Hoppa yfir valmynd
15. október 2002 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 31/2002

Þriðjudaginn, 15. október 2002

 

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

  

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Jóhanna Jónasdóttir læknir og Gylfi Kristinsson skrifstofustjóri.

 

Þann 13. maí 2002 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 12. maí 2002.

 

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

 

Með bréfi frá Tryggingastofnun ríkisins, dagsett 6. mars 2002, var tilkynnt um synjun eftir að viðbótargögn höfðu borist frá kæranda.

 

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

"Ég, A, ól barn þann 7. janúar 2002.  Samkvæmt því hlýtur 12 mánaða viðmiðunartímabil að vera frá janúar 2001 til og með desember 2001.

 

Forsaga kæru þessarar er eftirfarandi: Á vorönn 2001 stundaði ég 10,5 eininga nám við Háskóla Íslands í B. Fékk ég greitt 78% lán frá Lánasjóði íslenskra námsmanna enda miðar sú stofnun við sömu reglur og Háskóli Íslands og telur 10 eininga nám í deild D vera 75% nám. Tel ég mig því með því að hafa sýnt fram á 75% nám í a.m.k. fjóra mánuði samfleytt.

 

Árleg skráning í Háskóla Íslands fyrir háskólaárið 2001-2002 fór fram í lok mars og byrjun apríl árið 2001. Þegar ég gekk frá skráningu minni þann 29. mars 2001 var ég ekki orðin þunguð og skráði mig þar af leiðandi í fullt nám báðar annirnar og gerði ráð fyrir brautskráningu í júní 2002. Eftir að í ljós kom að von væri á nýjum fjölskyldumeðlimi í janúar árið 2002 ákvað ég hins vegar að breyta um stefnu. Í stað þess að ljúka þeim námskeiðum er ég hafði áður valið mér að taka á haustönn ákvað ég að hefja strax vinnu við ritgerð til B.A.-prófs en í hana var ég skráð vorönn 2002. Ástæðan fyrir þessari ákvörðun var sú að ég hafði  reynslu af erfiðri meðgöngu sem hafði gert mig nánast óvinnufæra í nokkra mánuði fyrir fæðingu. Taldi ég því ákveðnar líkur á að mér tækist ekki að ljúka öllum prófum í desember og með því væri öll sú vinna er ég legði fram á haustönn unnin fyrir gíg þar sem sjaldgæft er að sömu námskeið séu í boði tvö háskólaár í röð innan B. Hæfi ég hins vegar strax vinnu við B.A.-ritgerð mína byggi ég að henni þegar þráðurinn væri tekinn upp að nýju eftir fæðingarorlof, jafnvel þótt ritgerðinni væri ekki lokið á haustönn 2001. Á haustdögum 2001 hafði ég samband við E, lektor í B við Háskóla Íslands og falaðist eftir að hann tæki að sér starf leiðbeinanda míns við ritgerðaskrifin. Í samráði við hann ákvað ég að skrifa 10 eininga ritgerð og hófst strax handa, fyrst við val á efni, þá við heimildaöflun og gagnaúrvinnslu auk þess sem línurnar voru lagðar fyrir uppbyggingu ritgerðar, afmörkun umfjöllunarefnis og val við þýðingar.

 

Á tilskildum tíma skráði ég mig svo úr öllum þeim námskeiðum er ég hafði skráð mig áður en ástæður breyttust. Ég bætti hins vegar ekki við skráningu í B.A.-ritgerð og voru ástæður fyrir því einkum tvær. Hjá starfsmönnum Nemendaskrár Háskóla Íslands hafði ég fengið þær upplýsingar að ekki þyrfti að sýna fram á fullnægjandi árangur í prófi til að fá staðfestingu á skólavist vegna fæðingarorlofs heldur væri nóg að vera eða hafa verið skráður í fullt nám á tilteknu tímabili.  Nemandi hefði því eftir sem áður fullan rétt á að segja sig úr prófi. Fyrrgreint skilyrði uppfyllti ég enda fékk ég vottorð um skólavist gefið út án nokkurra vandkvæða af hálfu Nemendaskrár. Einnig vó þungt í þeirri ákvörðun minni að breyta ekki skráningu að ég hafði greinst með meðgönguháþrýsting við reglubundið mæðraeftirlit þann 25. október 2001. Varð mér fljótlega ljóst að sennilega myndi markmið mitt að ljúka B.A.-ritgerð minni á haustönninni ekki nást. Það hefði því verið hreinn og beinn tvíverknaður að skrá mig í hana til þess eins að segja mig úr henni skömmu seinna. Taldi ég ekki að ég gerðist brotleg við reglur Tryggingarstofnunar varðandi úthlutun hærri fæðingarstyrks með þessu enda hafði ég þá klárlega stundað samfellt nám á sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns.

 

Fullljóst þykir, þrátt fyrir þetta, að Tryggingastofnun ríkisins synjar mér um hærri fæðingarstyrk til námsmanns, nú síðast með bréfi dagsettu 6. mars 2002.  Hefur styrinn einkum staðið um tvö atriði. Í fyrsta lagi hefur stofnunin ekki viljað viðurkenna 10,5 eininga nám mitt á vorönn 2001 sem 75% nám. Þykir mér það óeðlilegt þar sem bæði Háskóli Íslands og Lánasjóður íslenskra námsmanna telja 10 eininga nám í deild D Háskólans vera 75% nám. Þar sem orlofsgreiðslur miðast við að bæta foreldrum upp það tekjutap sem þeir óhjákvæmilega verða fyrir í tengslum við fæðingu barns hlýtur að vera með öllu óásættanlegt að ekki sé miðað við sömu reglur og Lánasjóðurinn hvað þetta varða þar sem námslán eru jú yfirleitt einu tekjur foreldra í námi. Í meðfylgjandi  gögnum er að finna staðfestingu frá bæði Nemendaskrá Háskóla Íslands og Lánasjóði íslenskra námsmanna um að þeir hafi metið námið mitt á vorönn 2001 til ríflega 75% náms.

 

Helsti ásteytingarsteinninn hefur þó verið nám mitt á haustönn 2001. Í ljós hefur komið að Tryggingastofnun ríkisins miðar ekki við sömu reglur og starfsmenn Nemendaskrár. Samkvæmt Tryggingastofnun hefur nemandi ekki rétt til að segja sig úr prófi og skv. símtali við lögfræðing þar virðist vera litið svo á að þátttaka í prófi sé eina leiðin til að sýna fram á námsframvindu hvort heldur sem nemandi standist það eða falli. Nú hlýtur öllum er til þekkja að vera ljóst að nám við Háskóla Íslands er að miklum hluta sjálfsnám og að engrar mætingarskyldu er krafist. Í flestum tilvikum getur því enginn lagt dóm á hversu mikla vinnu nemandi hafi lagt í nám nema hann sjálfur. Nemendaskrá hefur þar af leiðandi valið þá leið að taka eingöngu mið af skráningu við útgáfu vottorða sinna enda hafa starfsmenn engar aðrar upplýsingar í höndum um námsframvindu viðkomandi einstaklings.

 

Nú segir í 14. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks: "Fullt nám í skilningi laga um fæðingar- og foreldraorlof og reglugerðar þessarar telst vera 75-100% nám ... í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns ..." Samkvæmt því hlýtur að þykja óásættanlegt að krefjast þess að nemandi sem hefur hug á að fá greiddan hærri fæðingarstyrk þreyti próf tvær annir í röð til að sýna fram á námsframvindu. Með því væri krafist a.m.k. átta mánaða samfellds náms. Til að uppfylla fyrrnefnt skilyrði þar nemandi að sýna fram á námsframvindu á annað hvort vor- eða haustönn en aðeins tvo mánuði af þeirri næstu líkt og í mínu tilviki. Einnig væri óheimilt samkvæmt reglugerðinni að krefjast þess að miðað væri við síðustu sex mánuði fyrir fæðingu barns þar sem skýrt er tekið fram að sýna þurfi fram á nám í sex mánuði á tólf mánaða tímabili og gildir þá engu hvaða sex mánuði af þessum tólf það séu. Þar sem ég tel mig hafa stundað fullt nám í a.m.k. fjóra mánuði á vorönn 2001 hlýt ég því eingöngu að þurfa að sýna fram á námsframvindu í september og október 2001 til að uppfylla skilyrðið í reglugerðinni hér að framan.

 

Fyrir flesta háskólastúdenta er vafalaust erfitt að útvega staðfestingu á námi í aðeins tvo mánuði ef ekki er nóg að taka mið af skráningu á því tímabili. En líkt og áður hefur komið fram vann ég að ritgerðinni undir handleiðslu E lektors í B í september og október. Eðli málsins samkvæmt hafði ég við hann töluvert samband í tímabilinu þar sem ég sótti nokkra fundi með honum en einnig höfðum við þó nokkur samskipti í gegnum tölvupóst. Í mínu tilviki reyndist því hægðarleikur að fá staðfestingu á námi þann mánuð á haustönn er upp á vantar til að uppfylla skilyrðið um sex mánaða samfellt nám. E var fús að rita bréf þess efnis að ég hefði stundað 75% nám þessa fyrstu tvo mánuði haustannarinnar eða allt þar til skömmu eftir að meðgönguháþrýstingurinn greindist og mér var gert að minnka við mig vinnuna. Slíkt bréf hlýtur, þegar öllu er á botninn hvolft, að vera allra besta sönnun á námsframvindu sem möguleiki er á innan veggja Háskóla Íslands...

 

Þar sem ég tel mig hafa sýnt með óyggjandi hættir fram á námframvindur og fullt nám í sex mánuði samfleytt á síðustu tólf mánuðunum fyrir fæðingu barns krefst ég þess að sjálfsögðu að fá greiddan hærri fæðingarstyrk.

 

Öll gögn er fylgja með kæru þessari hef ég áður sent til Tryggingarstofnunar utan læknisvottorð er staðfestir meðgönguháþrýsting. Þar sem ég hafði þegar lokið fullu námi í nálega tvo mánuði er hann greinist tel ég mig í raun ekki þurfa að útskýra hvers vegna ég lauk ekki við ritgerðina á önninni en læt þó vottorð fylgja með, máli mínu til stuðnings."

 

Með bréfi, dags. 14. maí 2002, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 2. ágúst 2002. Í greinargerðinni segir:

"Kærð er ákvörðun um greiðslu fæðingarstyrks skv. 18. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.). Kærandi kveðst telja sig eiga rétt á fæðingarstyrk námsmanna skv. 19. gr. laganna.

 

Samkvæmt 19. gr. ffl. eiga foreldrar í fullu námi rétt á fæðingarstyrk.  Skilgreiningu á fullu námi er að finna í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 909/2000.  Þar segir m.a. að fullt nám í skilningi ffl. teljist vera 75-100% nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi, í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Þó er heimilt að greiða fæðingarstyrk námsmanna vegna styttri námstíma en sex mánaða hafi foreldri verið á vinnumarkaði fram til þess að nám hófst, sbr. 4. mgr. 14. gr., og einnig í þeim tilvikum að einnar annar námi er lokið og foreldri hafi verið samfellt á vinnumarkaði eftir það og  fram að fæðingu, samtals í sex mánuði, sbr. 5. mgr. 14. gr. Frekari undantekningar á meginreglunni um að samfellt nám í sex mánuði sé forsenda fyrir greiðslu námsmannastyrks er ekki að finna í reglugerðinni eða í ffl.

 

Fyrir liggja staðfestingar á að kærandi hafi verið skráð í fullt nám á vor- og haustönn 2001 og jafnframt að hún hafi skráð sig úr öllum prófum á haustönninni.  Þá liggur fyrir staðfesting E, lektors í B, um að hún hafi á haustönn 2001 hafið vinnu við B.A. ritgerð sína sem meta eigi til 10 eininga og að hann telji vinnu hennar haustið 2001 jafnast á við a.m.k. 75% nám í tvo mánuði. Skv. námsferilsyfirliti frá nemendaskrá Háskóla Íslands var kærandi ekki skráð í það fag á haustönn 2001 en er á hinn bóginn skráð í það á vorönn 2002 sem 5 eininga fag.

 

Lífeyristryggingasvið lítur svo á að ekki sé hægt við mat á því hvort um fullt nám sé að ræða að líta til ástundun fags sem umsækjandi er ekki skráður í auk þess sem skráning í nám veiti ekki ein og sér rétt til greiðslu fæðingarstyrks námsmanna.  Heimild 2. mgr. 14. gr. rgl. nr. 909/2000 til að krefjast þess að sýnt sé fram á námsárangur þegar sótt er um fæðingarstyrk námsmanna rennir stoðum undir þetta álit, sem einnig hlýtur að samræmast tilgangi ffl. með því að greiða námsmönnum hærri fæðingarstyrk en þeim sem eru utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi.

 

Kærandi var skráð í 20,5 einingar á vorönn 2001 en lauk 10,5 einingum (70% af þeim 15 einingum sem teljast almennt fullt nám í Háskóla Íslands) og á haustmisseri 2001 var hún skráð í 20 einingar en sýndi enga námsframvindu. Að mati lífeyristryggingasviðs uppfyllir hún því ekki skilyrði ffl. um fullt nám og á ekki rétt á greiðslu fæðingarstyrks sem námsmaður."

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 8. ágúst 2002, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

 

Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dags. 21. ágúst, þar segir m.a.:

"Í reglugerðinni er hvergi kveðið á um skráningu námsmanns heldur einungis getið að krefjast megi námsárangurs. Þá tvo mánuði sem upp á vantaði af haustönn 2001 til að ég uppfyllti það skilyrði að hafa stundað samfellt nám í sex mánuði vann ég að B.A. ritgerð minni. Ritgerðina er ég skráð í til 10 eininga á haustönn 2002 sem hefjast mun innan skamms og hef ég nýlega hafið vinnu við ritgerðina aftur eftir barneignarleyfi. Að sjálfsögðu bý ég að þeirri vinnu sem ég innti af hendi síðasta haust en þá lauk ég við stóran hluta af heimildavinnunni, viðaði að mér efni, pantaði bækur, las mér til, valdi kafla til þýðingar og lagði grunninn að allri þeirri vinnu sem framundan er nú í haust.  Að þessari vinnu bý ég nú þegar þráðurinn er tekinn upp að nýju þaðan sem frá var horfið. Til þess að geta útskrifast frá Háskóla Íslands með B.A. gráðu í B verð ég að skrifa B.A. ritgerð. Án hennar getur námi mínu aldrei undið fram sem skyldi. Tveggja mánaða vinna við fag sem útskrift mín grundvallast á getur aldrei verið annað en námsframvinda. Ég hlýt því að uppfylla skilyrði reglugerðarinnar enda hef ég staðfestingu E, starfsmanns Háskóla Íslands, á sannleiksgildi orða minna. Ályktanir lífeyristryggingasviðs um að leggja megi kröfu um námsárangur að jöfnu við skráningu geta ekki staðist, a.m.k. ekki í mínu tilfelli.

..."

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

 

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um synjun á greiðslu fæðingarstyrks til kæranda sem foreldris í námi.

 

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

 

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) eiga foreldrar í fullu námi sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks.

 

Í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er kveðið á um að fullt nám teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Sama eigi við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Í 2. mgr. 14. gr. segir að leggja skuli fram staðfestingu frá viðkomandi skóla og er Tryggingastofnun ríkisins heimilt að krefjast þess að sýnt sé fram á námsárangur.

 

Kærandi elur barn 7. janúar 2002. Hún hefur stundað nám í B við Háskóla Íslands. Að vori 2001 lauk hún 10,5 námseiningum sem metið var sem 75% nám samkvæmt því sem segir í vottorði nemendaskrár Háskóla Íslands, dagsett 28. febrúar 2002. Einnig liggur fyrir staðfesting á því að kærandi fékk afgreitt 78% lán frá Lánasjóði íslenskra námsmanna fyrir vormisserið 2001. Samkvæmt vottorði nemendaskrár þann 22. nóvember 2001 var kærandi skráð í fullt nám háskólaárið 2001-2002. Námslok voru áætluð að vori 2002. Fyrir liggur að kærandi hóf vinnu við B.A.- ritgerð sína undir handleiðslu E, lektors í B við Háskóla Íslands, haustmisserið árið 2001. Þá skráði hún sig úr prófum í þeim fögum sem hún hafði áður skráð sig í það misserið. Í yfirlýsingu dagsettri 20. janúar 2002 sem rituð er á bréfsefni deildar D Háskóla Íslands segir E lektor að ritgerðina eigi að meta til 10 eininga og að vinna kæranda hafi verið a.m.k. 75% nám í tvo mánuði á haustmisseri 2001.

 

Með hliðsjón af framansögðu og þeim gögnum sem fyrir liggja frá Háskóla Íslands um nám og námsframvindu kæranda telur úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála að uppfyllt séu skilyrði 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 og að kærandi eigi samkvæmt því rétt til greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri í námi.

  

ÚRSKURÐARORÐ:

 

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu til A í fæðingarorlofi er hafnað. Greiða ber kæranda fæðingarstyrk sem námsmanni.

 

 Guðný Björnsdóttir hdl. 

Gylfi Kristinsson skrifstofustjóri

Jóhanna Jónasdóttir læknir

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta