Brugðist við tillögu Rannsóknarnefndar samgönguslysa
Heilbrigðisráðherra hefur falið landlækni að skipa vinnuhóp til að fjalla um ökuleyfi og veikindi og breytt og bætt skipulag hvað þessi mál varðar. Ákvörðun ráðherra er í samræmi við tillögu Rannsóknarnefndar samgönguslysa til heilbrigðisráðherra sem fram kemur í nýrri skýrslu nefndarinnar.
Í skýrslunni segir að það sé mat Rannsóknarnefndar samgönguslysa að ekki hafi tekist nægilega vel til að framfylgja ákvæðum um heilbrigðiskröfur sem gerðar séu til ökumanna í íslenskum lögum og reglum. Því gerir nefndin þá tillögu í öryggisátt að vinnuhópur verði skipaður til að fjalla um þessi mál og meðal annars horfa til skipulags þeirra í öðrum löndum.
Í erindi heilbrigðisráðherra til landlæknis er honum falið að skipa vinnuhóp til að sinna þessu verkefni og skal landlæknir skila tillögum hópsins til heilbrigðisráðherra fyrir 1. júní 2017.