Samráð um nýjan forgangslista vegna hagsmunagæslu
Að þessu sinni er fjallað um:
- nýjan forgangslista stjórnvalda vegna hagsmunagæslu í Brussel
- utanríkisráðherrafund ESB þar sem Ísland og Noregur tóku þátt
- fund menntamálaráðherra ESB
- fund landbúnaðarráðherra ESB sem telja fæðuöryggi ekki ógnað þrátt fyrir stríðið í Úkraínu
- tillögur um að vernda staðbundið handverk og iðnað
- ráðstefnu um framtíð Evrópu sem er á lokametrunum
- fimmta pakka þvingunaraðgerða gagnvart Rússlandi
Forgangslisti hagsmunagæslu gagnvart ESB birtur til samráðs
Í samráðsgátt stjórnvalda hafa nú verið birt drög að forgangslista fyrir hagsmunagæslu Íslands gagnvart ESB vegna aðildar Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Frestur til að veita umsagnir er til 29. apríl nk.
Listinn tekur til tímabilsins 2022-2023 en þetta er í fjórða skipti sem slíkur listi er útbúinn. Á listanum eru 27 mál sem skilgreind hafa verið sem forgangsmál hvað íslenska hagsmuni varðar. Listinn er byggður á tillögum frá ráðuneytunum, sem bera ábyrgð á að vakta sín málefnasvið.
Tilgangur forgangslistans er að auka skilvirkni í þátttöku Íslands í EES-samstarfinu og ákveða hvernig hagsmunagæslu af Íslands hálfu verði best háttað á tímabilinu. Listinn er í grunninn einskorðaður við mál sem eru á undirbúnings- eða forstigi hjá framkvæmdastjórn ESB eða mál sem komin eru á vinnslustig en þá hefur framkvæmdastjórnin þegar lagt fram tillögu að lagasetningu til ráðsins og Evrópuþingsins.
Í einstaka tilfellum eru mál á listanum þar sem búið er að taka ákvörðun hjá ESB en huga þarf sérstaklega að upptöku viðkomandi gerða í EES-samninginn, t.d. með því að fara fram á aðlaganir.
Sjá nánar um hagsmunagæslu á vettvangi EES-samstarfsins
Utanríkisráðherrafundur ESB – Íslandi og Noregi boðið
Utanríkisráðherrar Íslands og Noregs voru gestir á fundi utanríkisráðherra Evrópusambandsins (Foreign Affairs Council) í Lúxemborg mánudaginn 11. apríl. Auk þess áttu þær fund með Josep Borrell utanríkismálastjóra Evrópusambandsins. Utanríkisráðherrafundurinn snerist einkum um innrás Rússlands í Úkraínu og viðbrögð Evrópuríkja við honum en Ísland og Noregur hafa tekið virkan þátt í aðgerðum sambandsins frá því að innrásin hófst. Þetta er í fyrsta skipti sem utanríkisráðherra Íslands er boðið að sækja utanríkisráðherrafund ESB.
„Á fundinum gafst einstakt tækifæri til að ræða málin við okkar vinaþjóðir. Ég var þakklát boði Borrell sem sýnir hversu þétt við höfum staðið saman að undanförnu og hversu virk þátttaka okkar hefur verið í sameiginlegum viðbrögðum Evrópuríkja við stríðinu í Úkraínu,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra. „Við lítum á EES samninginn sem einn af hornsteinum okkar utanríkisstefnu og er því mikilvægt að rækta gott samstarf og samráð við ESB.“
Þórdís Kolbrún kom á framfæri samstöðu Íslands í öllum ráðstöfunum gegn Rússlandi og Belarús, þar með talið frekari efnahagsþvingunum. „Ég lagði áherslu á að sameiginleg gildi Evrópuríkja um mannréttindi og lýðræði væru undir í þessari baráttu og hversu mikilvægt það væri að styðja Úkraínu með öllum ráðum,“ segir Þórdís Kolbrún.
Sjá nánar frétt á vef Stjórnarráðsins.
Úkraína í brennidepli á fundi menntamálaráðherra
Ráðsfundur menntamálaráðherra ESB fór fram 5. apríl sl. Helstu mál á dagskrá fundarins voru:
- Tilmæli um árangursríkt samstarf háskóla í Evrópu (e. Council recommendation on building bridges for effective European higher education cooperation)
- Niðurstöður ráðsins um evrópska stefnu fyrir háskóla (e. Council conclusions on a European strategy empowering higher education institutions for the future of Europe)
- Niðurstöður ráðsins um aukinn hreyfanleika kennaranema og kennara í Evrópu (e. Conclusions on enhancing teachers’ and trainers’ mobility, in particular European mobility, during their initial and in-service education and training)
- Umræður um hvernig efla megi krísustjórnun á sviði evrópska menntasvæðisins.
Þá gáfu ráðherrarnir frá sér yfirlýsingu um fjárfestingu í menntun en í henni kemur fram að ráðherrarnir hyggjast bæta skilvirkni, hagkvæmni og gæði þegar kemur að fjárframlögum til menntunar. Franska formennskan hvatti einnig þau ríki sem verða næst með formennsku í ráðsinu (Tékkland og Svíþjóð) að standa áfram fyrir nánu samtali milli mennta- og fjármálaráðherra ESB í þessu skyni.
Tilmæli um árangursríkt samstarf háskóla í Evrópu og niðurstöður ráðsins um evrópska stefnu fyrir háskóla
Tilmælin um árangursríkt samstarf háskóla í Evrópu og niðurstöður ráðsins um evrópska stefnu fyrir háskóla eru byggð á tillögum framkvæmdastjórnar ESB um sama efni sem birtar voru 18. janúar síðastliðinn.
Með samþykkt þessara tilmæla vilja framkvæmdastjórnin og ráðið stuðla að þéttara, skilvirkara og sjálfbærara samstarfi háskólastofnana í Evrópu.
Í stefnunni fyrir háskóla eru fjögur megin markmið sem á að ná með framkvæmd nokkurra lykilverkefna. Markmiðin eru:
- að efla evrópska vídd háskóla og vísinda
- að styðja við háskóla sem hreyfiafl evrópskra lífshátta (e. „Consolidate universities as lighthouses for our European way of life.“)
- að styrkja háskóla í hlutverki þeirra sem lykilaðila í stafrænu og grænu umbreytingunum
- að styðja við háskóla sem hreyfiafl fyrir hlutverk og forystu ESB á alþjóðavettvangi.
Vert er að benda á að niðurstöður og tilmæli ráðsins eru frábrugðin texta framkvæmdastjórnarinnar að því leyti að þau skuldbinda aðildarríkin ekki þegar kemur að umdeildustu tillögum framkvæmdastjórnarinnar, en þar ber helst að nefna reglugerðina fyrir samstarfsnet háskóla og sameiginlegu evrópsku námsgráðuna. Í þessu tilliti leggur ráðið mikla áherslu á að nota þau tæki sem þegar eru til, t.d. með Bologna ferlinu og að mikilvægt sé að standa vörð um sjálfstæði menntastofnana. Þá kemur fram í tilmælunum að öll frekari þróun á reglugerðinni og sameiginlegu prófgráðunni sé háð samþykki ráðsins.
Niðurstöður ráðsins um aukinn hreyfanleika kennaranema og kennara í Evrópu
Í niðurstöðunum eru aðildarríkin meðal annars hvött til að stuðla að betri tækifærum og að ryðja úr vegi hindrunum fyrir hreyfanleika kennara í Evrópu sem og að efla hreyfanleika kennaranema. Framkvæmdastjórnin er hvött til að stuðla að hreyfanleika kennara í gegnum Erasmus + áætlunina, til dæmis með Erasmus + Teacher Academies verkefninu. Auk þeirra jákvæðu áhrifa sem hreyfanleiki hefur á hvatningu, hæfni og starfsferil kennara sýna niðurstöður ráðsins að hreyfanleiki hefur einnig jákvæð áhrif á innlend menntakerfi með því að efla traust, samvinnu og gagnkvæman skilning milli menntakerfa aðildarríkjanna.
Umræður um hvernig efla megi krísustjórnun á sviði evrópska menntasvæðisins
Sýnt þykir að nýlegar krísur hafa haft mikil áhrif á menntakerfi Evrópu. Lokanir skóla í Covid-19 heimsfaraldrinum leiddu til þess að skólar þurftu að vinna að margs konar aðgerðum og lausnum í miklum flýti. Innrás Rússa í Úkraínu hefur skapað brýna þörf fyrir aðlögun úkraínsks flóttafólks í menntakerfum annarra landa.
Í þessu samhengi fóru fram umræður um það hvernig evrópska menntasvæðið gæti verið betur í stakk búið að takast á við slíkar krísur. Rætt var um mögulegt samhæfingarkerfi á evrópskum vettvangi sem gæti veitt aðildarríkjum betra tækifæri til samræmdra og skilvirkra viðbragða og þannig takmarkað áhrif framtíðar áfalla af þessu tagi á gæði og aðgengi að menntun í Evrópu.
Menntamálaráðherra Úkraínu ávarpaði fundinn og þakkaði stuðning framkvæmdastjórnar ESB og aðildarríkjanna um leið og hann minnti á þann gríðarlega fjölda barna sem nú væru á flótta og þyrftu enn frekari stuðning. Mariya Gabriel, framkvæmdastjóri ESB á sviði menntamála, fór yfir þær aðgerðir sem framkvæmdastjórnin hefur ráðist í á sviði menntamála eftir innrásina í Úkraínu. Um þær má lesa nánar hér. Þá sagði hún frá því að framkvæmdastjórnin hygðist leggja til að 200 milljónir evra yrðu færðar úr fjárhagsáætlun Erasmus + fyrir árið 2027 og yfir í fjárhagsáætlun fyrir árið 2023. Til þess að svo megi verða þarf samþykki bæði ráðsins og þingsins.
Svokallaður „high-level“ hópur hefur hist tvisvar á undanförnum vikum til þess að útfæra nánar þá ferla sem menntamálaráðherrar ESB og framkvæmdastjórnin komu sér saman um á óformlegum fundi menntamálaráðherra um innrásina í Úkraínu þann 16. mars, en þeir eru:
• Móttaka og skólaganga fyrir úkraínsk börn
• Úrræði fyrir kennara
• Viðhald tenginga við úkraínska menntakerfið, menningu og tungumál
• Þörf fyrir fjárhagsaðstoð
• Stuðningur við uppbyggingu úkraínska menntakerfisins þegar það verður mögulegt
Umræðurnar sýndu víðtækan stuðning aðildarríkja við Úkraínu og einnig stuðning þeirra við frekari samræmingu aðgerða sín á milli.
Fæðuöryggi í Evrópu ekki ógnað
Á ráðherrafundi landbúnaðarmála 7. apríl sl. kynnti framkvæmdastjórnin viðbrögð vegna innrásarinnar í Úkraínu og aðgerðir til að efla fæðuöryggi álfunni. Úkraína hefur stundum verið nefnd brauðkarfa Evrópu og því ljóst að áhrif á matvælaframleiðslu og framboð eru mikil. Hækkun orkuverðs og áburðar hefur einnig sitt að segja.
Ráðherrarnir lögðu áherslu á mikilvægi þess að aðstoða Úkraínumenn við að tryggja nægilegt framboð á matvælum innanlands. Þá þyrfti að efla frjálst flæði matvöru innan ESB til að héruð sem hafa reitt sig á innflutning frá Rússlandi og Úkraínu verði ekki fyrir skakkaföllum. Innan ramma sameiginlegu evrópsku landbúnaðarstefnunnar yrði framleiðsla aukin og ríkisaðstoð heimiluð. Á heildina litið væri fæðuöryggi í Evrópu ekki ógnað eins og sakir standa.
Staðbundið handverk njóti verndar
Framkvæmdastjórn ESB kynnti í dag, 13. apríl, tillögur um vernd hugverkaréttar í tengslum við staðbundið handverk og iðnhönnun. Verði tillögurnar að veruleika mun gler frá Murano-eyju við Feneyjar á Ítalíu, tweed-efni frá Donegal á Írlandi og postulín frá Limoges í Frakklandi njóta sérstakrar verndar. Þótt þessar vörur hafi hingað til haft gott orðspor þá hefur það ekki notið sérstakrar lagalegrar viðurkenningar á evrópuvísu. Innblástur að nýjum reglum er fenginn úr því þekkta kerfi sem komið hefur verið á laggirnar og varðar landbúnaðarframleiðslu, osta og vín svo dæmi séu tekin. Nýju reglurnar munu vera í þágu neytenda að því leyti að þeir geti gengið að gæðum viðkomandi vöru vísum og staðið frammi fyrir upplýstara vali. Þá stuðla reglurnar að því að færni og störf haldist í þeim héruðum Evrópu sem njóta góðs af.
Ráðstefnu um framtíð Evrópu að ljúka
Senn líður að lokum ráðstefnunnar um framtíð Evrópu en það var forseti Frakklands, Emmanuel Macron, sem beitti sér hvað harðast fyrir því að ESB efndi til ráðstefnunnar. Hugmyndina kynnti hann fyrst í blaðagrein sem hann birti í ýmsum evrópskum dagblöðum í mars 2019 en hún tekur mið af umfangsmiklu þjóðarsamráði sem Macron beitti sér fyrir um allt Frakkland til að stilla til friðar við gulvestunga sem ollu miklum ófriði í Frakklandi veturinn 2018/2019. Í mjög einfölduðu máli er markmið ráðstefnunnar að leita í grasrótina og út fyrir Brussel skrifræðið, að hlusta á og laða fram hugmyndir og tillögur frá almennum borgurum ESB-ríkja um hvert beri að stefna í Evrópu á næstu áratugum til þess að tryggja velsæld.
Eftir langar umræður náðist samkomulag milli leiðtogaráðsins, framkvæmdastjórnarinnar og Evrópuþingsins um að halda ráðstefnuna og var formlegt samkomulag stofnananna þriggja þar um undirritað 10. mars 2021.
Ráðstefnan var formlega sett á degi Evrópu, 9. maí 2021. Skipulag hennar er lagskipt og frekar flókið, enda var þess gætt að öll aðildarríkin kæmu að henni með fulltrúa úr öllum hópum og lögum hvers samfélags um sig. Sjálf hugmyndavinnan um framtíð Evrópu fer fram í vinnuhópum og málstofum þaðan sem hugmyndir og tillögur eru sendar inn á allsherjarfundi ráðstefnunnar til úrvinnslu og ákvarðanatöku. Rétt til þátttöku í allsherjarfundum hafa hátt í 600 einstaklingar. Einnig hafa almennir borgarar ESB ríkja átt þess kost að koma sjónarmiðum sínum á framfæri í samráðsgátt ráðstefnunnar.
Starf í málstofum og vinnuhópum er nú á lokametrunum og verða tillögur sem þaðan koma ræddar á næstu allsherjarfundum. Stefnt er að því að ráðstefnan skili af sér lokaniðurstöðum 9. maí næstkomandi en viðtakendur verða Charles Michel, forseti leiðtogaráðsins, Roberta Metsola, forseti Evrópuþingsins og Frakklandsforseti, Emmanuel Macron en Frakkar fara nú með formennsku í ESB. Það kemur í þeirra hlut að vinna úr niðurstöðum og gera tillögur um eftirfylgni. Trúlega er þessi framvinda málsins í samræmi við fyrirætlanir Emmanuel Macron, en það verða svo Tékkar sem fá það verkefni að útfæra og vinna úr niðurstöðum ráðstefnunnar þegar þeir taka við boðkeflinu í ESB 1. júlí nk.
Fimmti pakki þvingunaraðgerða
Enn er verið að herða aðgerðir vegna árásar Rússlands á Úkraínu. Fimmti pakki þvingunaraðgerða var afgreiddur 8. apríl sl. Í honum er m.a. lagt bann við viðskiptum með kol innan fjögurra mánaða. Eftir standa þá einkum viðskipti með olíu sem er líkt og með gasið flóknara mál. Það á sérstaklega við um ríki sem hafa reitt sig á olíu og gas frá Rússlandi, eins og t.d. Austurríki og Þýskaland en önnur aðildarríki, einkum í Mið- og Austur-Evrópu hafa sum þegar tekið sjálfstæða ákvörðun um að hætta orkuviðskiptum við Rússland. Í samræmi við yfirlýsingu Versalafundar leiðtogaráðsins 11. mars sl. hafa aðildarríkin einsett sér að gera sig eins fljótt og kostur er óháð orku frá Rússlandi og virðist mjög breið samstaða hafa skapast um það (Ungverjaland a.m.k. enn undantekningin). Þessu til viðbótar hefur komið fram að markaðurinn innan ESB er sjálfur að bregðast við með því finna eins fljótt og mögulegt er aðra birgja fyrir sína þörf fyrir olíu og gas enda undir miklum þrýstingi. Þess má geta að Evrópuþingið samþykkti með yfirgnæfandi meirihluta ályktun 7. apríl sl. þar sem krafist er að þegar í stað verði stöðvaður innflutningur frá Rússlandi á kolum, olíu og gasi.
Að öðru leyti er í pakkanum hert á á einstökum aðgerðum sem þegar hefur verið gripið til, eins og t.d varðandi fjármálagerninga, viðskipti með tæknivörur, takmarkanir á fjárfestingum Rússa innan ESB og enn frekari útvíkkun á lista yfir einstaklinga og fyrirtæki sem sæta þvingunum.
***
Brussel-vaktin er gefin út af fastanefnd Íslands gagnvart Evrópusambandinu. Vaktin kemur út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins.
Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra.
Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].