Hoppa yfir valmynd
8. júní 2019 Innviðaráðuneytið

Árangursríkt samstarf um Norðurstrandarleið

Ávarp flutt við opnun Norðurstrandarleiðar 8. júní 2019

Norðurstrandarleið er gott dæmi um árangursríkt samstarf tveggja sóknaráætlunarsvæða, Norðurlands vestra og Norðurlands eystra, í gegnum landshlutasamtökin SSNV og Eyþing. Stuðningur við þróun leiðarinnar í gegnum sóknaráætlun hefur verið umtalsverður, bæði í formi sérstakra áhersluverkefna sem og í formi verkefnastyrkja úr uppbyggingarsjóðum landshlutanna. Einnig hafa sveitarfélögin styrkt verkefnið beint. Þetta samstarf sóknaráætlunarsvæðanna hefur m.a. gert það að verkum að stuðningur við verkefnið hefur verið meiri en annars hefði verið mögulegur og verkefnið því farið hraðar af stað en ella.

Það er sérstaklega ánægjulegt að leiðin sé að opna nú þegar verið er að ganga frá samningum milli samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins og  landshlutasamtanna um sóknaráætlanir áranna 2020-2024 og landshlutasamtökin að hefja vinnu við gerð nýrra sóknaráætlana í tengslum við samninginn. Í samningsdrögunum er einmitt lögð áhersla á samvinnu á milli sóknaráætlunarsvæða. Norðurstrandarleið er skólabókardæmi um hvernig slíkt samstarf getur skilað frábærum árangri.

Leiðin er einstök og leiðir ferðamanninn í gegnum íslensk sjávarþorp, um blómlegar sveitir, að ósnortinni og kyngimagnaðri náttúru og er á köflum afskekkt og fjarri alfaraleið. Það er það sem fjölmargir ferðamenn sækjast eftir. Fullkomið fyrir þá ferðamenn sem vilja fara hægt yfir (slow travel) og stoppa lengur. Leiðin er mikilvægur liður í eflingu ferðaþjónustu á Norðurlandi öllu.

Heildarmarkmið ferðamannavegarins Norðurstrandarleiðar er að skapa betri tækifæri fyrir ferðaþjónustufyrirtæki til að selja sínar vörur undir vörumerki Norðurstrandarleiðar og í leiðinni gera sig sýnilegri á innlendum og erlendum markaði. Vegurinn mun einnig hjálpa til við að fá ferðamenn inn á jaðarsvæðin svo þeir fari ekki bara á þekktustu ferðamannastaði Norðurlands. Með því að þróa tækifæri fyrir ferðamenn til að upplifa eitthvað nýtt og skapa þannig minningar, er verkefninu einnig ætlað að stuðla að því að ferðamenn dvelji lengur á Norðurlandi og lengja ferðaþjónustutímabilið. Tilkoma Norðurstrandarleiðar verður einnig góður valkostur fyrir ábyrga ferðaþjónustu og þá ferðamenn sem vilja ná betri tengingu við óspillta náttúru meðfram strandlengjunni. Sömuleiðis geta þeir uppgötvað sjávarþorpin, fólkið sem þar býr og sögu þess og menningu sem sprettur upp úr hinu daglega amstri þeirra sem búa rétt við Norðurheimskautsbauginn.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta