Hoppa yfir valmynd
28. apríl 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 27/2022 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 27/2022

Fimmtudaginn 28. apríl 2022

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 11. janúar 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 5. janúar 2022, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar og að innheimta ofgreiddar bætur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 7. september 2021 og var umsóknin samþykkt með 80% bótarétti. Við reglubundið eftirlit kom í ljós að kærandi var skráð í 30 ECTS-eininga nám við Háskóla Íslands á haustönn 2021. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 8. desember 2021, var óskað eftir að kærandi legði fram skólavottorð og ástæðu þess að hún hafi ekki upplýst stofnunina um nám sitt. Skýringar bárust frá kæranda 10. desember 2021. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 5. janúar 2022, var kæranda tilkynnt að greiðslur atvinnuleysisbóta hefðu verið stöðvaðar með vísan til 52. gr. laga nr. 54/2006 og að henni bæri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. september til 31. desember 2021 að fjárhæð 682.515 kr., að meðtöldu álagi.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 11. janúar 2022. Með bréfi, dags. 13. janúar 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 8. mars 2022, og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 9. mars 2022. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún upplifi mikla vanlíðan og ringulreið vegna hinnar kærðu ákvörðunar. Eftir því sem hún best viti eigi að senda fullbúna og heiðarlega umsókn og Vinnumálastofnun taki svo ákvörðun um hvort umsóknin sé samþykkt eða ekki eða gerður sé samningur ef viðkomandi sé þegar skráður í nám. Eftir að umsókn kæranda hafi verið samþykkt hafi hún ekki fengið nein skilaboð frá Vinnumálastofnun og því hafi hún haldið að allt væri í lagi þar til í desember 2021. Kærandi skilji að Vinnumálastofnun hætti að greiða henni þar sem hún sé í námi og að ekki verði gerður námssamningur við hana. Kærandi skilji hins vegar ekki af hverju hún sé sektuð því að hún hafi verið heiðarleg frá upphafi um að hún væri í námi. Það sé Vinnumálastofnun sem hafi tekið ákvörðun um að samþykkja umsókn hennar en nú sé hún í erfiðri stöðu. Kærandi vonist til að sektin og endurgreiðslan verði felld niður þar sem hún hafi ekki tök á því að greiða til baka. Kærandi sé atvinnulaus og fái hvergi fjárhagsaðstoð.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að við reglubundið eftirlit hafi komið í ljós að kærandi væri skráð í 30 ECTS-eininga nám á haustmisseri 2021 við Háskóla Íslands samhliða því að þiggja greiðslu atvinnuleysistrygginga. Með erindi, dags. 7. desember 2021, hafi verið óskað eftir því að kærandi skilaði inn skólavottorði þar sem umfang náms hennar væri tilgreint ásamt skýringum á því hvers vegna hún hafi ekki upplýst Vinnumálastofnun um nám sitt. Sama dag, eða þann 7. desember 2021, hafi kærandi skila stofnuninni vottorði frá Háskóla Íslands. Þar komi fram að kærandi hafi verið skráð í 30-ECTS eininga nám á haustmisseri 2021 sem hafi hafist þann 30. ágúst 2021. Þá væri kærandi jafnframt skráð í 30-ECTS eininga nám á vormisseri 2022. Þann 10. desember hafi Vinnumálastofnun borist skýringar kæranda á ástæðum þess að hún hefði ekki upplýst Vinnumálastofnun um nám sitt. Kærandi hafi greint frá því að hún hefði í umsókn sinni um atvinnuleysistryggingar greint stofnuninni frá því að hún væri skráð í nám. Þá hafi hún jafnframt tilgreint á ferilskrá sinni að hún væri skráð í nám við Háskóla Íslands árin 2021-2023. Kærandi hafi jafnframt vakið athygli á því að áður en hún hafi sótt um greiðslu atvinnuleysistrygginga hafi hún þegar fengið inngöngu í námið og greitt skólagjöld. Hún hafi haldið í ljósi þess að umsókn hennar um atvinnuleysistryggingar hefði verið samþykkt, þrátt fyrir að hún væri skráð í nám, að allt væri í lagi. Með erindi, dags. 5. janúar 2022, hafi kæranda verið tilkynnt að greiðslum atvinnuleysistrygginga til hennar væri hætt með vísan til 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þá hafi kæranda jafnframt verið tilkynnt að þar sem hún hefði stundað nám á sama tíma og hún hafi þegið greiðslu atvinnuleysistrygginga hefði hún fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 1. september 2021 til 31. desember 2021, samtals 682.515 kr., sem yrðu innheimtar samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Í c. lið 3. gr. laganna sé að finna eftirfarandi skilgreiningu á námi:

„Samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur er átt við nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.“

Í 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé nánar kveðið á um nám. Þar segi í 1. mgr. að hver sá sem stundi nám, sbr. c. lið 3. gr., teljist ekki tryggður samkvæmt lögunum á sama tímabili, enda sé námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar, sbr. þó 2., 3. og 4. mgr. Ljóst sé af ákvæði 1. mgr. 52. gr. að það sé ekki tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar að tryggja námsmönnum framfærslu á meðan þeir stundi nám. Í athugasemdum með 52. gr. í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar sé tiltekið að það sé meginregla að námsfólk eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum hvort sem um sé að ræða fjarnám, dag- eða kvöldskóla.

Fyrir liggi að kærandi hafi stundað 30 ECTS-eininga nám við Háskóla Íslands á sama tíma og hún hafi þegið greiðslur atvinnuleysistrygginga. Undanþágur frá framangreindri meginreglu sem mælt sé fyrir um í 2.-5. mgr. 52. gr. laganna eigi því ekki við í máli kæranda. Kærandi hafi því fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 7. september 2021 til 31. desember 2021. Í 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé fjallað um endurgreiðslu á ofgreiddum atvinnuleysisbótum. Samkvæmt skýru orðalagi 2. mgr. 39. gr. beri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem atvinnuleitandi uppfylli ekki skilyrði laganna. Í athugasemdum með 39. gr. í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum tilvikum sem kunni að valda því að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Ástæða ofgreiðslunnar hafi með öðrum orðum ekki áhrif á skyldu viðkomandi til að endurgreiða þá fjárhæð sem hafi verið ofgreidd. Ákvæði 2. mgr. 39. gr. sé því fortakslaust að því er varði skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur.

Með vísan til framangreinds beri kæranda að endurgreiða þær atvinnuleysisbætur sem hún hafi fengið greiddar fyrir tímabilið 1. september til 31. desember 2021, samtals 593.491 kr., enda liggi fyrir að hún hafi ekki uppfyllt skilyrði laganna á umræddu tímabili, sbr. 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Heildarskuld kæranda standi í 682.514 kr. og þar af sé álag að fjárhæð 89.023 kr. Eins og kveðið sé á um í lokamálslið 2. mgr. 39. gr. skuli fella niður álagið færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er hafi leitt til skuldamyndunar. Í þessu samhengi vísi Vinnumálastofnun til þess að það sé á ábyrgð þess er fái greiddar atvinnuleysisbætur að tryggja að Vinnumálastofnun berist nauðsynlegar upplýsingar er geti haft áhrif á rétt hans til greiðslna atvinnuleysisbóta, sbr. úrskurð nefndarinnar í máli nr. 86/2013. Í skýringum til Vinnumálastofnunar kveðist kærandi hafa veitt stofnuninni upplýsingar um nám sitt við upphaf umsóknar sinnar um atvinnuleysisbætur. Þá hafi hún jafnframt tilgreint á ferilskrá sinni að hún væri skráð í nám. Samkvæmt upplýsingum úr kerfum Vinnumálastofnunar verði ekki séð að kærandi hafi látið stofnunina vita að hún stundaði fullt háskólanám. Kærandi hafi þó greint stofnuninni frá því að hún hefði lokið námi á síðustu 12 mánuðum við upphaf umsóknar hennar. Að mati Vinnumálastofnunar sé ekki fullnægjandi að kærandi hafi tilgreint á ferilskrá sinni að hún stundaði nám, enda sé ferilskrá ekki meðal þeirra gagna sem litið sé til þegar metinn sé réttur einstaklings til greiðslna atvinnuleysistrygginga. Þá veki Vinnumálastofnun jafnframt athygli á því að öllum atvinnuleitendum sé vísað á upplýsingar á vef Vinnumálastofnunar um réttindi og skyldur sínar á meðan þeir þiggi greiðslur atvinnuleysistrygginga. Þar sé meðal annars tiltekið að almennt sé óheimilt að stunda nám samhliða greiðslum atvinnuleysistrygginga en atvinnuleitendum kunni þó mögulega að standa til boða að gera námssamning við stofnunina fyrir allt að 12 ECTS-eininga námi.

Með vísan til framangreinds beri kæranda að greiða umrædda skuld, auk álags, enda hafi kærandi að mati Vinnumálastofnunar ekki fært rök fyrir því að fella skuli niður álag. Það sé niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði til greiðslu atvinnuleysistrygginga á tímabilinu 1. september til 31. desember 2021, sbr. 1. mgr. 52. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Kæranda beri því að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur, auk álags, samtals 682.514 kr., sbr. 2. mgr. 39. gr. laganna.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda og að innheimta ofgreiddar bætur.

Í IX. kafla laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er fjallað um tilvik er leiða til takmörkunar á atvinnuleysistryggingum. Í 52. gr. laganna er fjallað um nám en þar segir:

„Hver sá sem stundar nám, sbr. c-lið 3. gr., telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á sama tímabili enda er námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar, sbr. þó 2., 3. og 4. mgr.

Þrátt fyrir 1. mgr. er hinum tryggða heimilt að stunda nám á framhaldsskólastigi sem nemur að hámarki 12 einingum eða á háskólastigi sem nemur að hámarki 12 ECTS-einingum á námsönn enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið telst ekki lánshæft hjá Menntasjóði námsmanna. Hinn tryggði skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið.

Þrátt fyrir 1. og 2. mgr. er Vinnumálastofnun heimilt að meta þegar sérstaklega stendur á hvort sá er stundar nám á framhaldsskólastigi sem nemur allt að 20 einingum eða á háskólastigi sem nemur allt að 20 ECTS-einingum á námsönn uppfylli skilyrði laganna enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið telst ekki lánshæft hjá Menntasjóði námsmanna. Skilyrði er að námið kunni að nýtast hinum tryggða beint við atvinnuleit að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar og skal hinn tryggði leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið. Hinn tryggði á þá rétt til skertra atvinnuleysisbóta fyrir sama tímabil og skal Vinnumálastofnun meta skerðinguna á tryggingahlutfalli sem hann á rétt til skv. 15. eða 19. gr. í samræmi við umfang námsins.

Þrátt fyrir 1.–3. mgr. er hinum tryggða heimilt að stunda nám sem er skipulagt samhliða vinnu af viðkomandi menntastofnun og er ekki lánshæft til framfærslu hjá Menntasjóði námsmanna án þess að komi til skerðingar á rétti hans til atvinnuleysistrygginga, enda hindri námið hvorki virka atvinnuleit viðkomandi né möguleika hans til þátttöku á vinnumarkaði. Hinn tryggði skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um skipulag námsins.

Þrátt fyrir 1.–4. mgr. skal hinum tryggða ávallt heimilt að ljúka þeirri önn sem er yfirstandandi við starfslok hans eða þegar hann missir starf sitt að hluta, sbr. 17. gr., án þess að komi til skerðingar á rétti hans til atvinnuleysistrygginga.“

Í c-lið 3. gr. laganna er að finna skilgreiningu á námi samkvæmt lögunum en þar segir:

„Nám: Samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur er átt við nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.“

Í athugasemdum við ákvæði 52. gr. í frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar kemur fram að ekki séu lagðar til breytingar á þeirri meginreglu að námsmenn eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Miðað sé við að það skipti ekki máli hvort um sé að ræða dag- eða kvöldskóla eða fjarnám. Þá kemur fram að það kunni að vera að nám sé nauðsynlegur hluti af starfshæfingu atvinnuleitanda að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar, en í slíkum tilvikum geti atvinnuleitandi talist tryggður samhliða námi.

Þegar sótt er um atvinnuleysisbætur er umsækjandi spurður hvort hann sé skráður í nám á umsóknardegi. Upplýst er að almennt sé ekki heimilt að vera í námi samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta. Þó séu undantekningar á þeirri meginreglu. Tekið er fram að það sé því mjög mikilvægt að hafa samband sem fyrst við ráðgjafa Vinnumálastofnunar til að kanna hvort viðkomandi eigi rétt á námssamningi.

Í máli þessu liggur fyrir að kærandi var skráð í 30 ECTS-eininga nám við Háskóla Íslands þegar hún sótti um atvinnuleysisbætur í september 2021 og kveðst kærandi hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um námið. Þrátt fyrir skýr ákvæði 2. og 3. mgr. 52. gr. laga nr. 54/2006 um að ekki sé heimilt að stunda nám á háskólastigi umfram 20 ECTS-einingar á námsönn samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta var umsókn kæranda samþykkt. Kærandi fékk því greiddar atvinnuleysisbætur á haustönn 2021 án þess að eiga rétt á þeim. Úrskurðarnefndin telur ástæðu til að brýna fyrir Vinnumálastofnun að leggja fullnægjandi mat á umsóknir áður en ákvörðun er tekin um hvort einstaklingur uppfylli skilyrði fyrir greiðslum atvinnuleysisbóta, enda miklir hagsmunir í húfi fyrir viðkomandi.

Í 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 kemur fram að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur samkvæmt 32. eða 33. gr. laganna en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum, beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildi um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hafi fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 54/2006 segir meðal annars svo í skýringum við ákvæðið:

„Efni ákvæðisins felur í sér möguleika á leiðréttingu á fjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta eftir að þær hafa verið keyrðar saman við álagningu skattyfirvalda að því er varðar það viðmiðunartímabil sem lagt er til að verði haft til hliðsjónar við útreikningana. Er því gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun hafi heimildir til að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbótanna til samræmis við álagningu skattyfirvalda. Er gert ráð fyrir að leiðréttingin geti átt sér stað nokkru eftir að bæturnar hafa verið greiddar eða þegar endanleg álagning skattyfirvalda liggur fyrir. Á sama hátt er jafnframt gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun geti leiðrétt fjárhæð grunnatvinnuleysisbóta. Slíkt getur átt við þegar upplýsingar þær er liggja grunnatvinnuleysisbótum til grundvallar hafa verið rangar eða hinn tryggði ekki tilkynnt til Vinnumálastofnunar um að hann sé ekki lengur í atvinnuleit.

Þannig er gert ráð fyrir að hinn tryggði endurgreiði Atvinnuleysistryggingasjóði þær fjárhæðir sem ofgreiddar eru í þeim tilvikum er hann fékk hærri greiðslur úr sjóðnum en honum bar. Á þetta við um öll tilvik sem kunna að valda því að hinn tryggði hafi fengið ofgreitt úr Atvinnuleysistryggingasjóði.“

Samkvæmt framangreindu er ákvæði 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 fortakslaust að því er varðar skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur fyrir tímabil sem skilyrði laganna er ekki uppfyllt. Aftur á móti skal fella niður 15% álag færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Úrskurðarnefndin telur ekki ástæðu til að rengja þá frásögn kæranda að hún hafi tilkynnt Vinnumálastofnun um nám sitt þegar hún sótti um atvinnuleysisbætur. Að því virtu er það mat nefndarinnar að tilefni sé til að fella niður álagið sem lagt var á endurgreiðslukröfuna.

Með vísan til framangreinds er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda og að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur staðfest. Ákvörðun stofnunarinnar um að um að leggja álag á endurgreiðslukröfuna er felld úr gildi.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 5. janúar 2022, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til A, og að innheimta ofgreiddar bætur, er staðfest. Ákvörðun stofnunarinnar um að leggja álag á endurgreiðslukröfuna, er felld úr gildi.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta