Hoppa yfir valmynd
17. nóvember 2017 Dómsmálaráðuneytið

Mál nr. 17/2017

Hinn 3. nóvember 2017 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 17/2017:

 

Beiðni um endurupptöku

hæstaréttarmáls nr. 705/2015;

Ákæruvaldið

gegn

Emil K. Thorarensen

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR:

 I. Beiðni um endurupptöku

1.  Með erindi, dagsettu 29. maí 2017, fór Emil K. Thorarensen þess á leit að hæstaréttarmál nr. 705/2015, sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 2. júní 2016, yrði endurupptekið.

2.  Með vísan til 34. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla, sbr. 2. gr. laga nr. 15/2013, fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa Björn L. Bergsson, Haukur Örn Birgisson og Þórdís Ingadóttir.

3.  Að beiðni endurupptökubeiðanda var Gunnar Ingi Jóhannsson hæstaréttarlögmaður skipaður talsmaður hans, samanber 1. mgr. 213. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Jafnframt hefur endurupptökubeiðandi óskað þess að kostnaður vegna endurupptökumáls þessa verði greiddur úr ríkissjóði, samanber 4. mgr. 214. gr. laga um meðferð sakamála

II. Málsatvik

4.  Endurupptökubeiðandi var ákærður í sjö töluliðum fyrir ærumeiðingar og aðdróttanir gegn opinberum starfsmanni, samanber 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með því að hafa viðhaft og birt nánar tilgreind ummæli á Facebook samskiptasíðu sinni um A, en ummælin vörðuðu starf þess síðarnefnda sem lögreglumanns. Var endurupptökubeiðandi sakfelldur í héraðsdómi fyrir ummæli í einum tölulið af sjö sem hann var ákærður fyrir, það er 6. tölulið ákæru. Ummælin voru eftirfarandi: „hefur að sögn, sent táningum og unglingsstelpum kynferðisleg skilaboð og jafnframt boðið þeim upp á „afslátt“ gegn ???“

5.  Í dómi Hæstaréttar var talið að af samhengi þeirra ummæla, sem málið snerist um, yrði ekki annað ráðið en að með þeim hefði endurupptökubeiðandi borið A á brýn að hafa haft í hyggju að misnota aðstöðu sína sem lögreglumaður gagnvart ungmennum.

6.  Var niðurstaða héraðsdóms staðfest um sakfellingu vegna ærumeiðinga samkvæmt 6. tölulið ákæru. Framhaldsákæru með einkaréttarkröfu A var hins vegar vísað frá héraðsdómi þar sem skilyrðum 1. mgr. 153. gr. laga um meðferð sakamála til útgáfu framhaldsákæru var ekki fullnægt. Var refsing endurupptökubeiðanda ákveðin sekt að fjárhæð 100.000 krónur að viðlagðri vararefsingu og endurupptökubeiðanda gert að greiða allan sakarkostnað.

III. Grundvöllur beiðni

7.  Endurupptökubeiðandi byggir á því að fram séu komin ný gögn sem ætla má að hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fram áður en dómur gekk, sbr. a-lið 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála.

8.  Endurupptökubeiðandi byggir á því að fyrir héraðsdómi hafi meðal annars tvö vitni gefið skýrslur og hafi annað vitnið lýst samskiptum sínum við A en sækjandi hafi hins vegar spurt vitnið einskis. Af hálfu endurupptökubeiðanda eru gerðar athugasemdir við það í ljósi hlutlægnisskyldu embættis ríkissaksóknara, sbr. 3. mgr. 18. gr. laga um meðferð sakamála. Hitt vitnið hafi ekki treyst sér til að gefa skýrslu þar sem A hafi verið viðstaddur þinghaldið, að öðru leyti en að staðfesta að A hafi áreitt hana kynferðislega.

9.  Undir rekstri málsins í Hæstarétti hafi endurupptökubeiðandi lagt fram ný gögn. Um var að ræða yfirlýsingar tveggja stúlkna til viðbótar þeim sem gefið höfðu skýrslur fyrir héraðsdómi um samskipti þeirra við A. Í yfirlýsingu annarrar þeirrar hafi komið fram að hún hafi verið tilbúin að staðfesta framburð sinn fyrir lögreglu eða dómi. Fyrir liggi að það hafi ekki verið gert. Telur endurupptökubeiðandi að ekki verði ráðið af dómi Hæstaréttar að þessi nýju gögn hafi nokkur áhrif haft á málið og ekkert sé vísað til þeirra í dóminum en endurupptökubeiðandi hafi óskað eftir því við verjanda sinn að þeim yrði komið að. Ekki verði annað séð en að hinar skriflegu yfirlýsingar hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins, sbr. a-lið 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála, enda hafi sakfelling endurupptökubeiðanda alfarið ráðist af því að hann hafi ekki fært sönnur á ummælin.

10.  Endurupptökubeiðandi telur að Hæstiréttur hefði átt að beita heimild 2. mgr. 204. gr. laga um meðferð sakamála sem kveði á um að sé málatilbúnaði áfátt, án þess að nauðsynlegt þyki að vísa máli frá eða ómerkja héraðsdóm, geti Hæstiréttur beint því til aðila að afla gagna um tiltekin atriði eða grípa til annarra aðgerða til að ráða bót á því sem áfátt sé. Hafi Hæstarétti borið að beita þessari heimild og leggja fyrir ákæruvaldið að afla munnlegs framburðar stúlknanna fyrir héraðsdómi og fá þær til að staðfesta skriflegar yfirlýsingar sínar. Vísar endurupptökubeiðandi máli sínu til stuðnings í mál Hæstaréttar nr. 89/2016 frá 3. október 2016 og nýlegs dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá 22. maí 2017.

11. Endurupptökubeiðandi telur ljóst að yfirlýsingarnar hefðu getað haft bein áhrif á það hvort endurupptökubeiðandi yrði sakfelldur, enda verði ekki annað séð en að þau ummæli sem 6. töluliður ákæru í málinu tilgreinir, séu samkvæmt yfirlýsingunum sönn eða að minnsta kosti refsilaus með tilliti til þess tjáningarfrelsis sem 73. gr. Stjórnarskrár Íslands nr. 33/1944 og 10. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, ber að tryggja. Með vísan til fyrrgreindra lagaákvæða og nýlegrar dómaframkvæmdar Mannréttindadómstóls Evrópu í málum er varða 235. gr. laga um meðferð sakamála telur endurupptökubeiðandi að málið hafi verið rangt metið og gengið hafi verið of langt á tjáningarfrelsi hans.

12.  Þá hafi Hæstiréttur einnig mátt og í raun átt að beita ákvæði 3. mgr. 208. gr. laga um meðferð sakamála um að fella megi úr gildi héraðsdóm og meðferð málsins í héraði í þeim mæli að munnleg sönnunarfærsla geti farið þar fram eftir þörfum og leyst verði úr máli á ný, meðal annars ef vitni eða ákærði hafi ekki gefið skýrslu fyrir héraðsdómi. Bendir endurupptökubeiðandi á að tvö mikilvæg vitni, sem ákæruvaldinu hafi verið kunnugt um, hafi ekki gefið skýrslu fyrir dómi. Rétt hefði verið að kalla þessi vitni fyrir héraðsdóm og taka af þeim skýrslur.

13.  Jafnframt byggir endurupptökubeiðandi á því að verulegar líkur séu leiddar að því að sönnunargögn sem færð voru fram í máli hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess, sbr. c-lið 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála. Svo virðist sem að þýðingarmikil sönnunargögn, það er skýrslur og yfirlýsingar vitna, hafi að engu leyti verið metin, eða að minnsta kosti hafi þau verið rangt metin, þannig að þau hafi ekki verið talin hafa þýðingu fyrir málið.

14.  Þó þess sé hvergi getið í ákæru hljóti heimild til útgáfu opinberrar ákæru að byggjast á b-lið 2. töluliðar 242. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, það er að segja, gefin hafi verið út ákæra þar sem ummælin hafi verið talin varða starf A sem opinbers embættismanns. Endurupptökubeiðandi byggir á því að meta hefði átt tjáningarfrelsi hans rýmra þar sem ummælin hafi, bæði af ákæruvaldinu og dómstólum, verið talin varða starf A sem lögreglumanns og því óhjákvæmilegt að virða þau sem gagnrýni á opinberan embættismann. Til stuðnings því vísar endurupptökubeiðandi almennt til dómaframkvæmdar Mannréttindadómstóls Evrópu. Endurupptökubeiðandi telur að svo virðist hins vegar sem ummælin hafi á endanum verið metin sem ærumeiðing í garð A persónulega, samanber ummæli héraðsdóms að „gagnrýni á einstaka, nafngreinda, opinbera starfsmenn sem ekki hafa tekið þátt í opinberri umræðu kann þó síður að verða álitin njóta verndar.“ Endurupptökubeiðandi telur það engin áhrif eiga að hafa á niðurstöðu máls hvort viðkomandi embættismaður, sem gagnrýni sé beint að, hafi tekið þátt í opinberri umræðu eða ekki. Gagnrýni sem beinist að opinberum starfsmanni beinist að meðferð þess einstaklings á því valdi sem honum sé fært með lögum en slíkt hafi verið tilfellið í máli þessu.

15.  Endurupptökubeiðandi vísar í beiðni sinni til dóma Mannréttindadómstóls Evrópu gegn Íslandi sem varði mörk tjáningarfrelsis. Vísað er til fimm ótilgreindra dóma auk dóms dómstólsins í máli nr. 44081/13 frá 4. maí 2017, en í málunum hafi íslenskir dómstólar komist að þeirri niðurstöðu að brotið hafi verið gegn 235. gr. almennra hegningarlaga. Í fyrrgreindum dómum mannréttindadómstólsins hafi í öllum tilfellum íslenskir dómstólar verið taldir ganga of langt í skerðingu tjáningarfrelsis.

16.  Að lokum byggir endurupptökubeiðandi á því að verulegir gallar hafi verið á meðferð málsins þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess, sbr. d-lið 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála. Svo sem fyrr er rakið telur endurupptökubeiðandi að Hæstarétti hafi borið að leggja fyrir ákæruvaldið og héraðsdóm að munnleg skýrsla yrði tekin af vitnum. Ekki verði betur séð en að það hefði að öllum líkindum leitt til sýknu endurupptökubeiðanda af 6. tölulið ákæru ef það hefði verið gert. Telur endurupptökubeiðandi ofangreint verulegan galla á meðferð málsins sem hafi haft áhrif á niðurstöðu þess.

IV. Viðhorf gagnaðila

17. Í umsögn ríkissaksóknara, dagsettri 20. júní 2017, er tekin afstaða til þeirra atriða sem endurupptökubeiðandi byggir endurupptökubeiðni sína á.

18. Ríkissaksóknari staðfestir að yfirlýsing einstaklings, sem endurupptökubeiðandi fjallar um í endurupptökubeiðni sinni, hafi verið lögð fram af verjanda hans fyrir Hæstarétti áður en málið var þar flutt. Verjandi endurupptökubeiðanda hafi fjallað um efni skjalsins í málflutningi fyrir Hæstarétti til stuðnings varakröfu og þrautavarakröfu. Því sé ekki um að ræða nýtt skjal í skilningi réttarfarslaga. Þá fái ríkissaksóknari ekki séð að skjalið hafi neitt sönnunargildi hvað varðar 6. tölulið ákæru eða að það hafi verið rangt metið og enn síður að efni þess hafi gefið tilefni til að dómurinn yrði ómerktur og málinu vísað til nýrrar meðferðar fyrir héraðsdómi.

19.  Í umsögn ríkissaksóknara er staðfest að nánar tilgreind gögn, sem fylgdu endurupptökubeiðni, hafi ekki verið lögð fram í dómsmálinu af hálfu endurupptökubeiðanda. Nánar tiltekið bréf annars einstaklings en að framan getur, dagsett 9. nóvember 2015, tölvubréf til verjanda endurupptökubeiðanda, sent 21. janúar 2016, og yfirlýsing dagsett 15. nóvember 2015 sem stafaði frá sama einstaklingi og ritaði yfirlýsinguna sem lögð var fram í Hæstarétti. Með hliðsjón af því sem fram komi í endurupptökubeiðni þá virðist skjölin hins vegar hafa legið fyrir hjá endurupptökubeiðanda og verjanda hans áður en dómur Hæstaréttar var kveðinn upp en ríkissaksóknara hafi verið ókunnugt um gögnin. Að því virtu sé ekki um að ræða ný gögn í skilningi réttarfarslaga.

20.  Þá verði ekki séð að fyrrnefnt bréf, sem dagsett er 9. nóvember 2015, hafi sérstakt sönnunargildi varðandi 6. tölulið ákæru. Í bréfinu sé greint frá meintum atvikum á tímabilinu júní – ágúst 2012 en á þeim tíma hafi viðkomandi verið 28 – 29 ára gömul og því hvorki táningur né unglingsstelpa, sem verknaðarlýsing ákæru hafi byggst á. Þá sé efni skjalsins að öðru leyti ótengt 6. tölulið ákæru. Að því virtu verði ekki séð að efni skjalsins gefi tilefni til endurupptöku málsins.

21.  Af hálfu ríkissaksóknara er bent á að efni yfirlýsingar, sem dagsett er 15. nóvember 2015, sé að mestu leyti það sama og fram komi í fyrrgreindri yfirlýsingu sama einstaklings sem dagsett er 17. maí sama ár, sem legið hafi fyrir í Hæstarétti. Skjalið hafi takmarkað gildi við mat á skilyrðum endurupptöku.

22.  Varðandi tölvubréf, sem sent var 21. janúar 2016, er á það bent að fram komi í greinargerð endurupptökubeiðanda fyrir héraðsdómi 19. janúar 2014 að hann hafi áform um að leiða þann einstakling fyrir héraðsdóm sem vitni. Megi leiða líkur að því að tilgangurinn með þeim áformum hafi verið að fara yfir sömu atriði og greinir í fyrrgreindu tölvubréfi. Fallið hafi verði frá þeirri vitnaleiðslu af hálfu endurupptökubeiðanda. Af efni skjalsins verði ekki ráðið að það hafi sérstakt gildi varðandi 6. tölulið ákæru en það virðist ekki taka til tilvika sem aðdróttanir endurupptökubeiðanda tóku til samkvæmt þeim tölulið ákæru. Þá vísar skjalið til eldri einstaklinga en greinir í ákæruliðnum.

23.  Ríkissaksóknari rekur að í endurupptökubeiðni sé með almennum hætti vísað til þess að niðurstaða í hæstaréttarmáli nr. 705/2016 gangi gegn nýlegum dómum Mannréttindadómstóls Evrópu. Að mati ríkissaksóknara skortir á að færð séu fram rök fyrir fullyrðingunni og vanti að mestu leyti að tilgreina við hvaða dóma sé átt. Þá sé ekki gerður reki að því að skýra hvort umræddir dómar taki til tjáningar um staðreyndir eða gildisdóma eða hvort málsatvik hafi að öðru leyti verið með svipuðum hætti. Þar með talið hvernig tjáning hafi verið sett fram, hvert tilefnið hafi verið, hvort um hafi verið að ræða umfjöllun í tengslum við starfsemi fjölmiðla, hvort umfjöllun hafi átt erindi við almenning, hvað hafi legið að baki umfjöllun með tilliti til áreiðanleika og fleira og hver hafi verið staða aðila í því sambandi. Aðdróttanir endurupptökubeiðanda í garð A hafi verið af þeim toga að farið hafi verið fram með fullyrðingar um meintar staðreyndir, ætlaða refsiverða háttsemi lögreglumanns í tengslum við lögreglustarf hans sem reyndust ósannaðar.

24.  Að lokum er áréttað af hálfu ríkissaksóknara að A hafi verið almennur lögreglumaður, sbr. 8. tölulið 1. mgr. 2. gr. 11. gr. reglugerðar nr. 1051/2006, um starfsstig innan lögreglunnar, og hafi ekki tekið þátt í opinberri umræðu. Þá hafi hann ekki farið með stjórnunarábyrgð eða almennt fyrirsvar af hálfu lögreglunnar á Austurlandi sem opinberrar stofnunar gagnvart almenningi. Með aðdróttunum samkvæmt 6. tölulið ákæru hafi endurupptökubeiðandi sem einstaklingur, veist að æru A á Facebook síðu sinni, gróflega og með refsiverðum hætti, án nægjanlegs tilefnis og án þess að meginefni ummælanna hafi varðað beinlínis starfsemi lögreglunnar á Austurlandi í almennu tilliti. Verði ekki séð að dómur Mannréttindadómstóls Evrópu frá 4. maí 2017, í máli nr. 44081/13, hafi sérstakt fordæmisgildi í máli endurupptökubeiðanda.

25.  Að öllu virtu verði ekki séð að uppfyllt séu skilyrði a., c og d liða 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála.

V. Athugasemdir endurupptökubeiðanda

26.  Endurupptökubeiðanda var send umsögn ríkissaksóknara 22. júní 2017 og var gefinn frestur til andmæla til 20. júlí sama ár. Endurupptökunefnd bárust ekki frekari athugasemdir af hálfu endurupptökubeiðanda.

VI. Niðurstaða

27.  Af hálfu endurupptökunefndar er mál þetta tekið til úrlausnar á grundvelli XXXIII. kafla laga um meðferð sakamála. Í 215. gr. laganna er kveðið á um að endurupptökunefnd geti leyft samkvæmt beiðni að mál sem dæmt hefur verið í Hæstarétti verði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu að nýju ef fullnægt er þeim skilyrðum sem greinir í 1. mgr. 211. gr. laganna. Í þeirri grein er kveðið á um að endurupptökunefnd geti orðið við beiðni manns um endurupptöku, sem telur sig ranglega sakfelldan eða sakfelldan fyrir mun meira brot en það sem hann hefur framið, ef einhverju skilyrða í stafliðum a til d 1. mgr. 211. gr. er fullnægt.

28.  Skilyrði stafliða a til d 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála eru svohljóðandi:

      a. fram eru komin ný gögn sem ætla má að hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins ef þau            hefðu komið fram áður en dómur gekk,

      b.  ætla má að lögregla, ákærandi, dómari eða aðrir hafi haft í frammi refsiverða háttsemi í því skyni að         fá fram þau málalok sem orðin eru, svo sem ef vitni eða aðrir hafa vísvitandi borið ranglega fyrir dómi             eða fölsuð skjöl verið lögð fram og það hefur valdið rangri niðurstöðu málsins,

     c.  verulegar líkur eru leiddar að því að sönnunargögn sem færð voru fram í máli hafi verið rangt metin           svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess,

     d.  verulegir gallar hafa verið á meðferð máls þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess.

29.  Til að fallist verði á endurupptöku nægir þannig að eitt af framangreindum skilyrðum sé uppfyllt.

30.   Með dómi Hæstaréttar var staðfest sakfelling endurupptökubeiðanda fyrir brot gegn 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 vegna tiltekinna ummæla um nafngreindan lögreglumann, sem endurupptökubeiðandi birti opinberlega á samskiptasíðu sinni á Facebook: „Hefur að sögn, sent táningum og unglingsstelpum kynferðisleg skilaboð og jafnframt boðið þeim „afslátt“ gegn ???“. Endurupptökubeiðandi var sýknaður af ákæru að öðru leyti vegna annarra ummæla sem hann birti samhliða. Bótakröfu var vísað frá þar sem hún var ekki höfð uppi í ákæru í öndverðu.

31.  Í dómi Hæstaréttar var tekið fram að ekki yrði annað ráðið af samhengi þeirra ummæla sem endurupptökubeiðandi var sakfelldur fyrir en að með þeim hafi hann borið viðkomandi lögreglumanni á brýn að hafa haft í hyggju að misnota aðstöðu sína sem lögreglumaður gagnvart ungmennum. Að öðru leyti var vísað til forsendna héraðsdóms.

32.  Í forsendum héraðsdóms var meðal annars tekið fram að í fyrri málslið ummælanna fælist hlutrænt séð ásökun um að lögreglumaðurinn hafi sent ungmennum á táningsaldri, 13 til 19 ára, kynferðisleg skilaboð. Þá taldi dómurinn einnig að síðari málsliðurinn, í samhengi við þann fyrri, lyti að háttsemi af kynferðislegum toga og vekti að auki hugrenningar um misnotkun á stöðu lögreglumanns.

33.  Tekin var afstaða til þess að ummæli sín hefði endurupptökubeiðandi borið um að hafa frá ónafngreindum millilið sem hefði haft vitneskju beint frá þeim sem hefðu orðið fyrir þeirri háttsemi sem endurupptökubeiðandi hefði borið lögreglumanninum á brýn. Endurupptökubeiðandi hefði sjálfur ekki séð nein skilaboð af þessu tagi og ekki rætt við neina viðtakendur slíkra skilaboða áður en hann ritaði tilvitnaðan texta. Í dómi héraðsdóms var tekin afstaða til framburða allra sem leiddir voru fyrir dóm og komist að þeirri niðurstöðu að endurupptökubeiðandi hefði hvorki fært sönnur á efni ummæla sinna né að þau yrðu réttlætt með því að hann hefði verið í góðri trú um sannleiksgildi þeirra. Að auki var tekið fram að ummælin væru úr hófi með tilliti til þess framburðar endurupptökubeiðanda fyrir dómi að með því að ræða um táninga og unglingsstelpur ætti hann við konur allt að 30 til 35 ára.

34.  Endurupptökubeiðandi byggir á því að endurupptaka eigi dóm Hæstaréttar þar sem Hæstiréttur hafi ekki ómerkt héraðsdóm og vísað málinu á ný til meðferðar fyrir héraðsdómi til að teknar yrðu skýrslur fyrir dómi af tveimur einstaklingum sem létu endurupptökubeiðanda í té skriflegar yfirlýsingar þar sem lýst er samskiptum við umræddan lögreglumann. Hæstiréttur hafi annað hvort látið undir höfuð leggjast að taka afstöðu til yfirlýsinganna eða að verjandi endurupptökubeiðanda hafi ekki komið gögnunum á framfæri við dóminn, yfir höfuð eða í tæka tíð, svo rétturinn hefði getað tekið afstöðu til þeirra, en ekkert sé vikið að gögnunum í dómi Hæstaréttar.

35.  Af hálfu endurupptökubeiðanda er byggt á því að skilyrðum a og c liða 211. gr. laga um meðferð sakamála sé fullnægt, annað hvort sökum þess að tilvitnaðar yfirlýsingar séu ný gögn í skilningi a liðar, af því þau hafi ekki verið lögð fram, en ætla megi að þau hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fram áður en dómur gekk. Hafi þau á hinn bóginn legið fyrir séu verulegar líkur leiddar að því að sönnunargögn sem færð voru fram í máli hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess í skilningi c liðar 211. gr. Þá er einnig rakið af hálfu endurupptökubeiðanda að niðurstaða málsins sé röng þar sem rangt mat hafi verið lagt á málið með hliðsjón af dómum Mannréttindadómstóls Evrópu sem gengið hafi í málum gegn Íslandi sem lotið hafi að mörkum tjáningarfrelsis og því beri að endurupptaka það með vísan til a og c liðar 211. gr.

36.  Loks er á því byggt að skilyrðum d liðar 211. gr. sé fullnægt þar sem verulegir gallar hafi verið á meðferð máls þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess þar sem ekki voru teknar skýrslur fyrir dómi af þeim einstaklingum sem undirrituðu áðurnefndar yfirlýsingar.

37.  Í þeim yfirlýsingum sem endurupptökubeiðandi byggir beiðni sína um endurupptöku fyrst og fremst á, kemur hvergi fram að lögreglumaðurinn hafi sent skilaboð eins og þau sem ummæli endurupptökubeiðanda fjölluðu um, hvað þá heldur að hann hafi sent þau til táninga eða unglingsstelpna. Þá vísa yfirlýsingarnar ekki til þess að lögreglumaðurinn hafi í slíkum orðsendingum haft í hyggju að misnota aðstöðu sína sem lögreglumaður gagnvart ungmennum. Þó í yfirlýsingunum sé lýst háttsemi sem ámælisverð væri af hálfu lögreglumanns, ef sannaðar væru, þá fjalla þær um annarskonar háttsemi en þá sem endurupptökubeiðandi ásakaði lögreglumanninn opinberlega um og var sakfelldur fyrir.

38.  Í þessum efnum kemur út á eitt hvort yfirlýsingarnar hafi verið lagðar fyrir dóm eða ekki. Skilyrðum a, c og d liða 211. gr. er ekki fullnægt. Yfirlýsingarnar fela ekki í sér ný gögn sem ætla má að hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fram áður en dómur gekk. Þá hafa ekki heldur verið leiddar verulegar líkur að því að sönnunargögn sem færð voru fram í máli hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess. Að sama brunni ber með skilyrði d liðar um að verulegir gallar hafa verið á meðferð máls þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess en af hálfu endurupptökubeiðanda hefur ekki verið sýnt fram á að dómur Hæstaréttar sé í ósamræmi við niðurstöðu mannréttindadómstólsins í málum sem Ísland hefur átt aðild að er lutu að mörkum tjáningarfrelsis.

39.  Þar sem skilyrðum a, c og d liða 211. gr. laga um meðferð sakamála er ekki fullnægt er beiðni endurupptökubeiðanda um endurupptöku dóms Hæstaréttar í máli nr. 705/2015 sem kveðinn var upp 2. júní 2016 hafnað. Þóknun lögmanns hans 200.000 krónur greiðist úr ríkissjóði.

40.  Uppkvaðning þessa úrskurðar hefur tafist vegna skipunar nefndarmanns í endurupptökunefnd.

 Úrskurðarorð

Beiðni Emils K. Thorarensen um endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 705/2015, sem kveðinn var upp í Hæstarétti Íslands 2. júní 2015, er hafnað. Þóknun lögmanns hans, Gunnars Inga Jóhannssonar hæstaréttarlögmanns 200.000 krónur greiðist úr ríkissjóði.

  

Björn L. Bergsson formaður

 

Haukur Örn Birgisson

 

 Þórdís Ingadóttir

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta