Hoppa yfir valmynd
31. maí 2002 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 1/2002

Föstudaginn, 31. maí 2002

 

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

  

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir, hdl., Jóhanna Jónasdóttir, læknir, og Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri.

 

Þann 11. janúar 2002 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 7. janúar 2002.

 

Kærð var synjun Tryggingastofnunar ríkisins um að kærandi nyti samtímis föður barns framlengingar fæðingarorlofs vegna veikinda barns.

 

Með bréfi frá Tryggingastofnun ríkisins, dags. 10. ágúst 2001, var kæranda tilkynnt um framlengingu á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru kæranda segir m.a.:

"Byrjunin er sú að ég eignast barn 19. maí 2001 (fyrirbura). Barnið er á spítala og ég og faðirinn reynum að fá upplýsingar frá manneskju á spítalanum sem sér um svona mál. En á þessu tímabili var ein að vinna og hinar í sumarfríi. Ég beið í viku eða tíu daga og ákvað þá að kynna mér þetta sjálf.

 

Ég fer inn í Tryggingastofnun, spyr þar konu um þessi mál... Hún sagði að við ættum bæði rétt á þeim dögum auka sem hún (stelpan) væri á spítala. Svo útskýrði hún einnig að móðir ætti 6. mán. og faðir 1. mán. því það væru nýkomin ný lög. Jæja við vorum því bæði að hugsa um dóttur okkar þá 40 daga sem hún var á spítala.

 

Þegar við fórum heim fer ég með vottorð frá lækninum niður eftir og tala við B. Hún segir að aðeins annað foreldrið fái dagana. Það kom rosa á okkur en ekkert við því að gera. Þar sem við höfðum bæði verið í fríi kom betur út að faðirinn tæki þessa daga því hann hafði hærri tekjur. Því næst spyrjum við um mánuðinn hans, hún segir að við verðum að láta strax vita hvenær hann vilji taka hann...

 

Ég þurfi mikið á hjálp kærasta míns en ef okkur hefði verið gefnar réttar upplýsingar hefði hann unnið. Því eftir 40 daga án launa lifir enginn... ...en fékk svo bréf skr. 10. ágúst undirritað af D, þar stendur að móðir hafi fengið samþykkta framlengingu. Ég hélt því í öllu mínu sakleysi að mistök ykkar hefi verið viðurkennd. Ég heyrði aldrei frá skr. forstjóra. 13. ágúst fær faðirinn bréf um sína framlengingu. Sem hann var þá búinn að fá borgaða... ...Ég var aldrei látin vita af þessum mistökum. Ég fékk bara minni pening en ég hélt ég myndi fá 1. des. Ég hefði nú kannski gert einhverjar ráðstafanir. Athugað með vinnu..."

 

Úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála taldi ekki þörf á öflun frekari gagna í málinu, þar sem málið taldist nægilega upplýst á grundvelli þeirra gagna sem fyrir lágu, sbr. 5. mgr. 6. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.)

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

 

Kærð var synjun Tryggingastofnunar ríkisins um að kærandi nyti samtímis föður barns framlengingar fæðingarorlofs vegna veikinda barns.

 

Í rökstuðningi með kæru leggur kærandi aðaláherslu á að hún hafi fengið rangar og villandi upplýsingar um rétt sinn hjá Tryggingastofnun ríkisins.

 

Afgreiðsla málsins hefur m.a. dregist vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

 

Kæra var tekin fyrir þrátt fyrir að kærufrestur samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) væri liðinn, þar sem talið var afsakanlegt að kæra barst ekki fyrr, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 

Krafa um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði verður eigi byggð á því að foreldri hafi fengið rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um rétt sinn. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. ffl. er það hlutverk úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála að kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laganna. Það fellur hins vegar utan valdsviðs nefndarinnar að úrskurða um hugsanlegan bótarétt þeirra sem telja sig hafa fengið ófullnægjandi upplýsingar.

 

Þegar barn þarf að dveljast á sjúkrahúsi lengur en sjö daga í beinu framhaldi af fæðingu er heimilt skv. 1. mgr. 17. gr. ffl. að framlengja sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarorlofs um þann dagafjölda sem barn dvelst á sjúkrahúsi fyrir fyrstu heimkomuna, allt að fjórum mánuðum, sbr. og 1. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

 

Í athugasemdum með frumvarpi til laga um fæðingar- og foreldraorlof er kveðið á um að réttur foreldra til fæðingarorlofs samkvæmt 17. gr. ffl. sem heimilar framlengingu þegar um alvarleg veikindi barns er að ræða skuli vera foreldrum sameiginlegur.

 

Til skýringar á því hvað telst vera sameiginlegur réttur til fæðingarorlofs er rétt að líta til 1. mgr. 8. gr. ffl. þar sem réttur foreldra til töku fæðingarorlofs er annars vegar sjálfstæður fyrir hvort um sig og hins vegar sameiginlegur, þannig að annað foreldrið getur tekið orlofið í heild eða þeir skipt því á milli sín.

 

Með hliðsjón af framangreindu er því ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um synjun á greiðslu vegna framlegningar í fæðingarorlofi staðfest.

  

ÚRSKURÐARORÐ:

 Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um synjun á greiðslu vegna framlengingar í fæðingarorlofi til A er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir, hdl. 

Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri

Jóhanna Jónasdóttir, læknir

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta