Hoppa yfir valmynd
12. október 2007 Heilbrigðisráðuneytið

Inflúensuviðbúnaður tekinn út

Fulltrúar frá Sóttvarnastofnun Evrópubandalagsins (ECDC) dvöldu hér á landi dagana 9. til 11. október og tóku út viðbúnað Íslendinga vegna heimsfaraldurs inflúensu. Þetta er gert að ósk Markosar Kyprianous, heilbrigðisráðherra Evrópusambandsins, en könnun á viðbúnaði allra aðildarríkja bandalagsins, auk Íslands, Noregs og Lichtenstein stendur nú yfir og sér ECDC, sem er ráðgefandi stofnun um sóttvarnir í ESB , um könnun þessa.

Fulltrúarnir ECDC hittu fulltrúa sóttvarnalæknis, almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, Landbúnaðarstofnunar, Rannsóknastofu í veirufræði á Landspítala, sóttvarnalækna á höfuðborgarsvæðinu og Selfossi ásamt lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins og á Selfossi. Íslensku fulltrúarnir gerðu grein fyrir viðbragðsáætlunum vegna heimsfaraldurs inflúensu í mönnum og fuglainflúensu og þeirri vinnu sem tengdist þeim.

Dvöl fulltrúanna lauk með fundi með heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og ráðuneytisstjóra í heilbrigðismálaráðuneytinu, ásamt starfsmönnum ráðuneytisins sem unnið hafa að viðbragðsmálunum.

Á þeim fundi var kynnt  bráðbirgðaskýrsla um viðbragðsáætlun Íslendinga. Fram kom að margt hefði verið vel gert, sérstaklega væri til fyrirmyndar samvinna sóttvarnalæknis og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og einnig sú mikla áhersla sem lögð væri á samvinnu við önnur ráðuneyti, stofnanir, fyrirtæki og félög í landinu. Þá kom meðal annars fram að efla þyrfti enn frekar samskipti við sóttvarnalækna í héraði og viðkomandi lögregluyfirvöld og huga betur að upplýsingamiðlun einkum til almennings á farsóttartímum.

Fulltrúar ECDC í heimsókninni voru prófessor Johan Giesecke, yfirmaður vísindadeildar ECDC, dr. Ines Steffens, ritstjóri Eurosurveillance, upplýsingadeild ECDC og dr. Patricia Santa Olalla frá spænska heilbrigðisráðuneytinu.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta