Íþróttadagur norrænu sendiráðanna í Kampala
Norrænu sendiráðin í Kampala, höfuðborg Úganda, stóðu fyrir norrænum íþróttadegi í nýliðinum mánuði eftir þriggja ára hlé vegna heimsfaraldursins. Norræni íþróttadagurinn hefur verið haldinn árlega um tuttugu ára skeið, þar sem norrænt samfélag í Úganda kemur saman til að skemmta sér einn dag, keppa í mismunandi íþróttagreinum, og kynnast.
Ísland, Noregur, Svíþjóð og Danmörk kepptu í átta íþróttagreinum, fótbolta, körfubolta, petanque, blaki, boðhlaupi, boðsundi og öðrum íþróttum fyrir börn. Einnig var boðið upp á góðan hádegis- og kvöldverð í skólanum.
Auk þess var ákveðið að efna til happdrættis fyrir viðburðinn þar sem ágóðinn rennur til Street Child Uganda en það eru staðbundin samtök sem veita börnum aðgang að menntun. Ísland var í þriðja sæti en Danmörk vann keppnina.