Rýnifundi um frjálsa vöruflutninga lokið
Rýnifundi um 1. kafla löggjafar Evrópusambandsins, frjálsa vöruflutninga, lauk í Brussel á miðvikudag. Á fundinum, sem stóð í tvo daga, báru sérfræðingar Íslands og ESB saman löggjöf í þessum samningskafla. Fyrir íslenska hópnum fór Bryndís Kjartansdóttir, formaður samningahóps um EES málefni. Á fundinum var rætt um framkvæmd reglna hérlendis á sviði frjálsra vöruflutninga en 1. kafli er hluti af EES-samningnum og flestar gerðir Evrópusambandsins á sviðinu eru þegar innleiddar eða verða innleiddar á næstunni.
Á grundvelli EES samningsins hefur verið samið um fjórtán sérlausnir og var rætt um að hluta þeirra yrði viðhaldið. Þær varða markaðssetningu plöntuvarnarefna, umbúðir og umbúðaúrgang, gæði bensíns og dísileldsneytis, merkingu hættulegra efnablandna o.fl. Þá var rætt um sérlausnir varðandi útgáfu og gildi markaðsleyfa fyrir lyf og tungumálakröfur á fylgiseðlum, markaðssetningu plöntuvarnarefna, og bann við innflutningi og viðskiptum með selaafurðir.
Greinargerð samningahópsins sem fjallar um frjálsa vöruflutninga (EES I) má sækja með því að smella hér, en í henni er að finna nánari útlistun á viðfangsefni kaflans. Sjá nánari upplýsingar um kaflann á ESB vef utanríkisráðuneytisins.
* * *
Löggjöf Evrópusambandsins skiptist í alls 33 kafla, auk kafla um stofnanir og önnur mál. Áður en eiginlegar samningaviðræður hefjast um einstaka kafla fer fram rýnivinna þar sem löggjöf Íslands og ESB er borin saman til að greina hvar íslensk löggjöf er frábrugðin og hvað semja þarf um. Tveir rýnifundir munu fara fram um flesta samningskafla. Á þeim fyrri kynnir framkvæmdastjórnin löggjöf ESB og á þeim síðari kynnir Ísland sína löggjöf. Í þeim köflum sem falla undir EES-samninginn og þar sem regluverkið hefur að öllu leyti verið tekið upp af Íslands hálfu, verður aðeins um einn fund að ræða.