Hoppa yfir valmynd
7. júní 2002 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 5/2002

Föstudaginn, 7. júní 2002


 A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður


Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir, hdl., Jóhanna Jónasdóttir, læknir, og Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri.


Þann 21. febrúar 2002 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett sama dag.


Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um útreikning greiðslna í fæðingarorlofi.


Með bréfi frá Tryggingastofnun ríkisins, dags. 22. nóvember 2001, var kæranda tilkynnt um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.


Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

"Haustið 2000 hóf ég frekara nám við deild B Háskóla Íslands. Eftir að hafa starfað sem flugfreyja í 100% starfi hjá D, samfellt í 16 mánuði frá því að ég útskrifaðist með BA próf í E vorið 1999 frá H.Í. Tók ég ákvörðun um að fara í 60% nám við H.Í. skólaárið 2000-2001. Ég sótti um tveggja mánaða námsleyfi á haustönn 2000 (október og nóvember) og eins mánaða námsleyfi á vorönn (febrúar) frá vinnu. Ástæða þessa var til þess að geta stundað námið af fullum krafti sem ég og gerði. Námsframvinda er staðfest með vottorði frá Nemendaskrá Háskóla Íslands, sjá meðfylgjandi skjal.


Er ég tók ákvörðun um að fara í frekara nám var ég ekki meðvituð hve mikil skerðing kæmi á greiðslum úr fæðingarorlofssjóði enda ekki barnshafandi á þeim tíma...


Mér bæði sárnar og finnst það afar óréttlátt að greiðslur til mín verði skertar svo um munar. Ég hef bæði metnað til að standa mig vel í vinnu sem og námi en mér sýnist sem hin nýju lög um fæðingar- og foreldraorlof sem sannarlega eru að flestu leyti til  fyrirmyndar taki ekki til aðstæðna minna. Leita ég þess vegna til úrskurðarnefndarinnar.


Það er afar óheppilegt, þrátt fyrir nauðsyn úthlutunarreglna, að ég hefði í raun þurft að gera það upp við mig með 14 mánaða fyrirvara fyrir áætlaðan fæðingardag, hvernig ég best hagaði samþættingu vinnu og náms þannig að ekki kæmi til skerðingar á fæðingarorlofsgreiðslum.


Ég tel mig hafa leitt rök að því að horft verði framhjá reglu um 12 mánaða samfellt tímabil við útreikning á greiðslum sjóðsins til mín. Fer ég þess á leit að tekjur mínar verði reiknaðar út frá meðaltekjum á níu mánaða tímabili og horft framhjá þremur námsleyfismánuðum sem ég var frá vinnu og nýtti til náms. Ef niðurstaða úrskurðarnefndarinnar verður á annan veg er það skoðun mín að verið sé að refsa mér fyrir að samhæfa nám og vinnu. Það er fremur skoðun mín og skilningur að greiðslur úr sjóðnum eigi að taka mið að þeim meðaltekjum sem ég sannarlega hef í starfi mínu, sjá meðfylgjandi skjal með tekjuupplýsingum.


Í svari Tryggingastofnunar dagsett 22. nóvember 2001 um undanþágubeiðni minni dagsett 12. september 2001. Kemur fram í rökstuðningi lögfræðings stofnunarinnar að ég hafi samkvæmt skrám skattayfirvalda verið aðeins í einum launalausum mánuði, nóvember þar sem laun voru greidd frá D bæði í október og febrúar. Hér er á það bent að ástæða þess er sú að D greiða út unna yfirvinnu hvers mánaðar í næsta mánuði sem á eftir kemur. Þau laun sem koma fram í október er því yfirvinna fyrir september og sú launaupphæð sem gefin er upp fyrir febrúar er unnin yfirvinna janúarmánaðar. Þessu til staðfestingar sendi ég launaseðla fyrir september 2000 og janúar 2001. "


Með bréfi, dags. 22. febrúar 2002, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.


Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 18. mars 2002. Í greinargerðinni segir:

"Kærandi fer þess á leit að mánaðarlegar greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði verði reiknaðar út frá meðaltekjum níu mánaða og horft verði framhjá þremur námsleyfismánuðum á 12 mánaða viðmiðunartímabili.


Með bréfi dags. 12. september 2001 fór kærandi þess á leit að greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði yrðu ekki skertar vegna þriggja launalausra mánaða á sl. 14 mánuðum sem teknir hafi verið vegna náms. Ef sjóðurinn sæi sér ekki fært að verða við þessari ósk var farið fram á að heildarlaun fyrir ágúst- og septembermánuð 2001 (síðustu tvo mánuðina fyrir upphaf fæðingarorlofsins) yrðu notuð í stað tveggja af þremur launalausum mánuðum á samfelldu viðmiðunartímabili sjóðsins. Með bréfinu fylgdi vottorð frá nemendaskrá Háskóla Íslands um 18 eininga (60%) nám háskólaárið 2000-2001.


Í svarbréfi lífeyristryggingasviðs dags. 22. nóvember 2001 var gert grein fyrir því að viðmiðunartímabil útreiknings á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði er 12 mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl). Heimilt sé að reikna með færri mánuðum ef foreldri hefur verið á vinnumarkaði í skemmri tíma ef um samfellt starf í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs hefur verið að ræða en launalaust leyfi teljist til samfellds starfs. Synjað var að svo stöddu þeirri beiðni að reiknað yrði með færri mánuðum við útreikning á greiðslum á þeim grundvelli að ekki hafi verið sýnt fram á að ráðningarsamningi hafi verið slitið og námið hafi ekki áhrif. Jafnframt var því synjað að reikna með launum fyrir ágúst og september eins og að öðrum kosti var farið fram á (enda er það ekki í samræmi við ákvæði 13. gr. ffl. um viðmiðunartímabil útreiknings).


Kærandi fékk samkvæmt skrám skattyfirvalda greidd laun frá D hf., alla mánuðina á viðmiðunartímabilinu fyrir utan nóvember 2000, lægri þó í október 2000 og febrúar 2001. Hún hefur ekki sýnt fram á að ráðningarsamningi hefði verið slitið og þar með að hún hafi ekki verið á vinnumarkaði hluta af viðmiðunartímabilinu. Lífeyristryggingasvið telur að ekki sé heimilt að reikna með færri mánuðum við útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði á grundvelli þess að kærandi hafi verið í launalausu leyfi og stundað nám á viðmiðunartímabilinu."


Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 21. mars 2002, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum.


Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dags. 3. apríl 2002, en þar er áréttað að launagreiðslur fyrir október 2000 og febrúar 2001 séu greiðslur vegna yfirvinnu sem unnin var í september 2000 og janúar 2001. Síðan segir í bréfinu:

"Það er því óumdeilanlegt að kærandi var sannarlega frá vinnu þrjá mánuði á tólf mánaða viðmiðunartímabilinu."


Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:


Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um útreikning á greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði í fæðingarorlofi.


Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Í athugasemdum við 13. gr. frumvarps til laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof kemur fram að átt sé við almanaksmánuði. Viðmiðunartímabilið geti þó verið styttra hafi foreldri verið skemur en 14 mánuði á vinnumarkaði en lengur en sex mánuði, þá skuli miða við heildarlaun þess yfir það tímabil sem foreldrið hefur  unnið að undanskildum tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.


Í framangreindu ákvæði er skýrt tekið fram að greiðslur til þeirra sem uppfylla skilyrði til þess að fá greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í fæðingarorlofi skuli miðast við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.


Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000 telst launalaust leyfi m.a. til samfellds starfs, með hliðsjón af því og að ráðningarsamband hélst milli kæranda og atvinnuveitanda á tólf mánaða viðmiðunartímabilinu, verður að telja þá mánuði sem kærandi var í launalausu leyfi með við útreikning greiðslna.


Kærandi óskar eftir því að tekið verði tillit til þess að hún tók launalaust leyfi vegna náms við Háskóla Íslands, engar undanþágur eru í lögunum sem heimila að viðmiðunartímabilið verði stytt vegna slíkra aðstæðna.


Barn kæranda er fætt 24. október 2001. Viðmiðunartímabil við útreikning greiðslna er því frá ágúst 2000 til og með júlí 2001.


Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins varðandi greiðslu í fæðingarorlofi staðfest.


ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu í fæðingarorlofi til A er staðfest.

 


Guðný Björnsdóttir, hdl.

Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri

Jóhanna Jónasdóttir, læknir


 


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta