Hoppa yfir valmynd
20. febrúar 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Forvarnaverkefni sett af stað til að vekja athygli á mikilvægi vinnuverndar

Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir, forstjóri Vinnueftirlitsins, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra. - mynd

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, og Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir, forstjóri Vinnueftirlitsins, hafa undirritað samning um forvarnarverkefni sem ætlað er að hvetja til samfélagslegrar umræðu um mikilvægi vinnuverndar. Markmiðið er að stuðla að jákvæðri ímynd og viðhorfi almennings til vinnuverndarstarfs, sem og að koma á fót öflugu vinnuverndarstarfi á vinnustöðum landsins.

Efnt verður til almennrar umræðu um mikilvægi góðrar vinnustaðamenningar, þar á meðal um samskipti á vinnustöðum í síbreytilegu umhverfi, með það að markmiði að stuðla að vellíðan og koma í veg fyrir neikvæð samskipti, svo sem áreitni, ofbeldi og einelti. 

Verkefninu er einnig ætlað að efla vitund einstakra hópa á vinnumarkaði um vinnuvernd, til að mynda starfsfólks sem talar ekki íslensku, ungs fólks og starfsfólks sem sinnir áhættusömum störfum. Vinnustaðir landsins verða jafnframt hvattir til að koma á kerfisbundnu vinnuverndarstarfi sem byggist á samvinnu atvinnurekenda, stjórnenda og starfsfólks.

Verkefnið felur meðal annars í sér gerð kynningarefnis í formi myndbanda, gerð auglýsinga og vefborða á rafrænum fréttamiðlum, skipulagningu vitundarvakningar á samfélagsmiðlum og gerð stafrænna verkfæra, gátlista og leiðbeininga.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta