Hoppa yfir valmynd
27. janúar 2022 Innviðaráðuneytið, Utanríkisráðuneytið

Ísland undirritar stofnsáttmála nýrrar alþjóðastofnunar um leiðsögu á sviði siglinga

Unnur Orradóttir Ramette, sendiherra Íslands í París, undirritaði stofnsáttmála nýrrar alþjóðastofnunar um leiðsögu á sviði siglinga fyrir hönd Íslands. - mynd

Ísland hefur undirritað stofnsáttmála nýrrar alþjóðastofnunar um leiðsögu á sviði siglinga. Unnur Orradóttir Ramette, sendiherra Íslands í París, skrifaði undir samning því til staðfestingar í gær fyrir hönd samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins og Vegagerðarinnar, sem fara með vita- og hafnamál. Alls hafa nú um 50 ríki undirritað samning um stofnaðild en tæplega tíu ríki fullgilt stofnsáttmálann. Alþjóðastofnunin verður að veruleika þegar þrjátíu ríki hafa fullgilt sáttmálann.

„Það er afskaplega mikilvægt fyrir Ísland að hafa stigið þetta skref í átt að því að gerast stofnaðili alþjóðastofnunar á þessu sviði, sem ætlað er að taka við því hlutverki að efla enn frekar siglingaöryggi. Íslensk stjórnvöld hafa tekið virkan þátt í alþjóðastarfi um að bæta öryggi á sjó og hér á landi hefur náðst eftirtektarverður árangur sem aðrar þjóðir horfa til. Það er því rökrétt skref að taka þátt í starfi þessarar nýju alþjóðastofnunar,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra.

Nýja stofnunin tekur við hlutverki IALA, alþjóðasamtaka vitastofnana á sviði leiðsögu skipa og vita (e. International Association of Marine Aids to Navigation and Lighthouse Authorities) og verður framvegis alþjóðleg milliríkjastofnun. Með breytingunni er tryggt að IALA getur tekið fullan þátt í mikilvægu starfi við stöðlun siglinga á heimsvísu. Vegagerðin og forverar hennar hafa verið aðilar að IALA allt frá stofnun samtakanna árið 1957, þegar þáverandi Vita- og hafnamálastofnun var formlega boðið að vera stofnaðili að samtökunum.

Starfsemin verður byggð upp á sama hátt og tíðkast hjá alþjóðastofnunum. Aðalfundur stofnunarinnar (General Assembly) verður haldinn á þriggja ára fresti en þar eiga öll aðildarríki sæti. Aðalfundur kýs í ráð stofnunarinnar, forseta, varaforseta og aðalritara. Framkvæmdaráð (Council), sem samanstendur af 23 aðildarríkjum, forseta og varaforseta stofnunarinnar, fer með framkvæmdastjórn stofnunarinnar. Skrifstofa hennar (Secretariat) er leidd af aðalritara. Loks verða nefndir skipaðar sem styðja við starfsemi stofnunarinnar. 

  • Unnur Orradóttir Ramette, sendiherra Íslands í París, og Íslendingurinn Omar Frits Eriksson, sem gegnir stöðu aðstoðarframkvæmdastjóra IALA. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta