Óttast að markmið um útrýmingu vannæringar náist ekki
Ítarleg kortlagning á hæð og þyngd barna og menntun kvenna á barneignaaldri í Afríkuríkjum leiðir í ljós að ekkert ríki er á réttri leið með að útrýma vannæringu fyrir árið 2030. Það er eitt Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Þetta kemur fram í grein í vísindatímaritinu Nature um langtímarannsókn sem unnin var á fimmtán ára tímabili meðal flestra þjóða í Afríku.
Hins vegar sýna rannsóknirnar, sem veita nákvæmar upplýsingar frá einstaka þorpum víðs vegar um álfuna, að nánast hjá öllum afrísku þjóðunum er að minnsta kosti eitt hérað í hverju landi þar sem heilsa barna fer batnandi.
Rannsóknirnar tvær, annars vegar á hæð og þyngd barna og hins vegar á menntunarstigi kvenna á barneignaaldri, náðu til 51 ríkis yfir fimmtán ára tímabil, frá 2000 til 2015. Vísindamennirnir rannsökuð sérstaklega þessa tvo þætti vegna þess að þeir eru sagðir hafa mikilvægt forspárgildi í tengslum við barnadauða.
„Þegar þessir tveir þættir eru skoðanir saman veita þér mjög gagnlegar vísbendingar um það hvaða samfélög standa sig vel og hvaða samfélög hafa verið skilin eftir,“ segir Simon Hay prófessor í alþjóðlegum heilbrigðisrannsóknum við Washingtonháskóla í Bandaríkjunum í BBC frétt.
Fram kemur í fréttinni að meðal flestra Afríkuþjóðanna, einkum þjóða sunnan Sahara og í austur- og suðurhluta álfunnar, hafði dregið úr vannæringu barna. Gögnin sýna hins vegar mikið misræmi innan einstakra þjóða. Bent er á að með kortlagningu á stöðunni í smáatriðum hafi stjórnvöld sannanir í höndunum til að dreifa fjármagni til byggðarlaga sem hafa dregist aftur úr.
Kofi Annan, fyrrverandi aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna og Nóbelsverðlaunahafi, lagði áherslu á þetta atriði í pistli sem hann skrifaði um greinina í Nature og sagði: „Án góðra tölfræðigagna fljúgum við blindandi. Ef þú getur ekki séð vandann geturðu ekki leyst hann.“
Mapping child growth failure in Africa between 2000 and 2015/ Nature