Opinn lyfjamarkaður
Hvernig má opna lyfjamarkaðinn spyr Rannsóknastofnun um lyfjamál í Háskóla Íslands og væntir svars á málþingi í dag. Það er Rannsóknastofnun um lyfjamál við Háskóla Íslands sem boðar til málþings um opnun íslenska lyfjamarkaðarins í því skyni að auka almenna umræðu um þessi mál á Íslandi. Meðal þeirra sem taka þátt í málþinginu er Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, sem hefur að undarförnu sett lyfjamál á oddinn og veltir nú upp athyglisverðum hugmyndum um það hvernig við opnum lyfjamarkaðinn til að vinna á þeim göllum sem á honum eru. Auk ráðherra verða sjónarmið annarra aðila sem fást við lyfjamál kynnt. Rannveig Gunnarsdóttir, forstjóri Lyfjastofnunar, Matthías Halldórsson, landlæknir, og Ásgeir Þór Árnason, framkvæmdastjóri Hjartaheilla og fulltrúi sjúklinga eru framsögumenn á málþinginu. Í pallborðsumræðum sitja fulltrúar Landspítala, smásala, heildsala og Lyfjafræðingafélags Íslands auk frummælenda. Málþingið er í dag, miðvikudaginn 10. október, kl. 15:00 – 17:00, í sal Þjóðminjasafnsins, og eru allir velkomnir.