verklag með aukna áherslu á börn

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í gær tillögu Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, um að stefnt verði að aukinni þátttöku barna og ungmenna í stefnumótun stjórnvalda sem og tillögu sem felur í sér að allar stærri ákvarðanatökur sem og lagafrumvörp skuli rýnd út frá áhrifum á stöðu og réttindi barna.

Nú fer fram umfangsmikil vinna í þágu barna, leidd af félags- og barnamálaráðherra, með þátttöku þverpólitískrar þingmannanefndar og með stýrihóp stjórnarráðsins í málefnum barna sem í eiga sæti fulltrúar sex ráðuneyta.

Í vinnunni hefur verið lögð áhersla á mikilvægi þess að gera breytingar til að fá fram skoðanir barna og ungmenna með ýmsum hætti en innan Stjórnarráðsins er greinilegur vilji til þess að börn og ungmenni fái tækifæri til þess að koma skoðunum sínum á framfæri, að þáttaka þeirra verði aukin og að sú þátttaka verði markviss, regluleg og raunveruleg. Þessi tillaga er jafnframt fyrsta tillagan sem samþykkt er í ríkisstjórn sem unnin hefur verið í samstarfi allra ráðuneyta sem aðild eiga að stýrihóp stjórnarráðsins í málefnum barna.

Þessi tillaga er í samræmi bæði við 3. gr og 12. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Talið er mikilvægt að við stefnumótun, ákvarðanatöku stjórnvalda, sem og við samningu löggjafar, verði gert að skilyrði að líta sérstaklega til hagsmuna barna, greina og meta möguleg áhrif á réttindi og aðstæður barna. Auk þess er kveðið á um að íslenska ríkinu beri að gefa börnum færi á að tjá skoðanir sínar á öllum málum sem þau varða með einum eða öðrum hætti og tryggja að tekið sé réttmætt tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur og þroska.

„Ég er mjög ánægður með samþykktina vegna þess að ef við trúum því að besta fjárfesting landsins séu börnin, er mikilvægt að allar stærri aðgerðir séu metnar út frá hagsmunum þeirra og að börn og ungmenni hafi rödd í vinnu sem tengist ákvarðanatöku og reglusetningar er þau varða. Það er sérstakt fagnaðarefni að aðkoma allra ráðuneyta að málefnum barna sé þegar byrjuð að skila tillögum sem þessum. Nái þessar breytingar fram að ganga þá er Ísland að sýna ákveðið fordæmi fyrir önnur lönd“, segir Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra.

Í tillögu félags- og barnamálaráðherra er lagt til að stýrihóp í málefnum barna verði falið að fullmóta umgjörð og framkvæmd þessa verkefnis enda þarf að huga sérstaklega að mismunandi þörfum einstaklinga og hópa og stuðla að því að öllum börnum og ungmennum séu tryggð jöfn tækifæri til þátttöku, án mismununar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta