Hoppa yfir valmynd
15. ágúst 2023 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Viljayfirlýsing um aukið samstarf eða mögulega sameiningu Háskólans á Hólum og Háskóla Íslands

Hólmfríður Sveinsdóttir, rektor Háskólans á Hólum, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ráðherra háskólamála, og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, við undirritun viljayfirlýsingarinnar. - mynd

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hefur undirritað viljayfirlýsingu ásamt Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands, og Hólmfríði Sveinsdóttur, rektor Háskólans á Hólum um aukið samstarf milli skólanna eða mögulega sameiningu þeirra.

Fýsileikagreining verður unnin til þess að kanna hvaða útfærsla samstarfs eða samruna hentar best til að tryggja áframhaldandi starfsemi háskólanna með aukin gæði náms að markmiði. Jafnframt verður unnið að greiningu á húsnæðismálum Háskólans á Hólum, m.a. til að bæta aðstöðu til náms í lagareldi. Báðir háskólar tilnefna 3 aðila í viðræðurnar sem leiddar eru af Ástu Dís Óladóttur, prófessor við HÍ.

,,Það er mjög ánægjulegt að stefnt sé að sameiningu þessara tveggja skóla. Mikil vinna hefur átt sér stað um aukið samstarf háskóla og er þetta til marks um þau sóknartækifæri sem liggja í því að auka samstarfið til að auka gæði og samkeppnishæfni íslenskra háskóla. Ísland er of fámennt land til að bjóða upp á háskólamenntun á heimsmælikvarða í sjö háskólum nema aðeins að þeir starfi miklu betur saman,” segir Áslaug Arna. ,,Ég sé tækifæri í að nýta reynslu erlendis frá, m.a. í háskólakerfum þar sem háskólar starfa sem einn skóli en eru með sjálfstæðar öflugar starfseiningar annars staðar á landinu. Með því er hægt að auka hagkvæmni og á sama tíma efla gæði námsins.”

Fjölbreyttara námsframboð með auknu samstarfi eða sameiningu

Háskólarnir tveir hafa lengi átt í farsælu samstarfi þegar kemur að rannsóknum og kennslu. Til að mynda má nefna tvö sameiginleg verkefni skólanna sem fengu úthlutun úr Samstarfi háskóla um sameiginlega námslínu í ferðamálafræði og samstarf um að bæta nám í fiskeldisfræðum. Þá hefur vinnustofa með fulltrúum skólanna farið fram þar sem tækifæri og hindranir sem felast í enn frekara samstarfi eða sameiningu skólanna voru greind. Niðurstaða þess samtals var að fjölmörg tækifæri lægju í auknu samstarfi eða sameiningu háskólanna en að jafnframt væru hindranir til staðar sem líta þyrfti til og leysa þannig að hugsanleg sameining yrði farsæl fyrir starfsemi skólanna eins og hún er í dag.

Rektorar beggja skóla leggja áherslu á að aukið samstarf eða sameining skili fjölbreyttara námsframboði, öflugri rannsóknum og auknum tengslum við atvinnulíf og samfélag. Í þessu skyni má nýta reynslu erlendis frá, t.d. frá háskólakerfum þar sem háskólar starfa sem ein skipulagsheild en eru um leið sjálfstæðar starfseiningar á sínu háskólasvæði.

,,Ég fagna því að við förum í þessa vinnu. Háskóli Íslands og Háskólinn á Hólum hafa um árabil átt gott samstarf, ekki síst eftir að samstarfsnet opinberra háskóla á Íslandi var sett á laggirnar fyrir tæpum einum og hálfum áratug. Nú munum við kanna hvernig hægt er að efla starfið í kennslu og rannsóknum með frekari samþættingu háskólanna bæði í Reykjavík og á Hólum. Háskóli Íslands er nú þegar með öflugt starf á landsbyggðinni á vegum Stofnunar Rannsóknasetra Hí og mun það nýtast okkur í vinnunni fram undan,” segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.

,,Ég sé mikil tækifæri í því fyrir Háskólann á Hólum og Háskóla Íslands að tengjast með formlegum hætti vegna þess að ég hef trú á því að aukið samstarf skólanna muni skila sér í fjölbreyttara námsframboði, öflugri rannsóknum og auknum tengslum við atvinnulífið og samfélagið. Háskólinn á Hólum er landsbyggðarskóli með mikla sérstöðu og byggja fræðasvið skólans undir mikilvægar atvinnugreinar í íslensku samfélagi sem allar eru í örum vexti. Þessar atvinnugreinar eru fiskeldi, ferðaþjónusta og íslenski hesturinn. Það er mikilvægt að þessar atvinnugreinar verði byggðar upp með sjálfbærni að leiðarljósi og þar spilar öflugt nám og rannsóknir lykilhlutverk. Síðast en ekki síst tel ég að aukið samstarf háskólanna tveggja sé góð leið til að tengja höfuðborgarsvæðið og landsbyggðina saman og efla þannig byggðir landsins,” segir Hólmfríður Sveinsdóttir, rektor Háskólans á Hólum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta