Hoppa yfir valmynd
17. október 2006 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 35/2006

Þriðjudaginn, 17. október 2006

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 22. ágúst 2006 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 21. ágúst 2006.

 

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 22. maí 2006 um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Með bréfi þessu óska ég undirritaður eftir að úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála taki til meðhöndlunar synjun lífeyrissviðs Tryggingastofnunar á umsókn minni um greiðslu fæðingarstyrks námsmanna, eins og fram kemur í bréfum stofnunarinnar dags. 21. maí sl.

Í svari lífeyristryggingasviðs í umræddu bréfi var umsókn minni um fæðingarstyrk námsmanna hafnað á þeim grundvelli að ég uppfyllti ekki skilyrði um námsframvindu, þ.e.a.s. 11 einingar staðnar á önn. Hér er vakin athygli á að áfangakerfi B-fræði D-háskóla var þannig háttað á haustönn 2005 og vorönn 2006 að eingöngu voru í boði 5 eininga áfangar og því ekki unnt að setja kjarnanámsáfanga þannig saman að 11 einingum yrði lokið á hverri önn.

Námsframvinda í fullu námi getur því af framangreindum ástæðum mest orðið 15 einingar, hlutanám 10 einingar eða 5. Á yfirliti frá D-háskóla sést að á haustönn 2005 og vorönn 2006 lauk ég 10 einingum á hvorri önn.

Jafnframt vil ég benda á að LÍN tekur tillit til áfangakerfis B-fræða sem lýst var hér að ofan og telur 10 staðnar einingar á önn jafngilda 75% námsframvindu. Sjá meðfylgjandi lánsáætlun fyrir námsárið 2005 (þ.e. veturinn 2005-2006).

Með vísan til ofangreindra ástæðna fer ég því fram á að ákvörðun lífeyristryggingasviðs verði endurskoðuð og mér greiddur fæðingarstyrkur námsmanna.

Samhliða námi mínu við D-háskóla hef ég ennfremur stundað vinnu líkt og meðfylgjandi gögn sýna, að jafnaði 27% síðastliðna 6 mánuði.

Í ljósi þeirra svara sem ég hef fengið virðist mér kröfur fæðingarorlofssjóðs um vinnumagn foreldris fyrir fæðingu mismuna foreldrum eftir vinnu þeirra. Á ég þar við, að námsmönnum er gert að skila 75% vinnuframlagi liðna 12 mánuði fyrir fæðingu barns til að eiga rétt á fæðingarstyrk námsmanna. En almennu launafólki greitt fæðingarorlof að því tilskyldu að viðkomandi hafi stunda í þ.m. 25% samfellda vinnu síðustu 6 mánuði fyrir fæðingu barns.“

 

Með bréfi, dagsettu 1. september 2006, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 21. september 2006. Í greinargerðinni segir:

„Með bréfi lífeyristryggingasviðs, dags. 2. maí 2006, var kæranda synjað um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi. Var í bréfinu tiltekið að kærandi teldist ekki hafa stundað fullt nám í a.m.k. 6 mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir áætlaðan fæðingardag barnsins. Var kæranda í bréfinu tilkynnt að honum yrði greiddur fæðingarstyrkur til foreldra utan vinnumarkaðar í samræmi við umsókn hans. Bréfinu fylgdi greiðsluáætlun, dags. 2. maí 2006, er sýnir tilhögun greiðslna.

Með símbréfi, 15. maí 2006, bárust lífeyristryggingasviði frekari gögn varðandi námsárangur kæranda frá Lánasjóði íslenskra námsmanna (LÍN). Var um að ræða yfirlýsingu um nám, dags. 15. maí 2006, lánsáætlanir, dags. 6. mars 2006 og 30. ágúst 2005 og tvö námsferilsyfirlit, bæði dags. 15. maí 2006.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs, dags. 22. maí 2006, var kæranda að nýju synjað um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi þar sem ný gögn voru ekki talin geta breytt fyrri afgreiðslu.

Barn kæranda fæddist 26. maí 2006, en samkvæmt 2. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, sbr. 18. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 8. gr. laga nr. 90/2004, stofnast réttur til greiðslu fæðingarstyrks við fæðingu barns.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 9. gr. laga nr. 90/2004, eiga foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, rétt á fæðingarstyrk. Skilgreiningu á fullu námi er að finna í 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Þar kemur fram að fullt nám í skilningi laga um fæðingar- og foreldraorlof teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almanna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi, í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Enn fremur kemur fram að heimilt sé að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 16. gr. eða undanþáguákvæði 17. gr. reglugerðarinnar. Í 2. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að leggja skuli fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur. Enn fremur að heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist.

Barn kæranda fæddist þann 26. maí 2006 og verður því, við mat á því hvort kærandi hafi stundað fullt nám samfellt í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barnsins, að horfa til tímabilsins frá 26. maí 2005 fram að fæðingardegi barnsins.

Samkvæmt námsferilsyfirliti frá D-háskóla stundaði kærandi nám við skólann á vorönn 2005, haustönn 2005 og vorönn 2006. Var kærandi skráður í 18 einingar á vorönn 2005, lauk 13 þeirra en sagði sig úr 5 einingum. Á haustönn 2005 var kærandi skráður í 20 einingar, lauk 10 þeirra en sagði sig úr 10 einingum. Á vorönn 2006 var kærandi skráður í 20 einingar, lauk 10 þeirra en sagði sig úr 10 einingum.

Þegar um er að ræða nám við háskóla teljast 15 einingar á önn vera 100% nám og því teljast 11-15 einingar vera fullt nám samkvæmt lögum nr. 95/2000. Með hliðsjón af þeim gögnum sem fyrir liggja um námsframvindu kæranda lítur lífeyristryggingasvið svo á að kærandi uppfylli ekki almenna skilyrðið um að hafa verið í fullu námi samfellt í a.m.k. 6 mánuði síðustu 12 mánuðina fyrir fæðingardag barns. Telur lífeyristryggingasvið ekki heimild í lögum til að víkja frá þessu mati vegna námsfyrirkomulag í einstaka deildum og námsbrautum í skólum landsins.

Í kæru sinni víkur kærandi að mati LÍN á námsframvindu hans á haustönn 2005. Vísar hann þar m.a. til lánsáætlunar frá LÍN. Hafa ber í huga að við mat á því hvað teljist til fulls náms er lífeyristryggingasvið bundið af ákvæðum laga nr. 95/2000 og reglugerðar nr. 1056/2004 þess efnis. LÍN er í sambærilegu mati sínu hins vegar bundið af ákvæðum laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna, með síðari breytingum. Á grundvelli 3. mgr. 3. gr. laganna hefur LÍN sett sér úthlutunarreglur. Í 3. ml. gr. 2.2.1 í núgildandi úthlutunarreglum LÍN segir: „Tekið er tillit til skipulags náms og nánari reglur settar um framvindu á einstökum námsbrautum.“ Á grundvelli þessarar heimildar virðist LÍN líta svo á að skipulag náms við B-fræði við D-háskóla gefi tilefni til að líta svo á að 10 eininga nám samsvari 75% af fullu námi. Sambærilega heimild er hins vegar ekki að finna í framangreindum lögum og reglugerð sem gilda um greiðslu fæðingarstyrks.

Þá bendir kærandi á að hann hafi starfað samhliða skóla að jafnaði í 27% starfshlutfalli síðustu 6 mánuði fyrir ritun kærunnar. Þegar um er að ræða að námsmaður stundi hlutastarf samhliða námi hefur lífeyristryggingasvið litið svo á að óheimilt væri að leggja saman náms- og starfshlutfall, enda eru engin heimildarákvæði þess efnis að finna í lögum né reglugerð.

Að lokum heldur kærandi því fram að foreldrum sé að lögum mismunað eftir vinnuframlagi þeirra, þar sem foreldri þarf a.m.k. að hafa verið í 75% námi til að eiga rétt á fæðingarstyrk til foreldra í fullu námi, en að foreldri á vinnumarkaði þurfi að hafa unnið í a.m.k. 25% starfi til að eiga rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Getur lífeyristryggingasvið ekki tekið afstöðu til þessarar skoðunar kæranda, enda er þessum málum skýrlega skipað með lögum nr. 95/2000. Þó má benda á að greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslur fæðingarstyrks eru að eðli sínu ósambærilegar og fjármagnaðar með mismunandi hætti, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 95/2000.

Nokkrar undanþáguheimildir er að finna frá skilyrðinu um fullt nám í sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Þannig er samkvæmt 8. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 9. gr. laga nr. 90/2004, heimilt að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þrátt fyrir að skilyrði um samfellt nám í a.m.k. sex mánuði fyrir fæðingu barns sé ekki uppfyllt hafi foreldri verið í samfelldu starfi í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fram til þess að námið hófst. Samkvæmt 9. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 9. gr. laga nr. 90/2004, er heimilt að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þegar foreldri hefur lokið a.m.k. einnar annar námi skv. 1. mgr. 19. gr. og hefur síðan verið samfellt á vinnumarkaði. Skilyrði er að nám og starf hafi verið samfellt í a.m.k. sex mánuði. Þá segir í 19. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 að heimilt sé að greiða móður fæðingarstyrk sem námsmanni þó að hún fullnægi ekki skilyrðum 2. mgr. 18. gr. um viðunandi námsárangur og/eða ástundun enda hafi hún ekki getið stundað nám á meðgöngu vegna skilgreindra heilsufarsástæðna. Skal hún sannanlega hafa verið skráð í fullt nám og fengið greidda sjúkradagpeninga, verið á biðtíma eftir dagpeningum á þeim tíma eða hefði átt rétt á þeim fyrir umrætt tímabil samkvæmt lögum um almannatryggingar. Þá er heimilt að veita undanþágu frá skilyrðinu um fullt nám þegar foreldri á eftir minna en sem nemur 75% af námi á síðustu önn í námi og ljóst er að viðkomandi er að ljúka ákveðinni prófgráðu, sbr. 20. gr. reglugerðar nr. 1056/2004.

Lífeyristryggingasvið hefur kannað hvort einhver framangreindra undanþáguheimilda eigi við um aðstæður kæranda en telur sýnt að svo sé ekki.

Með vísan til framangreinds telur Tryggingastofnun ríkisins að umsókn kæranda um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi hafi réttilega verið synjað með bréfi, dags. 22. maí 2006. Ennfremur telur stofnunin að greiðslur fæðingarstyrks til foreldra utan vinnumarkaðar hafi verið réttilega ákvarðaðar í greiðsluáætlun til kæranda, dags. 2. maí 2006.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 21. september 2006, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 90/2004, eiga foreldrar í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða varanlegt fóstur rétt til fæðingarstyrks. Fullt nám í skilningi laganna er skilgreint í 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, sbr. 11. mgr. 19. gr. ffl.

Í 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 segir að fullt nám í skilningi ffl. og reglugerðarinnar teljist 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Sama eigi við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur. Þá er heimilt að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist.

Barn kæranda er fætt 26. maí 2006. Tólf mánaða viðmiðunartímabil skv. 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 er því frá 26. maí 2005 fram að fæðingu barns.

Hjá D-háskóla er almennt miðað við að 100% nám sé 15 eininga nám á misseri. Samkvæmt yfirliti um námsferil kæranda við D-háskóla dagsettu 22. ágúst 2006 lauk hann 13 einingum á vormisseri 2005 og sagði sig úr 10 einingum. Hann lauk 10 einingum á haustmisseri 2005 og sagði sig úr 10 einingum. Á vormisseri 2006 lauk kærandi 10 einingum og sagði sig úr 10 einingum.

Við mat á því hvort kærandi hafði stundað fullt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns skal líta til náms hans á vor- og haustmisseri 2005 og á vormisseri 2006.

Samkvæmt framangreindu lauk kærandi fullu námi á vormisseri 2005. Á haustmisseri 2005 og vormisseri 2006 var kærandi hins vegar ekki í fullu námi þar sem hann lauk einungis tíu eininga námi á hvoru misseri. Kærandi telst því ekki hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns sbr. 1. mgr. 19. gr. ffl., sbr. og 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Varðandi námsframvindu sína vísar kærandi til þess að áfangakerfi B-fræði hafi verið þannig háttað að á haustmisseri 2005 og vormisseri 2006 hafi eingöngu verið í boði 5 eininga áfangar. Hvorki lög um fæðingar- og foreldraorlof né reglugerð nr. 1056/2004 heimila undantekningu frá skilyrðinu um fullt nám í slíkum tilvikum. Þá er ekki heimild til að víkja frá skilyrði um fullt nám í þeim tilvikum þegar unnið er með námi.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

 

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er staðfest.

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta