Úthlutun styrkja úr þróunarsjóði innflytjendamála
Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, úthlutaði í gær styrkjum úr þróunarsjóði innflytjendamála. Umsóknir um styrki hafa aldrei verið fleiri. Alls var úthlutað rúmum 14 milljónum króna til 23ja verkefna í samræmi við tillögur innflytjendaráðs.
Tilgangur þróunarsjóðsins er að efla rannsóknir og þróunarverkefni á sviði innflytjendamála með það að markmiði að auðvelda gagnkvæma aðlögun innflytjenda og íslensks samfélags. Úthlutað er úr sjóðnum ár hvert og er sjónum hverju sinni beint að ákveðnum viðfangsefnum, en verkefnin skulu jafnframt falla vel að framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda. Að þessu sinni var sérstök áhersla lögð á verkefni sem snúa að börnum og ungmennum með virka þátttöku innflytjenda í samfélaginu að leiðarljósi og aukinn sýnileika þeirra.
Eftir mat innflytjendaráðs á styrkumsóknum gerði ráðið tillögu til ráðherra um að veita styrki til 15 verkefna sem snúa beint að börnum og ungmennum og sjö verkefna sem snúa að virkri samfélagsþátttöku innflytjenda. Í ljósi tíðarandans í samfélaginu og #metoo byltingarinnar sem fór hátt í samfélagsumræðunni á meðan opið var fyrir umsóknir í sjóðinn voru allnokkrar umsóknir sem tengdust #metoo byltingunni. Sjö verkefni af þeim toga hlutu styrk í samræmi við tillögu ráðsins.
Afhending styrkjanna fór fram við athöfn á Nauthóli í gær. Ásmundur Einar Daðason sagði sérstaklega ánægjulegt hve margir hafi tekið áskoruninni um að móta verkefni þar sem börn og ungmenni væru í forgrunni. Þá kæmi áherslan á virkni innflytjenda og sýnileika þeirra í samfélaginu skýrt fram í styrkumsóknunum. Það væri enn fremur mikilvægt að geta veitt styrki til verkefna sem tengjast #metoo byltingunni og fást við þann veruleika sem fram hefur komið í frásögnum kvenna af erlendum uppruna.
Meðfylgjandi er yfirlit um verkefnin sem fengu styrk og fjárhæðirnar. Hæsta styrkinn, 1,3 m.kr. hlaut Samband íslenskra framhaldsskólanema til verkefnisins Culture Class sem miðar að gerð fræðslumyndbanda um íslenskt samfélag og þá upplifun að vera af erlendum uppruna á Íslandi. Myndböndin eru ætluð ungu fólki af erlendum uppruna en vonir eru bundnar við að í framtíðinni geti myndbundin orðið grunnur að menningarnámskeiði fyrir ungt fólk.
Næsthæsta styrkinn, 1,1 m.kr. hlaut Þroskahjálp fyrir verkefnið Vitundarvakning um rétt fatlaðra barna innflytjenda til viðeigandi þjónustu. Verkefnið miðar að því að útbúa og miðla kynningarefni fyrir foreldra fatlaðra barna innflytjenda um rétt til þjónustu og aðstoð, úrræði og ráðgjöf sem stendur þeim til boða. Markmiðið er að draga úr hættu á að fötluð börn innflytjenda fari á mis við þjónustu sem þau þurfa á að halda og eiga rétt til.