Úrskurður nr. 435/2017
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 15. ágúst 2017 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 435/2017
í stjórnsýslumáli nr. KNU17060035
Kæra [...]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 14. júní 2017 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 24. maí 2017, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og endursenda hann til Ítalíu.
Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar með vísan til 42. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, sbr. 3. mgr. 36. gr. og 2. mgr. 36. gr. sömu laga. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka málið til meðferðar að nýju.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsmeðferð
Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 17. mars 2017. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum, þann sama dag, kom í ljós að fingraför hans höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Sviss og á Ítalíu. Þann 27. mars 2017 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda á Ítalíu, sbr. b-lið 1. mgr. 18. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Þann 10. apríl 2017 barst svar frá ítölskum yfirvöldum þess efnis að þau samþykktu viðtöku kæranda á grundvelli b-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 24. maí 2017 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að hann skyldi endursendur til Ítalíu. Kærandi kærði ákvörðunina þann 14. júní 2017 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 3. júlí 2017 ásamt fylgigögnum.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að umsókn kæranda um alþjóðlega vernd yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og hann skyldi endursendur til Ítalíu. Lagt var til grundvallar að Ítalía virði ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna, þar með talið bann við endursendingu til ríkis þar sem líf og frelsi kæranda kynni að vera í hættu (non-refoulement). Því fæli flutningur kæranda til Ítalíu ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga. Þá var talið að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að ástæða væri til að beita ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat stofnunarinnar að sérstakar aðstæður í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga væru ekki til staðar í málinu. Aðstæður kæranda féllu ekki undir 16. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og væru ekki slíkar að ástæða væri til að beita 1. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar í málinu. Kærandi skyldi yfirgefa Ísland og bæri að senda hann til Ítalíu, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.
Í ákvörðun Útlendingastofnunar var vísað til þess að Ítalía sé eitt af stofnríkjum Evrópusambandsins og sé þar af leiðandi bundið af þeim tilskipunum og gerðum sem sambandið gefur út, þ. á m. móttökutilskipuninni nr. 2013/33/ESB og málsmeðferðartilskipuninni nr. 2013/32/ESB. Með hliðsjón af móttökutilskipuninni þá sé það bundið í lög að umsækjendur um alþjóðlega vernd eigi rétt á húsaskjóli í móttökumiðstöð á meðan verið sé að skilgreina lagalega stöðu þeirra. Þegar lokið væri við að skilgreina stöðu umsækjenda tæki við annað kerfi, svonefnt SPRAR–kerfi. Þá fjallaði Útlendingastofnun um niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Samsam Mohammed Hussein o.fl. gegn Hollandi og Ítalíu (mál nr. 27725/10) frá 2. apríl 2013. Jafnframt vísaði Útlendingastofnun til dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Tarakhel gegn Sviss (mál nr. 29217/12) frá 4. nóvember 2014 og í máli A.S. gegn Sviss (mál nr. 39350/13) frá 30. júní 2015.
Um stöðu kæranda sagði Útlendingastofnun í niðurstöðu sinni að fyrir lægi að kærandi væri einhleypur og heilsuhraustur karlmaður. Í greinargerð kæranda til Útlendingastofnunar hefði komið fram að hann væri á [...]. Engin gögn hefðu hins vegar borist Útlendingastofnun varðandi andlega eða líkamlega heilsu kæranda þegar ákvörðun hefði verið tekin í máli hans og væri því framburður hans úr viðtali hjá Útlendingastofnun lagður til grundvallar. Var kærandi því ekki talinn vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Kærandi ætti greiðan aðgang að heilbrigðiskerfinu á Ítalíu og væru aðstæður hans því ekki með þeim hætti að þær teldust sérstakar í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.
Þá var það mat Útlendingastofnunar að á Ítalíu væru engin viðvarandi mannréttindabrot og að íbúar landsins gætu fengið vernd gegn ofbeldisbrotum og glæpum með aðstoð lögreglu eða annarra yfirvalda.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð kæranda er m.a. fjallað um [...] ástand kæranda, en m.a. kemur fram að hann [...]. Vegna [...] taki [...]. Þau gögn sem fylgi með greinargerð kæranda til kærunefndar sýni fram á að hann hafi verið greindur með [...]. Þá staðfesti gögnin að kæranda hafi verið ávísað lyfjum til að takast á við vanheilsu sína. Kærandi sé því í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga.
Í greinargerð kæranda er m.a. vísað til greinargerðar innanríkisráðuneytisins frá desember 2015 um endursendingar umsækjenda um alþjóðlega vernd til Ítalíu, þar sem m.a. komi fram að skoða þurfi sérstaklega og leggja mat á hvort umsækjendur teljist í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Ungir karlmenn geti ekki síður en aðrir talist vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu í ljósi einstaklingsbundinna aðstæðna þeirra eða sögu eða aðstæðna sem bíði þeirra í móttökuríki.
Þá bendir kærandi á að einstaklingsbundin greining skv. 1. mgr. 25. gr. laga um útlendinga hafi ekki farið fram í máli hans og því hafi Útlendingastofnun ekki uppfyllt þær skyldur sem á stofnuninni hvíli. Sú staðreynd að kærandi hafi borið fyrir sig [...] vanheilsu hafi gefið Útlendingastofnun tilefni til að kalla eftir frekari upplýsingum þar um. Telur kærandi að Útlendingastofnun hafi brotið gegn 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hvað þetta varðar.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Fyrir liggur í máli þessu að ítölsk stjórnvöld hafa samþykkt viðtöku á kæranda á grundvelli b-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, en Ísland skuldbatt sig til að fylgja reglugerðinni með samningi Íslands, Noregs og Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001, um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi. Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Samþykki Ítalíu er byggt á því að kærandi sé með umsókn um alþjóðlega vernd til meðferðar þar í landi.
Í c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að umsókn um alþjóðlega vernd skv. 37. gr. skuli tekin til efnismeðferðar nema heimilt sé að krefja annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda. Í 2. mgr. 36. gr. kemur m.a. fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því.
Greinargerð innanríkisráðuneytisins um endursendingar umsækjenda um alþjóðlega vernd til Ítalíu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, frá desember 2015, endurspeglar stefnu stjórnvalda um það efni. Þar er lagt til að meginreglan verði eftir sem áður sú að umsækjendur verði endursendir til Ítalíu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar en hins vegar skuli ávallt skoða hvert tilvik fyrir sig og meta aðstæður viðkomandi einstaklings áður en ákvörðun sé tekin. Í þessu felist að kanna verði þær upplýsingar sem liggi fyrir um einstaklingsbundnar aðstæður viðkomandi umsækjanda og fyrirliggjandi upplýsingar um aðstæður umsækjenda um alþjóðlega vernd á Ítalíu. Stjórnvöld þurfi að hafa hliðsjón af aðstæðum sérstaklega viðkvæmra hópa, m.a. einstaklinga sem hafa sætt pyndingum, nauðgunum eða öðru alvarlegu sálfræðilegu, líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi. Þá segir að áfram skuli miða við þá framkvæmd íslenskra stjórnvalda, síðan í maí 2014, að þeir umsækjendur sem teljist í sérstaklega viðkvæmri stöðu skuli ekki sendir til Ítalíu. Verði talið varhugavert með hliðsjón af ofangreindu mati að endursenda viðkomandi til Ítalíu, m.a. í ljósi stöðu hans og einstaklingsbundinna aðstæðna, er lagt til að undanþáguheimild 1. mgr. 17. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar verði beitt þannig að íslensk stjórnvöld beri ábyrgð á efnismeðferð umsóknarinnar.
Samkvæmt 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga teljast einstaklingar vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu ef þeir, vegna tiltekinna persónulegra eiginleika eða aðstæðna hafa sérþarfir sem taka þarf tillit til við meðferð máls eða þeir geta ekki að fullu eða með engu móti nýtt sér rétt eða uppfyllt skyldur sem kveðið er á um í lögum þessum án aðstoðar eða sérstaks tillits. Sem dæmi um einstaklinga í sérstaklega viðkvæmri stöðu nefnir ákvæðið fylgdarlaus börn, fatlað fólk, fólk með geðraskanir eða geðfötlun, aldrað fólk, þungaðar konur, einstæða foreldra með ung börn, fórnarlömb mansals, alvarlega veika einstaklinga og einstaklinga sem hafa orðið fyrir pyndingum, kynfæralimlestingum, nauðgun eða öðru alvarlegu andlegu, líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi.
Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að hann væri við góða líkamlega heilsu en aðspurður um [...] kvaðst kærandi eiga viðtal við lækni daginn eftir. Í greinargerð sem kærandi lagði fram hjá Útlendingastofnun kemur fram að hann væri [...]. Eins og að framan greinir kemur fram í ákvörðun Útlendingastofnunar að engin gögn hafi borist Útlendingastofnun varðandi andlega eða líkamlega heilsu kæranda og að því yrði lagður til grundvallar framburður hans í viðtali hjá Útlendingastofnun. Þá segir síðar í ákvörðuninni að kærandi sé heilsuhraustur karlmaður.
Samkvæmt læknisfræðilegum gögnum, sem kærandi hefur lagt fram hjá kærunefnd, hefur hann [...]. Þá leitaði kærandi til göngudeildar sóttvarna hjá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins a.m.k. fimm sinnum frá 29. mars 2017 og þangað til Útlendingastofnun tók ákvörðun í mál hans þann 24. maí 2017. Liggur því fyrir að framangreind læknisfræðileg gögn voru að miklu leyti til þegar Útlendingastofnun tók ákvörðun í máli kæranda.
Af 10. gr. stjórnsýslulaga leiðir að stjórnvöldum ber að tryggja að mál þar sem reynir á 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga séu nægjanlega upplýst með tilliti til heilsufars. Þegar stjórnvöld búa yfir upplýsingum um að heilsufar umsækjanda um alþjóðlega vernd kunni að vera af því alvarleikastigi að aðstæður hans geti talist sérstakar í skilningi 2. mgr. 36. gr. laganna ber þeim að bregðast sérstaklega við því með því að gera reka að því að upplýsingum um heilsufar verði bætt við málið, sbr. jafnframt 7. gr. stjórnsýslulaga. Þetta á til dæmis við ef stjórnvöld búa yfir upplýsingum um að umsækjandi hafi leitað eftir læknismeðferð. Ef aðili heldur fram tilteknum staðhæfingum varðandi heilsufar sitt sem stjórnvald telur nauðsynlegt að sé stutt gögnum svo unnt sé að leggja þær til grundvallar við úrlausn málsins ber stjórnvaldi að leiðbeina aðila um að leggja slík gögn fram. Hafi slíkar leiðbeiningar ekki verið veittar getur stjórnvald ekki látið aðila bera hallann af því að gögn liggi ekki fyrir í málinu.
Þá áréttar kærunefnd sérstaklega, í ljósi framangreindar afstöðu íslenskra stjórnvalda til endursendinga umsækjenda um alþjóðlega vernd til Ítalíu, sem fram kemur í áðurnefndri greinargerð innanríkisráðuneytisins frá desember 2015, og dóma Mannréttindadómstólsins, að niðurstaða mats Útlendingastofnunar um hvort kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu, getur haft grundvallarþýðingu fyrir niðurstöðu í máli kæranda. Kærunefnd telur því mikilvægt að fyrir liggi fullnægjandi gögn um aðstæður umsækjanda sem grundvöllur undir ákvarðanatöku í málinu. Í málinu liggur fyrir að í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 26. apríl 2017 greindi kærandi frá því að hann ætti viðtal við lækni daginn eftir. Ákvörðun í máli hans var tekin 24. maí sl., eða um mánuði eftir að viðtalið fór fram. Í ákvörðun Útlendingastofnunar, þegar fjallað er um aðstæður hans, er rakið hvað kærandi sagði í viðtali hjá stofnuninni varðandi heilsu sína og tekið fram að engin gögn hafi borist stofnuninni áður en ákvörðun var tekin í málinu. Hafi því framburður kæranda úr viðtölum Útlendingastofnunar við kæranda verið lagður til grundvallar en síðar í ákvörðuninni kemur fram að kærandi sé heilsuhraustur. Að mati kærunefndar verður rökstuðningur Útlendingastofnunar ekki skilinn á annan veg en að stofnunin hafi byggt á því að kærandi glímdi ekki við [...].
Það er mat kærunefndar að Útlendingastofnun hafi borið að afla framangreindra læknisfræðilegra gagna um [...] kæranda eða leiðbeina kæranda um þýðingu þess að leggja upplýsingarnar fram áður en stofnunin tók ákvörðun í máli kæranda, sbr. 7. og 10. gr. stjórnsýslulaga, enda hafði stofnunin upplýsingar um að kærandi ætlaði að leita sér læknisaðstoðar vegna [...]. Af gögnum málsins er ekki að sjá að stofnunin hafi leiðbeint kæranda um þýðingu slíkrar gagnaöflunar. Er það mat kærunefndar að ítarlegri greining á aðstæðum kæranda geti, í ljósi framangreinds, haft grundvallarþýðingu fyrir niðurstöðu í máli kæranda.
Ljóst er að meginmarkmiðið með stjórnsýslukæru er að tryggja réttaröryggi borgaranna með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Að mati kærunefndar er ekki hægt á kærustigi að bæta úr þeim ágalla sem tengist skorti á rannsókn á því hvort kærandi sé einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu og hvort það hafi áhrif á niðurstöðu í máli hans. Í ljósi framangreinds telur kærunefnd þörf á því að frekari rannsókn fari fram á aðstæðum kæranda á lægra stjórnsýslustigi vegna málsástæðna hans um [...] og þá hvort niðurstaða þess mats hafi áhrif á niðurstöðu í máli kæranda.
Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar að fella beri ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda fyrir að nýju.
The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellant‘s case.
Anna Tryggvadóttir
Erna Kristín Blöndal Þorbjörg Inga Jónsdóttir