Fjárlög fyrir 2020 samþykkt: Sterk staða ríkissjóðs og öflug opinber fjárfesting
- Slakað er á aðhaldi í ríkisfjármálum til að milda samdrátt í hagkerfinu
- Tekjuskattur einstaklinga lækkar – lækkunarferli flýtt
- Tryggingagjald lækkar
- Öflug opinber fjárfesting
- Samgöngumál efld
- Rannsóknastarf styrkt
- Stuðningur við húsnæðismál tekjulægri hópa
- Aukin áhersla á stafræna þjónustu
- Hvetjandi aðgerðir til orkuskipta
Mótvægi við hagsveifluna
Fjárlög fyrir árið 2020 voru samþykkt á Alþingi í gær. Sterk staða ríkissjóðs vegna ábyrgrar fjármálastjórnar undanfarinna ára gefur stjórnvöldum færi á að styðja við hagkerfið nú þegar það gengur í gegnum skammvinna niðursveiflu. Er það gert með því að leyfa skammvinnan hallarekstur ríkissjóðs með öflugri opinberri fjárfestingu á sama tíma og dregur úr atvinnuvegafjárfestingu. Alls nema framlög til fjárfestinga ríflega 74 ma.kr. og hafa aukist um rúma 23 ma.kr. að raungildi frá árinu 2017. Má þar nefna að framlög til framkvæmda og viðhalds á vegakerfinu verða aukin verulega, m.a. annars með framkvæmdum samkvæmt nýundirrituðum samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins um uppbyggingu samgönguinnviða.
Meðal stærri fjárfestingaverkefna má nefna:
- Áframhaldandi uppbyggingu nýs Landspítala, 5 ma.kr.
- Kaup á þyrlum fyrir Landhelgisgæsluna
- Framlög vegna smíði nýs hafrannsóknarskips
- Byggingu Húss íslenskunnar
Umtalsverð lækkun skatta
Heildarumfang lækkunar tekjuskatts er um 21 ma.kr. á ári sem samsvarar 10% af tekjum ríkisins af tekjuskatti einstaklinga. Með aðgerðinni hækka ráðstöfunartekjur þeirra tekjulægstu um rúmlega 120 þúsund krónur á ári þegar innleiðingu er lokið og er aðgerðin mikilvægur liður í því að styðja við heimilin þegar hægir á í atvinnulífinu. Lækkunin verður að fullu komin til framkvæmda árið 2021. Auk lækkunar tekjuskatts kemur til framkvæmdar seinni hluti 0,5 prósentustiga lækkunar tryggingagjalds, en gjaldið var lækkað um 0,25 prósentustig í upphafi árs 2019. Um áramót hefur tryggingagjald því verið lækkað frá árinu 2013, úr 7,69% í 6,35% sem styður við atvinnusköpun og rekstrargrundvöll fyrirtækja.
Velferðar- og heilbrigðismál í forgrunni
Framlög til heilbrigðismála halda einnig áfram að vaxa og hækka um tæplega 12 ma.kr. eða 5% milli ára. Árið 2020 verða undirbúnar aðgerðir sem miða að því að bæta mönnun í hjúkrun, áfram verður unnið að eflingu heilsugæslunnar sem fyrsta viðkomustaðar, og uppbyggingu hjúkrunarrýma.
Á árinu 2020 munu aðgerðir sem ákveðnar voru í tengslum við gerð kjarasamninga á almenna vinnumarkaðnum nema ríflega 16 ma.kr. en heildarumfang boðaðra aðgerða á tímabili samninganna er áætlað um 80 ma.kr. Flestar aðgerðirnar koma til framkvæmda á árinu 2020. Auk breytinga á tekjuskattskerfinu fela aðgerðir stjórnvalda í sér lengra fæðingarorlof, hærri barnabætur og fjölmargar aðgerðir til að auðvelda íbúðarkaup.
Kjör öryrkja verða bætt og þá verða framlög vegna þjónustu við fötluð börn og foreldra þeirra aukin, með það að markmiði að auka gæði þjónustunnar. Útgjöld til félags-, húsnæðis- og tryggingamála munu aukast um tæplega 10% eða hátt í 22 ma.kr. á árinu 2020.
Umhverfis- og loftslagsmál
Áherslur í loftslags- og umhverfismálum koma skýrt fram, en framlög til umhverfismála hafa vaxið um liðlega fjórðung að raungildi frá því að ríkisstjórnin tók við völdum. Þau hafa m.a. skilað sér í viðamiklum aðgerðum í loftslagsmálum, stórfelldri uppbyggingu innviða á friðlýstum svæðum og aukinni landvörslu.
Á næsta ári verður með margvíslegum hætti hugað að því að greiða fyrir orkuskiptum, m.a. með skattaívilnunum á borð við niðurfellingu virðisaukaskatts á vistvæn hjól. Þá verður ívilnun sem lækkað hefur útsöluverð vistvænna ökutækja framlengd fyrir hreinorkutæki til ársloka 2023. Einnig verður kostnaður við heimahleðslustöðvar minnkaður verulega með fullri endurgreiðslu virðisaukaskatts, bæði af efni og vinnu. Enn fremur lækkar verð á vistvænum almenningsvögnum og undanþága verður frá virðisaukaskatti vegna útleigu vistvænna bifreiða hjá eigna- eða fjármögnunarleigu-fyrirtækjum og bílaleigum.
Áhersla á menntun, rannsóknir og nýsköpun
Framlög til vísinda- og rannsóknasamstarfs verða aukin, áformaðar breytingar á LÍN eru fjármagnaðar ásamt aðgerðum til að auka nýliðun kennara og efla starfsnám. Þá er gert ráð fyrir aukinni fjárfestingu í nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum. Stafræn þjónusta hins opinbera verður stórefld með það að markmiði að gera með því samskipti við opinbera aðila snurðulaus og þægileg með bættu aðgengi.
Ríkisfjármál milda samdrátt í hagkerfinu
Í forsendum fjárlagafrumvarpsins var gert ráð fyrir að rekstur ríkissjóðs yrði í jafnvægi á árinu 2020 en í ljósi lakari efnahagshorfa, sem birtust í uppfærðri þjóðhagsspá í nóvember sl., hefur verið slakað á aðhaldi í ríkisfjármálum á árinu 2020. Þannig er gert ráð fyrir að afkoma ríkissjóðs lækki nokkuð og verði neikvæð um tæplega 10 ma.kr. eða sem nemur 0,3% af vergri landsframleiðslu, en sú afkoma er engu að síður í samræmi við gildandi fjármálastefnu. Stýring ríkisfjármála er með þessum hætti í takt við grunngildi laga um opinber fjármál um stöðugleika sem felst í að stefna í opinberum fjármálum stuðli að jafnvægi í efnahagsmálum.
Á sama tíma hefur Seðlabankinn lækkað stýrivexti sína en þessar aðgerðir í ríkisfjármálum og peningastefnu, samhliða gerð hóflegra kjarasamninga, hafa með markvissum hætti mildað þá aðlögun sem hagkerfið gengur nú í gegnum. Viðbrögð stjórnvalda við breyttum efnahagsaðstæðum hafa verið viðeigandi að mati erlendra aðila sem birtist m.a. í nýlegu áliti sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þá endurspeglast tiltrú markaðsaðila á hagstjórnarviðbrögðum stjórnvalda einnig í hækkun lánshæfiseinkunnar ríkissjóðs hjá Moody´s auk þess sem S&P og Fitch staðfestu nýlega sínar lánshæfiseinkunnir fyrir ríkissjóð.