Hoppa yfir valmynd
7. júní 2002 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 3/2002

Föstudaginn, 7. júní 2002

 

A 

gegn 

Tryggingastofnun ríkisins

  

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir, hdl., Jóhanna Jónasdóttir, læknir, og Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri.

 

Þann 14. janúar 2002 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 9. janúar 2002.

 

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði og ákvörðun um greiðslu fæðingarstyrks.

 

Með bréfi frá Tryggingastofnun ríkisins, dags. 8. nóvember 2001, var kæranda tilkynnt um synjun á greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði og með bréfi 20. nóvember 2001 var kæranda tilkynnt um ákvörðun um greiðslu fæðingarstyrks.

 

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

"Sótt var um fæðingarorlof frá 25.9.01 en barnið kom í heiminn 30.10.01. Ég var á atvinnuleysisskrá fram til maíbyrjunar en þá þurfti ég að taka fornám í B sem stóð í mánuð. Þá var mér sagt að ég hefði fyrirgert rétti mínum til orlofs og N.B sagt af fulltrúa Tryggingastofnunar að "ég hefði átt að halda áfram að skrá mig á atvinnuleysisbætur", sem má ekki. Skv. þriðja lið í 14. grein tel ég að meta hefði námið í maí sem fullt nám og þar af leiðandi átt að veita mér fullan styrk en ekki hálfan."

 

Með bréfi, dags. 14. janúar 2002, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 30. janúar 2002. Í greinargerðinni segir m.a.:

"A sótti um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði með umsókn dags. 3. september 2001. Með bréfi lífeyristryggingasviðs dags. 24. október var honum tjáð að hann uppfyllti ekki skilyrði fyrir greiðslum úr sjóðnum þar sem ekki kæmu fram tekjur hjá honum fyrir maímánuð 2001 í staðgreiðsluskrá RSK. Var honum jafnframt gefinn frestur til að leggja fram viðbótargögn um starf þann mánuð. Þann 6. nóvember barst vottorð um að A hefði stundað fornám í B í maí 2001. Honum var synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði með bréfi þann 8. nóvember sl. og afgreiddur til hans fæðingarstyrkur foreldra utan vinnumarkaðar.

 

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. ffl. öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á vinnumarkaði, innlendum eða á EES-svæðinu, fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Til að uppfylla þetta skilyrði hefði A þurft að vera í samfelldu starfi á tímabilinu frá 29. apríl til 29. október, en barn hans er fætt 30. október sl. Eins og fram kemur hér að ofan var hann ekki í starfi í maí og á þar af leiðandi ekki rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

 

A telur sig, skv. orðalagi kæru eiga rétt á greiðslu fæðingarstyrks námsmanna. Þrátt fyrir að hann hafi ekki sótt um þessar greiðslur til Tryggingastofnunar, og sú beiðni þ.a.l. ekki verið tekin til umfjöllunar hjá stofnuninni, þykir rétt að fjalla einnig um réttindi hans að þessu leyti.

 

Samkvæmt 19. gr. ffl. eiga foreldrar í fullu námi rétt á fæðingarstyrk. Skilgreiningu á fullu námi er að finna í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 909/2000. Þar segir m.a. að fullt nám í skilningi ffl. teljist vera 75-100% nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi, í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Heimilt er, skv. 4. mgr. 14. gr. að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þrátt fyrir að skilyrðinu um samfellt sex mánaða nám sé ekki fullnægt ef foreldri hefur verið í samfelldu starfi í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fram til þess að námið hófst. Lífeyristryggingasvið lítur svo á að þessi undantekningarheimild eigi bara við í þeim tilvikum þegar foreldri er enn í námi þegar barn fæðist. Samkvæmt ofangreindu var ekki heimilt að greiða A fæðingarstyrk námsmanna, enda sýndi skólavottorð hans einungis eins mánaðar nám sem var lokið löngu fyrir fæðingu barns hans.

 

Við skoðun á máli A hefur komið í ljós að ekki liggja fyrir gögn sem sýna að hann fari með forsjá barns síns. Að fara með forsjá barns eða hafa sameiginlega forsjá með hinu foreldrinu er skilyrði fyrir greiðslu fæðingarstyrks skv. 4. mgr. 18. gr. ffl. A átti því ekki rétt á greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri utan vinnumarkaðar og mun lífeyristryggingasvið væntanlega þurfa að krefja hann um endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar sem hann hefur fengið greidda."

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 4. febrúar 2002, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

 

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um synjun á greiðslu úr Fæðingar­orlofs­sjóði og greiðslu fæðingarstyrks í fæðingarorlofi.

 

Afgreiðsla málsins hefur dregist m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

 

Foreldri öðlast rétt samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.

 

Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er með samfelldu starfi átt við að foreldri hafi verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Í 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar segir að til samfellds starfs teljist enn fremur:

"a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,

b. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur eða er á biðtíma eftir atvinnuleysisbótum samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar,

c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga eða er á biðtíma eftir dagpeningum, enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,

d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa."

 

Kærandi uppfyllir ekki það skilyrði að hafa verið í samfelldu starfi í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, þ.e. fæðingardag barns 30. október 2001, þar sem hann starfaði ekki samfellt á vinnumarkaði á tímabilinu 29. apríl 2001 til og með 29. október 2001, né ávann sér rétt á annan hátt, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

 

Kærandi telur sig hafa átt rétt til fæðingarstyrks sem námsmaður vegna náms við B. En í gögnum málsins liggur fyrir að einungis var um að ræða nám í einn mánuð, þ.e. í maí 2001. Fullt nám í skilningi laga um fæðingar- og foreldraorlof telst vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar.

 

Þar sem nám kæranda stóð yfir í einn mánuð á framangreindu tólf mánaða tímabili fyrir fæðingu barns, uppfyllir kærandi ekki skilyrði þess að fá greiðslu fæðingarstyrks sem námsmaður.

 

Réttur foreldris utan vinnumarkaðar til fæðingarstyrks er bundinn því að það fari sjálft með forsjá barnsins eða hafi sameiginlega forsjá ásamt hinu foreldri þess þegar greiðsla fæðingarstyrks hefst, sbr. 4. mgr. 18. gr. ffl.

 

Samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands er kærandi skráður í sambúð með móður barnsins og uppfyllir því skilyrði um forsjá sbr. 30. gr. Barnalaga nr. 20/1992.

 

Með hliðsjón af framangreindu hefur kærandi ekki áunnið sér rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og er því ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði staðfest. Jafnframt er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um rétt kæranda til fæðingarstyrks staðfest.

  

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði í fæðingarorlofi til A er staðfest. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu fæðingarstyrks til A í fæðingarorlofi er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir, hdl. 

Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri

Jóhanna Jónasdóttir, læknir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta