Hoppa yfir valmynd
17. október 2006 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 33/2006

Þriðjudaginn, 17. október 2006

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 13. júlí 2006 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 10. júlí 2006.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 26. apríl 2006 um útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

Ég A óska eftir að kæra útreikninga á greiðslum úr fæðingarorlofssjóði. Ég hef búið erlendis síðustu 6 árin og þar með hluta af útreikningstímabilinu (fluttist heim sept/okt 2005) og verið í vinnu. Samt sem áður hef ég áunnið mér réttindi til að fá greitt úr fæðingarorlofssjóði á Íslandi. Þegar að sækja átti um greiðslur þurfti að fá réttu pappírana til að ekki yrði tekið mark á þeim 21 mánuðum sem ég bjó erlendis. Að sögn þjónustufulltrúa ykkar átti þetta ekki eftir að verða neitt vandamál, ef ég skilaði tilsettum pappírum yrði tekið mark á launum frá 3 mánuðum sem ég var við vinnu hérlendis. Eftir að hafa skoðað greiðsluáætlun fyrir fæðingarorlof og séð að útreikningar ykkar passa ekki við það sem sagt hafði verið. Tekið hefur verið mið af fjórum mánuðum í stað þriggja. Eins og gefur að skilja er þetta mikil tekjuskerðing fyrir fjölskylduna og ófyrirséð þar sem þjónustufulltrúi stofnunarinnar vissi ekki betur og gaf rangar upplýsingar. Einnig er hvergi að fínna þessar upplýsingar á heimasíðu stofnunarinnar. Síðar, þegar ég spurðist fyrir hvort þessi útreikningur gæti verið mistök fékk ég svar að svona er þetta bara, aldrei er reiknað frá minna enn 4 mánuðum.

Rökstuðning minn vil ég byggja á rangri meðhöndlun þar sem ég fluttist frá Noregi sem er innan ESB og var þar í fullri vinnu allt árið 2004 og út september 2005, við tók full vinna hérlendis út árið 2005. Tel ég það rangt skv. þeim upplýsingum sem ég fékk frá TR að ekki sé tekið mið af bara þeim mánuðum sem unnir eru, þar sem ég hef sýnt fram á að ég hafi verið í vinnu því tímabili sem er tekið mið af.“

Með bréfi, dagsettu 7. september 2006, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 21. september 2006. Í greinargerðinni segir:

„Kærður er útreikningur á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Með umsókn, dags. 27. mars 2006, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna væntanlegrar barnsfæðingar 15. maí 2006.

Með umsókn kæranda fylgdi vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dags. 22. mars 2006, tilkynning til vinnuveitanda um fæðingarorlof, dags. 21. mars 2006, launaseðlar kæranda, dags. 1. febrúar og 1. mars 2006.

Með tölvuskeyti frá B dags. 23. mars 2006, sem síðar var leiðrétt með nýju tölvuskeyti sent samdægurs og yfirlýsingu, dags. 26. apríl, var staðfest að kærandi hefði átt rétt á atvinnuleysisbótum frá 1. janúar 2004 til 1. október 2005, hefði hún búið hér á landi á tímabilinu og leitast eftir bótum.

Með greiðsluáætlun lífeyristryggingasviðs, dags. 26. apríl 2006, var kæranda tilkynnt að umsókn hennar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hafi verið samþykkt. Í greiðsluáætluninni var einnig lýst tilhögun greiðslna og forsendum útreiknings.

Barn kæranda fæddist 26. maí 2006, en samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof, sbr. 2. gr. laga nr. 90/2004, stofnast réttur til töku fæðingarorlofs við fæðingu barns. Þá segir í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, að foreldri á innlendum vinnumarkaði öðlist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns.

Í 2. mgr. 13. gr. laganna segir að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og að miða skuli við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns. Þá segir einnig að til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Ennfremur kemur fram að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hefur starfað á innlendum vinnumarkaði, þó skuli aldrei miða við færri en fjóra mánuði við þann útreikning.

Í 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks segir enn fremur að mánaðarleg greiðsla til foreldris á innlendum vinnumarkaði, sem sé starfsmaður og leggi niður störf, skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og að miða skuli við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns. Þar segir einnig að til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald og að jafnframt teljist til launa þær greiðslur sem koma til samkvæmt a.-d.-liðum 3. gr. reglugerðarinnar.

Í 3. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 segir m.a. að hluteigandi úthlutunarnefnd, sbr. lög um atvinnuleysistryggingar, skuli meta hvort foreldri hefði átt rétt á atvinnuleysisbótum hefði foreldri skráð sig án atvinnu á þeim tíma sem um er að ræða, sbr. b-lið 2. mgr.

Kærandi fluttist hingað til lands 25. september 2005, eftir búsetu erlendis frá árinu 1999. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum taldist hún uppfylla skilyrði 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, um að hafa starfað samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns, þ.e. tímabilið 26. nóvember 2005 til 25. maí 2006. Er því ljóst að kærandi átti rétt á greiðslum í fæðingarorlofi úr Fæðingarorlofssjóði, sbr. bréf og greiðsluáætlun sem send var kæranda.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, var litið til síðustu tveggja tekjualmanaksára, samkvæmt útskrift úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra, til að ákvarða meðallaun kæranda á tímabilinu. Þar sem ljóst var að kærandi hafði ekki verið búsett hér á landi hluta tímabilsins, þ.e. frá 1. janúar 2004 til 24. september 2005, þá var aðeins litið til fjögurra mánaða tímabils, sem lagt var til grundvallar meðallaunum, þ.e. tekjumánuðina september 2005 til og með desember 2005. Þó svo að kærandi hafi aðeins verið í launuðu starfi og haft tekjur hér á landi í þrjá af þessum fjórum mánuðum, þá taldi lífeyristryggingasvið sig bundið af lokamálslið 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, þar sem greinir að aldrei skuli miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna.

Voru tekjur kæranda á tímabilinu X krónur og var þeirri upphæð því skipt á milli þessara fjögurra tekjumánaða. Voru meðallaun kæranda, sbr. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, því ákvörðuð X krónur og mánaðargreiðslur til hennar því ákvarðaðar X krónur.

Kærandi vísar til þess í kæru sinni að hafa verið á vinnumarkaði á EES svæðinu samfellt á því 24 mánaða tímabili sem 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000. sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, vísar til. Í 2. og 3. ml. 2. mgr. greinarinnar kemur hins vegar fram að til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Þá segir að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hefur starfað á innlendum vinnumarkaði. Telur lífeyristryggingasvið því ljóst að framangreint ákvæði geri með öllu óheimilt að líta til tekna sem aflað er á erlendum vinnumarkaði, á EES svæðinu eða utan þess.

Vegna þess sem fram kemur í kæru kæranda varðandi það að hún hafi leitað til starfsmanna Tryggingastofnunar ríkisins eftir upplýsingum og fengið þær upplýsingar að aðeins yrði tekið meðaltal af þeim þremur mánuðum sem hún var búsett hér á landi á viðmiðunartímabilinu, skal tekið fram að ómögulegt er að staðreyna nákvæmlega hvaða upplýsingar voru veittar, við hvaða forsendur þær miðuðust eða hvaða skilningur var lagður í þær af hálfu kæranda. Þá verður ekki séð að gefnar upplýsingar, réttar eða rangar, hafi áhrif á réttindi til greiðslna enda eru þau réttindi og skilyrði þeirra bundin í lög.

Með vísan til alls framangreinds telur lífeyristryggingasvið að áðurnefnd greiðsluáætlun lífeyristryggingasviðs til kæranda, dags. 26. apríl 2006, beri með sér réttan útreikning á greiðslum til kæranda úr Fæðingarorlofssjóði.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 21. september 2006, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 90/2004, öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 90/2004, skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns. Jafnframt segir í 2. mgr. 13. gr. að til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald og að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hafi starfað á innlendum vinnumarkaði. Aldrei skuli þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna, sbr. og 5. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Með 4. gr. laga nr. 90/2004 varð breyting gerð á 13. gr. ffl. hvað varðar viðmiðunartímabil útreiknings meðaltals heildarlauna. Hins vegar var óbreytt áfram kveðið á um að miðað skuli að lágmarki við fjóra almanaksmánuði. Í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 90/2004 segir um það atriði: „Enn fremur er lagt til að áfram verði miðað við að lágmarki fjóra almanaksmánuði við útreikning á meðaltali heildarlauna foreldris. Þá er ætíð gert að skilyrði að foreldri uppfylli skilyrði 1. mgr. um sex mánaða samfellt tímabil á innlendum vinnumarkaði við upphafsdag fæðingarorlofs til að öðlast rétt til greiðslna úr sjóðnum. Hafi foreldri hins vegar ekki starfað á viðmiðunartímabilinu en uppfyllir skilyrði 1. mgr. er gert ráð fyrir að hlutaðeigandi eigi rétt á lágmarksgreiðslum samkvæmt ákvæðinu í samræmi við starfshlutfall sitt. Sama gildir hafi foreldri haft lægri tekjur á viðmiðunartímabilinu en því nemur.“

Fram kemur í kæru að kærandi telur sig hafa fengið þær upplýsingar hjá starfsmanni Tryggingastofnunar ríkisins að aðeins yrði tekið meðaltal af þeim þremur mánuðum sem hún starfaði á innlendum vinnumarkaði. Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins er tekið fram að ómögulegt sé að staðreyna nákvæmlega hvaða upplýsingar hafi verið veittar, við hvaða forsendur þær hafi miðast eða hvaða skilningur verið lagðar í þær af hálfu kæranda. Réttur til greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði verður ekki byggður á því að foreldri hafi fengið rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um rétt sinn. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. ffl. er hlutverk úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála að kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laganna. Ágreiningur um hugsanlegan rétt þess sem telur sig hafa fengið rangar upplýsingar hjá Tryggingastofnun ríkisins er hins vegar utan valdsviðs nefndarinnar.

Ágreiningslaust er að kærandi átti rétt til greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði. Kærandi ól barn 26. maí 2006. Viðmiðunartímabil við útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði er því samkvæmt framangreindu árin 2004 og 2005. Kærandi var einungis á innlendum vinnumarkaði frá október 2005 fram að fæðingu barns. Skýrt er kveðið á um í 2. mgr. 13. gr. ffl. að aldrei skuli miða við færri mánuði en fjóra við útreikning meðaltals heildarlauna. Engar undantekningar er að finna í lögunum eða reglugerð nr. 1056/2004 frá þeirri reglu. Þá er óheimilt að líta til annarra tekna á viðmiðunartímabilinu en þeirra sem aflað er á innlendum vinnumarkaði og tryggingagjald hefur verið greitt af. Það er því mat úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála að ekki verði hjá því komist að hafna kröfu kæranda um breytingu á útreikningi Tryggingastofnunar ríkisins.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja um breytingu á útreikningi á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um breytingu á útreikningi á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta