Hoppa yfir valmynd
1. október 2002 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 32/2002

Þriðjudaginn, 1. október 2002

 

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

 Úrskurður

 

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Jóhanna Jónasdóttir læknir og Gylfi Kristinsson skrifstofustjóri.

 

Þann 22. maí 2002 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 21. maí 2002.

 

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins varðandi útreikning á greiðslu til kæranda úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Með bréfi frá Tryggingastofnun ríkisins, dags. 8. maí 2002, var kæranda tilkynnt um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

"Meðaltekjur mínar frá mars 2001 til febrúar 2002 eru reiknaðar kr. 324.534,- og eru þar mánuðirnir maí og júní 2001 taldir með. Ég er sjómaður og á þessum tíma var sjómannaverkfall sem stóð frá 1. apríl til 17. maí en tekjur sjómanna eru gerðar upp með mánaðarseinkun. Það meðaltal sem notað er sem viðmiðun gefur ekki rétta mynd af 12 mánaða tekjum mínum og má nefna að tekjur mínar í apríl 2002 (gert upp í maí) voru kr. 808.589,- á móti kr. 57.327,- á árinu 2001.

 

Rétt meðaltal væri nær kr. 400.000,- miðað við eðlilegt tekjuár án verkfalls, og óska ég eftir því að nefndin úrskurði þannig enda teljast mánuðirnir apríl/maí til hávertíðar hjá sjómönnum á vertíðarbátum."

 

Með bréfi, dags. 27. maí 2002, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 2. ágúst 2002. Í greinargerðinni segir:

"Kærandi fer þess á leit að útreikningur á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði verði endurskoðaður með tilliti til þess að laun hafi á viðmiðunartímabilinu verið óvenjulega lág miðað við undanfarin ár vegna þess að á vetrarvertíð 2001 var sjómannaverkfall frá 1. apríl til 17. maí. Einnig séu tekjur sjómanna gerðar upp með mánaðar seinkun. Það meðaltal sem notað er sem viðmiðun gefi því ekki rétta mynd af 12 mánaða tekjum hans.

 

Viðmiðunartímabil útreiknings á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði er 12 mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.). Úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála hefur, í máli nr. 42/2001, kveðið úr um það hvað skuli teljast upphafsdagur fæðingarorlofs, sbr. 2. og 3. mgr. 8. gr. ffl. Er þar miðað við að upphaf orlofs sé í síðasta lagi við fæðingu barns. Samkvæmt því skuli útreikningur greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði miðast við þau tímamörk, jafnvel þótt annað foreldrið nýti rétt sinn til töku orlofs á síðara tímabili.

 

Afgreiðsla lífeyristryggingasviðs miðaðist við 80% meðaltekna kæranda á tímabilinu frá desember 2000 til og með nóvember 2001, en áætlaður fæðingardagar barns hans var 8. febrúar 2002. Ekki er heimilt að endurskoða útreikning á þeim grundvelli að tekjur á því ári sem viðmiðunartímabilið nær yfir hafi verið lægri en undanfarin ár.

 

Varðandi það að tekjur sjómanna séu gerðar upp með mánaðar seinkun þá fylgir með kærunni launaseðill fyrir aprílmánuð 2002 þar sem fram kemur að útborgun launa hefur átt sér stað 14. maí. Þegar laun hans eru skoðuð í staðgreiðsluskrá skattyfirvalda sést að laun skv. þessum launaseðli eru gefin upp sem laun fyrir maímánuð auk þess sem þar koma ekki fram laun á hann í janúarmánuði bæði á árinu 2001 og á árinu 2002 og að í desember 2002 er um tvær launaupphæðir að ræða. Það liggur því ljóst fyrir að laun hans eru gerð upp með mánaðar seinkun og að taka ber tillit til þess að við útreikning á greiðslum til hans.  Greiðslur úr Fæðingarorlofsjóði til hans verða leiðréttar í samræmi við það og verður honum send tilkynning um greiðslur á næstu dögum."

 

Ekki er rétt sem fram kemur í greinargerðinni að afgreiðsla lífeyristryggingasviðs hafi miðast við 80% meðaltekna kæranda á tímabilinu frá desember 2000 til og með nóvember 2001 og að áætlaður fæðingardagur barns kæranda hafi verið 8. febrúar 2002. Fæðingardagur barnsins var 13. maí 2002 og fylgiskjal sem fylgir yfirliti um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði dags. 8. maí 2002 sýnir að viðmiðunartímabil útreiknings meðaltekna var mars 2001 til og með febrúar 2002.

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 7. ágúst 2002, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar frekari athugasemdir bárust.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

 

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins varðandi útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði

 

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

 

Fram kemur í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins dags. 2. ágúst 2002 hefur stofnunin gert leiðréttingu á afgreiðslu málsins. Laun sem sannanlega falla innan tólf mánaða viðmiðunartímabilisins, sem lagt er til grundvallar við útreikning greiðslna í fæðingarorlofi, hafa verið tekin til greina. Úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála tekur því ekki á þeim þætti málsins.

 

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. og 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Í athugasemdum við 13. gr. frumvarps til laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof kemur fram að átt sé við almanaksmánuði. Viðmiðunartímabilið geti þó verið styttra hafi foreldri verið skemur en 14 mánuði á vinnumarkaði en lengur en sex mánuði. Þá skuli miða við heildarlaun þess yfir það tímabil sem foreldrið hefur unnið að undanskildum tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.

 

Barn kæranda fæddist 13. maí 2002, með hliðsjón af því verður viðmiðunartímabil við útreikning greiðslna í fæðingarorlofi frá mars 2001 til og með febrúar 2002.

 

Í framangreindri 13. gr. ffl. er skýrt tekið fram að greiðslur til þeirra sem uppfylla skilyrði til þess að fá greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í fæðingarorlofi skuli miðast við meðaltal heildarlauna á viðmiðunartímabilinu. Í lögunum eru engin ákvæði sem heimila undantekningar frá því. Verður því ekki fallist á breytingar vegna launagreiðslna utan viðmiðunartímabilsins. Heimildir til þess að stytta viðmiðunartímabilið vegna verkfalla eru ekki fyrir hendi í lögunum.

 

Með hliðsjón af framangreindu er kröfum kæranda um endurútreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði hafnað.

  

ÚRSKURÐARORÐ:

 Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu til A í fæðingarorlofi er staðfest.

  

 

Guðný Björnsdóttir hdl. 

Gylfi Kristinsson skrifstofustjóri

Jóhanna Jónasdóttir læknir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta