Breyting á reglugerð um lánaflokka Íbúðalánasjóðs
Félagsmálaráðherra hefur sett reglugerð um breytingu á reglugerð um lánaflokka Íbúðalánasjóðs, nr. 458/1999, með síðari breytingum.
Við breytinguna er felld niður úr reglugerð lánsheimild til bygginga leikskóla fyrir börn. Í stað III. kafla sem fjallaði áður um lán til byggingar leikskóla fyrir börn kemur nýr kafli er fjallar um lán til byggingar eða kaupa á sambýlum fyrir fatlaða.
Með breytingunum er stefnt að aukinni samræmingu á lánaflokkum Íbúðalánasjóðs við tilgang laga um húsnæðismál þar sem lánveitingar beinast fyrst og fremst að íbúðalánum. Leikskólar fyrir börn eru annars eðlis og verða ekki jafnað við íbúðahúsnæði, hvorki varanlegt né tímabundið.
Einnig bætist við ný málsgrein við 39. gr. Efni þeirrar málsgreinar tekur til heimildar Íbúðalánasjóðs til að afturkalla áður veitt lánsvilyrði ef verulegar breytingar verða á upphaflegum forsendum sem lágu til grundvallar lánsvilyrðum sjóðsins. Sem dæmi er þarna nefnt þau tilvik þegar framkvæmdir dragast mjög á langinn og ef verulegar breytingar verða á eignarhaldi félags sem fengið hefur lánsloforð.
Reglugerðin hefur verið birt og fengið númerið 151/2004. Breytingin hefur því tekið gildi.