Hoppa yfir valmynd
3. október 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 78/2012

Miðvikudaginn 3. október 2012 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 78/2012:

 

 

Kæra A

á athöfnum

sveitarfélagsins B

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:

 

A, hér eftir nefnd kærandi, hefur lagt fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 25. júlí 2012.

  

I. Helstu málsatvik og kæruefni

 

Kærandi hefur lagt fram kæru vegna velferðarsviðs B þar sem hún telur að henni hafi ekki veitt viðeigandi hjálp. Kærandi bendir á að hún sé einstæð móðir með þrjú börn á heimilinu og að hún búi í íbúð sem sé of lítil fyrir fjölskylduna. Kærandi telur að hún fái enga aðstoð með húsnæðismál sín hjá Velferðarsviði B. Börnin hafi ekki fengið aðstoð í samræmi við sjúkdómagreiningu og kærandi geti ekki séð um þau eins vel og hún óskaði. Kæran lúti því að því að Velferðarsvið B hafi ekki komið til móts við hana og aðstoðað hana og börn hennar.

 

Með kæru bárust engin frekari gögn og benti kærandi á tengilið hennar hjá B. Úrskurðarnefnd hafði samband við tengiliðinn sem upplýsti að fyrir lægi ákvörðun velferðarráðs B frá 13. mars 2012 varðandi umsókn kæranda um styrk til greiðslu fyrir frístundaheimili. Upplýst var að ekki lægju fyrir aðrar ákvarðanir velferðarráðs er lytu að kæranda. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar til Velferðarsviðs B, dags. 14. september 2012, var óskað frekari upplýsinga um mál kæranda hjá B. Í svarbréfi velferðarráðs B, dags. 21. september 2012, kemur fram að velferðarráð hafi afgreitt erindi kæranda þann 13. mars 2012. Með vísan til þess að kærufrestur skv. 1. mgr. 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga væri liðinn hygðist velferðarráð ekki skila greinargerð í málinu. Þá fengust þær upplýsingar símleiðis, þann 25. september 2012, frá Velferðarsviði B að ekki lægju fyrir aðrar ákvarðanir velferðarráðs í máli kæranda og við ákvarðanatöku starfsmanna þjónustumiðstöðva væri ávallt leiðbeint um rétt aðila máls til að skjóta ákvörðun til velferðarráðs.

  

II. Niðurstaða

 

Aðili máls getur skotið ákvörðun félagsmálanefndar til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála og skal það gert innan þriggja mánaða frá því viðkomandi barst vitneskja um ákvörðun, sbr. 63. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, með síðari breytingum.

 

Fyrir liggur ákvörðun velferðarráðs B frá 13. mars 2012 og lagði kærandi fram kæru til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála þann 25. júlí 2012. Kæran barst því að liðnum kærufresti skv. 2. málsl. 1. mgr. 63. gr. laga nr. 40/1991. Ekkert í gögnum máls þessa gefur til kynna að afsakanlegt hafi verið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti og engar veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Af þessum sökum verður að vísa kæru á ákvörðun velferðarráðs B frá 13. mars 2012 frá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála.

 

Samkvæmt 1. mgr. 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, sbr. 5. gr. laganna, fjallar úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála um ákvarðanir félagsmálanefndar, en velferðarráð gegnir því hlutverki hjá B. Kæra kæranda lýtur að því að Velferðarsvið B hafi ekki veitt henni viðeigandi aðstoð og þjónustu. Kærandi hefur ekki upplýst um hvaða ákvarðanir um ræðir og samkvæmt upplýsingum frá B liggur einungis fyrir ein ákvörðun velferðarráðs B í málinu. Þar sem mál kæranda hefur að öðru leyti ekki komið til úrlausnar hjá velferðarráði brestur skilyrði fyrir því að úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála fjalli um mál kæranda og er kærunni því hér með vísað frá.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála.

 

 

Ása Ólafsdóttir, formaður

Margrét Gunnlaugsdóttir

Gunnar Eydal

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta