Mennta- og menningarmálaráðuneyti og UMFÍ gera samning til þriggja ára
Sambandsþing UMFÍ er haldið á tveggja ára fresti og er æðsta vald í málefnum félagsins. Um 150 gestir sátu þingið sem fram fór á Hallormsstað, þar á meðal mennta- og menningarmálaráðherra, fulltrúar sambandsaðila UMFÍ, stjórn og starfsfólk.
Í ávarpi sínu sagði mennta- og menningarmálaráðherra m.a.: „Þátttaka í íþróttum hefur vaxið mikið og hvert sem litið er virðist aukin þátttaka blasa við hjá börnum, ungmennum og eldri borgurum. Segja má að algjör sprenging hafi orðið í öllum aldurshópum hvað þátttöku í almenningsíþróttum varðar. Þar hefur UMFÍ leikið stórt hlutverk og gefið almenningi færi á að taka þátt í íþróttastarfi og ekki síst í mótahaldi. Íþróttaiðkun á öllum æviskeiðum er mikilvæg og þar hefur ungmennafélagshreyfingin verið í fararbroddi með sín lýðheilsuverkefni.“
Samningurinn er til þriggja ára. Með þessu fyrirkomulagi er félögum gert kleift að skipuleggja starfsemi sína til lengri tíma. „Það er ósk mín að þetta nýja verklag sem hér lítur dagsins ljós verði til þess að starfsemi UMFÍ byggi á enn traustari grunni en áður“ sagði ráðherra að lokum.