Hoppa yfir valmynd
3. október 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 203/2011

Miðvikudaginn 3. október 2012 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 203/2011:

 

 

Kæra A

á ákvörðun

Íbúðalánasjóðs

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

A, hér eftir nefndur kærandi, hefur með kæru, dags. 22. desember 2011, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála ákvörðun Íbúðalánasjóðs, frá 23. september 2011, vegna umsóknar um endurútreikning lána hjá sjóðnum.

 

 

I. Helstu málsatvik og kæruefni

 

Kærandi kærði endurútreikning lána hjá Íbúðalánasjóði sem hvíla á fasteigninni B í C, í samræmi við samkomulag lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila.

 

Samkvæmt endurútreikningi Íbúðalánasjóðs, dags. 19. október 2011, var skráð fasteignamat á íbúð kæranda að B í C 21.650.000 kr. og 110% af skráðu fasteignamati var því 23.815.000 kr. Staða áhvílandi íbúðalána kæranda á lánum Íbúðalánasjóðs þann 1. janúar 2011 var 26.907.799 kr. Veðsetning umfram 110% var samkvæmt endurútreikningnum 3.092.799 kr. Í endurútreikningnum kemur fram að kærandi á hlutabréf í félaginu E. sem metin eru á 640.000 kr. Þá kemur fram að kærandi á bifreið, D, sem metin er á 1.142.100 kr. en á henni hvílir lán að fjárhæð 346.534 kr. og er veðrými á bifreiðinni því 795.566 kr. Til frádráttar niðurfærslu lána kom einnig bankainnstæða kæranda, alls 1.955.632 kr. Veðrými sem kemur til frádráttar vegna annarra eigna nam því samtals 3.391.198 kr.

 

 

II. Málsmeðferð

 

Með bréfi, dags. 27. desember 2011, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir upplýsingum um meðferð málsins og frekari gögnum ef þau væru fyrir hendi hjá Íbúðalánasjóði. Að auki var þess farið á leit við Íbúðalánasjóð að tekin yrði afstaða til kærunnar. Afstaða Íbúðalánasjóðs barst með bréfi, dags. 10. janúar 2012. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 12. janúar 2012, var bréf Íbúðalánasjóðs sent kæranda til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 30. mars 2012, var kæranda tilkynnt um tafir á afgreiðslu málsins sem orsökuðust af miklum málafjölda hjá úrskurðarnefndinni en að vonir stæðu til þess að ljúka málinu sem fyrst. Þann 5. september 2012 óskaði úrskurðarnefndin eftir frekari gögnum frá Íbúðalánasjóði og bárust þau þann 11. september s.á.

 

 

III. Sjónarmið kæranda

 

Kærandi bendir á að synjun Íbúðalánasjóðs hafi byggst á því að lífeyrissjóðslán sem hann og kona hans hafi tekið að auki vegna kaupa á íbúð þeirra hafi verið með veði í íbúð foreldra kæranda. Annað hafi ekki staðið til boða þegar íbúðin hafi verið keypt. Á þeim rúmu fjórum árum sem þau hafi átt íbúðina hafi þau greitt u.þ.b. 7.000.000 kr í afborganir. Á meðan hafi lánið hækkað um u.þ.b. 10.000.000 kr. Eftir standi að íbúðin sé yfirveðsett en þau hafi samt sem áður fengið synjun hjá Íbúðalánasjóði vegna veðrýmis á öðrum eignum. Eign þeirra hafi þurrkast út og áframhaldandi hækkun lánsins muni skekkja veðsetningarhlutfall enn frekar.

 

 

IV. Sjónarmið Íbúðalánasjóðs

 

Íbúðalánasjóður tekur fram að úrræði laga nr. 29/2011 taki í grunninn einvörðungu til niðurfærslu áhvílandi lána á fasteign í eigu lántaka eða maka hans og taki þá ekki til annarra lána sem þau kunni að skulda.

 

 

V. Niðurstaða

 

Málskot kæranda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998, með síðari breytingum. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annars að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda.

 

Kærandi hefur fært fram þau rök að við endurútreikning lána hans hjá Íbúðalánasjóði eigi einnig að taka tillit til láns hjá Lífeyrissjóði starfsmanna sveitarfélaga sem hann og kona hans hafi tekið vegna kaupa á íbúð þeirra.

 

Í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 29/2011, sbr. lið 2.2 í 2. gr. samkomulags lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila frá 15. janúar 2011 kemur fram að lántaki skuli upplýsa kröfuhafa um aðrar aðfararhæfar eignir samkvæmt lögum um aðför, nr. 90/1989. Reynist veðrými vera til staðar á aðfararhæfum eignum á niðurfærsla skulda að lækka sem því nemur. Með aðfararhæfum eignum er átt við allar eignir nema þær séu sérstaklega undanþegnar fjárnámi. Aðfararhæfar eignir eru til dæmis fasteignir, bifreiðar og bankainnstæður.

 

Í málinu hefur verið upplýst að auk fasteignar sinnar að B í C átti kærandi bifreið, bankainnstæðu og hlutabréf á þeim tíma er umsókn um niðurfærslu lána var afgreidd hjá Íbúðalánasjóði eins og rakið hefur verið. Kærandi hefur hvorki mótmælt því að verðmæti eigna sé það sem fram kemur í gögnum málsins né að tekið hafi verið tillit til annarra eigna við niðurfærslu lána.

 

Kærandi hefur hins vegar byggt á því að líta eigi til þess að við kaup á fasteigninni hafi önnur fasteign verið veðsett vegna lífeyrissjóðsláns sem þó hafi ekki verið á nafni kæranda. Í lið 1.1 í 1. gr. samkomulags lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila frá 15. janúar 2011, kemur fram að heimild til niðurfærslu taki eingöngu til áhvílandi veðskulda. Í lið 1.2 í 1. gr. samkomulags lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila frá 15. janúar 2011, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 29/2011, kemur fram að skuldir sem færa megi niður samkvæmt reglunum séu þær skuldir sem stofnað hafi verið til vegna fasteignakaupa umsækjanda fyrir árið 2009. Þá kemur fram í lið 1.2 í 1. gr. samkomulags lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila frá 15. janúar 2011, að skuldir þær sem færa má niður samkvæmt reglunum séu skuldir sem hvíli með veði á eign sem ætluð er til heimilishalds lántaka.

 

Íbúðalánasjóði ber að fylgja fyrrgreindum reglum og þar er ekki að finna undanþágur. Við framkvæmd endurútreiknings lána hefur Íbúðalánasjóður fylgt framangreindu samkomulagi frá 15. janúar 2011, um að við ákvörðun um niðurfærslu sé einungis tekið tillit til þeirra lána sem hvíla á fasteign umsækjanda, en ekki annarra skulda umsækjanda. Þá einskorðast heimild Íbúðalánasjóðs í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 29/2011 við þær veðkröfur sem eru umfram 110% af verðmæti fasteignar í eigu lántaka eða maka hans. Samkvæmt veðbandayfirliti Þjóðskrár Íslands, dags. 11. september 2012, er fyrir liggur í málinu, er framangreint lán hjá Lífeyrissjóði starfsmanna sveitarfélaga ekki meðal áhvílandi skulda á eign kæranda að B í C. Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið og samkvæmt ákvæðum í lið 2.2 í 2. gr. samkomulags lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila verður því að staðfesta hina kærðu ákvörðun Íbúðalánasjóðs.

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun Íbúðalánasjóðs um synjun um endurútreikning á lánum A, áhvílandi á fasteigninni að B í C, er staðfest.

 

Ása Ólafsdóttir, formaður

Margrét Gunnlaugsdóttir

Gunnar Eydal

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta