Hoppa yfir valmynd
23. september 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 342/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 342/2021

Fimmtudaginn 23. september 2021

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 5. júlí 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 29. júní 2021, um að synja umsókn hennar um atvinnuleysisbætur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 11. febrúar 2021. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 30. mars 2021, var umsóknin samþykkt og bótaréttur kæranda metinn 75%. Í kjölfar þess að kærandi hafnaði starfi hjá tilteknu fyrirtæki tók Vinnumálastofnun ákvörðun um að synja umsókn hennar um atvinnuleysisbætur á þeirri forsendu að hún væri ekki í virkri atvinnuleit, sbr. 14. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Sú ákvörðun var kynnt kæranda með bréfi stofnunarinnar, dags. 29. júní 2021.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 5. júlí 2021. Með bréfi, dags. 7. júlí 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Sú beiðni var ítrekuð þann 5. ágúst 2021. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 9. ágúst 2021, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún hafi þurft að hafna einu starfstilboði hjá B og því telji Vinnumálastofnun að hún hafi ekki verið í virkri atvinnuleit. Kærandi hafi útskýrt af hverju hún hafi hafnað umræddu starfstilboði og hafi áfram verið í virki leit að atvinnu með sveigjanlegri vinnutíma því að hún eigi tvo litla stráka sem fari mjög bráðlega á leikskóla. Kærandi hafi sem sagt verið í virkri atvinnuleit og þann 23. júní 2021 hafi hún farið á fund hjá C þar sem hún hafi fengið tímabundið starf. Kærandi hafi tilkynnt það tafarlaust til Vinnumálstofnunar á Selfossi og tveimur dögum seinna hafi hún tilkynnt starfið til stofnunarinnar með tölvupósti. Kærandi hafi hafið störf þann 28. júní 2021 og hafi skrifað undir starfssamning þar sem kveðið sé á um 33% starfshlutfall. Kærandi hafi einnig rætt um starf hjá D en hún muni kannski einnig fá starf þar síðar. Þann 29. júní 2021 hafi kærandi fengið bréf frá Vinnumálastofnun um stöðvun greiðslna atvinnuleysistrygginga til hennar. Það hafi komið kæranda verulega á óvart, sérstaklega þar sem hún hafi verið komin í vinnu, fengið fyrsta launaseðilinn og hafi því augljóslega verið í virkri atvinnuleit.

Kærandi hafi ekki fengið greiðslu atvinnuleysistrygginga fyrir júnímánuð og það hafi því miður reynst henni mjög erfitt. Kærandi vonast til þess að kæra hennar verði tekin til greina. Kærandi hafi fundið starf viku áður en hún hafi óvænt fengið framangreint bréf frá Vinnumálastofnun sem hún telji að sé sönnun þess efnis að hún hafi sannanlega verið í virkri atvinnuleit.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysistrygginga með umsókn, dags. 11. febrúar 2021. Kærandi hafi nýlokið fæðingarorlofi og hafi óskað eftir 100% starfi. Með erindi, dags. 30. mars 2021, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hennar hefði verið samþykkt og að útreiknaður bótaréttur væri 75%.

Þann 31. maí 2021 hafi Greiðslustofu Vinnumálastofnunar borist þær upplýsingar að kærandi hafi hafnað starfi hjá B. Um hafi verið að ræða möguleika á fullu starfi, hlutastarfi eða vinnu um helgar við ræstingar. Ferilskrá kæranda hafi verið send til umrædds fyrirtækis þann 27. maí 2021. Þann 3. júní 2021 hafi Vinnumálastofnun borist erindi frá kæranda þar sem hún hafi viljað koma á framfæri ástæðum þess að hún hafi hafnað starfi hjá B. Kærandi hafi greint frá því að vinnutíminn hefði ekki hentað henni vel og því hafi hún þurft að hafna starfinu. Kærandi hafi jafnframt skýrt frá því að hún ætti tvo X mánaða gamla syni sem fengju vonandi pláss á leikskóla á komandi hausti en þangað til væri hún að leita að starfi sem myndi henta hennar fjölskylduaðstæðum.

Með erindi, dags. 8. júní 2021, hafi kæranda verið veittur sjö virkra daga frestur til að koma að frekari athugasemdum vegna höfnunar á umræddu starfi. Vinnumálastofnun hafi aftur á móti ekki borist frekari skýringar frá kæranda. Þann 29. júní 2021 hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hennar um atvinnuleysisbætur hefði verið synjað þar sem hún teldist ekki í virkri atvinnuleit. Ákvörðun þessi hafi verið tekin á grundvelli 13. og 14. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. 

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Markmið laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og misst hafi fyrra starf sitt, tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir séu að leita sér að nýju starfi. Með þessu sé verið að tryggja stöðu og öryggi fólks í tímabundnu atvinnuleysi. Því sé gert ráð fyrir að þeir sem teljist tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins séu í virkri atvinnuleit þann tíma og séu jafnframt reiðubúnir að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum sem þeim standi til boða.

Í a. lið 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar komi fram að eitt af skilyrðum þess að teljast tryggður samkvæmt lögunum sé að vera í virkri atvinnuleit. Í 1. mgr. 14. gr. laganna komi fram að í virkri atvinnuleit felist meðal annars að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, hafa vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara, vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi, og vera reiðubúinn að taka starfi óháð því hvort um fullt starf, hlutastarf eða vaktavinnu er að ræða, sbr. c. til f. lið 1. mgr. 14. gr. Að öðrum kosti verði ekki litið á hlutaðeigandi í virkri atvinnuleit.

Fyrir liggi að kærandi hafi hafnað starfi hjá B. Í kjölfar höfnunar kæranda á umræddu starfi og þeirra skýringa sem hún hafi veitt stofnuninni hafi það verið mat Vinnumálastofnunar að hún gæti ekki talist í virkri atvinnuleit, sbr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Umsókn kæranda um greiðslu atvinnuleysistrygginga hafi því verið synjað. Ágreiningur í máli þessu snúi þannig að því hvort kærandi geti talist vera í virkri atvinnuleit í skilningi 14. gr. laganna.

Í athugasemdum með 14. gr. í greinargerð með frumvarpi því er hafi orðið að lögum um atvinnuleysistryggingar hafi þótt ástæða að taka sérstaklega fram að umsækjandi teldist vera í virkri atvinnuleit þegar hann, frá því að umsókn um atvinnuleysisbætur hafi borist, hafi bæði vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara. Þar sé jafnframt tekið fram að gert sé ráð fyrir að foreldrar í virkri atvinnuleit með ung börn hafi barnapössun, en reynslan í þáverandi atvinnuleysistryggingakerfi hafi verið að ungt fólk bæri oft fyrir sig að það gæti hvorki mætt í atvinnuviðtöl né tekið þátt í vinnumarkaðsúrræðum þar sem það hefði ekki gæslu fyrir börn sín.

Þær skýringar sem kærandi hafi veitt Vinnumálastofnun vegna höfnunar á starfi hjá B. snúi að því að hún hafi ekki barnapössun fyrir börn sín að svo stöddu og að hún hafi af þeim ástæðum hafnað starfinu. Kærandi hafi lýst vinnutilhögun maka síns sem starfi bæði á kvöld-, morgun- og næturvöktum. Af skýringum kæranda megi því ráða að hún geti aðeins unnið þegar maki hennar sé ekki við vinnu, í ljósi þeirrar umönnunarskyldu sem þau beri gagnvart ungum börnum sínum. Kærandi sé því að leita að starfi með sveigjanlegum vinnutíma þar til börn hennar fái pláss á leikskóla. Kærandi leiti því í raun að starfi af bæði mjög sérstökum og tilteknum toga.

Meðal fyrirliggjandi gagna í máli þessu sé jafnframt erindi frá C sem stofnuninni hafi borist þann 12. júlí 2021, en kærandi hafi hafið þar störf við sumarafleysingar í 32% starfshlutfalli við ræstingar þann 28. júní 2021. Þar sé nánar skýrt frá aðstæðum kæranda. Þar segi að kærandi hafi hafnað starfi hjá B á þeim forsendum að hún væri ekki með dagmóður á dagtíma, en yrði komin með leikskólapláss fyrir börn sín strax í lok sumars. Þar sé jafnframt greint frá því að kærandi sé tilbúin að vinna 70% vinnu utan dagvinnutíma og síðan fulla vinnu strax í haust.

Ljóst sé að kærandi hafi ekki pössun fyrir börn sín og að það takmarki því verulega atvinnuleit hennar, enda séu þau störf sem hún leiti að af sérstökum toga. Eins og að framan sé rakið sé sérstaklega áréttað í athugasemdum með 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að gert sé ráð fyrir að foreldrar í virkri atvinnuleit með ung börn hafi barnapössun. Vilji löggjafans sé skýr að mati Vinnumálastofnunar hvað þetta varði.

Með vísan til fjölskylduaðstæðna kæranda geti hún hvorki talist vera reiðubúin að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir né hafi hún vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara, sbr. c. og d. liði 1. mgr. 14. gr. laganna. Þá megi ráða af þeim upplýsingum sem fram hafi komið í erindi frá C að kærandi leiti að hlutastarfi utan dagvinnutíma. Kærandi geti því ekki talist reiðubúin að taka starfi óháð því hvort um fullt starf, hlutastarf eða vaktavinnu sé að ræða, sbr. f. lið 1. mgr. 14. gr. sömu laga. Með vísan til 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, og þeirra athugasemda sem hafi fylgt henni, sé það mat Vinnumálastofnunar að kærandi geti ekki talist vera í virkri atvinnuleit á meðan hún sé ekki með barnapössun fyrir börn sín. 

Þrátt fyrir meginreglu 1. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé Vinnumálastofnun heimilt samkvæmt 4. mgr. 14. gr. laganna að veita undanþágu frá skilyrðum um að hinn tryggði hafi frumkvæði að starfsleit og sé reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt er fyrir, sé reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á landinu eða reiðubúinn að taka starfi óháð því hvort um fullt starf eða hlutastarf er að ræða eða vaktavinnu. Ákvæði 4. mgr. 14. gr. sé svohljóðandi:

,,Vinnumálastofnun er heimilt að veita undanþágu frá skilyrðum c-, e- og f-liðar 1. mgr. þannig að hinn tryggði, sem vegna aldurs, félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima óskar eftir hlutastarfi eða starfi innan tiltekins svæðis, geti talist vera í virkri atvinnuleit. Enn fremur er heimilt að taka tillit til aðstæðna hins tryggða sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt mati sérfræðilæknis.“

Í athugasemdum með 14. gr. í greinargerð með frumvarpi því sem hafi orðið að lögum um atvinnuleysistryggingar segi að með umræddri undanþáguheimild 4. mgr. 14. gr. sé einungis um að ræða tilvik þegar umsækjandi sæki um hlutastarf eða starf á tilteknu svæði og ástæður þess megi rekja til aldurs hans, félagslegra aðstæðna hans vegna skertrar vinnufærni eða tímabundinnar umönnunarskyldu gagnvart nánum skyldmennum. Þar sé þó sérstaklega áréttað að með umönnunarskyldu vegna ungra barna sé ekki átt við þau tilvik er hinir tryggðu beri fyrir sig að hafa ekki barnapössun fyrir ung börn á dagvinnutíma. Samkvæmt umsókn kæranda um atvinnuleysistryggingar hafi kærandi óskað eftir 100% starfi. Þá liggi fyrir að hún hafi ekki barnapössun fyrir börn sín á dagvinnutíma. Umrædd undanþáguheimild komi því ekki til álita í máli kæranda.

Með vísan til alls framangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi geti ekki talist í virkri atvinnuleit, sbr. 14. gr. laga um nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar, og uppfylli því ekki skilyrði fyrir greiðslu atvinnuleysistrygginga, sbr. a. lið 13. gr. sömu laga.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur á grundvelli 14. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Í 1. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um gildissvið laganna, en þar segir að lögin gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Í 2. gr. laganna kemur fram að markmið þeirra sé að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt.

Í 1. mgr. 13. gr. laganna er fjallað um almenn skilyrði þess að vera tryggður samkvæmt lögunum. Eitt af þeim skilyrðum er að vera í virkri atvinnuleit samkvæmt 14. gr. Í 1. mgr. 14. gr. segir að sá teljist vera í virkri atvinnuleit sem uppfylli eftirtalin skilyrði:

  1. er fær til flestra almennra starfa,
  2. hefur heilsu til að taka starfi eða taka þátt í virkum vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. þó 5. mgr.,
  3. hefur frumkvæði að starfsleit og er reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt er fyrir samkvæmt lögum og kjarasamningum, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, og uppfyllir skilyrði annarra laga,
  4. hefur vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara,
  5. er reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi,
  6. er reiðubúinn að taka starfi óháð því hvort um fullt starf eða hlutastarf er að ræða eða vaktavinnu,
  7. á ekki rétt á launum eða öðrum greiðslum í tengslum við störf á vinnumarkaði þann tíma sem hann telst vera í virkri atvinnuleit nema ákvæði 17. eða 22. gr. eigi við,
  8. hefur vilja og getu til að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum sem standa honum til boða, og
  9. er reiðubúinn að gefa Vinnumálastofnun nauðsynlegar upplýsingar til að auka líkur hans á að fá starf við hæfi og gefa honum kost á þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum

Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga nr. 54/2006 segir meðal annars svo:

„Enn fremur þykir ástæða til að taka fram að umsækjandi teljist vera í virkri atvinnuleit þegar hann, frá því að umsókn um atvinnuleysisbætur barst, hefur bæði vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara. Að öðrum kosti verður ekki litið á hlutaðeigandi í virkri atvinnuleit. Felur þetta til dæmis í sér að gert er ráð fyrir að foreldrar í virkri atvinnuleit með ung börn hafi barnapössun en reynslan í núverandi kerfi er að ungt fólk ber oft fyrir sig að það geti hvorki mætt í atvinnuviðtöl né tekið þátt í vinnumarkaðsúrræðum þar sem það hefur ekki gæslu fyrir börn sín.“

Í 4. mgr. 14. gr. kemur fram að Vinnumálastofnun sé heimilt að veita undanþágu frá skilyrðum c-, e- og f-liða 1. mgr. þannig að hinn tryggði, sem vegna aldurs, félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima óskar eftir hlutastarfi eða starfi innan tiltekins svæðis, geti talist vera í virkri atvinnuleit. Enn fremur sé heimilt að taka tillit til aðstæðna hins tryggða sem geti ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt mati sérfræðilæknis. Um þetta er tekið fram í athugasemdum með ákvæðinu að með umönnunarskyldu vegna ungra barna sé ekki átt við þau tilvik er hinir tryggðu beri fyrir sig að hafa ekki barnapössun fyrir ung börn á dagvinnutíma.

Í máli þessu liggur fyrir að kærandi var ekki með dagvistun fyrir börn sín þegar hún sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun. Með vísan til þess er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði d-liðar 1. mgr. 14. gr. laga nr. 54/2006 um að hafa vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 29. júní 2021, um að synja umsókn A um atvinnuleysisbætur, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta