Hoppa yfir valmynd
5. júlí 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mal nr. 213/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 213/2023

Miðvikudaginn 5. júlí 2023

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Agnar Bragi Bragason lögfræðingur.

Með kæru, dags. 25. apríl 2023, kærði B, fyrir hönd A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 27. janúar 2023 um að samþykkja 60% styrk vegna kaupa á bifreið að frádregnum eldri styrk.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk samþykktan styrk að fjárhæð 1.440.000 kr. vegna kaupa á bifreið í september 2019 frá Tryggingastofnun ríkisins. Með umsókn, dags. 17. janúar 2023, sótti kærandi um uppbót/styrk til kaupa á bifreið á ný. Með bréfi, dags. 27. janúar 2023, var samþykkt að greiða kæranda 60% styrk til bifreiðakaupa en henni var jafnframt tilkynnt að fyrri styrkur yrði dreginn frá á þeim grundvelli að ekki væru liðin fimm ár frá síðustu úthlutun.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 25. apríl 2023. Með bréfi, dags. 4. maí 2023, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð stofnunarinnar barst með bréfi, dags. 22. maí 2023, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 23. maí 2023. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að málið varði umsókn um styrk til kaupa á sérútbúinni bifreið.

Kærandi sé með arfgengan sjúkdóm sem valdi […]. […]. Kærandi hafi þörf fyrir sólarhringsþjónustu og stöðugt eftirlit allan sólarhringinn alla daga. Hún hafi verið með NPA samning við sveitarfélagið um sólarhringsþjónustu frá árinu 2019.

Kærandi hafi fengið […] og hafi þá dvalið á Grensás í X mánuði áður en hún hafi flutt aftur til […] þar sem hún hafi búið síðan. Hún þurfi að sækja mikilvæga þjónustu á C oft í viku svo sem sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun, félagslega ráðgjöf og fleira og því hafi verið nauðsynlegt fyrir hana að eiga bifreið. Árið 2019 hafi kærandi keypt sér sína fyrstu bifreið og hafi þá bæði sótt um styrk hjá Tryggingastofnun ríkisins fyrir sérútbúinni bifreið en einnig lægri styrk vegna kaupa á venjulegri bifreið. Hún hafi fengið lægri styrkinn samþykktan. Í október 2019 hafi hún keypt sér jeppling sem hafi verið auðvelt fyrir […] að aðstoða hana með að setjast inn í, auk þess sem skottið á bifreiðinni hafi verið rúmgott og auðvelt að koma hjólastólnum hennar fyrir.

Breytingar hafi orðið á stöðu kæranda […] 2022. Hún hafi fengið […] sem hafi haft mikil áhrif á mikilvægar stöðvar í heilanum og hafi orðið til þess að hún hafi misst töluverða færni. Hún hafi þurft að dvelja á D frá X og fram í X 2022. Þá hafi legið fyrir að hún gæti ekki flutt aftur heim til sín á E þar sem húsnæðið fullnægði ekki þörfum hennar vegna aðgengis. Hún hafi þurft stærri hjólastól, meðal annars með betri stuðning við háls og höfuð, og gæti ekki lengur setið í venjulegu bílsæti. Í haust hafi hún því sótt um styrk til kaupa á sérútbúinni bifreið og hafi fengið styrkinn samþykktan. Henni sé þó gert að endurgreiða styrkinn sem hún hafi fengið árið 2019 að fullu til Tryggingastofnunar, sem verði dregið af umræddum styrk. Kæranda finnist það ekki sanngjarnt.

Lægri styrkurinn sem kærandi hafi fengið árið 2019 hafi numið 1.440.000 kr. og styrkurinn sem hún hafi nú sótt um og fengið samþykktan sé samkvæmt úthlutunarreglum allt að 60% hlutur af kaupverði bifreiðar eða að hámarki 6.000.000 kr. Bifreiðin sem kærandi sé að kaupa kosti X kr. og 60% af því fari yfir hámark Tryggingastofnunar. Að auki ætli Tryggingastofnun að fara fram á að kærandi endurgreiði styrkinn frá 2019 að fullu og því verði heildarstyrkur ekki hærri en 4.560.000 kr.

Styrkurinn sem kærandi hafi fengið í október 2019 gildi í fimm ár eða 60 mánuði. Nú séu liðin rúmlega þrjú ár síðan eða 40 mánuðir. Á þessum 40 mánuðum hafi bifreiðin fallið verulega í söluverði og því geti ekki talist sanngjarnt að styrkurinn sé endurgreiddur að fullu. Tryggingastofnun mætti einnig taka tillit til þess að þarfir kæranda hafi breyst töluvert eftir […] 2022.

Þess sé farið á leit að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, um að óska eftir fullri endurgreiðslu af styrk sem veittur hafi verið árið 2019 og tveir þriðju hlutar séu liðnir af tímabili styrksins, verði endurskoðuð. Kærandi óskar þess að krafa um endurgreiðslu fyrri styrks verði felld niður eða að endurgreiðsla verði í samræmi við það tímabil sem liðið sé af fyrri samningi um styrk.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að málið varði umsókn um styrk til kaupa á sérútbúinni bifreið samkvæmt 8. gr. reglugerðar nr. 905/2021, sem hafi verið samþykkt, en þó þannig að fyrri styrkur samkvæmt 7. gr. reglugerðarinnar hafi verið dreginn frá upphæð styrksins.

Umsókn kæranda hafi borist Tryggingastofnun ríkisins 17. janúar 2023 og hafi hún verið samþykkt 27. janúar 2023, en þá með fyrrgreindum frádrætti, sem hafi byggst á 9. gr. reglugerðar nr. 905/2021. Af kæru megi ráða að umboðsmaður kæranda krefjist þess að styrkurinn sem hafi verið samþykktur 27. janúar 2023 greiðist að fullu, án þess að fyrri styrkur dragist frá, og ágreiningur málsins lúti þannig að því atriði.

Í 10 gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sé kveðið á um heimild til að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrksþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega sé nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt sé að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Í 1. mgr. 10. gr. segi einnig að heimilt sé að veita uppbót á fimm ára fresti vegna sama einstaklings og í 3. mgr. 10. gr. segi:

„Heimilt er að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg er vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta. Heimilt er að veita styrk á fimm ára fresti vegna sama einstaklings. Ráðherra setur reglugerð um greiðslur samkvæmt ákvæði þessu, m.a. um sex mánaða búsetuskilyrði.“

Sú reglugerð sem eigi við í málinu sé reglugerð nr. 905/2021 um uppbætur og styrki til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða. Í því máli sem um ræði reyni einkum og sér í lagi á túlkun á 9. og 11. gr. reglugerðarinnar.

Ákvæði 9. gr. lúti að því þegar sjúkdómsástand hins hreyfihamlaða versni og hljóði svo:

„Hafi hinn hreyfihamlaði móttekið uppbót skv. 6. gr. og sjúkdómsástand hans versnar þannig að hann uppfylli skilyrði styrks skv. 7. gr. er heimilt að greiða mismun á fjárhæð uppbótar og styrks. Styrkur og uppbót geta þó samtals aldrei verið hærri en 1.440.000 kr. á fimm ára fresti.

Hafi hinn hreyfihamlaði móttekið uppbót skv. 6. gr. eða styrk skv. 7. gr. og sjúkdómsástand hans versnar þannig að hann uppfylli skilyrði styrks skv. 8. gr. er á sama hátt heimilt að greiða mismun fjárhæðanna. Styrkur getur þó samtals aldrei verið hærri en 6.000.000 kr. á fimm ára fresti.“

Ákvæði 11. gr. lúti að endurnýjun umsókna og hljóði svo:

„Heimilt er að veita uppbætur og styrki vegna bifreiðakaupa á fimm ára fresti til sama einstaklings.

Þegar um er að ræða styrki skv. 7. og 8. gr. reglugerðar þessarar er heimilt að víkja frá tímamörkum skv. 1. mgr. eyðileggist bifreið á tímabilinu. Þó er eingöngu heimilt að víkja frá tímamörkum 1. mgr. þegar um styrk skv. 7. gr. er að ræða hafi bifreiðin verið tólf ára eða yngri þegar hún eyðilagðist.“

Umsókn kæranda um styrk til kaupa á bifreið samkvæmt 7. gr reglugerðar nr. 905/2021 hafi verið samþykkt 24. september 2019 og hafi fjárhæð styrksins verið 1.440.000 kr.

Ástand kæranda hafi versnað sumarið 2022 og hafi hún sótt um styrk til kaupa á sérútbúinni bifreið samkvæmt 8. gr. reglugerðar nr. 905/2021. Sú umsókn hafi verið samþykkt 17. janúar 2023. Fjárhæð slíks styrks sé að hámarki 6.000.000 kr., en í tilviki kæranda hafi upphæðin verið lækkuð sem hafi numið upphæð fyrri styrksins.

Um það bil þrjú ár og fjórir mánuðir hafi liðið frá því að fyrri umsóknin hafi verið samþykkt og þangað til sú síðari hafi verið samþykkt.

Ekki liggi fyrir í málinu að bifreiðin sem hafi verið keypt 2019 hafi eyðilagst. Í rökstuðningi kæranda meðfylgjandi kæru segi að sú bifreið hafi fallið verulega í verði.

Aðrir málavextir skipti ekki máli við úrlausn málsins. Ofangreind 2. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 905/2021 eigi við í málinu, þar sem kærandi hafi tekið á móti styrk samkvæmt 7. gr. í september 2019 og hafi uppfyllt skilyrði styrks samkvæmt 8. gr. í janúar 2023.

Ákvæði 2. mgr. 9. gr. kveði á um að í slíkum tilvikum sé heimilt að greiða mismun fjárhæðanna, en þó geti styrkurinn samtals aldrei verið hærri en 6.000.000 kr. á fimm ára fresti.

Úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 140/2017 frá 18. október 2017 sé gott fordæmi í málinu, enda málsatvik sambærileg og túlkun nefndarinnar á reglugerðinni sé þar í samræmi við túlkun Tryggingastofnunar. Þá megi benda á úrskurð úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 563/2021 frá 19. janúar 2022, þar sem byggt sé á sömu túlkun.

Í raun sé eina mögulega álitaefnið hvort bifreiðin sem keypt hafi verið 2019 hafi eyðilagst í skilningi 2. mgr. 11. gr. reglugerðarinnar og hvort túlka beri það ákvæði þannig að í slíkum tilvikum megi greiða hærri styrk en samtals 6.000.000 kr. á fimm ára fresti. Ekkert hafi komið fram sem bendi til að bifreiðin sem kærandi hafi keypt í tengslum við styrkinn frá 2019 hafi eyðilagst. Ummæli í rökstuðningi kæranda með kæru um að bifreiðin hafi fallið verulega í verði bendi til að bifreiðin sé ekki ónýt í skilningi ákvæðisins. Ekki hafi verið sýnt fram á að bifreiðin hafi fallið í verði umfram það sem eðlilegt geti talist og jafnvel þó að kærandi geti sýnt fram á verulega verðrýrnun, sé skilyrði 2. mgr. 11. gr. um að bifreið hafi eyðilagst ekki uppfyllt.

Í ljósi alls framangreinds sé niðurstaða Tryggingastofnunar sú að afgreiðslan á umsókn kæranda sé í senn lögmæt og málefnaleg.

Fyrir nefndinni fari Tryggingastofnun þannig fram á staðfestingu á ákvörðun sinni frá 27. janúar um að fyrri styrkur samkvæmt 7. gr. reglugerðar 905/2021 eigi að dragast frá styrk samkvæmt 8. gr. reglugerðarinnar, með vísun í 9. gr. hennar.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 27. janúar 2023 um að samþykkja  60% styrk til kaupa á bifreið samkvæmt 8. gr. reglugerðar nr. 905/2021. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort Tryggingastofnun hafi verið heimilt að draga frá fyrri styrk samkvæmt 7. gr. reglugerðar nr. 905/2021 á þeim grundvelli að ekki væru liðin fimm ár frá síðustu úthlutun.

Lagaheimild fyrir veitingu uppbótar/styrkja til kaupa á bifreið er að finna í 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í 10. gr. segir meðal annars svo:

„Heimilt er að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt er að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Heimilt er að veita uppbót á fimm ára fresti vegna sama einstaklings.

[...]

Heimilt er að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg er vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta. Heimilt er að veita styrk á fimm ára fresti vegna sama einstaklings. Ráðherra setur reglugerð um greiðslur samkvæmt ákvæði þessu, m.a. um sex mánaða búsetuskilyrði.“

Reglugerð nr. 905/2021 um uppbætur og styrki til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða tók gildi 1. september 2021. Áður var í gildi reglugerð nr. 170/2009.

Í 9. gr. reglugerðar nr. 905/2021 er fjallað um þegar sjúkdómsástand hins hreyfihamlaða versnar. Ákvæðið hljóðar svo:

„Hafi hinn hreyfihamlaði móttekið uppbót skv. 6. gr. og sjúkdómsástand hans versnar þannig að hann uppfylli skilyrði styrks skv. 7. gr. er heimilt að greiða mismun á fjárhæð uppbótar og styrks. Styrkur og uppbót geta þó samtals aldrei verið hærri en 1.440.000 kr. á fimm ára fresti.

Hafi hinn hreyfihamlaði móttekið uppbót skv. 6. gr. eða styrk skv. 7. gr. og sjúkdómsástand hans versnar þannig að hann uppfylli skilyrði styrks skv. 8. gr. er á sama hátt heimilt að greiða mismun fjárhæðanna. Styrkur getur þó samtals aldrei verið hærri en 6.000.000 kr. á fimm ára fresti.“

Um endurnýjun umsókna er fjallað í 11. gr. reglugerðar nr. 905/2021. Ákvæðið hljóðar svo:

„Heimilt er að veita uppbætur og styrki vegna bifreiðakaupa á fimm ára fresti til sama einstaklings.

Þegar um er að ræða styrki skv. 7. og 8. gr. reglugerðar þessarar er heimilt að víkja frá tímamörkum skv. 1. mgr. eyðileggist bifreið á tímabilinu. Þó er eingöngu heimilt að víkja frá tímamörkum 1. mgr. þegar um styrk skv. 7. gr. er að ræða hafi bifreiðin verið tólf ára eða yngri þegar hún eyðilagðist.“

Fyrir liggur að með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 24. september 2019, fékk kærandi samþykktan styrk til bifreiðakaupa að fjárhæð 1.440.000 kr. á grundvelli 4. gr. þágildandi reglugerðar nr. 170/2009, sbr. 7. gr. núgildandi reglugerðar nr. 905/2021. Með umsókn, dags. 17. janúar 2023, sótti kærandi um uppbót/styrk til kaupa á bifreið. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 27. janúar 2023, var kæranda tilkynnt að 60% styrkur af grunnverði bifreiðar án aukabúnaðar, þó ekki hærri en 6.000.000 kr., hefði verið samþykktur. Jafnframt var tekið fram að þar sem ekki væru liðin 5 ár frá síðasta styrk sem hún fékk greiddan, þ.e. 1.440.000 kr., ætti hún rétt á mismun á 1.440.000 kr. og 6.000.000 kr., þ.e. 4.560.000 kr. Með kæru óskar umboðsmaður kæranda eftir því að krafa Tryggingastofnunar ríkisins um að draga fyrri styrk frá verði felld niður eða að endurgreiðsla verði í samræmi við það tímabil sem er liðið frá fyrri styrk. Umboðsmaður kæranda byggir á því að rúmlega 3 ár séu liðin frá því að kærandi hafi fengið styrkinn greiddan og á þeim tíma hafi bíllinn fallið verulega í söluverði.

Meginreglan er sú að einungis er heimilt að veita uppbót/styrk til bifreiðakaupa á fimm ára fresti til sama einstaklings, sbr. 2. málsl. 1. og 3. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð. Í 2. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 905/2021 er kveðið á um að hafi hinn hreyfihamlaði móttekið styrk samkvæmt 7. gr. og sjúkdómsástand hans versni þannig að hann uppfylli skilyrði styrks samkvæmt 8. gr. sé heimilt að greiða mismun á fjárhæð styrkjanna. Styrkur getur þó aldrei verið hærri en samtals 6.000.000 kr. á fimm ára fresti. Í 2. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 905/2021 er einnig kveðið á um undanþágu frá þeirri meginreglu að styrkir vegna bifreiðakaupa séu greiddir á fimm ára fresti til sama einstaklingsins. Í ákvæðinu segir að heimilt sé að víkja frá þeim tímamörkum ef bifreiðin eyðileggist á tímabilinu.

Í málinu liggur fyrir að ástæða þess að kærandi sótti um styrk til kaupa á sérútbúinni bifreið var vegna versnandi stöðu hennar. Hún þurfi stærri hjólastól og geti ekki setið í venjulegu bílsæti þar sem hún þurfi betri stuðning við háls og höfuð. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ljóst af 2. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 905/2021 að Tryggingastofnun hafi verið heimilt að draga fyrri styrk vegna bifreiða frá, enda voru ekki liðin fimm ár frá styrkveitingunni. Þá telur nefndin ljóst að framangreind undanþága 2. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 905/2021 eigi ekki við í tilviki kæranda.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 27. janúar 2023 um að draga fyrri styrk vegna bifreiðakaupa frá samþykktum 60% styrk til bifreiðakaupa staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 27. janúar 2023 um að draga fyrri styrk A, frá samþykktum 60% styrk vegna kaupa á bifreið, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta