Hoppa yfir valmynd
28. ágúst 2024 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 836/2024 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 28. ágúst 2024 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 836/2024

í stjórnsýslumáli nr. KNU24030064

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 28. febrúar 2024 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Filippseyja ( hér eftir kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 12. febrúar 2024, um að synja umsókn hennar um dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar, sbr. 72. gr. sbr. 1. mgr. 55. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að henni verði veitt dvalarleyfi fyrir foreldra.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, ákvæði laga um landamæri nr. 136/2022, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.         Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi hefur aldrei verið með dvalarleyfi í gildi á Íslandi. Hinn 28. mars 2023 lagði kærandi fram umsókn um dvalarleyfi fyrir foreldra, sbr. 72. gr. laga um útlendinga. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 12. febrúar 2024, var umsókninni synjað. Fram kom í hinni kærðu ákvörðun að kærandi hefði ekki lagt fram sjúkratryggingu þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir þar um, sbr. til hliðsjónar 2. mgr. 52. gr. og a-lið 1. mgr. 55. gr. laga um útlendinga. Kærandi móttók ákvörðunina 13. febrúar 2024 og kærði hana til kærunefndar útlendingamála 28. febrúar 2024. Með tölvubréfum, dags. 26. júlí og 12. ágúst 2024, óskaði kærunefnd eftir því að kærandi legði fram afrit af tryggingarskírteini vegna sjúkratryggingar sinnar. Með tölvubréfi, dags. 16. ágúst 2024, lagði kærandi fram staðfestingu á sjúkratryggingu.

III.       Málsástæður og rök kæranda

Í málatilbúnaði kæranda kemur fram að sjúkratryggingu hafi vantað með umsókn hennar um dvalarleyfi. Að sögn umboðsmanns kæranda hafi tryggingarfélagið brugðist og ekki hafi tekist að lagfæra það fyrir töku hinnar kærðu ákvörðunar. Á kærustigi lagði kærandi fram staðfestingu á sjúkratryggingu, með gildistíma frá 31. ágúst 2024 til 28. febrúar 2025.

IV.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. laga um útlendinga tekur Útlendingastofnun ákvörðun um veitingu dvalarleyfis en Vinnumálastofnun um veitingu atvinnuleyfis. Þá skulu fylgja öll þau gögn og vottorð sem Útlendingastofnun og Vinnumálastofnun gera kröfu um til staðfestingar að umsækjandi uppfylli skilyrði sem lög, reglugerðir og önnur stjórnvaldsfyrirmæli kveða á um, sbr. 1. málsl. 2. mgr. 52. gr. laganna. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 55. gr. laga um útlendinga kemur fram að sjúkratrygging útlendings sem sækir um dvalarleyfi skuli vera örugg.

Eins og þegar hefur komið fram lagði kærandi fram staðfestingu á sjúkratryggingu á kærustigi. Samkvæmt framansögðu kemur a-liður 1. mgr. 55. gr. laga um útlendinga því ekki í veg fyrir að kæranda verði veitt dvalarleyfi. Í hinni kærðu ákvörðun var ekki tekin afstaða til annarra lagaskilyrða 72. gr. laga um útlendinga. Verður hin kærða ákvörðun því felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að taka umsókn kæranda til nýrrar meðferðar.

 


 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir stofnunina að taka mál kæranda til meðferðar á ný.

 

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellants’ case.

 

 

Valgerður María Sigurðardóttir

 

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta