Hoppa yfir valmynd
19. mars 2025 Mennta- og barnamálaráðuneytið

ISTP 2025: Alþjóðlegur leiðtogafundur um málefni kennara hefst á mánudag

Alþjóðlegur leiðtogafundur um málefni kennara, ISTP 2025, hefst í Reykjavík á mánudag og stendur til miðvikudags. Á fundinn koma 25 menntamálaráðherrar leiðandi ríkja á sviði menntamála ásamt formönnum kennarasamtaka til að ræða menntaumbætur.

ISTP stendur fyrir International Summit on the Teaching Profession. Viðburðurinn er árlegur og nú haldinn í 15. sinn. Góð þátttaka er á fundinum í ár með komu á þriðja tug sendinefnda til landsins, þ.m.t frá Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD) og Alþjóðasamtökum kennara (Education International). Viðburðurinn er stærsti alþjóðlegi fundur leiðtoga á sviði menntamála sem haldinn hefur verið á Íslandi.

„Það er mikill heiður að taka á móti fjölda nafntogaðra leiðtoga í menntamálum í upphafi minnar ráðherratíðar. Ég er með væntingar um innihaldsríkar samræður sem munu þjóna sem veganesti fyrir ráðuneytið og íslenska kennarasamfélagið til að bregðast við þeim áskorunum sem menntakerfið stendur frammi fyrir á miklum umbreytingartímum,“ segir Ásthildur Lóa Þórsdóttir, mennta- og barnamálaráðherra.

Umræðuefnið er helgað kennarastarfinu, áskorunum til framtíðar, starfsumhverfi og starfsþróun kennara og hvernig best megi innleiða menntaumbætur. Þar deila þátttökuríki þekkingu sinni og reynslu um hvernig stuðla megi að gæðamenntun með öfluga kennara við stjórnvölinn. Þrjú þemu verða tekin fyrir er snúa að

  1. hágæða leikskólastarfi sem grunn að jöfnuði og inngildandi menntun,
  2. stuðningi við kennara með öflugri skólaþjónustu með jöfnuð og vellíðan að leiðarljósi,
  3. hlutverki kennara í barnvænu menntakerfi: stuðningur við virka þátttöku og valdeflingu barna.

Þátttökuríki upplýsa um framvindu á skuldbindingum sem lagðar voru fram á ISTP í Singapore í fyrra og leggja fram nýjar skuldbindingar á grundvelli samtals ISTP 2025 til innleiðingar fram að næsta leiðtogafundi.

Áhrif gervigreindar á skólastarf verða einnig til umræðu. Að auki fá fundargestir kynningu á íslenska skólakerfinu og menntastefnu, ásamt íslensku skólastarfi með heimsóknum í leik-, grunn- og framhaldsskóla. Nánari dagskrá má finna á vef ISTP 2025

„Kennarasamband Íslands er stolt að taka á móti erlendum gestum á ISTP 2025, sem sýnir þá stöðu sem íslenskt skólakerfi hefur á vettvangi alþjóðasamstarfs. Við hlökkum til að kynna gestum starf allra skólastiga og taka þátt í stefnumarkandi umræðu um skólamál almennt í heiminum,“ segir Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands.

Katrín Jakobsdóttir mun stýra fundinum en hún tók þátt í einum af fyrstu leiðtogafundum ISTP árið 2012 í tíð hennar sem menntamálaráðherra.

Mennta- og barnamálaráðuneytið stendur að fundinum í Reykjavík ásamt Kennarasambandi Íslands í samstarfi við Efnahags- og framfarastofnunina (OECD) og Alþjóðasamtök kennara (Education International). Fundurinn er lokaður en streymt er frá opnun og lokun viðburðarins.

Streymi

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta